Íran á okkar tímum, I: There Will Be Blood Saga Íran frá 19. öld er saga sem litast af erlendri íhlutun, olíugræðgi og misvel heppnaðra tilrauna til nútímavæðingar.
Ástandið í dag er heldur dapurt, í það minnsta út frá okkar vestræna sjónarmiði. Í landinu er ört vaxandi fíkniefnavandamál, konur hafa mjög takmörkuð réttindi, sjaría-lög gilda með tilheyrandi mismunun og kúgun og hinn öfgafulli forseti landsins, Mahmud Ahmadinejad, vill koma upp kjarnorkuvopnabúri. Það vekur því athygli þegar saga landsins er skoðuð að á tímabili virtist framtíðin tiltölulega björt fyrir þjóðina, hún var að ná yfirráðum yfir eigin olíulindum og var loks sameinuð undir lýðræðislegum og nútímalegum umbótasinna, þ.e.a.s. Mossadeq.
Hvað fór úrskeiðis? Hvers vegna er Íran í dag eitt helsta vígi öfgasinnaðra múslima? Hvers vegna eru Íranar, þrátt fyrir að eiga einar af auðugustu olíulindum heimsins, svo fátæk og vanþróuð þjóð?
Í þessari greinaröð ætla ég að gera tilraun til að svara þessum spurningum. Í þessari fyrstu grein rek ég í stórum dráttum þróun, ris og hnignun keisaraveldisins í Íran fram á 20. öld og m.a. verður minnst á fyrstu spor klerkanna sem áttu eftir að spila veigamikinn þátt í stjórnmálaþróun landsins á 20. öldinni.

Íran, sem gekk reyndar undir nafninu Persía til 1935, var íslamskt keisaraveldi (Shah) frá fornum tímum. Á tímabilinu 1501 til 1722 var Safavid-konungsættin við völd. Safavid-konungsættin innleiddi sjía-íslam í öll héruð Persíu, en þetta er mikilvægt með tilliti til valdatíðar Khomeini eins og komið verður að síðar. Á valdatíma Safavid-ættarinnar óx Persía talsvert í erjum sínum við Ottómanaveldið og náði hápunkti um miðja 17. öld, en þá tók við hnignun veldisins. Þessa hnignun má rekja til óstjórnar eyðslusamra keisara og minnir um margt á sögu frönsku konungsfjölskyldunnar tæpri öld síðar. Svo fór að nokkrir ættbálkar gerðu uppreisn árið 1722 og þurfti lítið til að kollvarpa keisarastjórninni. Þessi atburður var þó ekki upphafið á neinu blómaskeiði þjóðarinnar neitt frekar en franska byltingin.
Seinna þetta sama ár hrifsar afganskur höfðingi völd og næstu ár einkennast af valdabaráttu hinna ýmsu höfðingja og herforingja á meðan Ottómanar og Rússar grípa gæsina meðan hún er volg og leggja undir sig landssvæði Persa.
Um miðja 18. öld er stutt endurreisnartímabil þar sem Persía sameinast undir stjórn herforingjans Nader Shah og tekur aftur landssvæði af Ottómönum og Rússum. Nader Shah er síðan ráðinn af dögum 1747 og í kjölfar þess ríkir stjórnleysi til 1796. Á þessum árum ganga Bretar og Frakkar sífellt lengra í nýlendustefnum sínum og smátt og smátt gera þeir stóra hluta Persíu að nýlendum sínum, sér í lagi Bretar.
Þetta leiðir til þess að flestir höfðingjar landsins verða sammála um að sameiningar sé þörf, og kemst Qajar-ættin þannig til valda árið 1796.
Það verður seint sagt um 19. öldina að hún hafi verið öld mikilla sigra fyrir Persaveldi. Þrátt fyrir sameiningu þá töpuðu Persar miklum landssvæðum á Kákasus-skaganum til Rússa í tvennum stríðum, fyrra (1804-1813) og seinna (1826-1828) Kákasusstríðinu. Árin 1856-1857 töpuðu þeir landssvæðum í austri til Breta í stríði þar sem hernaðaryfirburðir Breta komu skýrt í ljós gegn úreltum her Persa.

