Aðdragandi og ástæður innrásar Sovétmanna í Afganistan Þetta er ritgerð sem ég gerði í skólanum. Hún er frekar löng en ég vona að einhver nenni að lesa. Feedback, jákvætt eða neikvætt, er vel þegið. Rökstuðningur æskilegur.


Inngangur
Margar hugmyndir hafa sprottið upp um ástæðu eða ástæður innrásar Sovétríkjanna í Afganistan. Margar þeirra eru þó vanhugsaðar og ekki studdar með rökum eða þekkingu á sögu svæðisins. Sagt hefur verið að hún hafi verið hluti af kenningu Brezhnev um að reyna að vernda kommúnísk ríki gegn ógn kapítalismans. Einnig hefur því verið kastað fram að þetta hafi verið varnaraðgerð sem stefnt var gegn áhrifum íslamskra bókstafstrúarmanna í íslömsku lýðveldum Sovétríkjanna. Sumir telja að þetta hafi verið skyndileg og vanhugsuð viðbrögð við aðstæðum og frábrugðin hinni venjulegu stefnu Sovétríkjanna á svæðinu. Ég tel og ætla að færa rök fyrir því að Sovétríkin hafi lengi haft augastað á Afganistan og hafi í mörg ár smogið sér til mikilla áhrifa þar. Þau hafi haft metnað til að framlengja vald sitt í íslömsku lýðveldum Mið-Asíu suður til Afganistan. En hvers vegna? Var það vegna þess að Sovétríkin voru heimsveldi og það var í eðli þeirra að stækka áhrifasvæði sitt? Var eitthvað verðmætt í Afganistan sem Sovétríkin gátu grætt á? Spilaði landafræðin eitthvað hlutverk eða var þetta bara spurning um að fjölga ríkjum sem var stjórnað með marxískum hugmyndum? Soguðust kannski Sovétríkin inn í atburðarrás í viðleitni til að hjálpa nágrannaríki og fundu sig svo í feni þar sem hvert skref sökkti þeim dýpra?

Árið 1979 var ástandið ekki gott í Afganistan. Valdaskipti höfðu verið ör þennan áratug og efnahagur landsins var slæmur. Stjórnin sem sat hafði tekið vald sitt með herafli og mótstaða við hana var orðin mjög alvarleg. Þann 27. desember sama ár réðist svo sovéski herinn inn í landið, myrti forsætisráðherrann og tóku völdin í landinu. Innrásin kom flatt upp á heimsbyggðina. Viðbrögð Bandaríkjanna voru harkaleg, Carter sagði að innrásin væri alvarlegasta ógnin við frið í heiminum frá síðari heimsstyrjöld. Hvers vegna voru Bandaríkin svona hissa á innrásinni? Var eitthvað til í ásökunum Sovétríkjanna að ýmis ríki stefndu að eyðileggingu kommúnismans í Afganistan? Hvaða ástæðu gáfu Sovétríkin fyrir innrásinni og hverjar voru raunverulegar ástæður? Gátu Sovétríkin réttlætt innrásina á einhvern hátt eða var hún óréttlætanleg með öllu? Hvernig gekk atburðarrásin fyrir sig?

