Septemberkeppnis gleðiþemað - Hopputröllið og gleðivaðlan Ég ætla kannski að koma með “revised edition” eftir keppnina. Ég gerði þessa hugmynd fyrir þessa keppni, en í þróunarferlinu datt mér í hug önnur leið, sem passaði þó ekki vel inn í þemað.
ATH!
Athugið að myndin er einungis tímabundin hugsun höfundar sem gefur lesendum fullt leyfi að móta sínar eigin hugmyndir um Hopputröllið.

Í skóginum stóra skoppaði upp og niður lítið Hopputröll. Sumarið var að enda og allar verur skógarins þurftu að safna sér mat. En óþreyjufulla Hopputröllið skoppaði upp og niður af bræði yfir leiðinda vinnunni sinni að hoppa og ná í hnetur.
,,Ansans leiðindi eru þetta! Ég vill ekki láta lífið líða án gleði! Ég er farinn að gleðjast og skemmta mér!‘‘ sagði Hopputröllið og hoppaði af stað að leita að gleði. Eftir nokkuð hopp og skopp rambaði það á rjúkandi vöðlu á laublaðabotni skógarins. Litla Hopputröllið tók upp vöðluna og fann strax, að þetta var gleðivaðla. ,,Engin leiðindi núna!‘‘ sönglaði það og hélt af stað í gegnum skóginn.
Það mætti brátt úlfynjunni, sem lá þreytulega á skógarbotninum með hvolpana sína á iði út um allt.
,,Neih, daginn, Hopputröll. Hvað segirðu um að hjálpa mér við að passa ungana mína?‘‘ spurði úllfynjan, en Hopputröllið hristi hausinn.
,,Neibb,‘‘ svaraði það. ,,Ég ætla ekki að eyða ævinni í eitthvað svoleiðis. Ég ætla að vera glatt í dag! Þér er velkomið að slást í för, með gleðivöðlunni minni,‘‘ svo skoppaði það í burtu og skildi úlfynjuna eftir sem hristi hausinn. Hopputröllið fékk sér af gleðivöðlunni. Næst varð á vegi þess björn, sem velti sér um og sló frá sér býflugur.
,,Hopputröll! Góðan dag! Hvernig væri nú að hjálpa mér að safna smá hunangi?‘‘ spurði björninn.
,,Onei,‘‘ svaraði Hopputröllið. ,,Slík leiðindi eru ekki fyrir mig. Gleði, það er það sem ég vil! Meðan gleðivaðlan brennur, þá getur þú verið með!‘‘ Björninn hristi hausinn.
,,Ætli ég verði ekki frekar hérna, það þarf jú að finna mat fyrir veturinn,‘‘ svaraði hann og hló. Hopputröllið dáðist að gleðivöðlunni sinni, fékk sér meira af henni, skoppaði frá nokkrum býflugum og drakk enn í sig gleðina frá vöðlunni. Síðan hélt það áfram um skóginn. Íkornar nokkrir skoppuðu framhjá með hnetur í loppunum.
,,Sælinú, Hopputröll góða!‘‘ heilsaði Íkorni vinalega. Hopputröllið vinkaði glaðlega. ,,Segðu mér nú, vildirðu nokkuð hjálpa okkur að safna hnetum fyrir…‘‘
,,Held nú ekki! Ég fann þessa fínu gleðivöðlu, og ætla mér að verða glaður í allan dag, ef ekki út lífið!‘‘ svaraði Hopputröllið. ,,Safnið hnetum, ójá, hópleiðindi!‘‘ Íkornarnir ypptu öxlum og héldu áfram að safna hnetum. Hopputröllið fékk sér enn meira af gleðivöðlunni. Síðan stökk það inn í rjóður Blómálfanna, þar sem þeir flögruðu um og lokuðu blómunum.
,,Ó, Hopputröll, hvað dregur þig hingað?‘‘ spurði einn Blómálfanna.
,,Ég er bara svo glaður í dag! Ég fann þessa gleði…‘‘ Hopputröllinu var litið á fyrrum gleðivöðluna, sem var nú lítið annað en gapandi tóm hendi í vindinum. Hopputröllið snökti. ,,Ég… ég var glaður, því ég átti svo góða gleðivöðlu!‘‘ Skeifa tvisvar sinnum stærri en haus Hopputröllsins myndaðist á munni þess. ,,Nú get ég ekki verið glaður lengur!‘‘ grenjaði það, en Blómálfarnir hópuðust í kringum það og hugguðu.
,,Komdu,‘‘ sögðu þeir og fylgdu því til gamla einsetumannsins. Gamli einsetumaðurinn sat á trjábol fyrir utan kofann sinn og tók á móti Blómálfunum sem studdu við leitt Hopputröllið.
