Saga Serbíu til vorra daga Serbnesku miðaldaríkin
630-1459



Forfeður Serba, Hvítserbar komu til Balkanskagans frá Norður-Evrópu á 7.öld. Þeir settust þá að á svæði sem þá tilheyrði hinu forna Austrómverska keisaradæmi og segir sagan að Býsanskeisari hafi gefið þeim borgina Þessalóníku til að búa í. Þeir fluttust þó fljótlega frá Miðjarðarhafsströndinni norður á bógin til Júgóslavíusvæðisins og stofnuðu þar nokkur ríki undir Býsanska ríkinu og tóku kristni, reyndar í nokkrum bylgjum en síðasta bylgjan í kristnitökuferlinu var árið 874. Stærstu serbensku ríkin voru Raška, Zeta, Zahumlje og Travunia og fóru þau snemma að krefjast sjálfstæðis frá Konstantínópel. Þess má þó geta að á þessum tíma var Býsanska ríkið orðið afar veikt og völd þess lítil. Nágrannaríkið Búlgaría, sem hafði brotist undan Býsanska ríkinu, seiddist líka eftir völdum í serbnesku ríkjunum og var það aðallega fyrir vernd Býsansmanna fyrir Búlgörum að þeir réðu enn serbnesku ríkjunum.

Flestir Serbar voru í réttrúnaðarkirkjunni en íbúar Zeta voru kaþólskir og þar með óháðir Býsansmönnum trúarlega. Á 9. og 10.öld var nágrannaríki Zeta til austurs, Raška, orðið öflugasta ríkið og tóku þeir síðar upp nafnið Serbía. Stefan Nemanja varð konungur Serbíu árið 1166 og gekk landið í gegnum miklar framfarir í valdatíð hans og á 12.öld innlimaði hann Zeta og öll hin serbnesku ríkin. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem Serbar hafa verið sameinaðir einir í einu ríki. Á 13.öld átti Serbía í stríði og friði við þrjú nágrannaríki trekk í trekk; Býsanska ríkið í suðri, Búlgaríu í austri og Ungverjaland í norðri.

Gullöld serbneska miðaldaríkisins var þó í valdatíð Stefans Dušan en hann vann mikla sigra á Búlgörum sem prins og var krýndur konungur árið 1331 eftir að hafa látið drepa föður sinn sem var ekki jafn snjall herstjórnandi. Hann vann einnig mikla sigra á Býsanska ríkinu og hernam stóran hluta Grikklands. Í kjölfar þessa stofnaði hann árið 1346 Serbneska keisaradæmið og var hann krýndur keisari serba og grikkja. Einnig urðu miklar framfarir í efnahagi ríkisins og varð Serbneska keisaradæmið meðal stærstu og farsælustu ríkja í Evrópu um tíma. Eftir dauða hans árið 1355 tók hins vegar við stöðnun og breyttist Serbía smám saman í veikt lénskerfisríki, en Serbía hafði státað af því að vera með fáum miðaldaríkjum Evrópu sem ekki var með lénskerfi.

Serbía undir Ottómanveldinu
1459-1817


Þegar komið var á 14.öld fór nýr óvinur að ógna Serbum, og ekki aðeins Serbum heldur öllum þjóðum á Balkanskaganum. Hið tyrkneska Ósmanaveldi sótti inn á Balkanskagann eftir mikla sigurgöngu á Býsanska ríkinu í Anatólíu. Tyrkirnir voru komnir af Seldjúkum sem voru múslímsk tyrkísk hirðingjaþjóð frá Mið-Asíu sem sótti inn í Mið-Austurlönd á 11.öld. Þeir knúðu á bæjardyr Konstantínópel en náðu ekki borginni og Býsansmenn börðust í tugi ára í bökkum fyrir örlítilli landræmu í kringum hina forunu menningarborg. Árin 1362-89 lögðu Tyrkir undir sig Búlgaríu og nær allt Grikkland sem þá var búið að vera undir Býsansmönnum og Serbum til skiptis.

