Ég fann þessa sögu (sem ég skrifaði árið 2006) á gömlum email acoounti. Mjög skemmtilegt… var alveg búin að gleyma þessu og var eins og að lesa hana í fyrsta skiptið.





Langleitur. Hestlegur. Fallegur. Ég elska hann. En líkar mér við hann? Nei.

Alltaf svolítið pjattarlegur, vill vera svo fínn. En fötin eru lufsuleg utan á horuðum líkamanum. Horaður og stæltur; spengilegur, sperrtur, sterkur. Æ, svo veðraður, vanræktur. Auminginn. Hárið er ljóst og þunnt. Beinist tjásulegt í allar áttir. Eða liggur slétt niður á enni, fram yfir augu. Blá augu. Dimmblá augu. Eiginlega svört augu. Kolsvartar glyrnur. Svo áhugaverðar, dulafullar. Miskunnarlausar.

Ástfangin kona getur lýst manninum sínum allan daginn. Þótt ég hefði hundrað blaðsíður. Flestar manneskjar eru litlausar, formlausar,flökta til á sjáaldrinu eitt augnablik og flögra svo út í geiminn. Ekki hann. Ég sjálf er bara svona og svona. Þú veist. Ég er bara eins og ég er. Ég er þú og þú. Bara hver sem er. Búinn að gleyma hvernig ég litaði hárið mitt síðast. Eða hvort augun mín eru grá eða blá. Það verður alltaf ráðgáta af hvaða hvötum hann nálgaðist mig upphaflega.

Því ekki nálgaðist ég hann. Hann hræðir mig. Ég hefði aldrei nálgast mann eins og hann. Hann er allur logandi í andanum skilurðu. Ég hefði brennt mig.

Blái frakkinn! Hann sveipaði sig bláum frakka ef hann ætlaði út. Svo strunsaði hann um strætin og frakkinn var út um allt. Þannig sá ég hann fyrst. Þannig sé ég hann fyrir mér núna. Birkihrísla klædd frakka. Alveg mátulegur.


-Viltu tefla?

Nei, ég vil ekki tefla, hugsa ég. En ég þarf ekki að segja honum það. Hann er ekki að tala við mig. Hann geispar og réttir höndina til mín. Doddi tosar hann upp úr sófanum. Ég held kjafti.

-Veistu um kveikjarann?

Nú er hann að tala við mig. Ég svara ekki strax. Gef honum smá séns. Andartaki síðar finnur hann kveikjarann í rassvasanum svo ég segi ekki neitt. Hann bítur um sígarettuna, kveikir í henni, stútar varirnar og sobbar henni fram á við. Glennir út munnvikin, dæsir ánægjulega þegar hann andar út. Doddi lyftir brúnum og horfir biðjandi. Umhugsunarlaust sveiflar hann þessari sígarettu yfir til Dodda og vippar annarri út og kveikir sér í. Hann fer nákvæmlega eins að og áður. Hann nýtur þess augljóslega í botn að kveikja sér í. Mínúturnar á milli þess sem hann kveikir í og þar til hann fær sér aðra eru bara formsatriði. Til þess ætlaðar að gera ekki íkveikjuna tilgangslausa.

Mér finnst ógeðslegt hvernig hann bítur í sígarettuna. Samt ógeðslega kúl líka. Fæ mér eina. Geri hvað ég get að herma ekki eftir honum. Rembist.

Hann fær sér aðra.
Og þriðju.
Doddi fær eina.
Hann fær sér enn eina.
Og Doddi aftur.
Og svo fæ ég mér eina.
Og aðra.
Á meðan reykir hann tvær.
Doddi fær restina af þeirri þriðju eftir að hafa tapað fyrstu skákinni. Doddi var ekki nærri því jafn góður og hann í skák. Samt tefldi hann. Kannski hafði hann bara svo svakalega gaman að því að tapa. Eða kannski vildi hann bara vera nálægt honum. Það vilja allir vera nálægt honum. Sumir segja að hann sé svo skarpur, það sé unun að hlusta á hann. Ég get verið sammála því. Aðrir segja að hann sé svo listrænn. Hann er listrænn. Mér finnst hann aðallega bara svo fallegur. Ég er ekki ein um það.

