Star Trek X - Nemesis
“Athugið að atriði í myndinni geta vakið óhug fólks yfir meðalgreind.”

Það verður að viðurkennast að ég er ekki einn þeirra sem búinn er að bíða í ofvæni eftir þessarri mynd. Ég er lítið búinn að fylgjast með fréttum af henni hingað til og hef ekki gefið mér tíma til að spá í hana eitthvað.

Það gerðist svo í gær að ég fann fyrir einhverri löngun, sjálfsagt tryggð við gamla góða “TNG krúið” og við hjónin ákváðum að skella okkur og sjá gripinn.

Ég varð heldur en ekki fyrir vonbrigðum. Svo miklum vonbrigðum meira að segja að hér sit ég á sunnudagsmorgni með kaffibollann minn og nöldra yfir því. Ég virði vel þær skoðanir annarra hugara sem fram hafa komið í fyrri greinum, og ég er ekkert að reyna að snúa þeirra áliti á myndinni. Ég vil bara vara old school trekkarana við. :)

Ég er þeirrar skoðunar að bíómyndir rétt einsog fagurbókmenntir séu ekki virði þess tíma sem fer í að horfa á þær nema þær skilji eitthvað eftir sig, veki mann til umhugsunar, eða hreyfi við manni á einhvern hátt. Uppfylli þær ekki þessi skilyrði hef ég betra við tíma minn að gera. Ég hefði betur varið þessum tveim klukkustundum í annað.

Ég gat ekki séð að í myndinni væri ögn af boðskap. Það var engin siðferðisleg flækja, það var ekkert efni til að skemmta hinum hugsandi manni. Bara hasar, og þá ekki einu sinni frumlegur hasar, heldur bara Hollywood formúla, nokkuð sem sást vel á tilgangslausum slagsmálum Rikers í viðhaldsgöngum skipsins á meðan á geimorrustunni stóð. Svona hasar sem maður veit hvernig endar. Góði kallinn kýlir vonda kallinn og vinnur stelpuna. *prump* … þreytt, og algjörlega fyrir neðan virðingu Star Trek…. eða ætti að vera það að minnsta kosti.

Ég hafði vonast til að söguþráðurinn væri viðeigandi endir á “ferð heillar kynslóðar” einsog hann hefur verið auglýstur. Þess í stað var hann eins glær og óáhugaverður og hann gat orðið. Ekki beint eitthvað sem áhafnarinnar yrði minnst fyrir.

Aðal vondi kallinn, Shinzon - sem er sjálfsagt sá “nemesis” sem nafn myndarinnar er dregið af - stóð svo sannarlega ekki undir nafni. Bara enn einn ofleikinn, yfirdrifinn óþverri sem vekur ekki beint upp hugmyndir um úthugsaðan skúrk í mínum huga. Meira einsog illmenni í teiknimyndaseríu fyrir börn.

Geimorrustan sjálf er líka orðin voða þreytt. Ég er ekki að segja að hún hafi ekki verið vel tæknilega útfærð af brellusérfræðingum, ég er að kvarta yfir innihaldinu og “söguþræðinum”. Ég man ekki betur en að hún hafi verið notuð í öllum Next Generation kvikmyndunum til þessa. Æ, þið vitið, Enterprise-ið berst við einhvern óvin í geimnum og Picard eða Riker ákveða að leggja allt í sölurnar til að vinna. Sigla niður óvininn (Nemesis) eða sprengja geimskýið að baki sér (Insurrection) … sama tóbakið.

Annars sniðugt hjá þeim að endurnýta skúrkinn úr síðustu mynd (Insurrection). Man einhver eftir Ru'afo. Hann var fársjúkur, stóð faktískt á grafarbakkanum. Einnig stjórnaðist hann af hatri sem spratt úr gerjaðri minnimáttarkennd. Gott ef hann bjó ekki yfir hálfgerðu gereyðingarvopni sömuleiðis og var tilbúinn að fórna öllum til þess eins að fróa eigin þörf á að sýna að hann væri ekki með lítið typpi. Jújú, hann birtist hér aftur í vini okkar Shinzon. Ég er mest hissa á að þeir skuli ekki bara hafa beðið Abrahams um að leika hann aftur. Þeir hefðu kannski getað fengið svona tveir-fyrir einn afslátt hjá leikaranum.

Ég hefði frekar viljað sjá þessa mynd notaða til að hnýta lausa enda í persónum seríunnar, og gefa okkur hugmynd um hvaða stefnu þau tækju. Það var vissulega gert að nokkru leyti, en ég hefði viljað sjá mun meiri fókus á það, minni á þennan hjákátlega Shinzon.
(\_/)