Forn áhugi
Þegar rýnt er í söguna þá kemur ekki á óvart að Sovétríkin hafi horft suður til Afganistans með það í huga að stækka áhrifasvæði sitt. Frá 18. öld og fram á seinni hluta 19. aldar hafði Rússland smám saman náð undir sig svæðinu á milli Kaspíahafsins og Kína þar sem núna eru fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna; Kasakstan, Úsbekistan, Kirgistan, Túrkmenistan og Tadsjikistan. Því má segja að ef þessi þróun ætti sér rökrétt framhald þá væri Afganistan næst í röðinni. Raunin er sú að á áttunda áratug 19. aldar voru Rússar farnir að þreifa fyrir sér á svæðinu en voru stöðvaðir af Bretum. Þeir vildu hafa Afganistan sem stuðpúða fyrir Indland, stærstu gersemina í breska heimsveldinu. Þessi barátta milli Rússa og Breta hefur verið kölluð hinn Stórkostlegi leikur (e. the Great Game). Þessa fornu útrásarþörf Rússa er auðveldast að skýra með landafræði. Þá langaði í aðgang að Indlandshafi og aðgang að Indlandi sjálfu. Árið 1791 var innrás skipulögð undir Katrínu miklu en ekkert varð úr henni. Það var ekki fyrr en 1919 sem Rússar fengu gott tækifæri með valdaskiptum í Afganistan. Amanullah konungur komst þá til valda. Hann var endurbótasinni sem hafði ekki hátt álit á Bretum. Hann hafði mikinn áhuga á því að nútímavæða Afganistan og var því auðvelt fórnarlamb fyrir hin nýju Sovétríki til að lokka með boðum um efnahagslega og hernaðarlega aðstoð. Sovétríkin lofuðu einnig að styðja Afganistan í pólitískri baráttu þeirra við Bretland. Með þessu náðu Sovétríkin í fyrsta sinn einhverri fótfestu í Afganistan. Öll þessi nútímavæðing í boði Sovétríkjanna var þó of mikið fyrir hina íhaldsömu þjóð sem byggði líf sitt á íslömskum gildum og Amanullah var steypt af stóli 1929, við tók íhaldsamari stjórn og aftur var sókn Rússa suður á bóginn stöðvuð.

Sovétríkin seilast til áhrifa
Þegar Mohammed Daoud tók völdin í Kabúl 1953 fengu Sovétríkin aftur nýtt tækifæri. Daoud hafði átt í viðræðum við stjórn Eisenhowers í Bandaríkjunum um aðstoð við að endurbyggja afganska herinn en hafði fengið slæmar viðtökur og Bandaríkin töldu ekki að vinátta við Afganistan væri æskileg . Áætlun Sovétríkjanna um að ná yfirráðum yfir þessari litlu fjallaþjóð var fimm skrefa. Fyrsta skrefið byrjaði við fyrstu valdtöku Daoud árið 1953, eða jafnvel miklu fyrr. Það snérist um að bregða fæti fyrir lýðræðislegar hreyfingar í Afganistan og styðja í staðinn dyggilega við hreyfingar kommúnista. Næsta skref var að stofna leynilegan kommúnistaflokk og koma í veg fyrir að lýðræðið næði fótfestu á tímabilinu 1963 til 1973 en þá hafði verið komið á fót ófullkomnu lýðræði í landinu. Þetta stjórnarfyrirkomulag lagði upp laupana vegna þess að það fékk enga aðstoð frá hinum „frjálsa heimi” og var undir stöðugri pressu frá Sovétríkjunum. Þar næst var að koma upp ríkisstjórn sem var hliðholl Sovétríkjunum. Daoud varð fyrir valinu. Hann hafði verið settur frá völdum árið 1963 vegna fjandskapar síns við Pakistan. Þegar Daoud snéri út af upphaflegu stefnu sinni og fór að reyna að draga úr áhrifum Sovétríkjanna og snúa sér að Vesturveldunum var hann settur af og hliðhollari stjórn sett í hans stað. Þegar það gekk ekki nógu vel var hervaldi beitt. Síðustu tvö skrefin voru ekki nauðsynleg nema vegna þess að þær stjórnir sem Sovétríkin höfðu stutt létu ekki nógu vel að stjórn. Á hverju stigi gátu Bandaríkin komið í veg fyrir áætlanir Sovétríkjanna en klaufaskapur og fáviska kom í veg fyrir það.