Serbar börðust fyrir landi sínu en Ósmanaveldið var öflugasta ríkið sem þeir höfðu nokkurn tíman þurft að kljást við og tóku allar kristnu þjóðirnar á Balkanskaganum sig saman gegn þeim undir stjórn Ungverja. Veigamesta orrustan fyrir Serba var þó á Kosovosléttunum norðan Skopje árið 1389 þegar Tyrkir sigruðu síðasta og stærsta skipulagða her þeirra sem var undir stjórn aðalsmannsins Lazar Hrebeljanovic; sem reyndar varð síðar þjóðhetja Serba. Eftir orrustuna var stríðið að mestu leiti tapað fyrir Serba og var lítil sem engin mótstaða í þeim löndum Serbíu sem eftir voru. Sonur Lazars tók við stjórn landins og færði ríkið norður undan tyrkjunum og stofnaði höfuðborg í bænum Smederevo við Ungversku landamærin. Serbía varð að vígvelli í tugi ára og hið óstabíla serbneska ríki var hátt Ungverjalandi og Bosníu og Tyrkir sóttu sífelt lengra norður. Smederevo féll loks árið 1459 og Bosnía og Zeta féllu árið 1496. Ungverjar héldu þó stöðu sinni og stofnuðu leppríki uppúr rústum gamla serbneska ríkisins þar sem serbneskir aðalsmenn stjórnuðu í umboði ungverska konunga, titlaðir ungverskir barónar. Árið 1540 náðu Tyrkir að leggja það undir sig og endaði þá 200 ára yfirtöku Tyrkja á Serbíu og Balkanskaganum.

Nú tók við fjögurra alda tímabil þar sem Serbar voru borgarar í Ottómanveldinu. Margir fluttust búferlum til Ungverjalands, reyndar aðallega til Vojvodína sem tilheyrði Ungverjalandi þá en er serbneskt kjarnasvæði í dag. Tyrkirnir voru grimmir húsbóndar ef stjakað var við þeim og oft var sagt að það sem Tyrkirnir gerðu best var að berja niður uppreisnir. Það sem fólki þótti þó verst, og þá ekki síst utanaðkomandi aðilium, þ.e. önnur ríki í hinni kristnu Evrópu miðalda, var að þeir voru múslímar og boðuðu Íslam til fólks af öðrum trúarbrögðum sem bjó innan heimsveldis þeirra. Samkvæmt tyrknesku Sharialögunum voru kristnir og gyðingar flokkaðir sem Dhimmi eða verndað fólk. Þeir höfðu þá ekki jafnmikil réttindi og múslímar en meiri réttindi en aðrir sem ekki voru múslímar. Tyrkirnir skylduðu ekki fólk til að snúa til Íslam en stunduðu þó mikið trúboð í hernumdu löndunum og var kirkjum oft breytt í moskur. Grikkir, Serbar og Búlgarar þjónuðu soldáninum oft í Janissarasveitunum, en það voru lífvarðasveitir soldánsins. Þá var kristnum drengjum af Balkanskaganum oft rænt, þeim snúið til Íslam og þjálfaðir frá unga aldri í herþjónustu og undirgefni við soldánin. Með þessu móti urðu þeir úrvalshermenn og heyrðu aðeins undir soldáninn en ekki t.d. tyrkneska aðalsmenn. Sömu aðferð beittu Tyrkir stúlkum frá sama svæði nema þær eyddu æfi sinni í kvennabúri soldánsins.

En þegar litið er á heildarmyndina veittu Serbar Tyrkjum mikla mótspyrnu í gegnum aldirnar. Eins og áður kom fram voru miklir fólksflutningar frá Serbíu auk þess sem sveitirnar ólguðu í bændauppreisnum og borgir í smáskærum sem allar voru bældar niður jafnóðum. Tyrkir börðu niður allar tilraunir til uppreisna og tókst að halda töluverðri reglu í landinu.
Á 18.öld voru völd Tyrkja farin að dvína og heimsveldisár þeirra farin að renna sitt skeið og einkenndust síðustu aldir þeirra af stöðnun. Evrópsku ríkin gengu í gegnum upplýsingu, endurreisn og iðnbyltingu og urðu skrefinu á undan Tyrkjum í tæknilegum og samfélagslegum framförum. Líkt og Serbar leituðu hælis og verndarvængs Ungverja þegar Tyrkir hernámu landið, urðu Austurríkismenn þeirra helsti bandamaður á 17. og 18.öld. Austurríska keisaradæmið átti oftar en ekki í stríðum við Ottómanveldið og á 1687-1717 náðu þeir að vinna land af Tyrkjum í Ungverjalandi sem þeir höfðu tekið og að Balgrad. Eftir þetta varð Austurríska keisaradæmið komið á meðal öflugustu hernaðar-og menningarvelda Evrópu þar sem þeir höfðu náð Ungverjalandi og Transylvalníu. Nú réðu Austurríkismenn norðurhluta Serbíu, þ.e. norðan við Dóná. Voru þá helmingur Serba undir Tyrkjum í suðri og hinn helmingurinn undir Austurríkismönnum.

