Loftárásin á Dresden - Seinni hluti …áfram heldur þessi fremur nöturlega saga.

(Myndin sem fylgir þessum seinni hluta, er af Frúarkirkju í Dresden).


Sprengidagur

Í Dresden hafði þriðjudagurinn 13. febrúar verið góðviðris-vetrardagur, eins venjulegur og hugsast gat á þessum hættutímum. Haldnar voru “carnival” skemmtanir, eins og löng hefð var fyrir á Sprengidag (eins og við Íslendingar köllum daginn). Það hafði verið skýjað mest allan daginn, en síðdegis birti til, og því var kvöldsól og dimmdi óvenju seint miðað við árstíma. Margir sem þarna voru, segja því að óvenju létt hafi verið yfir fólki í borginni miðað við aðstæður. Þetta hafði þrátt fyrir allt “stríðsvesen” verið ágætis dagur, og fólk fór að búa sig undir svefninn.

Skömmu eftir kl. 22 gáfu loftvarnasírenur “almenna aðvörun” í Dresden, sem þýddi að vart hefði orðið við sprengjuflugvélar í nágrenninu, og rétt að hafa varann á. Borgarbúar voru nú orðnir svo vanir slíku að þeir kipptu sér ekki mikið upp við það. En skömmu síðar var síðan gefið mun háværari “alvarleg aðvörun”, sem þýddi að borgin yrði nær örugglega fyrir árás. Um alla borgina flykktist fólk niður í kjallara.

Himinn var nánast heiðskír. Breski Lancaster-flotinn þurfti varla á Moskító-leiðsöguvélum sínum að halda til að finna hið víðáttumikla þéttbýli Dresden-borgar: Nóg var að horfa niður á Saxelfi og fylgja henni. Drunurnar í Lancaster flotanum voru þegar farnar að heyrast í Dresden þegar fjórar Moskítur flugu fremur lágt yfir borgina og slepptu blysum, “target markers” sem lýstu upp svæðið og afmörkuðu miðborgina. Blys þessi voru ekki ósvipuð flugeldum – þau dreifðu úr sér og voru falleg á að líta, kölluð “jólatré”. En þau færðu þó hvorki fögnuð né frið.


Eldstormur

Það sem nú fylgdi, var að hálfu Breska flughersins úthugsað, enda menn voru menn á þeim bænum komnir með hátt í þriggja ára reynslu af eyðingu stórborga. Fyrstu sprengjunum sem varpað var, voru “venjulegar” sprengjur, “high explosive”. Þær rústuðu húsum, eða í það minnsta sprengdu af þeim þökin og úr þeim rúðurnar. Næsta bylgja kom síðan með íkveikjusprengur “incendiary”, með efnum eins og fosfór og napalm, sem að sjálfsögðu virkuðu betur á skemmd hús en heil.

Enda fór þessi gamla miðalda-miðborg, með miklu timbri í sínum steinhúsum, mjög fljótlega að loga. Ofan á það var líka varpað svokölluðum “loft-tundurduflum”, sem voru mörg tonn á þyngd, svifu niður í fallhlífum og voru stillt til að springa lágt yfir jörðu til að hámarka eyðileggingu höggbylgjunnar.

Þessa aðferð höfðu Bretar áður notað á aðrar þýskar borgir, en sjaldan höfðu verið jafn miklar “kjöraðstæður” eins og nú – Varnarlaus og fremur óviðbúin borg, með sérlega gömlum byggingum í sérlega þéttum röðum; heiðskírt vetrarveður með smá golu til að fóðra eldana – það var hreinlega allt hinum breska RAF “í hag” þessa nótt, enda sögðu sumir liðsmenn þeirra síðar, að þessi árás hefði líklega “heppnast of vel”.

Eldarnir í miðborg Dresden loguðu nú stjórnlítið. Þegar slökkvilið borgarinnar þorði loks að koma upp úr byrgjum og reyna að ná tökum á ástandinu, kom enn ein bylgja af breskum sprengjuflugvélum og varpaði fleiri sprengjum á eldhafið sem borgin var nú orðin.

