Ég var að labba, úti í myrkrinu. Samt var ekkert myrkur, það var ekki einu sinni dimmt. Ég labbaði úti, í myrkrinu. Það var sólskin, heiðskírt, bjartur sumardagur. Samt labbaði ég út í myrkrið. Hefði betur haldið mig heima, í kjallaraholunni minni, þar sem allar perur eru löngu sprungnar, nema sú í lampanum á náttborðinu.

Hvað var ég að gera? Já, labba úti. Ég fór sem sagt í göngutúr, aldrei þessu vant. Hvað er ég að rugla? Þetta stenzt ekki, ég fer aldrei í göngutúr!

Ég fór samt út í göngutúr, út í myrkrið. Þetta var einhvern tíma í júlí, eða kannski janúar. Þetta var að minnsta kosti að sumri til, svo mikið er ég viss um. Ég sá hvergi snjó, bara gras og tré og sjó og steina og bíla og skýlausan himininn og allt hitt sem er til í heiminum.

Samt ekki alveg allt, heldur bara allt sem ég sá. Ég sá nú ekki annað en það. Ég fann þó fyrir tilvist alls held ég, alls sem ég veit að er til að minnsta kosti. Varla fann ég fyrir tilvist hluta sem ég veit ekki að eru til, jú kannski, þá myndi ég bara ekki vita af því. Eitt get ég verið fullviss um, ég fann ekki fyrir tilvist hluta sem ekki eru til. Eða hvað? Hvernig á ég að geta gert mun á því hvernig það er að skynja eitthvað sem er ekki til og eitthvað sem er til?

En já, alveg rétt, ég fór auðvitað út. Með lykil, ég verð að vera með lykil ef ég ætla út. Samt læsi ég aldrei húsinu, nema, jú, ég hef það reyndar alltaf læst þegar ég er inni í því. Þá eru minni líkur á því að ég fari út. Held ég.

Ég fór samt út, var það kannski af því að ég gleymdi að læsa? Nei, ég man ekki einu sinni eftir því að hafa opnað. En síður man ég eftir því að ég hafi gleymt að læsa. Það gerðist aldrei.

Gildir einu, ég var úti að labba, í myrkrinu, með lykil. Ég labbaði ekki langt. Ef ég hefði labbað lengra þá hefði ég týnzt. Sem betur fer var ég með lykil. Samt læsti ég ekki. Ég hefði kannski átt að læsa.

Ég sá margt fólk úti. Annað en mig. Manneskjur sem ekki voru ég. Yfirleitt sé ég bara fólk í speglinum inni á baðherbergi. Yfirleitt er það bara ég. Ekki alltaf þó, ég sé stundum annað fólk í speglinum. Ekki bara í speglinum heldur líka í lampanum mínum og í veggjunum og í hurðunum og í fötunum og í rúminu og í matnum og í speglinum.

Já, ég var að labba úti í myrkrinu með lykil og sá fólk. Það var ekkert myrkur úti. Samt var ég að labba í myrkrinu. Ekki í myrkri, heldur myrkrinu. Það var ekki dimmt, þetta var bjartur sumardagur. Hefði ég labbað lengra, þá hefði ég týnzt. Ég hefði samt getað labbað lengur, ekki lengra. Lengur en ekki lengra. Ef ég hefði ekki verið í myrkrinu, þá hefði ég líklega getað labbað lengra, en ekki lengur.

Það hefði dregið mig til dauða, örugglega marga aðra líka. Kannski væru það sjálf ragnarök

Hvað um það, ég var að labba. Það er það sem skiptir máli.