.dada og ofursæi[1] Þetta er ritgerð sem ég skrifaði í menningarsögu 303, fékk 9,5 fyrir hana - veit samt varla hvort kennarinn hafi nennt að lesa hana… hann er voðalega kærulaus með allt svona.

.prologus

Upphaf 20tu aldar var tímabil einhvers mesta þjóðfélagsumróts og gagngerrar umturnunar, er átt hefur sér stað í menningarsögu sem og annarri sögu. Þar á ég að sjálfsögðu við hluti einsog t.a.m. Fyrri heimstyrjöldina (1914-1918), afstæðiskenninguna2, örar breytingar á almennum lifnaðarháttum, skiptingu heimspeki og hugmyndafræði í smærri og afmarkaðari stefnur3 og síðast en ekki síst ótrúleg umskipti á hugmyndum manna er viðvíkja list og s.k. „æðri menningu”. En það er einmitt viðfang þessarar ritgerðar.
Aldagamlar og rótgrónar hefðir voru gefnar upp á bátinn og þær skrumskældar sýknt og heilagt. Þessi, í raun, hugmyndafræðilega bylting kom við hjá öllum gömlum vörðuhleðslum og ábyggilega einnig þar sem engar vörður voru fyrir. Þekktastur er án efa afrakstur myndlistarinnar og þá einna helst tvö verka Marcels Duchamps (1887-1968)4, og allt er varðar hina sannfærðu vonarstjörnu ofursæisins Salvador Dali (1904-1989). En um þá merku menn skrifa ég ekki frekar. Hér verður sá póll í hæðina tekinn að fjalla einvörðungu um „list orðsins”5 þ.e. bókmenntir.
Gottfried Benn (1886-1956) sagði í ræðu árið 1951 að stofnanayfirlýsing Filippos Tommasos Marinettis (1876-1944) viðhlítandi ítalska fútúrismanum árið
„1909 hafi verið sá viðburður sem markaði upphaf nútímalistar í Evrópu”6. Þó er talið að þeirri yfirlýsingu hafi verið dreift nokkru fyrr, ef að líkum lætur í desember 1908.7 Vel má vera að eitthvað sé til í þessu, því í kjölfarið komu ótalmargar stefnu- og stofnanayfirlýsingar hjá hinum ýmsu ismum.
Erfitt er að átta sig á hverjar orsakir og ástæður þessarar skyndilegu byltingu listformsins. En bent hefur verið á, og finnst mér það skynsamleg tilgáta, að fyrir þennan tíma hafi list haft ákveðið skrásetningarhlutverk – vissa kvöð til að lýsa samtímanum. Málverkin, höggmyndirnar, ritverkin voru nokkurs konar sagnfræði, skrásetning. En nú var mýgrútur tækninýjunga að ryðja sér rúms; ljósmyndir, kvikmyndir og hljóðupptökur. Þessar nýjungar léttu byrði listarinnar, listin gat hætt að vera svona jarðbundin – henni var áður ómögulegt að hefja sig til flugs með þann þunga kross á bakinu. Listin upplifði frelsi og tilraunamennsku barnæskunnar sem hún hafði aldrei fengið, listin fæddist fullorðin að segja má – í hið minnsta sú „fínni”. Listamenn gátu nú gert hvað þeir vildu, og varpað svo „akkerum í frjóan jarðveg”8 með því að marka sér stefnu, svo notað sé orðalag þeirra sjálfra.
Oft eru þessir hópar sem birtust hver á fætur öðrum á þessum tíma nefndir framúrstefnuhópar (avant-garde)9, en það orð er líkast til smíð Halldórs Laxness. Hann fann einnig upp á öðru orði, atómskáld10, sem haft er yfir íslensk skáld eftir miðja 20tu öldina sem skrifuðu í anda framúrstefnunnar – höfnuðu hefðbundnum reglum í ljóðagerð. Í þeim hópi eru menn einsog Einar Bragi, Stefán Hörður Grímsson, Jón Óskar, Sigfús Daðason og Hannes Sigfússon, en um þann síðastnefnda fjalla ég nánar í ritgerðinni.
Módernismi er haft yfir ýmsar stefnur sem fram komu eftir 1870, þá einkum í bókmenntum. Höfuðeinkenni þess sem sett er undir téðan hatt felst „í endurmati alls skáldskapar, í ljósi nýrra tíma, fráhvarfi frá viðtekinni hefð og ýmiss konar formnýjungum”.11 Í þessari fjölskyldu eru dada og ofursæi fyrirferðamikil systkin. En ég ætla að reyna að stikla á stóru yfir sögu þeirra í þessari ritgerð.