Það er gott að bera saman diplómatísku sögu Bandaríkjanna annars vegar og Sovétríkjanna hins vegar við Afganistan frá sjálfstæði þess árið 1919. Þá sést vel metnaður Sovétríkjanna til að hafa áhrif á þróun mála í Afganistan. Sovétmenn viðurkenndu sjálfstæði landsins strax og fyrstir þjóða árið 1919 en Bandaríkin gerðu ekkert. Það var 1922 að fyrsti bandaríski embættismaðurinn heimsótti landið. Þetta var óopinber heimsókn og skýrsla hans, sem mældi með því að viðurkenna sjálfstæði landsins var hundsuð. Bandaríkin hikuðu lengi og viðurkenndu ekki sjálfstæði landsins nema eftir hafa ráðfært sig við Breta og það var árið 1934. Í raun litu Bandaríkjamenn á Afganistan sem hluta af breska Indlandi. Næstu áratugi var stjórn Afganistan frekar höll að samvinnu við Vesturveldin heldur en Austurblokkina en útréttri vináttuhönd þeirra var ekki vel tekið. Afganar, sem eru stolt þjóð, móðguðust við þessi viðbrögð og tengslin við Sovétríkin efldust smám saman. Til að átta sig á því hvernig Sovétríkin höfðu undirbúið sig lengi fyrir mögulega innrás er gott að skoða hvernig þróunarhjálp Sovétríkjanna í Afganistan miðaði að því að ná fram hernaðarlegum eða pólitískum markmiðum. Sem dæmi um þetta er að verkefni voru tímasett nákvæmlega til að ná sem mestum sálrænum viðbrögðum, þegar Pakistanar stöðvuðu innflutning til landsins fóru Sovétmenn að byggja upp korngeymslur og buðu frían flutning í gegnum Sovétríkin. Þeir sem unnu að verkefnunum voru gerðir mjög sýnilegir til koma upp jákvæðu viðhorfi almennings gagnvart stóra bróðir í norðri, foringjar voru þjálfaðir í Sovétríkjunum og vegakerfið var sett upp til að auðvelda liðsflutninga sovéskra hermanna. Allt þetta bendir til þess að raunverulegur tilgangur Sovétmanna með þessari þróunarhjálp var að búa landið undir það að verða meira eða minna undir stjórn Sovétríkjanna.
Áætlanir Sovétríkjanna voru þó truflaðar þegar Daoud var neyddur til að segja af sér árið 1963. Tímabilið frá 1963 til 1973 einkenndist af einhvers konar tilraun til lýðræðis. Stjórnkerfið var gert mun lýðræðislega, t.d. var konungsfjölskyldunni meinaður aðgangur að embættum. Daoud var frændi konungsins og var því úti í kuldanum. Það var á þessu tímabili sem marxískar hreyfingar gerðu fyrst vart við sig í Afganistan að einhverju ráði. Margir Afganar höfðu farið til útlanda og snúið aftur með góða menntun sem þeir vildu nota til að gera landið sitt betra. Fyrir marga þeirra var þó mjög erfitt að fá annað en láglaunavinnu vegna klíkuskapar. Það var líka erfitt að fóta sig í einkageiranum og gjáin milli ríkra og fátækra breikkaði. Þetta skapaði mikla gremju og jók á öfgar til vinstri. Sovétríkin studdu við bakið á þessum hreyfingum sem voru þó ekki líklegar til afreka vegna innbyrðis átaka. KGB menn í Sovéska sendiráðinu í Kabúl þjálfuðu leiðtoga Afgönsku kommúnistahreyfingarinnar með það í huga að taka stjórn landsins í sínar hendur með valdi.
Apríl byltingin

Þegar Daoud var valinn til æðstu stöðu í Afganistan gerðu Sovétríkin ákveðin mistök. Þau höfðu búist við því að hann mundi láta auðveldlega að stjórn og væri sem strengjabrúða í höndum þeirra. Hann hafði aftur á móti áttað sig á því hreðjataki sem Sovétríkin höfðu náð yfir Afganistan síðustu áratugi og reyndi að losa það. Hann leitaði annað eftir efnahagsaðstoð og fékk til dæmis ríkulega aðstoð frá Íran sem á þeim tíma var handbendi Bandaríkjanna. Sovétríkin svöruðu þessu með að styrkja kommúnistaflokkinn. Hann hafði verið klofinn í tvo arma, Khalq og Parcham sem höfðu eldað grátt silfur saman. Árið 1976 náðust sættir milli þessara arma og áætlanir um að losna við Daoud voru skipulagðar. Í apríl 1978 var vinsæll vinstrisinnaður verkalýðsforingi myrtur og Khalq armurinn stóð fyrir miklum ólöglegum mótmælum með morðið sem yfirskyn. Daoud féll í þessa lúmsku gildru og lét handtaka leiðtoga Kalq sem settu af stað byltinguna samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Daoud, ríkisstjórn hans og fjölskylda voru myrt og Kalq tók völdin undir stjórn Nur Mohammed Taraki og Hafizullah Amin í samstarfi við Barbrak Karmal, leiðtoga Parcham armsins. Þessi bylting var skipulögð af Sovétmönnum og greinilegt að Sovétríkin lögðu mikinn metnað í að hafa hendur í stjórnarfari Afganistan.