Önnur skák. Hann vinnur.
Hann vinnur líka þriðju skákina. Og þá fjórðu.

-Ég nenni þessu ekki.

Hann vildi ekki klára þá fimmtu. Doddi spyr hvort hann sé að gefast upp?

-Allsekki. Þetta er bara asnalegt og á engan hátt gefandi.

Doddi hlær og raðar taflmönnunum upp á nýtt. Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem þeir hætta í miðri skák og byrja upp á nýtt. Doddi tapar auðvitað næstu skák.

-Jæja. Geturðu ekki hunskast til að fara að gera eitthvað annað Doddahelvítið þitt. Ég er vinnandi maður og þú lætur mig ekki í friði.

Doddi hlýddi. Ég veit að hann vill ekki heim. Og það er rigning úti. Þetta er eins og að vera vondur við hvolp. Með skottið á milli lappanna fer hann út í rigninguna. Um leið og Doddi lokar á eftir sér smeygir hann sér úr sokkunum og leggst flatur upp í sófa aftur. Hann vill hvíla sig. Við ætluðum kannski á Súpustaðinn í hádeginu. Í staðinn les ég bók. Og hvort ég hafi ekki bara dottað pínulítið sjálf þegar líða fór á síðdegið. Ég hrekk við þegar hann drattast á fætur aftur um fimmleitið.

Hann brosir og er svolítið glaður. Sest við eldhúsborðið með stílabókina og pennann. Nú ætlar hann að yrkja. Hann er nefnilega ekki bara góður í skák heldur ljóðskáld. Besta ljóðskáld á Íslandi. Í alvörunni. Það er ekki allir sem fá ritdóma í Helgarblaði DV þegar þeir gefa út ljóðabækur. Einu sinni stóð fremst í Lesbók Morgunblaðsins að hann væri hugsanlega besta ljóðskáld nútímans. Ég prófa stundum að gúggla nafnið hans. Og hann fær mjög margar niðurstöður. Ef maður miðar hann við annað frægt fólk þá fær hann til dæmis fleiri niðurstöður en bæði Bryndís Scram og Gerður Kristný til samans. Sumir aðdáenda hans á netinu er líka alltaf að segja að hann sé sá besti. Og ekki ætla ég að segja að þeir hafi rangt fyrir sér.

Hann er líka mjög duglegur. Þótt við séum ekki að stressa okkur svona fyrripartinn þá skrifar hann alltaf eitthvað á hverjum degi, fyrr eða síðar. Það er ekki öll skáld sem gera það.

-Er ekki til eitthvað að éta?

Ég er nú ekkert sérlega góð að elda. En honum er alveg sama. Ég vil samt stundum elda eitthvað gott handa honum. Næ núna í tvo diska,mjólk og sérjós. Helli handa okkur báðum. Ég er ekkert að bíða eftir honum, hann fær sér bara þegar hann vill. Sjálf fylli ég skeiðina mína og er við það að setja upp í munn.

-Æ, blómið mitt. Nú á ég bágt með að skrifa…

Ég set niður skeiðina aftur. Ég veit hvað þetta þýðir. Hann kallar mig alltaf blómið sitt. Litla bláa blómið. Ef hann stíflast smá þá vill hann að ég hjálpi. Ég veiti honum innblástur. Við erum par og við elskum hvert annað. Það er engin tilviljun. Ég veiti honum innblástur. Ég fer því og tylli mér við hliðin á honum og kíki á blöðin hans. Ljóðin er stálfalleg eins og venjulega. Ég segi samt ekkert. Það myndi ekki hjálpa neitt. Það er ekki eins og það að blaðrið í mér myndi beinlínis laga einbeitninguna hjá honum. Þess í stað strýkur hann á mér hárið. Aftur og aftur. Á meðan hugsar hann. Ég elska hann líka og strýk honum um hárið. En hann vill helst ekki að fólk sé að fikta í hárinu á honum. Svo ég kyssi hann á hálsinn. Aftur og aftur. Hann hefur ekkert á móti því.

