Er Taívan hluti af Kína? Skrifaði þessa ritgerð einhverja vetrarnótt fyrir réttu ári til að bjarga mér frá falli í einhverjum söguáfanga. Rakst á þetta núna og datt í hug að lífga eitthvað uppá þetta áhugamál.

Í fljótu bragði virðist spurningunni sem sett er fram í titlinum auðsvarað. Taívan er nefnilega stærsta eyjan í Lýðveldinu Kína. Þó er þar einn hængur á, þar sem Lýðveldið Kína er ekki það sem í daglegu tali er kallað Kína. Það land heitir fullu nafni Alþýðulýðveldið Kína og er það staðsett á meginlandi Asíu. Það sem aðskilur þessi ríki er þó meira en bara nafnið og Taívansundið og mun ég fara nánar út í það.

Kínverska byltingin

Í byrjun tuttugustu aldarinnar stjórnaði Mansjú ættin keisaraveldinu Kína og hafði gert það síðan árið 1644. Þegar þarna er komið við sögu er hið hnignandi keisaraveldi byrjað að mæta mikilli andstöðu á meðal fólksins í landinu. Margir byltingarhópar höfðu þá myndast en einn stóð upp úr sem skipulagðasti hópurinn. Sá sem stýrði honum var læknirinn Sun Yat-sen, en hann var mjög vinsæll á meðal þeirra Kínverja sem dvöldu erlendis, og þá sérstaklega þeirra sem í Japan dvöldu.

Sun Yat-sen var bóndasonur frá Canton og hafði stundað nám í Kína, Hawaii, Hong Kong auk þess sem hann hafði kynnt sér verk þeirra Henry George og Karls Marx á bókasöfnum Lundúnaborgar. Þrátt fyrir vestræna þekkingu hafði hann nægilega kínverska menntun til að vera hlutgengur í hinu kínverska þjóðfélagi sem hafði mikla andúð á útlendingum.

Hugmyndafræði Sun Yat-sens byggðist á þremur grunnstoðum, en þær voru þjóðernishyggja, lýðræði og lífsviðurværi fólksins. Fyrstu stoðinni, þjóðernishyggjunni, átti að beita í þann farveg að kollvarpa Mansjú keisaraættinni sem átti uppruna í Mansjúríu í Norðaustur-Kína. Önnur stoðin, lýðræðið, átti að tryggja lýðræðislega kosna ríkisstjórn sem kosin væri af alþýðunni. Þriðja og síðasta stoðin, lífsviðurværi fólksins, átti að hjálpa lýðnum með miðstýrðum áætlanabúskap.

Á þeim árum sem Sun Yat-sen helgaði byltingarstarfseminni var hann á ferðalögum um heiminn þveran og endilangan til að safna fé meðal Kínverja erlendis – í Suðaustur-Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu. Á sama tíma í Kína gerðu fylgismenn hans hverja byltingartilraunina á eftir annarri án árangurs. Árið 1911, þegar handahófsleg byltingartilraun hratt þjóðbyltingunni loks af stað, var Sun Yat-sen að safna peningum eins fjarri vettvangi viðburðanna og hugsast gat – í Denver, Colorado.

Uppreisnin sem braust út í Wuchang við Yangtze-fljótið þann 10. október, bar hvorki vitni vandlegs undirbúnings né herstjórnarsnilldar. Sprengja, sem geymd var í aðalstöðvum uppreisnarmanna, sprakk af slysni og vakti um leið grunsemdir hinna taugaóstyrku opinberu embættismanna. Þeir handtóku nokkra grunsamlega menn og náðu í skrá yfir byltingarmenn. Byltingarsinnar innan raða þess opinbera urðu þá skelkaðir og gerðu árás á aðalstöðvar fylkisstjórans. Hann flúði og reyndi að fá erlenda fallbyssudáta til að skjóta á uppreisnarmenn. En fyrir tilstilli franska ræðismannsins, sem var gamall vinur Sun Yat-sens, héldu útlendingarnir að sér höndum og því breiddist byltingin út óðfluga, enda nærðist hún á margra ára óánægju með yfirvaldið.

