Mér dauðbrá þegar ég opnaði augun og sá að ég var fjarri öllu sem ég átti að þekkja og venjast – það var mér gjörsamlega horfið. Þetta var ekki mitt rúm sem ég lá í, mitt rúm var miklu mýkra og stærra, auk þess var önnur lykt af þessu, lykt sem ég kannaðist við en kom ekki fyrir mig. Gardínurnar fyrir gluggunum voru líka öðruvísi en heima í herberginu mínu, þessar voru hvítar með grænum röndum og svo þunnar að birtan skein í gegn og ég áttaði mig á að það var hún sem hafði vakið mig.
Ég leit í kringum mig en sá eftir því undir eins, ofbirtan sem hvítir veggirnir og húsgögnin endurköstuðu skar í þrútin augu mín. Hvíti liturinn var allsráðandi þarna inni, yfirþyrmandi. Veggirnir voru hvítir, rúmið sem ég lá í var búið hvítri sæng og við hlið rúmsins stóð skjannahvítt náttborð, sem á var aðeins plastglas hálffullt af vatni. Loftið í herberginu var hvítmálað og ljósin voru hvít og ég sá á þeim að ljósið frá þeim myndi framkalla höfuðverk um leið og kveikt yrði á þeim. Það eina sem skar sig úr í þessu hvíta herbergi eilífðar og innilokunar var ljósgrátt gólfið og eldrautt hár mitt sem hvíldi á koddanum og lagðist yfir herðar mínar og bringu og ég sá hverfa undir sængina. Mér var hálf órótt, ég kunni ekki við mig í þessu ofbjarta herbergi. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri eins konar draumur, martröð. Eða var ég kannski dáin? Það hlaut að vera…
Og þó, það gat ekki verið að ég væri dáin, þá myndi ég ekki finna óbragðið í munninum og rífandi sársaukann í úlnliðunum og handleggjunum. Finna hvernig nagandi hugsanirnar og efasemdirnar bönkuðu óþreyjufullar innan í höfuðkúpuna í stöðugum tilraunum til að taka yfir. Ég fann mér til undrunar að mótstaðan var meiri en venjulega. Hvað var svo þetta sem ég heyrði, var það ekki umgangur fyrir utan herbergið sem ég lá í? Ég tók nú eftir dyrunum að herberginu, ég hafði ekki séð þær fyrr því þær runnu algjörlega saman við veggina, enda í sama andstyggilega hvíta litnum. Ég sá skuggamyndum bregða fyrir við þröskuldinn, í takt við fótatakið frammi. Hverjir voru það sem gengu þarna um? Varla voru það englar, þeir hafa ábyggilega ekkert fótatak. Dauðinn væri áreiðanlega ekki svona óþægilegur. Nei, það var útilokað að ég væri dáin.
Andskotinn. Þá hafði það ekki gengið upp… En hvar var ég þá niðurkomin? Það kom aðeins einn staður til greina, og skelfingin greip mig þegar ég lyfti upp höndinni til að ýta lokknum sem límdist við sveitt ennið á mér burt og sá hvítar, blóðugar umbúðirnar, skyndilega áttaði ég mig á hvar ég var. Spítalinn. Ég reyndi að setjast upp, ætlaði að hlaupa út eins og fætur toguðu, ég vildi sko engan andskotann með þennan stað hafa, þau gátu ekkert fyrir mig gert, en ég komst ekki neitt. Fætur mínir voru bundnir niður við rúmgaflinn og ég fann að ég gat ekkert gert, fékk engu ráðið lengur. Ég hafði misst völdin yfir sjálfri mér og hryllti mig við tilhugsunina um það sem beið mín, meðferðirnar og starfsfólkið, hversu ég var ósjálfbjarga og vanhæf, og ég brast í grát og reyndi að rífa mig lausa með engum árangri öðrum en þeim að ég hlaut sár á fæturna og umbúðirnar á höndum mínum urðu gegnblautar af blóði. Ég öskraði í angist minni en áður en ég vissi af voru þrjár hvítklæddar verur komnar inn í herbergið, tvær héldu mér niðri á meðan sú þriðja mundaði sprautuna og augnabliki síðar hvarf allt á ný, ró helltist yfir mig og ég vissi ekki af mér lengur.
Þannig var það næstu mínúturnar, eða voru það klukkustundir, jafnvel dagar? Tímaskyn mitt var ekkert í þessu dimma tómi, en það var betra en allt sem ég hafði áður upplifað. Ég fann ekki til vanlíðaninnar, áráttuþráhyggjunnar eða kvíðans. Loksins fékk ég að vera í friði, þangað til allt í einu ég fann eitthvað brenna það sem mig minnti að væru augu mín. Ég opnaði rifu á þau og sá að sólin seytlaði á mig gegnum hvítar gardínur með grænum röndum, hvar hafði ég séð þær áður?

:))
er þessi kínverji ?