Myrkur

Sumir finna alltaf fyrir því, aðrir fyrst þegar það byrjar að dimma. Máltækið “að hleypa ljósi inní hjartað” virkar ekki alveg ef að það er fullt af myrkri, þá deyr ljósið bara.

Hjá mér kom það þegar ég var 18, ég man mjög vel eftir deginum þegar myrkrið tók yfir mig. Ég var í menntaskóla og átti að flytja fyrirlestur, ég var búin að undirbúa mig í margar vikur og ætlaði að rústa þessu.
En ég vissi ekki að þessi dagur ætti eftir að breyta lífi mínu, þessi dagur var sá fyrsti af mörgum þar sem ég missti stjórn á tilfinningum mínum. Það var eins og eitthver hefði tekið yfir mig og ákveðið að nú skyldi ég vera hrædd, taugaóstyrk og efast um sjálfa mig í öllum ákvörðunum og gjörðum.

Það er mjög erfitt að útskýra myrkrið fyrir öðrum sem ekki hafa upplifað það, það er að sjálfsögðu ekki eins hjá öllum og misdimmt. Spurningar eins og „afhverju “ og „geturu ekki bara hætt þessu“ eru tilgangslausar því að ég hef ekkert svar, besta og eina svarið er að ég hef enga stjórn á myrkrinu, það ræður.
Myrkrið sýgur alla orku og gleði burt, það skapar stóran, þungan hnút í maganum mínum og elskar að láta mér líða illa.
Myrkrið er skrímslið undir rúminu mínu. 

Hjá mér upplifi ég myrkrið sem ljóta kallinn, ég hata myrkrið og það versta er að ég hef enga stjórn á því. Myrkrið kemur þegar því hentar og það er næstum því alltaf þegar það passar mér verst. Það kemur þegar ég þarf að kynnast nýju fólki, þegar ég þarf að tala annað tungumál, þegar ég þarf að gera kynningu í skólanum, þegar ég er í atvinnuviðtali.
Í byrjuninni voru það bara öfgakenndar aðstæður sem kölluðu það framm, en núna er það allt, jafnvel litlu hlutirnir eins og að þurfa að vera innan um mikið af fólki.

Það er erfitt að segja afhverju myrkrið kemur, hjá sumum er það aðstæður, öðrum ör eftir gamla skaða, og hjá fleirum missir fólk viljastyrkinn til að hleypa ljósi inn í lífið sitt.
Ég vona að eitthvern daginn verði ég það sterk að ég geti rifið í myrkrið, hent því í gólfið, trampað ofan á því og sagt því að það ræði sko ekki yfir mér.

En ég meðan ég bíð eftir þeim degi, er lífið voðalega dimmt. 

Og fyrir þá sem ekki skildu, er myrkrið myndlíking fyrir kvíða.