Afleiðingin varð sjaldgæft náttúrufyrirbrigði sem kallað er “eldstormur”. Hann verður til við sértakar aðstæður, þegar margir eldar á stóru svæði sameinast og mynda logandi hvirfilbyl, sem sogar í sig allt nálægt. Í náttúrunni getur þetta gerst t.d. í miklum skógareldum, en fyrsti eldstormur af mannavöldum er talinn hafa orðið í loftárás Breta á Hamborg árið 1943.

Undir slíkum stormi fær ekkert lifað. Jafnvel þótt margt fólk í miðborg Dresden væri óhult fyrir eldum og sprengingum niðri í byrgjum, þá sogaði eldstormurinn allt súrefni þaðan og olli skjótu og sársaukalausu andláti. En fæst af því fólki sem fórst þessa nótt, var svo “heppið”. Langflest brann það til bana.

Eldstormurinn í Dresden varði frameftir nóttu. Þær sprengjuflugsveitir sem enn áttu eftir að “létta á sér” yfir borginni, þurftu enga radíótækni eða leiðsöguflugvélar til að vísa sér veginn. Vítiseldurinn var sjáanlegur úr hundruð-kílómetra fjarlægð. Margar sprenguvélanna þurftu frá miðborginni að hverfa, slíkur var sviptivindurinn og reykurinn frá eldstorminum. Þeir vörpuðu þá bara sprengjum sínum yfir úthverfum í staðinn, enda greinilega ekkert meir eftir í miðborginni til að sprengja.


Öskudagur

Þegar eftirlifendur skriðu loks upp úr byrgjum, blasti við þeim hörmuleg sýn. Dresden - þessi gamla, fallega og sögufræga borg – var horfin. Bókstaflega. Hér voru nú aðeins margir ferkílómetrar af brunarústum. Sterk brunalykt var í loftinu, en þegar hún hjaðnaði, tók önnur og verri lykt við, nályktin.

Eins og áður var nefnt, voru kjallarar um alla miðborgina notaðir sem loftvarnabyrgi. Þar lágu nú, eða jafnvel sátu, eins og styttur eða vaxmyndir, lík fólks sem hafði látist af súrefnisskorti. Meira var þó um kolbrennd, eða jafnvel soðin lík: Í gosbrunni einum fundust tugir af líkum fólks sem reynt hafði að flýja þangað undan eldstorminum. Og í vatnsgeymi einum fundust svipað útleikin lík skólastúlkna.

Þýska stjórnkerfið var furðu-skilvirkt í viðbrögðum sínum. Strax var sent hjálparlið frá nálægum borgum, og einnig afar harðsnúið SS-lið til að halda uppi “lögum og reglu” í rústunum. “Lík-námumenn” úr röðum bæði rússneskra og vestrænna stríðsfanga voru settir til starfa við að finna og brenna lík, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.

Bandamenn voru þó ekki enn alveg búnir. Þennan sama dag mætti Bandaríski flugherinn með sínar B-17 vélar á svæðið, og fleygði sprengjum yfir eina af aðal úthverfa-járnbrautarstöðvum Dresden-borgar. Þangað höfðu þúsundir fólks flúið undan sprengjuregninu um nóttina. Þarna fórust hundruðir til viðbótar, en eftirlifendum fannst nú, skiljanlega, að Bandamenn væru beinlínis farnir að ofsækja sig persónulega.

Enn ein, en mun minni árás var síðan gerð á Dresden næstu nótt, og virðist óneitanlega vera síðasta sparkið í liggjandi mann. Þessa nótt kom það einnig fyrir, þrátt fyrir alla nýju radío-leiðsögutæknina, kom það fyrir að einn bandarískur sprengjuvélaflokkur villtist illilega. Þeir fóru þá að ráðleggingum Breta; að fylgja fljótinu uns þeir kæmu að stórri borg með mörgum brúm. Þeir fylgdu fljótinu, eftir því sem skyggnið leyfði á milli skýjakafla, fundu borgina og slepptu sprengjunum. En fljótið var ekki Saxelfur heldur Moldá, og borgin var ekki Dresden heldur Prag! Miðað við öll ósköpin sem gengu á allt í kring, urðu skemmdir og mannfall blessunarlega lítið.

