El Bulli - 3
Það kemur svo sem ekki á óvart að El Bulli, hin margrómaði veitingastaður Spánverjans Ferran Adriá í smábænum Roses skammt frá Barcelona skuli tróna á toppnum. Hann gerir það yfirleitt í svona könnunum. Merkilegt nokk er þetta staður sem allir hafa heyrt talað um en fæstir hafa borðað á.

Ég sit með krosslagða fætur í sófanum og er að lesa morgunblaðið þegar Aníta kemur aftur. 600 manna nefnd á vegum The Resaurant Magazine var að velja El Bulli besta veitingastað í heimi, núna í þriðja sinn. Það er sárt heyra þetta.

Hæ, ertu ennþá hérna?
Aníta horfir á mig eins og hún hafi verið búin að gleyma mér.
Ætlarðu að gerast fyrsta plantan í herberginu mínu? Ég vara þig við, ég gleymi alltaf að vökva.

Ég legg frá mér blaðið og horfi á hana þögull.

Út, segir hún og bendir á dyrnar.
Ekki óvinalega. Bara mjög skýrt; það er komin tími til að ég fari. Ég fer.



Hvenær er veðrið gott á Íslandi? Aldrei. Nema akkúrat núna. Það er kominn miður júní og tími til kominn að við fáum smá sólarglætu. Hitinn er ekkert óbærilegur, í rauninni bara svalt, en það er eitthvað við rakann í loftinu sem minnir mig á Norður Spán. Svona raki eins og er aldrei á Íslandi.

Í mínu fyrra lífi hafði ég ekki átt mér mörg áhugamál. Ég átti nógan pening og eyddi honum í allskyns munað; en það var bara lífsstíll. Ekki hobbý. Ég ferðaðist um allan heiminn, en eiginlega alltaf bissness, engin gleði.

Nema; ég naut þess að borða á góðum veitingarhúsum. Góðan og dýran mat eins og þú færð aldrei á Íslandi. Ég hafði borðað út um allan heim. Allskonar mat. Flest bestu veitingarhúsin í Evrópu og Ameríku. Síðasta sumar hafði ég farið með Kristínu í tveggja viknar matarferðlag um Spán, Frakkland og Ítalíu. Hún snobbaði fyrir þessu, fannst þetta gaman en enginn var hún sælkerinn. Fyrir mér var þetta ástríða.

Svo mikil ástríða að ég hafði nokkru sinnum reynt að stofna veitingarhús á Íslandi í heimsklassa. Talsvert af peningum höfðu farið í að koma þeim á laggirnar en yfirleitt fór þetta illa með öðrum rekstri hjá mér, svo ég seldi þá jafnan skömmu síðar. Yfirleitt dröbbuðust þeir niður í kjölfarið.

Ég var búinn að gleyma El Bulli.

Staðurinn sem margir kalla besta veitingastað í heimi er bara örsmár, tekur fimmtíumanns í sæti og er bara opin í 6 mánuði á ári, frá apríl fram í september. Þess á milli eru kokkarnir í fullri vinnu við það að bæta matseðilinn. Matseldin er orðin að goðsögn; miklu færri komast að en vilja og hvert sæti er rándýrt. Aðeins er hægt að panta borð einn dag á ári, í október. Það er eins og lottó, hverjir komast að.

Ég hafði reynt þrjú ár í röð þegar ég loksins komst að. Ég borgaði næstum 120 þúsund krónur íslenskar fyrir mig og Kristínu fyrirfram. Lengst í hugarfylgsnum mínum var meira að segja farin að myndast áætlun; brúðkaup á Spáni, ég myndi leigja flugvél undir skyldmenni. Eftir stóra veislu að suðrænum sið og eftir að allir væru farnir heim myndum við tvö svo borða fyrstu máltíðina sem hjón á besta veitingastað í heimi. Kristín vissi náttúrulega ekkert af þessu.

Þegar allt fór ofan garð og neðan hjá mér þá reyndi ég að selja miðana. Það gekk ekki; borðið er frátekið á nöfnin okkar, mér var tjáð að ef ég sæi mér ekki fært um að mæta yrði borðið frekar autt en hitt. Algert kjaftæði. Gestir veitingarstaðarins eru víst sérlega útvaldir, og tékkaðir fyrirfram, þeir og engir aðrir fengju að borða þarna. Ég endurtek; algert kjaftæði. Svo ég skellti bara á og gleymdi þessu.

Þetta var í janúar. Þessi peningur er því algerlega glataður. Ég fer aldrei á El Bulli. Ég veit ekki einu sinni hvar miðarnir eru niðurkomnir lengur. Eða jú, þeir voru í einhverri hillunni í skrifstofunni minni í Þingholtunum; ef eitthvað er eftir þar lengur. Það þykir mér ólíklegt.

Ég gef öndunum ekkert brauð. Ég á ekkert brauð. Þess í stað væflast ég bara um Hljómskálagarðinn og reyni að sparka í þær ef þær hleypa mér nógu nálægt. Eða ég ímynda mér að ég sparki í þær; þess í stað læt ég mér duga að fylgjast með þeim. Ég horfi upp í Þingholtin.