Samstaða Khalq og Parcham varði þó stutt. Khalq tók fljótlega öll völdin í sínar hendur og sendi Babrak og fleiri leiðtoga Parcham úr landi sem sendiherra. Þessi byltingarstjórn Taraki og Amin reyndist vera ógnarstjórn. Þeir handtóku og myrtu í þúsundatali. Undir yfirskyni endurbóta skiptu þeir niður landi og breyttu afganska fánanum í kommúnistafána, eitthvað sem féll ekki í góðan jarðveg hjá þjóðinni. Þær endurbætur sem kommúnistaflokkurinn réðst í voru gerðar með það í huga að dreifa auðnum til hinna fátæku. Raunin er að þær hefðu aldrei getað gert neitt fyrir hina fátæku. Margar af endurbótunum gerðu líf fátækra bænda verra ef eitthvað var.
Sem dæmi má nefna var landi dreift án nokkurar ígrundunar um að þeir sem fengu landið gátu ekki ræktað það án áveitu, þaks yfir höfuðið og áhalda. Endurbæturnar reyndu að ná valdi yfir samfélaginu til ríkisins en ættbálkahöfðingjar og siðir og venjur voru valdameiri heldur en ríkisbáknið í sveitunum. Ríkið sjálft var fjarlægt sveitahéruðunum og hafði alla tíð verið það. Afleiðingar þessara vanhugsuðu endurbóta sem voru neyddar grimmilega á fólk ofan frá, voru þær að fólk reis upp gegn stjórninni og ríkisvaldið veiktist enn frekar. Mótstaða var mikil og að lokum logaði landið í ófriði. Innan ríkistjórnarinnar ríkti líka ósætti og í september 1979 var Taraki myrtur af Amin. Nú þegar Amin var við völd tóku við enn meiri bælingar á mótstöðu. Afganski herinn var ekki í neinu standi til að bregðast við þessum uppreisnum og stór hluti hans var ekki hliðhollur stjórninni.

Apríl byltingin var frá upphafi dæmd til að mistakast. Til að byrja með hafði hún verið framkvæmd af stjórnmálaflokki sem skorti fylgi meðal almennings. Amin hafði þó náð nógum stuðningi meðal foringja í hernum að uppreisn var möguleg. Almenningur stóð ekki á bakvið hana en almenn óánægja með stjórn Daouds gerði byltingarstjórninni kleyft að sitja undir góðu yfirlæti til að byrja með. Einnig stóðu yfir átök milli Khalq og Parcham sem hindruðu að hægt væri að ráðast í neinar endurbætur en það breyttist eftir að Khalq náði yfirhöndinni. Þeir sem helst fögnuðu nýju stjórninni voru embættismenn, menntamenn og kaupmenn. Þeir vonuðust eftir breytingum og auknum lífsgæðum og atvinnutækifærum. Aftur á móti voru trúarleiðtogar mjög ósáttir enda fylgdi nýja stjórnin ekki sharía lögunum. Þjóðfélagskerfi Afganistans var gamaldags og íhaldssamt og var engan veginn tilbúið fyrir róttækar marxískar breytingar sem næðu til allra hliða þjóðfélagsins í anda Sovésku byltingarinnar. Lánveitendur og fátækir bændur voru ekki andstæðar stéttir, bundnar saman af átökum, eins og hefðbundin marxísk skilgreining gerir ráð fyrir. Þess í stað voru kannski bóndinn og leigusalinn hans frændur og bóndinn var undir verndarvæng hans. Bændurnir fylgdu sharía lögum sem hvetja fólk til að borga allar skuldir. Fjölskyldu-, trúar-, ættar- og ættbálkatengsl voru sterkari heldur en stéttarátök.

