„Ertu þá….faaaaarinn….ertu þá….farinn frá mér….“

Ég gæti myrt hann, hengt hann, sparkað í hann en allrahelst myndi ég líklega öskra á hann, hoppa uppogniður einsog ofdekrað krakkaskrípi og hlaupa svo í burtu grátandi einsog lítið barn. Ég er þó hörð í hugsunum, og dagdreymi daglega um sársauka, helst hans samt. Sársauki fer mér ekki, andlitið afskræmist, fegurðin síast úr hinni listilega mótuðu mér og svo yrði ég pottþétt send á geðdeild, því ég hef verið svolítið skrýtin undanfarið. Fokk það samt, ég myndi ekki meiða mig nema óviljandi, en með minni heppni dytti ég á hníf.

Ég geng rösklega í átt að engu, því ekkert er nema ég í augnablikinu. Eflaust mætti færa rök fyrir því að ég væri því ekki að ganga rösklega, en það skiptir ekki öllu máli því ég var að vakna, og sólin skín svörtu einhvernveginn. Ég vaknaði samt við hana, því geislarnir brenna mig eftir sem áður.

Ef ég væri ekki skynsöm og gáfuð væri ég líklega núþegar inná geðdeild. Ég hef verið að hallast að því undanfarið að ég sé að snappa, detta í sundur og verða brotið eintak af engu. Eflaust er það rétt, en ég kýs samt eiginlega frelsið framyfir hvítpússaðar fertugar kynlífsdúkkur, einsog ég hef heyrt að stjórni alltaf öllu á geðdeildum.

En til þess að missa mig og endasendast til herra Hermanns þá..nei bíddu.

En ég er að fara að missa mig. Ég finn það einhvernveginn. Ég sem hélt alltaf að það væri ekkert mál að stjórna þessu. Svo er þetta bara algerlega óviðráðanlegur endalaus bömmer sem maður nennir ekkert. Allavega ekki ég, og ég er þó sterk, sjálfstæð, heilbrigð og barnlaus, samkvæmt sumum en ekki öðrum.

Hann er þó þarna, og það kann ég alveg að meta. Situr örugglega bara og horfir á kjánalega teiknimynd á einhverri leiðinlegri sjónvarpsstöð. Teiknimyndir eru geðveikari en ég, absúrd listaverk sem enginn tekur alvarlega, nema þá einsog um sé að ræða stórskáldsögu eftir verkfræðing frá Búlgaríu. Það er kannski hlutinn af absúrd teiknimynda, enginn elskar þær nema afabsúrd heimskutrýni með listfræðilegt sjónarhorn kokteilsósu. Nema þá að teiknimyndirnar séu áafabsúrd, eða semsagt svo absúrd í teiknimyndaabsúrdinu að þær eru flokkaðar absúrd, en þær koma líka frá Japan og Japan er absúrd, og mun líklega deyja með mér.

Hann má þó fara og hverfa, ég hef gefið mig þessu lífi og hef sjaldan skemmt mér jafnvel, held ég. Kasta samt stein í hann. Hann á það skilið.

„Ertu þá….maaaaarinn….ertu þá….marinn og sár….“

Ég er svona næstum því fyndin, og fíla það. Það hlær enginn með mér heldur að mér og ég fíla það því þau hlæja samt, og hlátur er yndislegur.

Og lífið er gott…og teiknimyndir alveg ágætar.

Með minni heppni mun svo jafnvel geðveikin svíkja mig. Mér finnst hún vera að hverfa. Kannski þurfti ég bara að kasta steini. Það er samt alltílagi, ég stóð í glerhúsi og hann var fyrir utan, þó hann sé inni að horfa á sjónvarpið.