Þegar Sun Yat-sen kom til til Shanghai á aðfangadag, rúmum mánuði seinna, logaði meginhluti Suður-Kína í uppreisnum. Á fyrsta degi ársins 1912 lýsti Sun Yat-sen yfir stofnun lýðveldisins Kína og sór sjálfur embættiseið sem forseti þess. Þessi viðburður batt enda á keisaraveldi sem staðið hafði yfir í rúmar 40 aldir, eða 4 þúsund ár. Tel ég víst að þetta stæði í mun feitara letri í sögubókunum ef þetta væri ekki hinu megin á litlu kúlunni okkar.

Bergmál úr norðrinu

En líkt og sagan hefur sagt okkur margoft getur byltingin jafnan verið gráðug í afkvæmi sín og þessir umbrotatímar voru ekki undanþegnir þeirri reglu. Þar sem Sun Yat-sen hafði enga reynslu af landstjórnarmálum og engan her til að styðja sig við, varð hann að láta að vilja norðanmanna sem enn heyrðu undir Mansjú-ættina og gátu ekki sætt sig við að róttækur Canton-búi tæki sér furstavald yfir þeim. Þá kemur til sögunnar Yuan Shikai, voldugur herforingi sem hafði átt þátt í friðsamlegri afsögn hins kornunga keisara Mansjú ættarinnar. Yuan Shikai tók við forsetaembættinu og næstu fjögur árin var hann viðurkenndur þjóðhöfðingi Kína og jafnframt atkvæðamesti leiðtogi þjóðarinnar, en tókst þó ekki að skapa ríkinu einingu og velmegun.

Eftir því sem kraftur keisaraveldisins hafði þorrið, höfðu völd embættismanna í einstökum fylkjum eflst. Fylkisstjórar og hershöfðingjar sem höfðu veitt byltingarmönnum liðsinni, höfðu einungis gert það í von um að auka völd sín heima fyrir og skapa sér sterkari samningastöðu við mótun allsherjarstjórnar ríkisins. Í stað þess að skapa sterka miðstjórn varð byltingin til þess að Kína molaðist niður í ótal jarldæmi undir stjórn tortrygginna herstjóra, sem börðust um völdin.

Árið 1912 endurskipulögðu Sun Yat-sen og fylgismenn hans hin leynilegu byltingarsamtök og nefndu þau Kuomintang, eða „Þjóðlega alþýðuflokkinn“ og ári seinna reyndu þeir að steypa Juan Shikai af stóli. Tilraunin mistókst og neyddist Sun Yat-sen til að flýja til Japans. Næsta áratug höfðu hvorki Sun Yat-sen né flokkur hans nein veruleg áhrif í Kína. Sárasta fátækt hélt áfram að hrjá kínversku þjóðina á meðan hinir innlendu herstjórar bitust um völdin og erlend ríki tóku sér æ víðtækari réttindi. Sun Yat-sen flögraði inn og út úr landinu og reyndi árangurslaust að afla stuðnings við nýja tilraun til að sameina hið sundraða ríki.

Árið 1922 markaði tímamót í ferli Sun Yat-sens og sögu Kína. Þegar Sun Yat-sen var hrakinn frá Canton af óvinveittum herstjóra, leitaði hann hælis í fallbyssubáti stuðningsmanns síns, sem af öryggisástæðum lá við akkeri meðal erlendu herskipanna á fljótinu hjá Canton. Þar kom til fundar við hann dyggur ungur liðsforingi að nafni Chiang Kai-shek. Chiang Kai-shek var sonur bónda og kaupmanns og átti að baki sér merkilegan hermennskuferil. Hann hafði orðið fyrir áhrifum frá Sun Yat-sen þegar hann var í herskóla í Japan. Hann hafði svo stjórnað liðsveit í byltingunni 1911 auk þess sem hann hafði starfað fyrir herforingjaráðið í hinni misheppnuðu uppreisn árið 1913. Chiang Kai-shek hafði mikil áhrif á Sun Yat-sen þær vikur sem þeir dvöldu um borð í bátnum og eftir þetta var ljóst að hann myndi verða einn líklegasti leiðtogi flokksins í framtíðinni.