Sjálfstætt ríki Serba
1817-1918


Á 19.öld tröllriðu byltingar og uppreisnir Evrópu. Aukin þjóðernishyggja og þjóðfélagsvakning einkenndi íbúa álfunar og löndin á Balkanskaganum voru orðin langþreytt á yfirráðum Tyrkja. Serbar höfðu ekki verið sjálfstæðir í hálfa þúsöld og urðu við upphaf 19.aldarinnar fór þessi vakning sem átti eftir að eiga sér stað í gjörvallri Evrópu að segja til sín í Serbíu. Serbía fékk fullveldi sitt frá Ottómanveldinu í tveimur miklum uppreisnum. Fyrsta serbneska uppreisnin braust út árið 1804 þegar skipulagðir uppreisnarmenn undir stjórn Karadorde Petrovic; hófu uppreisn í þorpinu Orašac og náðu fljótlega undir sig borgum og bæjum í nágreninu og hófu umsátur um Belgrad. Tyrkir sendu strax stóran her til Serbíu til að kremja uppreisnina og voru tvær stórar orrustur háðar á næstu tveim árum. Uppreisnarmennirnir sigruðu tyrkina í orrustunum við Ivankovak árið 1805 og við Misar árið 1806. Rússar studdu uppreisnina enda slavar og kirkjubræður þeirra. Einnig vildu Rússar tryggja sér áhrifasvæði á Balkanskaganaum og voru í kapphlaupi við Austurríki-Ungverjaland þegar þeir sáu hvað ástandið var orðið eldfimt í upphafi aldarinnar. Rússar fóru því í stríð við Tyrki árið 1806 sem hélt Tyrkjunum uppteknum. Árið 1807 var Belgrad frelsuð og Petrovic; lýsti yfir sjálfstæði og gerði sig að einvaldi. Þegar Rússar sáu að Napóleon gerðist líklegur til að ráðast inn í Rússland ákváðu þeir að enda stríðið við Tyrki og skrifuðu þeir undir friðarsamninga árið 1812. Þetta hafði þær afleiðingar í för með sér að Tyrkir komu fullefldir til Serbíu og lögðu undir sig landið aftur. Petrovic; og fleiri leiðtogar byltingarinnar flúðu til Austurríkis og aðrir voru drepnir.

Þrátt fyrir misheppnaða uppreisn var sjálfstæðisbaráttan öflugri og neðanjarðarhreyfingin varð fjölmennari. Árið 1814 reis fátækur uppreisnarmaður frá fyrri uppreisninni til vitorðs, Miloš Obrenovic. Hann var kosinn leiðtogi seinni uppreisnarinnar árið 1815 og í apríl lýsti hann yfir stríði gegn Ottómanveldinu. Í desember höfðu uppreisnarmennirnir næstum alla Serbíu á valdi sínu og höfðu hrakið nánast allan tyrkneska herinn út. Sumarið 1816 fór Obrenovicí friðarviðræður við Marashli Ali Pasha, ríkisstjóra Serbíu. Niðurstöðurnar voru sögulegar; Serbía gerðist fullvalda furstadæmi innan Ottómanveldisins og réði sér að mestu leiti sjálf. Annars þurftu Serbar að borga árlegan skatt til Tyrkneska ríkisins og Tyrkir höfðu setulið í Belgrad. Þessu var svo komið í framkvæmd ári síðar. Þeim serbum sem bjuggu í Austurríska hluta Serbíu, Vojvodína, var þó ekki tryggt neitt fullveldi. Þeir sameinuðust ekki sjálfstæðu serbnesku ríki fyrr en öld síðar eða árið 1918 þegar Austutríki-Ungverjaland féll í fyrri heimsstyrjöldinni.