Allt í einu er ég staddur fyrir utan fallega fallega húsið mitt. Ég man þegar ég lét gera þetta hús upp. Það er í norskum fjallakofastíl, bárujárnsklætt, með 100 herbergjum. Kannski ekki alveg; en herbergin voru nógu mörg. Þarna gerðum við kraftaverk. Þegar sem best stóð var unnið dag og nótt; starfsliðinu mínu var ekki drullusama og ég gerði vel við það.
Ég lít upp. Á efstu hæðinni er kvistur með flennistórum rúðum. Það var skrifstofan mín. Ég sá yfir alla borgina. Eða svona næstum alla. Hliðið að garðinum er opið. Hann er í órækt. Ég fékk garðyrkjumenn til að sjá um hann. Fyrir utan tvö stór útimatarboð sem ég man eftir, tveir sólríkir sumardagar sem ég mun alltaf muna, þá notaði fyrirtækið garðinn lítið.

Gosbrunnurinn er fullur af snjóþvoðum laufum síðan síðasta haust. Fyrir aftan húsið er niðursteyptur stigi að kjallaradyrunum.

Ég sný lyklinum. Örhljótt klikk og dyrnar opnast. Við geymdum lykil undir þriðju hellu til vinstri… svona til öryggis. Hann var þarna enn þá. Og skyndilega er ég kominn heilt ár aftur í tímann. Það er eins og ekkert hafi skeð, enn einn morgunin er ég mættur í vinnuna, farinn að margfalda auð minn. Lyktin, birtan, allt. Gamlir siðir. Ég smeygji mér úr skónum og labba að þjófavarnakerfinu ósjálfrátt. Skyldi gamla lykilnúmerið virka?

Það var ekki einu sinni kveikt á því. Ryk yfir öllu.

Kjallarinn er að mestu óhreyfður. Hér voru heldur engin verðmæti; bara starfsmannaaðstaða, eldhús, setustofa. Billjardborðið er að vísu horfið. En flatskjárinn ekki?
Varlega geng ég upp stigann. Það brakar í honum. Það var sjokk að koma á fyrstu hæð. Ekkert. Búið að rífa niður alla veggi, tól og tæki, sag og vinnulykt. Einhver framtakssamur verktaki að endurnýja allt. Þetta var allt nýendurnýjað… En þetta er svo sem það sama og ég hefði gert. Nýr eigandi verður að fá að hafa hlutina eftir eigin höfði; umskapað eignina, búið til verðmæti. En ekki virðist sá sem keypt hús vera albúin að taka við því. Hlutirnir í kjallarnum bentu til þess að þrotabúið væri enn í skiptingu.

Önnur hæð hafði verið skrifstofur. Opið og bjart rými. Öll húsgögn enn á sínum stað, en tölvurnar vantar. Ég horfi á síðasta stigann. Hann er spes. Þriðjahæðin náði aðeins yfir hálft rýmið, annars staðar sást undir rjálfur. Hliðin sem sneri að vinnuaðstöðunni var úr gleri. Þaðan sá ég allt. Þá þegar ég var kóngur. Stiginn var hringstigi úr rekaviði. Mjög töff þótt ég segi sjálfur frá.

Ég feta mig upp stigann. Mér hafði aldrei dottið í hug fyrr að koma hingað aftur. Hvað er ég að gera hérna? Ekkert af þessu er mitt. Eignarrétturinn er mér mjög heilagur og það fór vissulega illa í mig að trampa svona í óleyfi í eign annarra. Sama hversu kunnulegt allt er.

Hurðin opnast sjálfkrafa fyrir mér. Það er lykill í hurðinni. Einhvernveginn urðu þeir að komast inn í skrifstofuna mína gömlu daglega. Með lykli. En hún var enn prógrammeruð til þess að opnast bara fyrir mér. Vinalegt hviss. Það var eins og í draumi að sjá skrifstofuna. Allt hafði verið fryst. Eins og að horfa djúpt í augun á uppstoppuðum elgshaus. Eitt andartak líður manni eins og magnaður búkurinn fylgi allur með. En fyrir utan þessa skrifstofu var engin búkur, allt veldið horfið.

Ég skil ekki alveg afhverju þeir eru enn að pæla í þessu. Af hverju þeir slátra þessu ekki bara. Það er svo augljóslega engin verðmæti lengur að lánadrottnarar mínir sáu ekki einu sinni ástæðu til að fara í mál. Ég veit það. Ég fékk að reikna mitt reikningsdæmi.

Kannski var það bara nákvæmlega það. Kannski hafði máli bara engan forgang lengur. Þeir hafa saltað því í smá tíma meðan brýnari verkefni voru sett á oddinn. Það lá augljóslega ekkert á. Nýr eigandi húsins var hvort sem er ekki á leiðinni inn fyrr en endurbótunum lyki.

Hilla tvö. Mappa þrjú. El bulli bókun. Og ég er farinn.