Loks hættir hann að strjúka og vill að ég hætti að gæla við hann. Hann bandar mér í burtu. Þá veit hann aftur hvað hann á að skrifa. Ég vil fyrir alla muni ekki trufla hann og fer því inn í stofu að prjóna. Búin að gleyma sérjósinu. Er nýbyrjuð að prjóna. Fer eftir leiðbeiningum á netinu. Mér finnst það gaman.

Skríð upp í frekar snemma og sofna. Er samt eiginlega ekkert þreytt. Vakna þess vegna auðveldlega þegar hann mjakar við mér seint um nóttina. Hann er búin að skrifa og langar í mig. Hann er á typpinu. Ég hlæ smá og smeygi mér úr nærbuxunum. Hann kitlar mér á lærunum og ég glenni mig fyrir honum. Hann skríður á milli hægt og varlega. Kyssir mig á magann. Síðan á munninn. Ég kyssi ástríðufullt á móti. Mér finnst gaman að ríða. Á hvaða hátt er það ekki skemmtilegt? Það er bæði þægilegt og auðvelt og síðan erum við saman. Inn og út. Út og inn. Ég reyni að stynja ekki en þetta er bara of gott. Ég mjaka mig upp á móti honum. Hann neglir mig niður.

-Usss…

Það getur stundum verið svolítill hávaði í mér. Ég reyni að þegja. Stuttu seinna er hann búinn og mér líður vel í rúminu. Honum líður ekki eins vel í rúminu því hann hendist á fætur og byrjar að skoða sig nakinn í speglinum. Fer svo í föt og í bláa frakkann. Ég veit að hann er á leiðinni eitthvað út.

Ég sofna aftur.

Þegar ég vakna aftur verð ég var við einhvern umgang frammi. Þú ert að brasa eitthvað. Ég dreg frá gluggatjöldunum. Sólin skín í glerinu, himinninn er hlýr og malbikið fyrir utan blautt. Rigningin er búin í bili og ég ætla kannski út í dag. Einhver setur geisladisk í spilarann inn í stofu. Hressileg tónlist. Ég fer í stutta kjólinn. Lít á mig í standspeglinum. Ég er eins og fífl. Í stuttum kjól á miðjum vetri? Fer því í gallabuxur og blússu. Það er post-it miði á spegilkarminum. Hann skrifar stundum ljóðin sín á svoleiðis miða og týnir þeim síðan einhverstaðar.

-Ást.
-Á S T !
-Þú ást mig
-og ég át þig.

Þetta er skrítið ljóð. Samt pínulítið og svo stórskrítið. Hann er alltaf að skrifa svona ljóð. Alger snillingur. Ég vildi óska þess að hann væri ekki svona mikill snillingur stundum, því þá skildi ég hann betur.

Nú er lækkað á tónlistinni og einhver spilar á fiðlu. Jói er í heimsókn. Ég læðist fram til þeirra. Þar eru fleiri. Einhverjir stúdentar og gamli karlinn af kaffihúsinu. Brynja er þarna líka. Ábyggilega með einhverjum stúdentanna eða kannski Jóa. Hún þykist vera málari en kynni varla að teikna ólaprik þótt ég borgaði henni fyrir það. Hef aldrei séð hana teikna eða neitt. Hún brosir til mín og segir hæ. Tveir stúdentanna hæja mig líka. Hinir eru of uppteknir og ég er ekki að gera í því að vera áberandi. Ég nenni ekki að vera áberandi en ég kann samt að dansa. En núna eru þeir að tala um eitthvað.