Miloš Obrenovic var gerður að Prins af Serbíu og var nú algjör einvaldur og einkenndust næstu ár af harðstjórn. Serbía afnam lénskerfið í stjórnartíð hans, næst fyrst allra þjóða í Evrópu á eftir Frökkum. Þegar leið á öldina sáu Serbar meira og meira hvernig völd Ottómanveldisins dvínuðu í landinu. Árið 1867 fjarlægði það setulið sitt í Belgrad vegna árekstra þess við íbúa borgarinnar og þrýstingi frá stórveldunum, þá helst Rússum, sem höfðu gefið sig út fyrir að vera verndarar Serbíu. Í Tyrk-Rússneska stríðinu 1877 lýstu Serbar yfir sjálfstæði í skjóli Rússa. Sjálfstæði þeirra var svo viðurkennt af stórveldunum í Berlínarsamningunum árið 1878 auk sjálfstæði annara Balkanríkja.

Serbía var þá orðið sjálfstætt konungsríki. Þegar fór að líða að upphafi 20.aldar fóru hinn mikli aðdragandi fyrri heimsstrjaldarinnar að hafa áhrif á serbneska pólitík. Árið 1908 innlimuðu Austurríkismenn Bosníu, Serbum til mikillar óánægju. Serbar studdu sjálfstæði Bosníu og vegna þessa versnuðu samskipti Serba og Austurríkismanna mikið. Rússar hins vegar voru tryggir Bandamenn Serba, og í mars 1909 skrifuðu þeir undir hernaðarbandalagssamning þar sem Rússar lofuðu að grípa inn í hernaðarlega ef einhver réðist á Serba. Nú voru Serbar farnir að skipta máli á alþjóðavettvangi í fyrsta skipti og með hina valdamiklu Rússa sem vini gátu Serbar rifið sig við Austurríkismenn vegna innlimun Bosníu og yfirráðum þeirra yfir Vojvodína, - Norður-Serbíu. Þessi breytta aðstaða veitti Serbum aðstöðu til þess að taka þátt í Balkanstríðunum 1912-1913. Í fyrra Balkanstríðinu tóku Serbar, Búlgarar, Grikkir og Svartfellingar (sem þó var að miklu leiti byggð Serbum) sig saman og lýstu yfir stríði gegn Ottómanveldinu. Öll ríkin höfðu nýfengið sjálfstæði frá Tyrkjum og vildu meira svæði þar sem Serbar litu helst til Kosovo og Makedóníu. Ottómanveldið var borið ofurliði og í maí 1913 sömdu stríðsaðilar um frið þar sem Makedóníu var skipt á milli Serba og Búlgara og Grikkir unnu mikið svæði af Tyrkjum. Búlgörum, sem höfðu verið stærstir og öflugastir Balkanríkjanna, líkaði ekki hversu mikið land Serbar og Grikkir fengu eftir friðarsamningana og lýstu yfir stríði gegn fyrrverandi bandamönnum sínum í júní 1913. Þegar leið á stríðið lýstu Tyrkir og Rúmenar stríði gegn Búlgörum sem voru gersigraðir, enda ráðist á þá úr öllum áttum. Þegar landvinningar Serbíu eru teknir saman eftir Balkanstríðin tvö hafði landsvæði Serbíu stækkað um sirka fjögur þúsund ferkílómetra og íbúum ríkisins hafði fjölgað um meira en 1,5 milljón íbúa, sem mest voru Serbar sem bjuggu í Kosovo og Makedóníu.

Spenna í utanríkismálum Austurríkis-Ungverjalands og Konungsríkisins Serbíu náði hámarki sínu í júní 1914 með stórkoslegum afleiðingum. Yfirráð Austurríkismanna í Norður-Serbíu og Bosníu hafði alið af sér stórfellda neðanjarðarstarfsemi hryðjuverka-og skemmdarverkamanna á svæðinu. Stærstu neðanjarðarsamtökin sem börðust fyrir sjálfstæði Bosníu og Vojvodína voru samtökin Svarta höndin (Crna Ruka).
Yfirmaður samtakana Dragutin Dimitrijevic, sem einnig var yfirmaður Serbnesku leyniþjónustunar, sendi nokkra meðlimi til Sarajevo til þess að myrða Franz Ferdinand erkihertoga og erfingja austurrísku krúnunar sem var þar í heimsókn. Morðtilræðið heppnaðist og fóru samskipti ríkjana í uppnám þar sem það var augljóst að það hafi verið stutt af Serbneskum yfirvöldum. Austurríki-Ungverjaland kallaði sendiherra sinn heim og landamærunum var lokað. Eftir að hafa gefið Serbíu úrslitakosti og verið hafnað lýsti Austurríki-Ungverjaland yfir stríði á hendur Serbíu þann 28. júlí og hófst þar með fyrri heimsstyrjöldin.

