Ég dró húfuna yfir höfuðið og lagaði appelsínugula áfasta hárið til að fullkomna gervið. Það var eins gott að þetta myndi virka. Ef þetta dugði ekki til að gleðja Hönnu, fengi hana ekki að minnsta kosti til að brosa, þá færi ég að hafa alvarlegar áhyggjur.

Spegilmynd mín var fáránleg, en til þess var nú leikurinn gerður. Grænt skotapilsið með gula og rauða munstrinu var gjöf frá gömlum frænda sem hafði búið í nokkur ár í skosku hálöndunum. Í hvert skipti sem ég fór í það vonaði ég heitt og innilega að það hafi aldrei verið notað í annað en grímubúning af einhverju tagi og alls ekki eins og átti að klæðast því, ber innanundir. Það hafði allavega vakið nógu mikla lukku á öskudagsballi háskólans í fyrra til að ég reiddi mig á það til þess að reyna að gleðja litlu systur mína.

Pilsið var nógu skræpótt til ég komst vel upp með að vera í svörtum bol og svörtum fótboltasokkum við það án þess að það skemmdi fáránleika búningsins. Húfan gerði síðan útslagið. Pabbi hafði komið með hana heim úr starfsmannafélagsferð til Dublin fyrir nokkrum árum. Hún var í nákvæmlega sömu litum og pilsið og með sama köflótta mynstrinu. Ofan á henni var rauður dúskur en rúsínan var appelsínuguli polýester hárkraginn sem gekk niður af henni yfir eyrun og aftur fyrir hnakka. Þegar hárið var komið á sinn stað var ég tilbúinn – eins tilbúinn og ég myndi nokkru sinni verða.

Ég ræskti mig varlega og rifjaði upp hvernig ég ætlaði að byrja, svo læddist ég í átt að stofunni. Hanna sat í sófanum og las í bók alvarleg á svip. Hún var tíu ára og hafði ekki stokkið bros á vör í margar vikur. Það var svosem ekkert skrítið. Fyrir nokkrum vikum hafði besta vinkona hennar dáið eftir erfið og skyndileg veikindi. Hjartagalli. Ég fann svo til með systur minni. Tíu ára krakkar áttu að safna pókímonspjöldum eða límmiðum eða því sem var í tísku að safna, ekki að syrgja vini sína.
Að fíflast og vera með hávaðagang myndi ekki laga neitt í sjálfu sér, ég vissi það. En mér fannst ég þurfa að gera eitthvað, eitthvað til að fá hana til að hugsa um annað, þótt ekki væri nema í nokkrar mínur. Fá hana til að brosa. Helst hlægja. Bara smá stund. Fullvissa mig, og hana sjálfa, um að hún gæti það ennþá.

Ég hoppaði upp og lenti á báðum fótum með hendur á mjöðmum í miðri dyragættinni. Það fékk Hönnu til að líta upp. Augu hennar virtust stækka þegar hún sá útganginn á mér og munnvikin fikruðu sig smátt og smátt lengra út í kinnarnar. Ég þurfti að passa mig að brosa ekki til baka. Ég varð að halda mér í karakter. Að þvaðra á skosku var miklu erfiðara með bros á vör en að vera mátulega fýldur.

„Well, lookie, lookie, what‘ve got ‘ere,“ byrjaði ég með þeim allra ýktasta og fáránlegasta skoska hreim sem ég gat búið til úr William Wallace úr Braveheart, Fat Bastard úr Austin Powers og yfirmanninum í Drew Carey Show. Hefði innfæddur skoti heyrt til mín hefði hann annað hvort barið mig til óbóta eða hlegið sig máttlausann. En sá eini sem heyrði til mín var Hanna sem fannst fátt fyndnara en skoskur hreimur og írska húfan sem ég var með á höfðinu. Sambland af þessu ætti ekki að geta klikkað. Hún var byrjuð að flissa. Ég þrammaði fram og aftur um gólfið með ýktum hreyfingum og hélt áfram að bulla við hana með mínum heimskulega hreim. Það skipti engu máli hvað ég sagði, bara hvernig ég sagði það. Ég rembdist við að halda andlitinu. Ég var farinn að dásama unaðsleika Haggis þegar ég heyrði fyrsta vottinn af því sem ég var að bíða eftir, hlátri. Flissið hafði breyst í nokkurskonar tíst sem hækkaði og breyttist svo einhvern tíman í hlátur, dynjandi, smitandi hlátur.

Fyrr en varði veltumst við bæði um í sófanum og réðum okkur ekki fyrir hlátri. Hún hló að mér ég og ég hló með henni. Meðan annað okkar hló var ómögulegt fyrir hitt að hætta, jafnvel til þess að draga almennilega andann.
Mörgum mínútum síðar var ég farinn að fá krampa í magann af hlátri og við reyndum að ná stjórn á okkur aftur.

„Ég þarf að pissa,“ sagði Hanna og stóð upp.

Ég horfði á eftir henni fara inn ganginn og brosti út að eyrum þegar ég heyrði enn eina hláturrokuna koma upp úr henni og hverfa svo bak við baðherbergishurðina. Mér hafði tekist það sem ég ætlaði mér.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.