Stór-árás Breta á Leipzig nokkrum dögum síðar, varð hvergi nærri jafn áhrifarík eins og Dresden-árásin, þó ekki hafi viljann vantað hjá RAF. Veður var verra, sem olli því að mörgum sprengjum var varpað um “hvippinn & hvappinn” í nágrenni borgarinnar. Auk þess hafði borgin áður orðið fyrir alvarlegum loftárásum, og var því mun viðbúnari. Enginn eldstormur náði að skapast þar.

Skömmu síðar, þegar Bandamenn höfðu hafið sókn sína yfir Rín, var loksins ákveðið að hætta stór-árásum á þýskar borgir. Ekki er þó talið að fréttir af Dresden-árásinni hafi átt stærstan þátt í þeirri ákvörðun. Þessar árásir voru einfaldlega orðnar tilgangslitlar, og að auki íþyngjandi - Þær myndu lítið gera nema að auka á flóttamanna- og uppbyggingar-vandamálin í hinu hernumda Þýskalandi eftir stríðið.

Hversu grimmilega “kalt” mat á aðstæðum þetta kann nú á dögum að virðast, þá var það líklega hárrétt. Ekki löngu síðar hóf hinn feyki-öflugi Rauði her Sovétríkjanna lokasókn sína gegn Htlers-Þýskalandi. Þeir náðu fjótlega rústum Dresden á sitt vald.


Sláturhús Vonneguts & Irvings

Almenningur í löndum Bandamanna, frétti ekki strax af því hversu hroðaleg árásin hefði í raun verið, enda orðinn alvanur fréttum af hörðum loftárásum á þýskar borgir. Aðeins nokkrum vikum síðar var gerð enn skelfilegri árás á Tókýó, og í ágúst þetta sama ár, eftir að Evrópustyrjöldinni var lokið, komu svo “stóru bomburnar” á Hiroshima og Nagasaki. Þær drógu eðlilega athyglina að sér. Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar að menn fóru að skoða Dresden-árásina betur.

Í Dresden var (eins og áður var nefnt) talsverður fjöldi af stríðsföngum. Einn þeirra var kornungur bandarískur hermaður að nafni Kurt Vonnegut jr, sem síðar varð einn af frægustu rithöfundum síns lands, þótt aldrei hlyti hann verðskulduð Nóbelsverðlaun.

Árið 1969 gaf hann út sitt frægasta verk, Slaughterhouse-Five, súrrealíska skáldsögu þar sem Dresden-árásin er þungamiðjan í ævi söguhetjunnar – rétt eins og höfundarins. Sú bók (sem einnig var fljótlega kvikmynduð), hefur æ síðan mótað ímynd og skoðanir margra á árásinni.

Dresden-upplifun söguhetjunnar Billy Pilgrims er án nokkurs vafa, stílfærð útgáfa af því sem Vonnegut upplifði sjálfur: Hann var tvítugur “nörd” sem langaði alls ekki að drepa einn eða neinn, en þurfti að fara í herinn. Var síðan sendur til Evrópu, tekinn til fanga, etc. Lýsingarnar á hörmungunum eru á köflum grafískar og drungalegar, en þær eru “dempaðar” af óvenjulegu sjónarhorni Pilgrims á lífið, tilveruna og dauðann.

En dánartalan 135 þúsund, sem oft kemur fyrir hjá Vonnegut, virðist nútíma sagnfræðingum vera fjarri lagi. Hún mun upphaflega vera komin úr bók David Irvings ( The Destruction of Dresden, 1963), sem einnig vakti mikla athygli og umræður þegar hún kom út. Irving var á þeim tíma talinn efnilegur ungur sagnfræðingur, en varð síðar á ferli sínum helst frægur fyrir “Helfarar-afneitun” og fleira í þeim dúr, og lítið mark er nú til dags á þeim “gamla rugludalli” tekið.


Var árásin á einhvern hátt “réttlætanleg”?