Austurríkismenn réðust strax inn og beittu Serbar varnarstrategíu sinni þannig
að þeir myndu reyna að halda sókninni aftur á meðan þeir biðu eftir Rússum sem myndu takast á við meginher Austurríkismanna. Landamærin á milli Austurríska- og Rússneska Keisaradæmisins voru þúsundir kílómetra löng og þurftu Austurríkismenn að beina öllum sínum spjótum að stríðinu þar með þeim afleiðingum að það hægðist á innrásinni í Serbíu, auk þess áttu þeir í stríði líka við Ítali við landamæri Ítalíu. Á sama tíma og Serbar vörðust innrás Austurríkismanna börðust þeir við sína fornu fjendur Búlgara sem réðust inn úr austri. Þegar skrifað var undir friðarsamninga árið 1918 fengu Serbar nokkuð svæði frá Búlgörum auk þess sem Austurríki-Ungverjaland var liðað niður og skipt upp á milli Balkanríkjanna og sameinaðist þá Vojvodína Serbíu. Serbar misstu um það bil 420.000 manns í stríðinu sem var 8% af mannfalli Bandamanna.

Í upplausninni undir lok fyrra stríðs lýstu þjóðirnar undir Austurríki-Ungverjalandi yfir sjálfstæði. Serbneska konungsríkið sá fram á mikla landvinninga ákváðu þeir að sameinast Svartfjallalandi og svæðanna sem áður tilheyrðu Austurríki. Bosnía-Herzegóvína og Króatía og Slóvenía, sem áður voru undir Austurríki stofnuðu ríki sem hét Ríki Slóvaka, Króata og Serba en tveim mánuðum eftir stofnun þess, 1. desember 1918, ákváðu þeir að sameinast hinu nýja ríki Serba og Svartfellinga; Konungsríkinu Júgóslavíu, eða Konungsríki Serba, Króata og Slóvena eins og það hét til ársins 1929.

Konungsríkið Júgóslavía
1918-1945


Júgóslavía (Suður-Slavía) var stofnuð af serbneskum þjóðernissinnum annarsvegar sem sáu þarna tækifæri til að sameina loks alla Serba í einu ríki, og í leiðinni gera Serbíu að stórríki á Balkanskaganum, og af pan-slavískum þjóðernissinum hins vegar, sem vildu sameina alla Suður-Slava (Serbar, Króatar, Slóvenar, Svartfellingar, Búlgarar, Makedóníumenn og Bosníakar) í eitt ríki. Að sjálfsögðu urðu Serbar strax ráðandi innan ríkjasambandsins.
Þar sem þeir voru flestir og þar sem þeir höfðu verið sjálfstæðir og innlimað hin svæðin hélst þeirra ríkisskipan og Pétur I konungur Serbíu varð gerður að konungi Júgóslavíu.
Serbar voru því ekki ósvipaðir Prússum innan Þýskalands eða Rússum innan Sovétríkjanna ef þannig má að orði komast. Serbnesku flokkarnir urðu stærstir á þinginu og fyrstu ár sambandsríkisins einkenndust af afar rólegum stjórnmálum og sterkum samsteypustjórnum stóru serbnesku flokkanna. Serbarnir uku miðstýringu og skiptu upp innanríkislandamærunum sem höfðu verið frá tímum Austurríkis-Ungveralands. Þeir áttuðu sig á yfirburðarstöðu sinni innan Júgóslavíu og litu á landið sem hálfgerða Stór-Serbíu, sem það í raun var. Þetta kallaði vissulega á mikla andstöðu meðal annarra þjóða, og þá sérstaklega Króata (þarna má segja að ágreiningur Serba og Króata hafi byrjað, sem endaði ekki fyrr en í Júgóslavíustríðinum 1991-95). Króatar voru næstfjölmennasa þjóðin í ríkjasambandinu, náfrændur Serba og töluðu nánast sama tungumál þó trúin skildi þjóðirnar að þar sem Króatar voru kaþólskir. Þeir stóðu einnig Serbum framar efnahagslega og voru því tregir til að láta þá fá forystusætið.