.í upphafi var dada

Árið 1916 í febrúarmánuði í Zürich stofna Hugo Ball og Emmy Hennings bókmenntakabarettinn „Cabaret Voltaire” og meðal þeirra sem mættu á opnunarkvöldið voru Marcel Janco, Tristan Tzara og Hans Arp. Síðar bætist Richard Huelsenbeck í hópinn.12 Í maí á sama ári bregður orðinu dada fyrir í fyrsta sinn á prenti, þá boðar Hugo Ball útgáfu tímarits sem skyldi heita Dada. Litlu seinna er fyrsta dadakvöldið haldið í Waag-byggingunni í Zürich og þar var lesinn upp fjöldinn allur af stefnuyfirlýsingum. Ball og Huelsenbeck sögðust hafa fundið orðið í sameiningu fyrir tilviljun í orðabók og Ball segir í opnunaryfirlýsingu á fyrsta dadakvöldinu að á „frönsku [þýði] það tréhestur. Á þýsku: Addio, af baki með ykkur, sjáumst seinna! Á rúmensku: „Já, einmitt, þér hafið rétt fyrir yður, þannig er það. Hárrétt, enginn vafi. Sláum til”. Og svo framvegis”.13 En megnið af þessu er tilbúningur. Áður hafði Huelsenbeck fjallað um dada í stuttu máli í tilkynningu, þar segir hann m.a. „[v]ið fundum Dada, við erum Dada og við höfum Dada. Dada fannst í orðabók, það merkir ekki neitt. Þetta er hið merkasta ekki neitt, þar sem ekkert býr yfir merkingu. Við viljum breyta heiminum með engu”.
Þetta tvennt er augljóslega ekki samræmanlegt, en það er einmitt kjarni dadaismans, hefði ég haldið, „að dada vilji ólíkt öðrum vera sneyddur allri skynsemi eða vitrænni hugsun”14 Eða einsog Hobsbawm orðar það: „allt sem gæti valdið heilablóðfalli meðal hefðbundinna borgaralegra listunnenda [var] ásættanlegt dada”.15 Drifkrafturinn var hneykslið, að hneyksla sem flesta sem oftast, og þá þarf að segja skilið við skynsemi og vitræna hugsun. Sagt er að dadaisminn hafi sprottið upp úr vitfirringu heimstyrjaldarinnar.
Ég skrifaði áðan að að orðið dada hefði fyrst birst á prenti árið 1916, en það er reyndar ekki satt. Það hafði áður verið notað, bara í allt öðrum tilgangi. Árið 1906 hafði snyrtivörufyrirtækið Bergmann & Co. sett á markað snyrtivörur undir nafninu Dada – en þess er hér meira til gamans getið.16
Dadaisminn olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma, og lýsti Tristan Tzara því einhvers staðar yfir að greinar í dagblöðum þar sem skrifað var um dada væru 8590 talsins.17 Einnig fullyrðir hann að að ef dagblöð hampa einhverjum rithöfundi, staðfestir það að verk hans eru skiljanleg, og segir svo síðar að hann vilji „sterk verk, beinskeytt, nákvæm og að eilífu óskiljanleg”.18
Hópurinn vann svo að krafti við að breiða út boðskapinn, þá sérstaklega Tzara, útgáfa og dreifing á textum í Frakklandi dró athygli útlendra listamanna að dadaistunum í Zürich. Helsti og þekktasti textinn var „Stefnuyfirlýsing dada 1918” eftir Tristan Tzara.
Tzara var með bæði tögl og hagldir einsog sjá má, hann er ritstjóri tímaritsins Dada sem hóf göngu sína í júní 1917. En hann hafði aðrar áherslur en margir hinna og flosnuðu því nokkrir frá hreyfingunni, Hugo Ball og Richard Huelsenbeck höfðu báðir farið sína leið 1917.
Huelsenbeck var þó ekki dauður úr öllum æðum heldur kemst hann í kynni við ýmsa framúrstefnulega listamenn þar sem hann settist að – í Berlín. Þar má nefna Franz Jung og Otto Gross, sem gáfu út tímaritið Freie Straße. Í ofanálag má geta bræðranna John Heartfield og Wieland Herzfelde sem gáfu út satírutímaritið Neue Jugend. Dadaisminn í Berlín vex því upp úr þekkingu Huelsenbecks á fyrirbærinu og þeirri grósku sem var þegar til staðar.19
Í Janúarmánuði 1918 stofnar Huelsenbeck „Dadaklúbbinn” í Berlín og heldur þá sína fyrstu dadaræðu, þar myndaðist öflugur hópur listamanna20 sem var að vissu leyti mun róttækari en hópurinn í Zürich. Þar dreifðu þeir auglýsingum, flugritum, veggspjöldum, símskeytum og póstkortum – þar sem sterk andúð gegn expressjónsima og afdráttarlausar skoðanir á stjórnmálum líðandi stundar. Dada í Berlín átti að vera partur af „raunverulegu lífi” samtímans. Til að nefna dæmi um þetta má nefna byrjun yfirlýsingarinnar „Hvað er dadaisminn og hvað vill hann í Þýskalandi?”:21