Viðbrögð Sovétríkjanna
Hvernig áttu Sovétríkin að bregðast við þessu viðkvæma og erfiða ástandi? Frá mars til desember árið 1979 voru sendar nítján beiðnir til Sovétríkjanna um hernaðarlega aðstoð til að bæla niður mótlætið. Sovétríkin neituðu þó og innan stjórnkerfis Sovétríkjanna voru uppi deilur um hvort innrás væri besti kosturinn eða ekki. Varnarmálaráðherrann Dmitri Ustinov var helsti talsmaður innrásar á meðan ritari miðstjórnar flokksins, Kirilenko, talaði gegn henni. Hafizullah Amin, sem hafði tekið valdasætið af Nur Muhammad Taraki í mars fyrr um árið, var farinn að reyna á þolinmæði Sovétríkjanna. Hann var byrjaður að fálma fyrir sér um stuðning hjá Bandaríkjunum og það áttu Sovétríkin mjög erfitt með að sætta sig við. Ráðamenn Sovétríkjanna voru líka hræddir við að bandarísk kjarnorkuvopn yrðu staðsett í Afganistan ef landið yrði of hliðhollt Vesturveldunum. Að lokum voru það þeir Brezhnev, Ustinov, Gromyko utanríkisráðherra og Anropov, yfirmaður KGB sem ákváðu að innrás skyldi gerð.

Brezhnev var hræddur um að Bandaríkin myndu reyna að eignast í Afganistan það sem þau höfðu tapað í byltingunni í Íran febrúar sama ár. Fyrst ætlaði hann að fá Amin til að gefa frá sér völdin friðsamlega en þegar það mistókst réðst KGB deild á forsetahöllina og drap hann.
Ógnarstjórn Taraki og Amins hafði ýtt afgönsku þjóðinni út á brún allsherjar uppreisnar. Þegar Sovétríkin gerðu innrás og settu hinn hófsamari Parcham arm kommúnistaflokksins undir stjórn Babrak Karmal til valda vonuðust þau til að geta lægt öldurnar. Þessi nýja stjórn stillti endurbótum í hóf en nú þegar valdaskiptin höfðu farið fram með hjálp erlends herafla höfðu Afganir loksins fengið nóg og allsherjar uppreisn hófst. Sovéski herinn reyndi að bæla niður uppreisnina en vestræn og íslömsk ríki studdu hana. Að lokum myndaðist pattstaða þar sem Sovétríkin stjórnuðu Kabúl og stærstu bæjum en uppreisnarmenn stjórnuðu sveitunum.

Þegar allt var að renna úr greipum Sovétríkjanna seint árið 1979 höfðu þau fjóra kosti og innrás var einn þeirra. Annar kostur var að styðja áfram Amin en hvetja um leið marxíska uppreisnarmenn til að skipta honum út fyrir einhvern sem passaði betur fyrir hagsmuni Sovétríkjanna. Þriðji kosturinn var hætta stuðningi við Amin, láta stjórnina falla og reyna svo að eiga vinsamleg samskipti við nýja stjórn. Síðasti kosturinn var svo að losa sig við Amin og bjóða svo óháðum að mynda stjórn sem myndi þó innihalda marxísta. Þessir þrír síðustu kostir höfðu það ágæti að þurfa ekki að neyða stjórn upp á þjóð og hætta á allsherjar uppreisn.

Sovétríkin reyndu að réttlæta innrásina með því að benda á að hún hafi ekki breytt það miklu fyrir innanríkismál Afganistans. Stjórnin hafði áður verið mjög háð efnahagslegum og hernaðarlegum stuðningi Sovétríkjanna. Þeirra útskýring var að þetta væri aðeins aukning í afskiptum en ekki grundvallarbreyting. Hið rétta er þó að fyrir innrásina var baráttan fyrir marxískri stjórn Afganistan í höndum Khalq stjórnarinnar, barátta sem Sovétríkin tóku algjörlega yfir. Það ríkti borgarastríð í Afganistan og Sovétríkin tóku beinan þátt í því. Sovétríkin sökuðu líka vestræn ríki um að kynda undir uppreisnina og notuðu það sem ástæðu til að ráðast inn og bjarga stjórninni undan uppreisn af hálfu heimsvaldasinna. Fyrir innrásina höfðu þó engin ríki hjálpað uppreisnarmönnum að neinu marki og það var ekki til nein áætlun að ná völdum í Kabúl með erlendri aðstoð.