Eins og milljóna-morðingja er siður, rak Dr. Jósef Goebbels, áróðursráðherra Þýskalands, strax upp heilmikið ramakvein yfir þessu “grimmdarlega fjöldamorði á almennum borgurum”. Það kom úr al-hörðustu átt.

Breytti þá litlu þó hann og hans ástsæli “Foringi” hefðu hvað eftir annað á undanförnum árum staðið fyrir loftárásum á saklaust fólk friðsamra nágrannalanda. Og jafnframt hvatt til útrýmingar heilla kynþátta – og síðan fylgt því eftir í stórkostlegri og viðbjóðslegri mæli en nokkru siðuðu fólki gat grunað þá.

Árið 1942, þegar Bretar höfðu vogað sér að ráðast á hina fornu miðalda-hafnarborg Lübeck, fóru Þjóðverjar af stað með svokallaðar “Baedeker-árásir” sínar, sem miðuðu beinlínis að því að rústa nokkrum af helstu og elstu menningarborgum Englands: Exeter, Bath, Norwich,York, og Canterbury. Þó svipað menningargildi og fegurð hefðu, þá komst engin þessara smáborga nálægt Dresden í stærð og hernaðargildi.

Þar að auki fyrirskipaði Hitler, að bæði Róm og París skyldu jafnaðar við jörðu áður en herir hans yfirgæfu þær borgir. Og að Þýskalandi öllu skyldi rústað eftir sinn dag. Hvað segir þetta okkur um virðingu Hitlers & Co fyrir evrópskum menningarverðmætum, svo ekki sé talað um mannslífum?

Loftárásin á Dresden er þannig að mínu mati ekki réttlætanleg frekar en önnur slík verk, en skiljanleg í ljósi aðstæðna.


Eftirmálinn

Eftir stríðið lenti Dresden á sovéska hernámssvæðinu, og þar af leiðandi í “Þýska Alþýðulýðveldinu” eða Austur-Þýskalandi þegar það var stofnað. Það ríki var líklega hið kreddufastasta af kommúnistaríkjum Austur-Evrópu – Harð-stalínískt löngu eftir að tími Stalíns var liðinn. Borgarrústirnar voru smám saman byggðar upp, en ekki eins og gamla borgin hafði verið, heldur í nýjum “sósíalískum anda”. Betra þótti að hafa stál, steinsteypu & gler heldur en einhverja “auðvalds” eða “borgaralega” listasmíði fyrri alda! (Verst hefur hörðustu kommunum eflaust þótt, að Prag og Búdapest var ekki rústað líka). En eftir valdatíma kommúnista hefur meira verið gert í að endurreisa forna fegurð borgarinnar.

Besta dæmið um það, er kannski frægasta bygging gömlu Dresden, Frúarkirkjan. Hún var byggð í Barrokk-stíl á 18. öld, en var gjöreytt í árásinni. Rústir hennar stóðu nánast óhreyfðar allt fram að sameiningu Þýskalands árið 1990. Þá var loks farið að endurbyggja hana, og stóð það verk yfir allt til 2005, þegar hin endurreista Frúarkirkja var vígð. Við endurbygginguna var notað allt nothæft sem bjargast hafði úr gömlu kirkjunni, auk muna úr hinni fornu Coventry-dómkirkju á Englandi, sem hlotið hafði sömu örlög í harðri loftárás Þjóðverja árið 1940. Coventry og Dresden eru í dag alvöru “vinaborgir” - með meiri raunveruleg tengsl sín á milli en flestar aðrar borgir sem þannig eru splæstar saman, stundum nánast af handahófi.


Þökk þeim er lásu.


Heimildir:

Þessi grein á flest að þakka einni bók: Dresden, Tuesday, February 13, 1945 eftir sagnfræðinginn Frederick Taylor. Þessi bók var frábær lestur, og viðurkenni að hafa “stolið” mörgu uppúr henni. Þá helst frásagnarstrúktúr og dramatík. Hinsvegar er ekkert orðrétt þýtt uppúr henni, og mínar skoðanir eru hér meira ríkjandi en Taylors.
_______________________