Króatar hundsuðu sambandsþing Júgóslavíu fram til ársins 1924 þegar þeir ákváðu að taka þátt. Árið 1928 yfirgáfu þeir þó júgóslavneska þingið og stofnuðu sjálfstætt löggjafarþing í höfuðborg Króatíu. Þann 6. janúar 1929 tók Alexander I konungur málin í sínar hendur vegna uppnámsins sem landið var í vegna þessa og annarra óeirða og lagði niður stjórnarskránna og gerði sjálfan sig að einvaldi (það var þá sem nafið Júgóslavía var formlega tekið upp) . Tók þá við fimm ára tímabil einræðis hans. Ástandið var þá ekki ósvipað því sem var í nágrannaríkjunum enda var fasisminn farinn að skjóta rótum í Austur- og Mið-Evrópu. Árið 1934 var Alexander myrtur í heimsókn til Frakklands af makedónískum neðanjarðarsamtökum sem börðust gegn einræði hans og Belgradstjórnarinnar. Ósætti Króata og Serba hélt áfram að blómstra á fjórða áratugnum og voru þeir nú farnir að deila um innanríkislandamæri Serbíu og Króatíu. Það er því spurning hvort Júgóslavíustríðið hefði ekki brotist út þarna ef ekki hefði verið fyrir sameiginlegan óvin allra Júgóslava; Þjóðverja sem ógnuðu sjálfstæði allra þjóðanna. 25. mars 1941 skrifaði Júgóslavneska ríkisstjórnin undir þríveldissamninginn til að forðast innrás ástamt Rúmenum, Búlgörum og Ungverjum og gerðu sig að bandamönnum Þjóðverja. Júgóslavar urðu æfir og mótmæltu hástöfum á götum Belgrad. Í kjölfar þessa féll ríkisstjórnin tveim dögum síðar og þjóðhöfðinginn, Páll konungur, sem var frændi Alexanders I, var neyddur til að segja af sér og tók þá við hinn ófullveðja Pétur II, 17 ára sonur Alexanders. Pétur og nýja ríkisstjórnin var hliðholl Bretum og jafngilti það vangildingu þríveldissamningssins. Þjóðverjar, sem höfðu planað Balkaninnrás sína til að hjálpa Ítölum að hernema Grikkland, þurftu nú að bæta Júgóslavíu inn í plan sitt.

Júgóslavneski herinn hafði ekkert í við hinn gríðarlega fullkomna her Þjóðverja og 14. apríl, átta dögum eftir innrásina, gafst ríkisstjórnin og herinn upp og Júgóslavía var sigruð. Landinu var nú skipt upp í ný innanríkislandamæri og innlimuðu bandamenn Þjóðverja hluta af landinu sem þeim fannst vera þeirra. Búlgarar fengu aftur hluta af Makedóníu sem þeim fannst tekið af sér í Balkanstríðunum 1913 og Ungverjar tóku hluta í norðaustri sem og Rúmenar. Ítalir innlimuðu svo Dalmatíuströndina, þ.e. eyjahafið meðfram Adríahafi. Króatar, sem höfðu verið til vandræða í Júgóslavíu, fengu sitt eigið leppríki sem bar nafnið Sjálfstæða ríki Króata. Ríkið var fasískt fylgiríki nasista og ofbeldisalda reið landinu. Króatarnir voru með fangabúðir fyrir Gyðinga sem þóttu jafnvel ofbeldisfullari og verri en þær sem Þjóðverjar ráku. Svartfellingar fengu líka fasíska sjálfstjórn en landið var gert að sérstöku verndarsvæði Ítala. Serbar fengu hins vegar aldrei neitt de facto sjálfstætt fasistaleppríki. Serbía var undir beinni stjórn þýska hersins, líkt og Norður-Frakkland og Niðurlönd. Serbinn Milan Nedic var látinn stjórna borgaralegu hlið landsins en hann var að sjálfsögðu nasisti sjálfur og var þetta gert til að koma í veg fyrir skæruhernað.