Samband Sovétríkjanna og Bandaríkjanna hafði hrakað upp á síðkastið. Andstaða í bandaríska þinginu gegn SALT II samningunum læddi efa að stjórn Sovétríkjanna um vilja Bandaríkjanna til að halda friðinn. NATO hafði líka tilkynnt ákvörðun um aukningu langdrægra flauga í Vestur-Evrópu. Þetta gerði ákvörðun um innrás auðveldari.

Innrásin í Afganistan tengist því kalda stríðinu í heil sinni nánum böndum. Baráttan snérist um hvaða hugmyndafræði yrði ofan á í heiminum og Sovétríkin vildu því styðja við kommúnistastjórnir.

Efnahagslegar ástæður
Stríð Sovétríkjanna í Afganistan er oft sagt vera þeirra Víetnam. Því er oft haldið fram og gert ráð fyrir að stríðið hafi mjög kostnaðarsamt efnahagslega fyrir Sovétríkin. Það kemur því á óvart fyrir marga að Sovétríkin náðu að færa kostnaðinn yfir á Afganistan og hugsuðu sér að græða á stríðinu. Tölur um viðskipti milli landanna sem gefnar voru út af Sovétríkjunum sýna að þau létu Afganistan borga fyrir innrásina og hersetuna. Þær sýna einnig að Sovétríkin settu verkefni í forgang sem stuðluðu að langtímanýtingu Sovétríkjanna á auðlindum Afganistan og að Afganistan var neytt til að borga fyrir þessa nýtingu Sovétríkjanna. Þetta fór þannig fram að Sovétríkin „seldu“ Afganistan vélbúnað, farartæki, tæki til nýtingar á hráefnum jarðar, flugvélar, hergögn og bensín. Flugvélar sem notaðar voru til að eyðileggja uppskeru og varpa sprengjur á Afgani voru borgaðar af sjálfum Afgönunum. Þegar tölur eru skoðaðar yfir bensín- og olíuviðskipti milli landanna er ekki hægt annað en að fá heimsvaldastefnuna í kollinn. Samkvæmt sjö ára áætlun Sovétríkjanna var á áætlun að reisa olíuhreinsunarstöð. Byggingin var þó aldrei hafin og árið 1982 flutti Afganistan hráolíu að virði 44.66 milljón dollara en keypti hreinsað bensín fyrir 98.4 milljónir. Afganistan var orðið uppspretta hráefna um leið og markaður fyrir fullunnar vörur fyrir Sovétríkin. Önnur hráefni sem Sovétríkin nýttu sér var gas, úraníum, smaragðar og asúrsteinar. Verðið sem Sovétríkin borguðu fyrir gasið var langt undir heimsmarkaðsverði. Gasríku svæðin voru mjög vel varin af Sovéskum her en þeir hlutar efnahags Afganistan sem gögnuðust ekki Sovétríkjunum voru ekki taldir ómissandi. Á þessum tíma voru Sovétríkin búin að vera undir staðnaðri efnahagsstefnu Brezhnevs í fimmtán ár og stöðugt vígbúnaðarkapphlaup við Bandaríkin gekk hart að auðlindum þeirra. Aukinn áhugi á Afganistan á áttunda áratugnum og sú staðreynd að Sovétríkin voru tilbúin að hætta á mikið til að stjórna landinu sýnir að það var möguleiki á miklum gróða. Ef allt hafði farið eins og vonast var til hefði mikið af náttúruauðlindum lent í greipum þeirra. Um leið var Íran að renna úr greipum Bandaríkjamanna og Sovétríkin höfðu kannski stóra drauma um að taka við þeirra hlutverki sem ríkjandi afl á Persaflóasvæðinu. Það hefði gengið í berhögg við kenningu Carters um að þetta svæði væri áhrifasvæði Bandaríkjanna og að ógn við yfirráð þeirra væri ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Niðurstöður
Það er augljóst að Sovétríkin og Rússland á undan því höfðu lengi haft augastað á Afganistan. Allt frá tímum rússneska keisaradæmisins höfðu Rússar litið suður með hýru auga. Eftir að Bretar misstu áhrif sín á svæðinu var baráttan um áhrif aðallega háð við Bandaríkin í stað þeirra. Sovétríkin eyddu miklum fjármunum og tíma í að koma sér upp jákvæðri ímynd hjá hinum tortryggnu Afgönum og koma sér í góða stöðu til að geta haft áhrif á stjórn landsins. Það hefur því greinilega haft einhvern ávinning fyrir þá að ráða yfir landinu. Þó er líklegt að bein innrás hafi ekki verið ofarlega á forgangslistanum. Eftir að það kom í ljós að marxísk stjórn hélt ekki velli án herstuðnings var niðurstaðan þó sú að ókostir og áhætta sem innrás hafði í för með sér var ásættanleg miðað við mögulegan ávinning . Þetta var útreiknuð áhætta sem Sovétríkin tóku en töpuðu á. Apríl byltingin 1978 var lykilatriði í ákvörðun Sovétríkjanna að ráðast inn í landið í stað þess að ná yfirráðum yfir því hægt og rólega með efnahagslegum aðferðum eins og þróunarhjálp. Vegna þess að byltingarstjórnin var svo gersamlega óhæf að stjórna landinu og fékk alla þjóðina á móti sér áttu Sovétríkin á hættu að missa allt sem þau höfðu byggt upp síðustu áratugi.