Undir lok 19. aldar tifaði Qajar-veldið á mjóum fótum. Konungsættin var orðin gríðarlega óvinsæl eftir niðurlægingar á stríðsvellinum trekk í trekk, nútímavæðingin gekk löturhægt og iðnbyltingin virtist hafa sniðið algjörlega fram hjá landinu. Í raun er hægt að finna margar hliðstæður við Ottómanaveldið sem riðaði til falls á sama tíma af svipuðum orsökum; of hæg nútímavæðing og niðurlæging á stríðsvellinum, þ.e. í fyrri heimsstyrjöldinni. Enn var við lýði lénsveldi, fámenn yfirstétt átti stóran meirihluta ræktunarlandanna og breskir kaupsýslumenn höfðu æ meiri ítök í efnahagslífinu.
Í þessu sambandi er áhugavert að skoða tóbaksuppreisnina svokölluðu, árið 1891. Þannig var mál með vexti að í efnahagskreppunni sem reið yfir landið á þessum tíma seldi þáverandi Shah bresku fyrirtæki einkarétt á útflutningi, ræktun og sölu tóbaks í Persíu, í vanhugsaðri tilraun til að afla ríkinu fjár.
Þetta vakti mikla reiði, bæði almennings og kaupmanna, en tóbak var stór partur af daglegu lífi Persa, bæði atvinnulega og svo var notkun þess gríðarlega algeng. Í desembermánuði ákvað svo æðstiklerkur í borginni Shiraz að sýna löndum sínum samhug og birti yfirlýsingu þess efnis að tóbaksneysla væri andvíg trúnni. Þá hóf almenningur að sniðganga algjörlega allar tóbaksvörur og náðu mótmælin svo langt að jafnvel undirmenn keisarans neituðu að kveikja í pípunni hans. Keisarinn sá sig tilneyddan til að segja upp samningnum við Bretana og birti þá klerkurinn í Shiraz nýtt álit sem leyfði skyndilega aftur tóbaksneyslu.
Þessi atburður er veigamikill bæði vegna þess að þarna sáu klerkarnir fyrst hversu mikið vald þeir höfðu í raun og vegna þess að þarna vaknaði mótmælahugur í írönsku þjóðinni.
Þessi mótmælahugur braust svo út í hinni svokölluðu stjórnarskrárbyltingu sem stóð 1905-1911.

Stjórnarskrárbyltingin braust út eftir að þungir skattar voru lagðir á alþýðuna til að endurgreiða stórt lán sem keisarinn hafði tekið til að fjármagna ferðir sínar til Evrópu. Klerkarnir slógust fljótt í lið með byltingarsinnum og 1906 náðu þeir að knýja fram stjórnarskrá sem takmarkaði völd keisara og stofnað var þing, Majli, sem átti að fara með völd.
Þáverandi keisari undirritaði stjórnarskrána með semingi en dó svo 6 dögum síðar og sonur hans, sem tók við, barðist næstu ár við að koma stjórnarháttum í fyrra form og geisaði borgarastyrjöld til 1911.

Það er svo einmitt á þessum ólguárum sem sannarlega veigamikill atburður á sér stað. 26. maí, 1908. Í afskekktum dal í Persíu, gýs upp olía við olíubor breska olíufélagsins Anglo-Iranian Oil Company (AIOC) eftir 7 ára árangurslausa leit útsendara þess.
Þetta var lokatilraun hans en fyrirtækið var að verða gjaldþrota og hafði skorið á fjármögnun til þessa verkefnis.
Þessi atburður átti eftir að marka djúp spor í sögu landsins á næstu öld, og erfitt er að segja til um hvort þetta hafi verið böl eða blessun fyrir írönsku þjóðina þegar öllu er á botninn hvolft.
Eitt er víst; there will be blood.

Mynd: Portrett af Muzaffer Qajar, einn af síðustu Qajar-keisurunum, þekktur fyrir óhóflegt bruðl og ást á evrópskum munaðarvörum.
Romani ite domum!