Sósíalíska Júgóslavía
1945-1992


Þrátt fyrir það kom fram á sjónarsviðið afar sterk skæruliðasamtök; kommúnistahreyfing Josip Broz Titos. Skæruliðahreyfingin í Júgóslavíu var afar sterk miðað við annars staðar í hernumdu ríkjunum en Júgóslavía var eina ríkið í Austur-Evrópu sem ekki var frelsað af Sovétmönnum árið 1945. Þegar Sovétmenn sóttu inn í Rúmeníu og Búlgaríu ákvað þýska hernámsliðið í Júgóslavíu og á Grikklandi að flýja norður til Þýskalands til þess að þurfa ekki að mæta þeim.
Þeir höfðu þá einnig verið í stöðugum skærum við Tito og menn hans en kommúnistahreyfingin var þá orðin svo stórt og öflugt batterí að þeir voru formlega studdir og viðurkenndir af Bandamönnum og Sovétmönnum og voru þegar árið 1943 farnir að huga að stjórnskipan hinnar nýju Júgóslavíu eftir stríð.

Þegar Þjóðverjarnir fóru frá Júgóslavíu höfðu þeir frelsað sjálfir stóran hluta landsins og áttu víðtækan stuðning meðal þjóðarinnar. Fyrstu árin eftir stríð var ríkið mótað eftir Sovéskri fyrirmynd líkt tíðkaðist í leppríkjum Sovétmanna í Austur-Evrópu. Kommúnistaflokkurinn gerði gagngerðar breytingar á skipulagi landsins þar sem átti að breyta því úr landbúnaðarsamfélagi í iðnríki. Atvinnulífið var þjóðnýtt og samyrkjubú voru tekin upp auk þess sem fimm ára efnahagsáætlanir voru teknar upp, að sovéskum sið. Svo djúpt var í árina tekið að Júgóslavar þóttu jafnvel ganga lengra en Sovétmenn í þessum málum .
Tito varð einvaldur innan Júgóslavíu og var hann metnaðargjarn og vel gefinn. Tito skar sig úr hópnum í Austur-Evrópu hvað það varðar að hann hafði unnið fyrir völdum sínum. Það voru eins og áður sagði fyrst og fremst júgóslavneskir skæruliðar sem frelsuðu landið, ekki sovéskir hermenn eins og hinum austantjaldsríkjunum. Þar af leiðandi var Tito ekki bara einhver óvinsæll kommúnisti sem Stalín hafði grafið upp úr stríðsrústunum til að stjórna sem leppur. Tito fór að mynda sjálfstæða stefnu í heimskommúnismanum Stalín til mikillar óánægju. Fljótlega fóru að koma skipanir frá Moskvu sem Tito neitaði að hlíða. Urðu þá mikil vinslit Sovétmanna og Júgóslava þar sem Sovétmenn stilltu upp her við landamærin og voru samskiptin í uppnámi þar til Stalín dó. Tito reyndi að vera hlutlaus á alþjóðavettvangi í kalda stríðinu með því að vera hvorki í Varsjárbandalaginu né NATO en hins vegar stofnaði hann samtök meðalríkja sem stóðu utan hernaðarbandalaga. Júgóslavía; tilraunin til að sameina allar suður-slavnesku þjóðirnar á Balkanskaganum tókst ekki enda ríkti alltaf spenna á milli þjóðanna. Eins og kom fram hér að ofan var Konungsríkið Júgóslavía á barmi stríðs og óeirða þegar seinni heimsstyrjöldin reið yfir. Ástæðan fyrir því hversu vel seinni Júgóslavía hélt var vegna þess hvernig kommúnisminn sameinaði þjóðina, a.m.k. járngreipar hans.

En þegar Tito dó árið 1980 fóru haldreipi kommúnismans að leysast. Þegar um er að ræða svona sterkan leiðtoga er alltaf erfitt að finna eftirmann og hálfgerð upplausn ríkti.
Þjóðerniságreiningarnir fóru að segja til sín á ný og árið 1991 var kommúnisminn fallinn í austurblokkinni og Sovétríkin hrunin. Kommúnistastjórnin í Júgóslavíu var líka riðin til falls og árið 1990 var var ákveðið á flokksþingi kommúnistaflokkins að leggja hann niður.
Fyrstu frjálsu kosningarnar Sósíalísku Júgóslavíu komu þannig út að aðeins þjóðernisflokkar komust til valda í ríkjunum. Í Serbíu varð Slobodan Miloševic forseti árið 1989. Miloševic var serbneskur þjóðernissinni sem einsetti sér það markmið að verja serbneska hagsmuni en talað var um að serbar væru að vera undir innan Jugóslavíu undir lokin.

