Ég gekk inn í herbergið hennar Lóu. Það brakaði í hjörunum. Herbergið var alveg eins og hún hafði skilið við það. Eini munurinn var rykið og nokkrir jólaenglar sem mamma hafði sett í hillurnar. Þótt liðnir væru meira en tveir mánuðir síðan slysið varð höfðum við enn ekki fundið kjarkinn til að hreyfa við neinu.

Ég hafði ekki getað sofið svo vikum skipti út af martröðum. Mig dreymdi stanslaust um systur mína alblóðuga, limlestaða og brotna. Verst voru þó dauðu, ásakandi augun sem störðu á mig. Það hafði verið hálka. Ég var nýkomin með bílprófið en mamma krafðist þess að systir mín myndi keyra en ég vældi í Lóu þar til hún skipti við mig á miðri leið og ég átti að fá að keyra það sem eftir var leiðarinnar. Ég man ekkert hvert við vorum að fara eða hvers vegna. Man einungis eftir afleiðingunum. Hitt skiptir engu máli. Við vorum báðar í belti en það var ég sem slapp en ekki hún.

Veit ekki enn hvers vegna.

Í byrjun desember hafði mamma síðan fundið örfáa pakka aftast í skápnum niðri í anddyri þegar hún var að dunda sér við jólahreingerninguna. Þettu voru jólagjafirnar frá Lóu. Hún hafði alltaf keypt jólagjafir langt fram í tímann. Ég vildi ólm fá að opna pakkann minn strax. Vildi eignast eitthvað í minningu systur minnar en mamma heimtaði að við myndum bíða fram á aðfangadag.

Þarna stóð ég svo með tárin í augunum og horfði inn í einmanalegt herbergi systur minnar. Herbergið virtist sakna hennar jafn mikið og ég. Foreldrar mínir voru farnir að sofa en við brustum öll í grát þegar við opnuðum gjafirnar frá Lóu. Hún hafði gefið mér veggspjald með mynd af Albert Einstein að reka út úr sér tunguna en allt í kringum hann voru tilvitnanir í hann sjálfann. Ég lagðist upp í rúmið og lagði veggspjaldið við hlið mér og sofnaði.

Ég rumskaði við það að einhver potaði stríðnislega í nefið á mér. Ég opnaði augun og sá systur mína liggja við hliðina á mér í rúminu, skælbrosandi. Það var ekkert blóð bara hvítt bros. Stutt, skært fjólublátt hárið stóð út í allar áttir og það glampaði á hringanna þrjá í nefinu hennar.
,,Hvernig komstu inn?,” spurði ég hálfvitalega.
,,Nú um gluggann auðvitað, kjánabangsi,” sagði hún flissandi og potaði aftur í nefið á mér. Ég leit upp og sá að glugginn var galopinn. Lóa horfði í augun á mér og strauk á mér hárið. Augun voru lifandi og án nokkurrar ásökunar.
,,Ég hef saknað þín svo mikið og ykkra allra. Hví ertu svona föl, Agga? Það mætti halda að þú hafi séð draug,” hún hló. Ég reyndi að brosa en gat það ekki.
,,Er enginn gálgahúmor í þér? Það mætti halda að við værum ekkert skyldar,” sveijaði hún og setti í brýrnar en brosti svo á ný. ,,Þú átt ekki að láta þetta skemma svona fyrir þér. Þetta var ekkert þér að kenna. Hver sem er hefði getað velt bíl eins og veðrið var. Brostu bara ok? Fyrir mig?”
Ég gat ekki lengur haldið aftur af tárunum.
,,Æ, vertu ekki að gráta. Þú ert búin að gráta nóg.”
,,Ég er ekkert leið yfir því að þú skyldir deyja. Ég var bara fúl yfir því að mamma skyldi hafa rétt fyrir sér,” laug ég hlæjandi en tárin láku í stríðum straumum. Hún hló hátt og hallaði höfðinu undir flatt.
,,Ég vissi að við værum skyldar. Æ, mér þykir svo vænt um þig, kjánarófa,” sagði hún og faðmaði mig þéttar að sér. Ég lokaði augunum og hún hvíslaði í eyrað á mér: ,,Hættu að syrgja mig Agga. Þótt lífi mínu hér sé lokið þá er þitt rétt að byrja. Dauðinn er heldur ekki endalokinn heldur bara nýtt upphaf. Þú skilur það þegar þinn tími kemur en þangað til gerðu það sem Albert sagði, sin to your wicked heart´s content. Lofarðu því?”
Ég kinkaði kolli þótt ég skildi ekki alveg hvað hún átti við og fann heita hendi strjúka vangann á mér.

Ég opnaði ekki augun fyrr en ég fann eitthvað kalt setjast á nefbroddinn á mér. Hún var horfin. Þetta hlaut að hafa verið draumur. Ég skalf úr kulda og sá að glugginn var galopinn og það snjóaði inn. Ég var nokkuð viss um að hann hafi verið lokaður þegar ég kom inn í herbergið. Ég fann enn fyrir heitri höndinni á vanga mínum eftir drauminn ef þetta var þá draumur.

Á leiðinni út úr herberginu hrasaði ég og missti veggspjaldið svo það rúllaði um gólfið. Ég tók það upp en varð þá starsýnt á eina tilvitnunina. Tilvitnun sem sló mig dálítið út af laginu:

,,I have firmly resolved to bite the dust, when my time comes, with minimum of medical assistance and up to then I will sin to my wicked heart´s content.”




Jóhanna Margrét Sigurðardótti
Why be normal, when strange is much more interesting