Reynið að giska á hvað er að gerast í sögunni með því að svara!

Þetta er bara sagan fram að risi, endann vantar.

Ég skal pósta endanum á henni eftir nokkra daga hér á í þessum sama þræði sem svari ef fólk hefur áhuga.



VEIST ÞÚ VIÐ HVERN BARNIÐ ÞITT ER AÐ TALA Á NETINU?


Svakalega ertu fín.
Sandra horfði á kærustu frænda síns í dyragætinni.

Já, finnst þér það? Takk.
Adda brosti út að eyrum.
Pelinn er í ískápnum, en ég efast um að Kiddi eigi eftir að vakna héðan af.

Ætliði ekki að fara drífa ykkur?
Sandra brosti.
Eh, er ekki annars í lagi að ég fái aðeins að kíka í tölvuna og skoða póstinn minn?

Það hlýtur að vera, spurðu Andra.

Andri var að klæða sig í jakkann þegar Sandra kom inn í svefnherbergi til hans.

Hæ.
Hann brosti til hennar í speglinum.

Má ég kíka í tölvuna?

Þau áttu hvíta apple ferðatölvu sem sat á skrifborðinu og var kveikt á.

Jájá, gjörðu svo vel
Hann snéri sér við og horfði í augun á henni alvarlegur
En ekki downloada neinu klámi, annars verð ég að segja mömmu þinni.
Hann blikkaði hana.

Ehehe.

Þau slökktu ljósinu á ganginum áður en þau fóru út.

Sandra ákvað að kveikja á kertunum sem voru á náttborðinu og slökkva ljósin. Hún hafði oft passað fyrir þau áður en aldrei verið eitthvað vesenast inn í svefnherbergi. Það var svolítið skrítið að vera inn í svefnherbergi frænda síns. Sandra leit á rúmið í flöktandi ljósinu; það var hér sem þau bjuggu til Kristinn. Munnurinn opnaðist pínulítið en lokaðist jafn óðum. Hvað var hún að hugsa um það.

Hún kíkti á póstinn sinn, og svo á facebook og svo á bloggsíður vinkvenna sinna. Þetta var mjög hefðbundin rúntur sem hún fékk samt aldrei leið á. Svona gæti hún haldið áfram að vafra sama stefið allt kvöldið, hugsanlega þó með mismunandi tilbrigðum. Köld skíman af skjánum málaði hana hvíta í framan.

Skyndilega bjallaði allt herbergið og Sandra hrökk í kút. Allt hafði verið hljótt fram að þessu. Andri var greinilegur innskráður á MSN og með hátalarana í botni. Það var einhver Sölvi 2000 - Tékkið á nýju myndunum sem vildi tala við Andra. Glugginn hans blikkaði á skjánum. Hún lokaði bara glugganum um leið og slökkti á hátölurunum og fór svo að athuga hvort Kiddi hefði nokkuð vaknað við hvellt hljóðið. Hún hafði ekki þorað að logga sig út samt; kannski vildi Andri vera innskráður fyrst hann hafði ekki sjálfur loggað sig út áður en hann fór að heiman. Það var reyndar pínu kjánalegt, en hver veit? Til hvers að vesenast eitthvað?

Sandra kom til baka og settist aftur við tölvuna og fór núna á MBL.is

Allt í einu sér hún MSN tilkynna innskráningu í horninu á skjánum. Það var hún sjálf að logga sig inn, Sandra - verð að passa í kvöld.

Hún sjálf!

Haha. Það var pínu fyndið. Þráðlausa netið heima hjá henni var frekar dyntótt. Það var sífellt að detta út. Hún hafði skilið eftir kveikt á tölvunni sinni þegar hún fór að heiman, en netið hafði verið úti og MSNið þess vegna legið niðri en sjálfkrafa skráð hana inn aftur núna þegar netið datt inn aftur.

Hún tvíklikkaði á sjálfa sig í gríni og skrifaði: Hæ

Hæhæh:D
var svarið sem hún fékk strax til baka.

Í gríni! Hún hafði klikkað á sjálfa sig í gríni! Það átti engin að svara.

Hvað ertu að gera á MSNinu mínu??
spurðu hún miklu reiðari en MSNið gat komið til skilar.

Haha, hvað meinarðu Andri?

Ég er ekki Andri. Ég er eigandi tölvunar sem þú ert í, heima hjá Andra þannig að það komst upp um þig og drullaðu þér úr tölvunni núna hver sem þú ert!
skrifaði Sandra.

Haha, nei.
svaraði manneskjan á MSNinu hennar.

Haha, nei? Haha nei?! Hvaða ógeðslega manneskja var að hanga í herberginu hennar og fokka í henni? Þetta var ábyggilega Daði, leiðinlegasti bróðir á fkn Íslandi.

Hver er þetta?
spurði Sandra.

Þetta er ég.

ÉG hver??
spurði Sandra þá.

Sandra. Hættussu.
svaraði manneskjan á hinum endanum sem sagðist heita Sandra.

Kjaftæði. Hætt ÞÚ þessu.
skrifaði Sandra.

