Merkiskonur sögunnar - gagnrýni Bókin Merkiskonur sögunnar eftir Kolbrúnu S. Ingólfsdóttur vakti athygli mína enda oft fáar konur til umfjöllunar í hefbundnum yfirlitsbókum um mannkynssöguna. Ég er ekki sagnfræðingur né sérstaklega fróð um söguna en er forvitin um merkilegt fólk. Ég get því lítið gagnrýnt sagnfræðilegan þátt bókarinnar nema sem almennur lesandi.

Hugmyndin um að taka saman bók með stuttum kynningum á merkilegum konum sögunnar er mjög góð og þörf en afurðin olli mér miklum vonbrigðum.

Bókin kom út árið 2009 hjá Veröld, er 326 síðna innbundin bók tekin saman af Kolbrúnu S. Ingólfsdóttir. Ekki eru gefnar neinar upplýsingar um höfundinn, menntun hennar eða fyrri verk. Alls eru 33 konur kynntar, hver í sínum kafla nema Brönte systurnar þrjár sem deila með sér einum kafla. Konunum er raðað í aldursröð en einnig er þeim skipt niður í níu yfirkafla. Elstu konurnar sem sagt er frá eru fornaldarkonur en allar eru þær fæddar fyrir 1870.

Kápa bókarinnar er smekkleg en mér finnst hún frekar væmin fyrir þær hörkukonur sem hún fjallar um.

Val kvennanna er ágætt að mínu mati. Auðvitað er fjallað um stór nöfn eins og Kleópötru og Elísabetu I, margar konurnar ég heyrt um en þekkti lítið til og enn aðrar hafði ég aldrei heyrt um en voru klárlega stórmerkilegar konur. Hæpnast fannst mér að hafa Guðrúnu Ósvífursdóttur með í bókinni. Guðrún er stórmerkileg bókmenntapersóna en í sagnfræðilegu samhengi er arfleifð hennar lítil.

Mér þykir leiðinlegt að umfjöllunin er einungis samfelldur texti. Þetta háir bókinni þar sem lýsingum á flóknum ættartengslum kongungsfjölskyldna, langar upptalningar á afkomendum og fleira hefði mátt einfalda til muna með ættartöflum eða rammagreinum. Einnig hefðu myndir lífgað mjög mikið upp á textann.

Gaman er að sagt er frá bíómyndum og leikritum sem fjalla um konurnar þótt þarna sakni ég þess að í kaflanum um Guðríði Þorbjarnardóttur sé minnst á einleikinn Ferðir Guðríðar.

Heimildaskrá fyrir bókina í heild er aftast og er ekki flokkuð eftir umfjöllunarefni. Ekki er vísað til heimilda í textanum. Í kynningarbók sem þessari fyndist mér eðlilegt að hafa þær heimildir sem stuðst er við sýnilegar við hlið umfjöllunarinnar til að auðvelda lesendum að finna ítarefni. Ef til vill líka hefði verið gott að hafa mannanafnaskrá í bókinni en það er kannski ekki endilega nauðsynlegt í verki af þessari stærðargráðu.

Einn hluti bókarinnar kallast Íslenskar valkyrjur en þar eru teknar fyrir Auður djúpúðga, Guðrún Ósvífursdóttir og Guðríður Þorbjarnardóttir. Umfjöllunin um þær byggir að langstærstum hluta (ef ekki algjörlega) á Íslendingasögum. Í kaflanum um Guðrúnu er sleginn varnagli um heimildagildi Íslendingasagna en nær hefði verið að gera það í inngangi yfirkaflans. Í raun eru frásagnirnar lítið annað en endursögn Íslendingasagnanna þar sem þessar konur koma fyrir. Sérstaklega er þetta áberandi í kafla Guðrúnar Ósvífursdóttir sem er ellefu blaðsíðna útdráttur úr Laxdæla sögu. Bæði í hennar kafla og kafla Guðríðar er fyrirboðum og ráðningum þeirra gerð ítarleg skil sem mér finnst ekki endilega eiga heima í sagnfræðilegri bók sem þessari.

Það sem háir bókinni allra mest er textinn sem er ekki góður hvað varðar uppbyggingu, stíl og málfar. Hann laus við stafsetningar- og innsláttarvillur, að mér virðist, en það bjargar litlu.
Oft fer sviðsljósið af konunni sem er til umfjöllunnar yfir á karlmenn sem tengjast henni. Upp að vissu marki er þetta nauðsynlegt en víða gleymist konan of lengi. Flakkað er fram og til baka í tíma, víða er að finna ónauðsynlegar og ruglandi innskotssetningar, flóknar og langar ættfræðiupptalningar eru illskiljanlegar og ekki er samræmi í því hvort hugtök eru útskýrð eða ekki. Til dæmis er útskýrt að skrælingjar hafi verið frumbyggjar Norður-Ameríku en orð eins og hersir eða kanúkki eru ekki útskýrð.

Orðanotkun fannst mér stundum tilgerðarleg og textinn morandi í orðasamböndum. Erlend mannanöfn eru íslenskuð þegar því er við komið. Hefð er fyrir þessu með evrópskt kóngafólk en mér fannst heldur kjánalegt að lesa um ljóðskáldin Alfreð Tennyson og Vilhjálm Blake. Hefðu þá ekki líka átt að vera Jón Stuart Mill og Vilhjámur Shakespeare? Ósamræmi af þessum toga er að finna í kaflanum um Maríu I. Túdor Englandsdrottningu þar sem bæði er minnst á Lundúni og London.

Almennu málfari og orðaröð er líka ábótavant. Til dæmis er á blaðsíðu 283 skrifað: „Í Kantaraborg hittu þær í teboði hjá biskupsfrúnni…“ Skýrara hefði verið: „Í teboði hjá biskupsfrúnni í Kantaraborg hittu þær…“ Þegar hratt er farið yfir sögu og efnið er flókið veitir ekki af því að málfar sé skýrt og textinn læsilegur.


Mér þykir mjög leiðinlegt að rífa þessa bók í mig eins og ég hef gert en Merkiskonur sögunnar er léleg framkvæmd á frábærri hugmynd. Bókin hentar þokkalega til að fá hugmyndir að ritgerðarefni en því miður er þetta ekki góð skemmtilesning. Efnið er mjög áhugavert en framsetningin hefði mátt vera númalegri, líflegri og textinn hefði þurft að vera rækilega yfirlesinn.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.