Nýr leiðtogi, nýir óvinir

Árið 1922 hlaut Sun Yat-sen loksins stuðning frá erlendum aðilum. Á vetrarráðstefnum sem hann átti við sovéska leynisendiboða voru honum veitt fyrirheit um rússneskt fjármagn og hergögn, En áður en eining ríkisins gat orðið að veruleika, lést Sun Yat-sen úr krabbameini árið 1925. Hann skildi þó eftir sig safn fyrirlestra sem veittu Kuomintang færi á að tryggja sér stuðning fjöldans og gerði flokkurinn þessa fyrirlestra að opinberri stefnuskrá sinni. Í landi þar sem eigingjarnir herstjórar hunsuðu alla þjóðlega viðleitni, virtist nauðsynlegt að láta hið ókunna hugtak lýðræði víkja fyrir „tímabundnu“ einræði Kuomintangs, sem nefnt var því fallega heiti „pólitískt forræði“. Ennfremur varð að leggja takmarkaða áherslu á kenningu Sun Yat-sens um bætt kjör alþýðunnar, þangað til búið væri að sigra „óvininn“.

Áðurnefndir óvinir Kína og Chiang Kai-sheks voru fleiri en einn og fleiri en tveir. Náið samband Chiangs við Sun Yat-sen og áhrif hans á liðsforingja Kuomintangs, sem voru þjálfaðir í herskóla flokksins nálægt Kanton – hann hafði verið skipaður yfirmaður skólans 1924 – gerðu hann að valdamesta manni ríkisins. Í fyrstu vantreystu Vesturveldin honum vegna samvinnu hans við Rússa. Chiang breytti þeirri afstöðu með því að snúast gegn kommúnistum árið 1927. Á því sama ári gekk Chiang að eiga japanska konu að nafni Mei-ling og tók jafnframt kristna trú. Trúskiptin og tengslin við fjölskyldu Mei-ling, sem státaði meðal annars af Harvard-menntuðum fjármálamanni, T.V. Sung, gerðu Chiang og málstað Kína miklu geðþekkari ýmsum áhrifamiklum kaupsýslumönnum og kristniboðum. Jafnframt dró stjórn þjóðernissinna til sín marga menntaða og þjóðholla unga menn. Hrifningaralda reið yfir, og um nokkurra ára skeið virtist Kína vera á góðum vegi með að skapa sér traust stjórnarfar.

En á afskekktum stöðum á landsbyggðinni voru skæruliðar kommúnista að koma sér upp bækistöðvum og stofna til æsinga meðal bændanna með því að heimta skiptingu jarða. Handan við Japanshaf fylgdust jpanskir hernaðarsinnar órólegir með framfarahræringum Kínverja. Árið 1931 settu þeir á svið árekstur sem gaf þeim tilefni til að fara með herafla inn í Mansjúríu. Sem yfirhershöfðingi allra herja Kínverja fór Chiang að kaupa tíma. Þar sem hann var ekki til þess búinn að snúast gegn Japönum á vígvellinum, reyndi hann að komast hjá beinum bardögum við þá og einbeitti sér að því að hrekja kommúnista á brott.

Árið 1936 var Chiang loks búinn að stökkva kommúnistum á flótta, en sú viðleitni hans var farin að kosta hann stuðning herforingja í norðurhéruðunum, sem höfðu verið hraktir burt frá Mansjúríu af Japönum. Þegar Chiang heimsótti aðalbækistöðvar þeirra í Sían árið 1936 til að tala um fyrir þeim, tóku þeir hann höndum. Lausnargjald Chiangs var myndun samfylkingar kommúnista og þjóðernissina gegn Japönum, sem kom fótunum aftur undir kommúnista.

Lýðveldið flýr Kína

Japanir hófu allsherjarherferð árið 1937, og snemma árs 1938 var stjórn þjóðernissinna búin að hola sér niður í Chongqingborg, djúpt í hinu fjöllótta Sichuan fylki. Árið 1940 voru Japanir búnir að ná á sitt vald Nanking og öllum borgunum á ströndinni. En þar sem Japönum var um megn að ná valdi yfir hinum víðáttumiklu upplöndum Kína, létu þeir sér nægja að heyja taugastríð. Komið hefur í ljós nú rúmum sex áratugum síðar, að hvorki kommúnistar né þjóðernissinnar börðust jafnhetjulega og áróðursmenn þeirra töldu heiminum í trú um, þó að vísu væru nokkrar undantekningar. Eftir að Bandaríkin urðu styrjaldaraðili árið 1941, komu bæði kommúnistar og þjóðernissinnar sér hjá því að lenda í bardögum við Japani. Að skoðun Kínverja gátu Bandaríkjamenn fengist við Japani meðan þeir sjálfir bjuggu sig undir hin mikilvægari átök um það, hver tæki við stjórn Kína.