Júgóslavíustríðin og Serbía nútímans
1992 –


Árið 1991 lýsti svo Slóvenía yfir sjálfstæði frá Júgóslavíu með þeim afleiðingum að Júgóslavneski herinn réðst þar inn. Stríðinu lauk tíu dögum síðar með því að stjórnin í Belgrad dró herinn til baka. Árið 1992 lýstu Makedónía, Króatía og Bosnía-Herzegóvína yfir sjálfstæði.
Hófst þá svipuð styrjöld í Króatíu og Bosníu á milli sjálfstæðissinna og Júgóslavneska hersins (sem var að mestu leiti ef ekki öllu leiti á bandi Serba). Sama ár var kommúníska stjórnarskráin lögð niður og Sósíalíska sambandsríkið Júgóslavía frá 1945 aflagt formlega. Serbía og Svartfjallaland voru ein eftir í Júgóslavíu sem nú hafði fengið nýja stjórnarskrá og var sambandslýðveldi undir stjórn Miloševic. Enn geisaði stríð þar sem Serbar sættu sig ekki við nýju landamæri Króatíu og Serbíu auk þess sem hvorki Króatar né Serbar sættu sig við sjálfstæðisyfirlýsingu Bosníu en Bosnía var byggð Serbum í meirihluta, svo Króötum og þar næst Bosníökum, sem voru múslímar. Bosníu-Króatar stofnuðu ríki sem háði stríð ásamt Króatíu gegn Bosníu og Bosníu-Serbar stofnuðu Sprska lýðveldið sem enginn viðurkenndi nema Júgóslavía (Serbía) og háðu þeir einnig stríð gegn Bosníu, án þess þó að vera bandamenn Króata. Bosnía breyttist í einn stóran vígvöll og var framkoma Serba gagnvart Bosníökum og öðrum múslímum afar slæm, þar sem þeir voru myrtir í hrönnum og konum nauðgað. Stríð Bosníu og Króatíu endaði árið 1993 en fjögurra ára stríð Serba og Króata hélt áfram þar sem Serbar í Króatíu höfðu, líkt og Bosníu-Serbar lýst yfir sjálfstæði frá Zagreb-stjórninni og stofnuðu ríki stutt af Júgóslavíu. Í Bosníu gripu friðargæsluliðar NATO í umboði Sameinuðu Þjóðanna inn í og börðust gegn Serbum og gerðu meðal annars loftárásir á Júgóslavíu.

Árið 1995 var skrifað undir friðarsamninga sem endaði Bosníustríðið með því skilyrði að Sprska lýðveldið yfðir viðurkennt sem sjálfstjórnarsvæði innan Bosníu-Herszegóvínu, og sama gilti um ríki Bosníu-Króata. Sama ár báru Króatar sigur af hólmi í Króatíustríðinu og gáfust Serbar þá upp með valdatilkall sitt í nýju ríkjunum. Miloševic sat enn við stjórnvölinn og árið 1998 brutust út ný átök og nú í Kosovo á milli einkahers hins albanska meirihluta Kosovo sem er múslímskur, og Júgóslavneskra öryggissveita. NATO greip inn í og stóðu stríðsátök yfir í Kosovo til ársins 1999 þegar Miloševic skrifaði undir friðarsamning sem gaf Kosovo-Albönum meiri sjálfstjórn og var Kosovo formlega undir Serbíu (innan Júgóslavíu) en Sameinuðu Þjóðirnar fóru með öll raunveruleg völd. Árið 2000 tapaði Miloševic forsetaembættinu í kosningum og var handtekinn árið 2002 og kærður fyrir alþjóðadómstól Sameinuðu Þjóðanna fyrir stríðsglæpi.

Júgóslavíustríðin voru blóðugustu stríðsátök Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni og eru stríðsglæpirnir taldir vera jafnvel grimmilegri en þeir sem áttu sér stað í seinni heimsstyrjöldinni og þar áttu Serbar stóran hlut að máli. Árið 2003 var Júgóslavía, landið sem stofnað hafði verið árið 1918, lagt formlega niður og hét það þá Sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands. Árið 2006 lýstu Svartfellingar yfir sjálfstæði, eftir að hafa verið í ríkjasambandi með Serbum lengst af öllum. Í febrúar 2008 lýsti svo Kósovó yfir sjálfstæði frá Serbum í óþökk þeirra og endaði þar með samveldi Kosovo og Serbíu sem staðið hafði síðan á tímum serbneska miðaldaríkisins.
Es rasseln die Ketten, es dröhnt der Motor,