Ég hef aldrei séð þessa ungu stráka hérna áður. Þeir segjast vera að læra í háskóla. En eru samt aðallega málarar, bara háskólanemendur í aukastarfi. Þeir hlægja. Þeir eru hangandi utan í Brynju. Segja að hún sé æðisleg. Svakalega æðisleg.
Ég spyr af hverju allir séu svona hressir snemma um morgunin. Þau hlægja. Eru víst ekki ennþá farin að sofa. Hittust öll á Kafkakaffi fyrr um nóttina og komu svo hingað. Hann tekur oft fólk með sér heim. Hann vill hafa nóg af fólki í kringum sig.

Jói spilar á fiðluna aftur og brosir til mín. Ég held að hann sé svolítið skotinn í mér. Lagið er angurvært. Ég vil ekki tala við hann. Hlusta ekki á hann. Hann má samt spila fyrir mig ef hann vill endilega ná einhverjum tengslum. Kærastanum mín líkar það ekki þegar Jói er eitthvað að flaðra upp við mig. En það er svo sem skiljanlegt. Ég yrði bálvond ef ég kæmist að því að hann væri að ríða einhverjum stelpum út í bæ.

Hann er bara handa mér og ég er bara handa honum.

Bráðum lætur Brynja sig hverfa og stúdentarnir með henni. Hún lætur sér ekki nægja einn heldur þrír. Gamli karlinn er dauður fram á sófaborðið. Ég lít á elskhuga minn. Hann biður Jóa um að fara með hann heim til sín.

Við erum ein eftir.

-Bláa blómið mitt.

Ég bið hann um að koma út með mér.

-Ég nenni því ekki.

Við förum aldrei saman út úr þessari íbúð. Aldrei. Jú einu sinni. Einu sinni fyrst alltaf. Þá löbbuðum við saman út um allt og þú sýndir mér allt. Ó það er svo fallegt. Miklu fallegra en ljóðin þín.

-Ljóðin mín duga ágætlega.

Hann starir á mig með óbeit. Lítur svo undan. Skyndilega, eins of fram af bjargi, hendir hann sér aftur á bak í sófann. Hann fær sér lúr. Ég sest við gluggann. Gangstéttarnar eru rétt þornaðar þegar það byrjar að rigna aftur. Nú nenni ég ekki heldur út.

Ég fer inn á baðherbergi. Við erum ekki ein í íbúðinni. Doddi sefur í baðkerinu. Sturtan og baðkarið er aðskilið svo það er samt ekkert mál fyrir mig að fara í sturtu. Hann er ennþá sofandi þegar ég er búinn. Ég nenni ekki að klæða mig almennilega. Fer bara beint inn í herbergi að prjóna aftur. Skömmu síðar heyri ég orðið skák innan úr stofu. Aftur og aftur. Þeir eru greinilega báðir vaknaðir og farnir að tefla. Þeir fóru pottþétt úr sokkunum eins og iðulega þegar þeim er heitt í hamsi. Ég get ímyndað mér lyktina af skítugum sokkum, nógu oft hef ég fundið hana. Þeir eru hættir að tefla og farnir að rífast eitthvað. Svo fer elskhugi minn að kveða upp ljóðin sín hátt og hvellt. Það er ekki algengt að hann geri það… Hann gerir það aldrei nema hann sé í einhverju sérstöku skapi.

Ég fer að athuga hvað er á seyði. Á milli fóta hans sé ég einhverja hóru sjúga á honum typpið. Typpið mitt! Ég verð bálreið, fokvond. Dræsa,drusla og hóra. Svikari, svikari, svikari! Reiðin er jafn fljót að sjatna og hún var að kvikna þegar ég sé að þetta er engin stelpa heldur bara Doddi. Ég hafði stökkroðnað en nú varð ég rólegri. Ef hann hefði verið að halda fram hjá mér þá hefði ég orðið brjáluð. Ég hefði misst vitið.

Hann klárar eitt ljóðið sitt, opnar augun og lítur til mín. Brosir. Ég brosi til baka. Hann lokar augum, hallar höfðinu aftur og byrjar á nýju ljóði.

Ég er orðin þreytt á þessu öllu.

Hvenær ætlar þessi skringilegi prósi að enda?