Ástæður þess að Afganistan varð fyrir barðinu á útþenslu Sovétríkjanna voru nokkrar. Þó að Afganistan sé ekki beint hluti af Mið-Austurlöndum er landið landfræðilegt hlið af þeim frá Sovétríkjunum og með yfirráðum yfir Afganistan gátu þau ógnað stöðu Bandaríkjanna á svæðinu. Það var farið að hitna í kolunum í kalda stríðinu á þessum tíma með auknu vopnakapphlaupi og Sovétríkin hafa viljað sína hvað í sér bjó. Í Afganistan voru líka miklar auðlindir sem Sovétríkin gátu nýtt sér. Staða þeirra undir efnahagsstefnu Brezhnevs stóðst ekki Bandaríkjunum snúning en ef þau hefðu náð tökum á ónýttum auðlindum Afganistan þá hefði taflið kannski snúist við. Afganskir uppreisnarmenn voru þó harðir í horn að taka og ekki svo auðsigraðir fyrir Sovétríkin. Þrátt fyrir það voru reikningar stríðsins frekar hagstæðir fyrir Sovétríkin sem rukkuðu einfaldlega Afgana fyrir stríðsreksturinn. Það er því augljóst að ef allt hefði farið eftir áætlun þá hefðu Sovétríkin komið út í gróða. Bæði í beinhörðum peningum og í áhrifamætti í heimspólitíkinni og kalda stríðinu. Þau hættu á mikið og töpuðu miklu.

Heimildarskrá:
Klass, Rosanne, Poullada, Leon B., Noorzoy, Siddeiq M. o.fl. Afghanistan, the great game revisited. Ritstjóri Klass, Rosanne. London, 1987.

Korgun, Victor G., Russia‘s Muslim Frontiers. Ritstjóri Dale F. Eickelman. Indiana, 1993.

Newell, Nancy Peabody og Newell, Richard S., The Struggle for Afghanistan. London, 1981.

Rubin, Barnett R., The Fragmentation of Afghanistan. State Formation and Collapse in the International System. 2. útg. Yale, 2002.

Sina, Sri Prakas, Fjallaþjóð í vanda. Útlagar í eigin föðurlandi. Frásögn af frelsisbaráttu Afgana. Reykjavík, 1981.

Thompson, William, The Soviet Union under Brezhnev. Seminar studies in history. Bretland, 2003.