Bandarískir hermálaráðgjafar bentu svo á það árið 1945 að borgarastyrjöld væri óhjákvæmileg þegar Japanir legðu niður vopn. Einnig bentu þeir á að Maó og hinir öguðu fylgismenn hans væru marxískir byltingarmenn fullir eldmóði – og því líklegir til að bera sigur úr býtum þegar til bardaga kæmi við fjölmennari liðsafla Chiang Kai-sheks. Allt árið 1945 reyndu því bandarískir erindrekar að koma á sáttum milli Maós og Chiangs í Chongqingborg. Þessar áætlanir fóru út um þúfur og borgarastyrjöld braust út eins og spáð hafði verið. Næstu fjögur árin studdu Bandaríkin ýmist Chiang eða reyndu að koma á samsteypustjórn beggja aðila.

Í árslok 1949 voru þó hin fyrirsjáanlegu málalok orðin að veruleika, og Chiang Kai-shek sá fram á að þurfa að flýja landið. Chiang sagði sökina að mestu liggja hjá flokknum, og nefndi þá sérstaklega stjórn-, aga- og áhugaleysi innan flokksins. Þann 10. desember kvaddi Chiang Kai-shek meginlandið og lá leiðin – með bandarískri flugvél – til Taívans.

Eyjan Taívan

Eyjan Taívan liggur við suðausturströnd Kína, handan Taívansunds. Rúmlega helmingur eyjunnar er þakinn þéttum skógi, en stærstur hluti hans vex á austurhluta eyjunnar, í strjálbýlum fjöllum. Vestan megin eru víða frjósamar sléttur þar sem landbúnaður er stundaður. Rétt um 90 prósent íbúanna búa á vesturströndinni, þar sem mikið er um náttúrulegar hafnir. Taívan liggur mitt á milli tveggja loftslagsbelta og er því mikill munur á norðri og suðri. Lengst í norðri er temprað loftslag með mildum vetrum og heitum sumrum, en suðurhlutinn liggur í hitabeltinu og er því heitt þar árið um kring. Á Taívan hafa fundist allt að 30 þúsund ára gamlar mannvistarleifar, en talið er að eyjarskeggjar séu ættaðir frá Pólýnesum, sem settust þarna að fyrir 4 þúsund árum. Kínverjar settust einnig þarna að á miðaldatímanum, en einungis í litlu magni. Þó að eyjan sé ekki ýkja langt frá meginlandinu þá er hennar fyrst getið í heimildum frá þriðju öld.

Árið 1544 komu Portúgalir auga á eyjuna og gáfu henni nafnið Formósa, sem merkir eyjan fagra. Hollendingar og Spánverjar fylgdu svo í kjölfarið. Kínverjar náðu svo eyjunni á sitt vald árið 1662 eftir stríð við Hollendinga og héldu eyjunni næstu tvær aldirnar. Japanir höfðu þó haft augastað á eyjunni allt frá 1592. Árið 1895 rættist svo þessi aldagamla ósk og Japanir náðu völdum á eyjunni eftir árslangt stríð. Þeir hófu strax að iðnvæða Taívan og löggðu fyrstu járnbraut eyjarinnar, komu á póstþjónustu og ásættanlegu vegakerfi og innleiddu rafmagn.

Þegar síðari heimsstyrjöldina bar að garði höfðu Japanir náð miklum áhrifum á eyjunni og tugþúsundir Taívana börðust fyrir Japanska herinn. Endalok stríðsins eru svo flestum kunn og fer ég ekki nánar út í þau. Í lok styrjaldar voru Japanir þvingaðir til að skrifa undir samning sem leysti Taívan og allar aðrar lendur sem voru upphaflega í eigu Kínverja, aftur til eigenda sinna, Kínverska Lýðveldisins. Hálfrar aldar valdatími Japana á eyjunni hafði þó sín áhrif, og er japönsk menning enn mjög vinsæl í Taívan. Líkt og áður sagði á Taívan einnig grunnþjóðfélagsstoðirnar Japönum að þakka.

