Þessi grein er ætluð þeim sem standa sig illa í skólanum og vilja standa sig betur í. Ég vona að þetta eigi eftir að hjálpa einhverjum.

1. Ákvarðaðu hvaða lestraraðferð nota skal við verkefnið þitt.
Lestraraðferðirnar eru þrjár: lesa, skima og skanna.
Þegar þú lest yfir námsefnið þá ertu að lesa yfir hvern krók og kima til að læra námsefnið vel. Oft þarf maður að lesa efnið yfir oftar en einu sinni.
Þegar þú skimar yfir námsefnið líturðu hratt yfir hverja efnisgrein og reynir að átta þig á hvað meginefnið er. Þetta er aðallega nytsamlegt þegar þú þarft að lesa mikið af efni á stuttum tíma. Með æfingu geturðu auðveldlega staðið þig vel í bókaskýrslunni á morgun með því að skima yfir bókina á 2-4 tímum.
Síðasta aðferðin kallast að skanna og hana notarðu til að finna lítið magn af upplýsingum í miklu magni af texta. Við þetta og reyndar skimun líka finnst mér lang best að nota vísifingur til að hjálpa þér að fara yfir textann, en hver hefur sína hentisemi. Við skönnun hefurðu orðið eða setninguna sem þú ert að leita að eins ofarlega í huga þér og þér er unnt og notar svo vísifingur til að hoppa á milli staða í textanum og reynir að skanna í kringum það. Þetta virkar ótrúlega vel þegar þú öðlast æfingu í þessu.

2. Brjóttu stór verkefni í smærri búta.
Þegar þér finnst verkefnið sem þú ert að vinna vera yfirþyrmandi eða jafnvel ekki hægt að klára, er mjög gott að brjóta það niður í smærri búta. Þá ertu ólíklegri til að gefast upp. Segjum að þú skiptir því í fimm búta, þá gætirðu klárað einn í einu og getað mælt hve mikið þú hefur afrekað. Einnig er gott að verðlauna sjálfan sig eftir að hafa klárað stóran áfanga.

3. Slakaðu á!
Það er alveg ótrúlega mikilvægt að slaka á þegar þú ert að læra. Ekki fara æst(ur)/leið(ur)/pirruð(aður) að læra. Þú nærð mikið betri árangri þegar þú ert búin(n) að róa þig niður og hugurinn er róaður niður. Hugleiðsla hjálpar sumum.

4. Hafðu hugann við efnið öllum stundum
Það er alveg merkilegt hvernig mér tekst stundum að láta hugann reika ef ég passa mig ekki. Tíu mínútur gætu hreinlega horfið hér og þar, kannast ekki einhver við þetta?
Ef þú tekur eftir því að þú ert byrjað(ur) að dagdreyma, hættu því samstundis.

5. Hafðu áhuga á námsefninu
Hvernig stendur á því að íþróttafólk nær því að muna hver varð Reykjavíkurmeistari 2004, en man ekki hver þriðji keisari Rómar var? Svarið er einfalt: Áhugi. Ef þú hefur ekki áhuga á einhverju, þá er mikið erfiðara að standa sig vel í því heldur en ef þú hefðir áhuga á því. Því sem þú hefur brennandi áhuga á man heilinn mikið, mikið betur. Ef þú hefur ekki áhuga á námsefninu, hugsaðu hvernig það tengist við þig, eða hvað það sé í raun merkilegt. Ef það virkar ekki, reyndu þá að sannfæra þig í sífellu í tímum hvað þetta sé merkilegt fag. Í mínu tilfelli virkaði það á endanum… ég hef nú brennandi áhuga á sögu, believe it or not.

6. Taktu þér pásur
Það er ótrúlega mikilvægt að taka sér pásur inn á milli þegar þú ert að læra. Ef þú tekur þér pásur, þó ekki væri nema fimm mínútur hverjar 45, þá lærirðu mikið betur. Þú þarft hvíld. Það sem mér finnst virka vel er að ég fæ mér kríu þegar ég hef lært í 45 mínútur eftir að ég kem heim í svona hálftíma, og þá er ég góður fyrir kvöldið og þarf kannski ekki nema mínútupásu á milli.

7. TAKTU EFTIR Í STÆRÐFRÆÐITÍMUM
Það virkar ekki að læra allt á síðustu stundu ef þú hefur verið að slóra allan veturinn. Ef þú dregst aftur úr í stærðfærði, þá getur verið gríðarlega erfitt að ná sér upp á strik aftur (hehe upp á strik get it?). Það er miklu betra að öðlast skilning á efninu heldur en að læra eintómar formúlur og aðferðir. Ef þú lærir eintómar formúlur og aðferðir, þá er erfiðara fyrir þig að tengja fyrri þekkingu þína við nýja þekkingu.

8. Búðu til góðar glósur
Ekki búa til glósur þannig að glósusafnið þitt er efni í heila bók. Láttu nokkur stikkorð tengja þig við nokkur atriði, og svo geturðu þulið þessi atriði upp þegar þú lítur á stikkorðin og litið í bókina þér til hjálpar (ef þú notar þessa tækni er möst að hafa glósað þau atriði sem þú lætur glósurnar fjalla um, annars verður pirrandi að leita í bókinni). Mér finnst algjört möst að hafa blaðsíðutal í glósunum, sem auðveldar mér að finna atriðin í bókinni.

Þetta eru boðorðin átta sem ég held mig við í skólanum, og ég stend mig bara helvíti vel :D Vona að þetta hafi hjálpað einhverjum.