Hvað meinarðu? Andri ekki vera að bulla í mér, ég er ekki að fíla þetta.
svaraði svikarinn í tölvunni hennar Söndru.

Þú ert ekki fyndin ef þú heldur það sko.
skrifaði Sandra og nennti þessu ekki lengur.

Af hverju trúirðu ekki að þetta sé ég, Andri? Þetta er ég Sandra, Sandra sem passar oft Kidda litla. Sandra frænka þín!
svaraði stelpan á hinum endanum.

Söndru fannst þetta í fyrsta skiptið pínu óhugnalegt. Hún svaraði ekki heldur horfði bara á skjáinn vantrúuð. Hún reyndi að hrista af sér undrunardofann sem lagðist yfir hana en hún gat það ekki. Fokk itt, það hlytu að vera aðrar skýringar á þessu. Hægt lagði hún fingurnar aftur á lyklaborðið…

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
spurði Sandra en var í raun að spyrja: Hver er uppáhaldsliturinn minn? Uppáhaldsliturinn hennar Söndru hafði lengi verið grænn. Henni fannst hann svo róandi.

Lengi kom ekkert svar. Kannski að svikarinn í tölvunni hennar hafi orðið klumsa.

Ég nenni ekki að tala við þig.
svaraði svikarinn þá.

Ha! Þessu gastu ekki svarað.
Skrifaði Sandra hreykin.

Svarið kom þá um leið
Grænn.

Grænn! Hvernig vissi hún það? Hvernig gat hún vitað að grænn væri uppáhaldsliturinn hennar!
Furðu lostin ýtti Sandra sér frá tölvunni. Svo harkalega raunar að hjólastóllinn sem hún var á rann út á mitt gólf. Eftir að hafa horft á hvíta apple tölvuna frekar fríkuð í eitt andartak ákvað hún að hlaupa út úr herberginu og út á myrkvaðann ganginn. Hún fálmaði eftir heimasímanum í andyrinu og hringdi í snarhastri heim til sín.

Eftir fimm hringingar var henni ljós að enginn var heima. Klukkan ellefu um kvöldið? Hvar voru allir? Hvar var fjölskyldan hennar? Nú fyrst varð hún hrædd.

Eftir að hafa setið kortér fyrir framan rúmið hans Kristins og ekki vitað sitt rjúkandi ráð náði hún loksins sönsum á nýjan leik. Þetta var bara einhver paranoja. Þetta hlyti samt allt að eiga sér einhverjar eðlilegar skýringar. Hún fór fram í stofu, kveikti á Skjá Einum og fór að horfa á Jay Leno.

Þegar klukkan var orðin rúmlega miðnætti þá var hún komin í gott skap aftur og næstum búin að gleyma því sem skeð hafði. Hún rölti inn í svefnbergi aftur og í tölvuna. Án þess að hika hægrismellti hún beint á MSN táknið og loggaði Andra út án þess einu sinni að kíka hvort “hún sjálf” væri enn þá inni. Því næst breytti hún notendanafninu og loggaði sjálfa sig inn. Allt var eðlilegt.

Eftir tvær til þrjár mínútur og allt með kyrrum kjörum ákvað hún að logga sig aftur út og lét tölvunni um að skrá Andra á eðlilegan hátt inn á nýjan leik. Hann átti nú þessa tölvu, þrátt fyrir allt, og hún hafði engan rétt til þess að útskrá hann til lengri tíma, ef svo skyldi vera að hann hafði kosið að skilja eftir statusinn sinn svona þegar hann fór með Öddu. Hún rétt leit yfir hverja voru online og sér til ákveðins léttirs var hún sjálf ekki þar á meðal. Auðvitað ekki, hún var nýbúin að skrá sig inn á þessari tölvu, sem hefði átt að rjúfa sambandið heima, og síðan skráð sig út aftur.

Hún ákvað með sjálfri sér að uppistandið fyrr um kvöldið hafi bara verið eitthvað grín í Daða. Hann var alltaf að stríða henni. Að vísu fíflaðist hún líka oft í honum, en hann var nú samt snöggt um kvikindislegri. En henni fannst nú heldur ólíklegt að hann færi að fara aftur inn í herbergi hennar um miðja nótt núna og skrá sig sérstaklega inn á nýjan leik til þess eins að halda áfram að djöflast í henni.

Kannski ólíklegt, en það var samt það eina sem henni datt í hug þegar skilaboðaramminn í horninu tilkynnti stuttu síðar að Sandra - verð að passa í kvöld væri innskráð aftur.

Sandra beið ekki boðanna heldur skrifaði um leið
Dröllaðu þér úr tölvunni Daði. Ég veit þetta ert þú.
Henni fannst hún frekar snjöll.
Af hverju svararðu annars ekki símanum þegar ég hringdi fyrr í kvöld?

Símanum?
Svaraði manneskjan á MSN.
Ertu að meina gemsanum mínum? Ég set hann alltaf á Silent þegar ég er að passa.

Sandra tók upp eigin gsm síma og horfði á hann. Hann var á Silent. Hún var nefnilega vön að setja hann á Silent þegar hún var að passa.