Viðskipti og efnahagur

Eftir styrjöldina varð hagvöxtur gífurlegur í Taívan og síðan þá hefur verg landsframleiðsla rúmlega tífaldast. Þróaður iðnaður kom í stað landbúnaðar og lítill heimamarkaður neyddi iðnaðinn til að leggja áherslu á útflutning. Ástæður velgengninnar má rekja til margra þátta.

Í fyrsta lagi fékk Taívan, eins og svo mörg önnur lönd, mikla efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Í öðru lagi hafði ríkisstjórnin flúið meginlandið með allan gjaldeyrisvarasjóðinn, jafnt innlendan sem erlendan. Í þriðja lagi komu margir af hámenntuðustu einstaklingum þjóðarinnar með ríkisstjórninni til Taívans. Í fjórða lagi gerir lega landsins það tilvalið fyrir Japan og Bandaríkin að eiga í viðskiptum við það. Síðast en ekki síst náði ríkisstjórnin að setja mörg lög sem hún hafði ekki náð að fylgja eftir í Kína, og miðuðu flest lögin að því að gera landið fullkomlega sjálfbært, s.s. að allar vörur til neyslu innanlands væru framleiddar innanlands. Auk þess lagði ríkisstjórnin áherslu á að framleiða einfaldar vörur sem Taívan gæti þá boðið ódýrari á heimsmarkaði, t.d. textílvörur og matvöru.

Taívan hefur því tekist að halda í við þróuðu löndin í heimsviðskiptum og í dag framleiðir Taívan úrval af hátæknivörum til útflutnings, allt frá bílum og tölvum til leikfanga og fatnaðar.

Sjálfstæði Taívans

Taívanska samfélagið hefur lengi einkennst af ágreiningi Taívana og Kínverja. Eins og áður kom fram börðust margir Taívanar með Japönum í stríðinu og voru því sterklega á móti komu kínverska þjóðernisflokksins. Vera þeirra átti þó aðeins að vera tímabundin, áður en þeir sneru til baka og tækju völdin aftur yfir gjörvöllu Kína. Allt þar til kom fram á miðjan níunda áratuginn var landinu stjórnað sem einræðisríki og var kínverskri menningu sífellt hyglað á kostnað hinnar Taívönsku. Aðrir stjórnmálaflokkar voru bannaðir og pólitískir aðgerðasinnar voru ofsóttir og jafnvel teknir af lífi. Í byrjun tíunda áratugarins fór þó að örla á breytingum og fleiri stjórnarandstöðuflokkar voru stofnaðir. Árið 2000 var Chen Shui-Bian frá Lýðveldisflokknum kjörinn fyrsti forseti Taívans utan þeirra sem höfðu verið í Þjóðernisflokknum. Hann er fylgjandi sjálfstæði Taívans, skoðun sem margir Taívanar hafa borið með sér lengi, en verið þögguð niður jafnóðum þar til nýlega.

Vilji til sjálfstæðis Taívans ber nefnilega með sér aðskilnað Taívans og Kína, en í gegn um tíðina hafa ríkisstjórnir landanna aðallega bara verið sammála um einn hlut; að Taívan sé hluti af Kína. Megin ágreiningsefnið hefur síðan legið í því hvor ríkisstjórnin eigi rétt á að stjórna Kína, og þar með Taívan. Þegar ég skoðaði þessar deilur ofan í kjölinn þá vöktu athygli mína kröfur Taívans um landssvæði á meginlandinu en opinberlega hefur ríkisstjórn Taívan ekki enn slakað á þeim kröfum sínum. Taívan gerir að sjálfsögðu tilkall til alls Kína en auk þess gerir það tilkall til misstórra svæða eftirtalinna landa: Mongólía, Myanmar, Bhútan, Indland, Japan, Afganistan, Pakistan, Rússland og Tajikistan. Ljóst er að kröfur þessar myndu vekja miklu meiri athygli ef þeim væri á einhvern hátt fylgt eftir.