,,Hvað er að, litla Hopputröll?‘‘ spurði hann vinalegri rámri röddu.
,,Ég átti svo góða gleðivöðlu sem átti að gera mig glaðan í allan dag, en nú er hún búin og ég get ekki verið glaður aftur!‘‘ skældi Hopputröllið og snýtti sér í snjáðan frakka mannsins. Gamli einsetumaðurinn hristi hausinn og setti það á öxl sína.
,,Sjáðu,‘‘ sagði hann og haltraði í gegnum skóginn með Hopputröllið á öxl sinni. ,,Sjáðu Blómálfana,‘‘ Hopputröllið leit á Blómálfana, sem flugu ljúflega um loftið og svæfðu flóru skógarins. ,,Heldurðu að þeim leiðist, eða þeir séu leiðir?‘‘ Hopputröllið kinkaði kolli.
,,Að svæfa plöntur, minnka fegurð náttúrunnar,‘‘ sagði Hopputröllið. ,,Getur ekki verið gaman,‘‘
,,En… það er mikilvægt, annars deyja þær þegar veturinn kemur,‘‘ sagði gamli einsetumaðurinn. ,,Kannski er gleði í því að gera hið rétta, sama hversu rangt það virðist í fyrstu,‘‘ hann gekk áfram með Hopputröllið á öxlinni. ,,Sjáðu. Sjáðu íkornana, þar sem þeir fara saman og safna hnetum. Ætli þeir séu leiðir?‘‘
,,Já, ætli það ekki?‘‘ svaraði Hopputröllið með ekkasogum. ,,Það er svo leiðinlegt að safna hnetum!‘‘
,,Það getur verið, en hvað með félagsskapinn sem þeir hafa, ætli þeir séu glaðir að hafa hvorn annan að, jafnvel í leiðindum?‘‘ spurði gamli einsetumaðurinn og þeir héldu áfram. ,,Björninn, líttu á hann, þar sem hann kútveltist til þess að forðast stungur býflugnanna. Gæti hann verið glaður?‘‘
,,Þvílík fásinna, enginn gæti verið glaður í slíkri aðstöðu!‘‘ fullyrti Hopputröllið og strauk burtu tár söknuðar.
,,Hvers vegna ekki? Það er kannski ekki þægilegt að fá stungur, en það hlýtur að ilja sálina að vita af verðlaunum vel unnins verks. Tilhugsunin um hunangið sem hann á í vændum hlýtur að vera nokkuð góð,‘‘ sagði gamli einsetumaðurinn hugsi og þeir héldu áfram.
,,Aumingja úlfynjan,‘‘ sagði Hopputröllið. ,,Með alla þessa óþekku hvolpa, sem nuðast í henni og skríða yfir og undir. Aldrei friður handa henni, leið, ég finn til með leiða hennar,‘‘
,,Leið? Onei, nú ert þú á algerum villigötum, litla Hopputröll. Það gæti ég veðjað mínum ellefta putta upp á að hún er alls ekki leið. Það að geta fylgst með afkvæmum sínum vaxa og dafna, geta leiðbeint þeim og nært, að vera með þeim sem þér er kært… nei, ég held að hún sé mjög glöð,‘‘ mótmælti gamli einsetumaðurinn sefandi. ,,Sjáðu nú til, litla Hopputröll, það er stór munur á gleði; og skemmtun. Við ættum ávallt að vera glöð, sama hvað við tökum okkur fyrir. Hvort sem við vinnum eða lærum, þá ættum við að vera glöð að geta gert það. Það er ekki endilega skemmtilegt, en skemmtun er ekki sama og gleði. Þú fannst þessa gleðivöðlu, en gaf hún þér gleði? Nei, þú varst sorgmæddur eftir að hún fór, og þú varst latur. Það er ekki alvöru gleði. Þú þarft ekki eitthvað jafn veraldlegt og gleðivöðlu til þess að vera glaður. Líttu í kringum þig, sjáðu allt hitt sem getur glatt þig. Hjálpaðu vinum þínum, hjálpaðu sjálfum þér. Og vertu glaður. Lífið snýst ekki um að hafa gaman, eða að skemmta sér allan tíman, heldur að fá gleði og veita gleði,‘‘ Hopputröllið kinkaði kolli.
,,Nú skil ég, það sem ég upplifði var skemmtun, ekki gleði. Gleði er ekki hægt fá með einhverjum skjótum ráðum, hún verður að koma innan frá, að beiðni og verki manns sjálfs,‘‘ Hopputröllið skoppaði í burtu og veifaði gamla einsetumanninum. ,,Takk fyrir!‘‘

ENDIR