Sjálfstæðisskilyrði SÞ

Sameinuðu þjóðirnar eru með átta föst skilyrði fyrir því að hægt sé að flokka land sem sjálfstætt. Hér fer ég yfir þau með tilliti til Taívans.

1. Landið hefur landamæri og svæði innan þeirra sem eru alþjóðlega viðurkennd.
-Að nokkru leyti, en vegna þrýstings frá alþýðulýðveldinu viðurkenna öll helstu lönd heimsins Taívan sem hluta af Kína, en 26 ríki viðurkenna sjálfstæði Taívans.

2. Á landinu býr fólk allajafna.
-U.þ.b. 23 milljónir búa í Taívan, í 49. sæti yfir heimsins fjölmennustu lönd. Lífslíkur við fæðingu eru að meðaltali 78 ár.

3. Landið hefur skipulagðan efnahag, sér um viðskipti innan lands og utan og gefur út gjaldmiðil.
-Verg þjóðarframleiðsla Taívans er í 19. sæti á heimsvísu, Ísland er í 139. sæti. Í Taívan er gjaldmiðillinn svokallaður Nýr Taílenskur Dollar, sem jafngildir tæplega 7 íslenskum krónum.

4. Landið býr yfir skipulögðu samfélagi og getur séð um menntun þegna sinna.
-Fjölmargir háskólar eru í Taívan, auk skóla á neðri námsstigum.

5. Landið býður upp á samgöngur fyrir fólk og vörur.
-Á Taívan er þéttriðið net vega og lestarteina auk flugvalla og skipahafna.

6. Í landinu er ríkisstjórn sem sér um að lögum og almenningsþjónustu sé sinnt.
-Á Taívan er lögregla jafnt og her, og 400 þúsund manns sinna þar herskyldu.

7. Ekkert annað ríki hefur völd yfir svæði þessa lands.
-Taívan hefur séð um sitt svæði allt frá 1949.

8. Landið hefur fengið inngöngu í einhver alþjóðleg samtök, líkt og SÞ eða NATO.
-Taívan er aðeins viðurkennt af 26 ríkjum, sökum þrýstings frá Kína, en í 122 öðrum löndum er það með óopinber sendiráð. Taívan gefur út eigin vegabréf sem eru alþjóðlega viðurkennd auk þess sem Taívan er meðlimur að Alþjóða-Ólympíunefndinni og hefur sitt eigið keppnislið á leikunum.

Niðurstaða

Ljóst þykir mér, að þegar kemur að efnahag, samfélagsuppbyggingu, samgöngum, menntun og löggæslu, þá virðist Taívan standa mörgum sjálfstæðum löndum framar. En eins og svo mörg önnur alþjóðleg mál, þá virðist þetta í fljótu bragði stranda á Bandaríkjunum. En kannski þegar betur er á litið liggur sökin hjá Evrópusambandinu. Árið 2005 aflétti ESB nefnilega mikilvægu vopnasölubanni gagnvart Kína sem sett hafði verið í kjölfar blóðbaðsins á torgi hins himneska friðar árið 1989. Þetta hefur leyft Kínverjum að vígbúast enn betur.

Þessi gjörningur mætti mikilli andstöðu Bandaríkjamanna, sem hafa hagsmuna að gæta þarna eins og víðast hvar annars staðar. Bandaríkin eru nefnilega með í lagabók sinni lög að nafni „Taiwan Relations Act“ frá árinu 1979, sem skuldbinda Bandaríkin til að verja Taívan komi til árásar frá frændum þeirra Kínverjum. Þessi lög eru líklega það eina sem hefur hingað til stöðvað Kína í að teygja sig yfir Taívanssund. Valdajafnvægið í Asíu er nefnilega ekki jafnskýrt markað og það hefur verið síðustu áratugi. Allar hræringar í átt til átaka gætu verið mjög illa séðar í augum Bandaríkjastjórnar.

Eftir skrif þessarar greinar virðist mér svarið liggja í augum uppi, Taívan er ekki hluti af Kína, hvort sem það er á menningarlegan, sögulegan eða stjórnarfarslegan hátt.
Ég breytti undirskriftinni minni