Dadaisminn fer fram á:
1. að stofnuð verði alþjóðleg byltingarsamtök allra skapandi og andlegra manneskja heimsins, grundvölluð á róttækum kommúnisma,
2. að innleitt verði stigvaxandi atvinnuleysi með víðtækri vélvæðingu á öllum athafnasviðum. Aðeins með atvinnuleysinu fær einstaklingurinn tök á að sannfærast um sannleika lífsins og semja sig loks að reynsluheimi þess,
3. að allar eignir verði tafarlaust teknar eignarnámi (þjóðnýttar) og öllum verði veitt sameiginlegt fæði, auk þess sem reistar verði ljósa- og garðborgir sem tilheyra öllum og munu búa manneskjuna undir frelsi hennar.22
Þetta sýnir ef til vill nokkurn mun sem var á dada í Berlín og dada í Zürich. En allt kom þó fyrir ekki, hreyfingin í Berlín leið undir lok sumarið 1920.
Tristan Tzara hélt þó ótrauður áfram með sína dadahreyfingu, og vinnur hann sleitulaust að útbreiðslu stefnunnar. 1919 kemur Francis nokkur Picabia (1879-1953) til Zürich og aðstoðar Tzara, í janúar árinu eftir tekur Picabia á móti Tzara París og myndast þar ný dadahreyfing. Meðal þeirra sem voru riðnir við þá hreyfingu voru rithöfundarnir André Breton (1896-1966), Philippe Soupault (1897-1990) og Louis Aragon (1897-1982). Hópurinn vekur mikla athygli annarra framúrstefnulistamanna með blaðaútgáfu og fyrsta samkoman var haldin strax í febrúar, sú var stór í sniðum – 38 einstaklingar þuldu upp stefnuyfirlýsingar dada. Síðar var mikil gróska í hreyfingunni í París, fleiri fleiri uppákomur, og í ofanálag stóð hópurinn að útgáfu tímarita einsog Littérature23, Cannibale og Bulletins Dada.
Fljótlega olli hugmyndfræðilegur ágreiningur sundrun hreyfingarinnar, réttarhöld yfir rithöfundinum Maurice Barrè voru sviðsett – hann átti að hafa brotið gegn „öryggi andans”. Það var víst kornið sem fyllti mælinn. En vendipunkturinn hefur líkast til verið sá að Tzara og nokkru fleiri félögum þótti Breton ekki vera trúr dadaismanum með allri sinni þjóðfélagsgagrýni og „skipulögðu afstöðu”.
Dauði hreyfingarinnar í París er jafnan miðaður við það þegar Breton skrifar texta í Littérature í apríl 1920 sem kallaðist „Lâchez tout” (Segið skilið við allt). Þar gefur hann dada upp á bátinn og býður öðrum að gera slíkt hið sama, margir áttu eftir að fylgja honum þegar hann skrifar svo stefnuyfirlýsingu ofursæisins 1924 – en nánar um það í næsta kafla.
Þetta dadaísku hreyfingar sem hér hafa verið taldar upp eru ekki þær allar sem fram komu, einnig myndaðist hópur í New York, svo í Köln, Hannover og í Hollandi.24

.öðuskeljar og augntennur

Samkvæmt mínum kokkabókum var hugtakið ofursæi notað fyrst árið 1917 af franska framúrstefnuskáldin Guillaume Apollinaire (réttu nafni Wilhelm Apollinaris de Kostrowitzki; 1880–1918), í undirtitli leikrits síns; Les Mamelles de Tirésias25 André Breton var viðstaddur frumsýningu leikritsins og hreifst víst mjög af orðinu, og nokkru eftir að hann yfirgefur dadaismann ritar hann stefnuyfirlýsingar ofursæisins – eða 1924.26
Skilningur Apollinaires á hugtakinu er einhvers konar ný „hneigð innan listsköpunar nútímans sem beinist gegn hvers kyns reglufestu og leitast við að opna nýjar leiðir til að túlka náttúruna”. Hann nefndi sem dæmi úr sögunni að það þegar maðurinn fann upp hjólið hafi verið hin upprunalega ofursæislega athöfn – maðurinn bjó til eitthvað algjörlega frábrugðið fætinum, til að líkja eftir fótgangi.27
Uppúr þessu myndast hópur framúrstefnulistamanna, sem fylgir Breton í þessari nýju stefnu sinni. Hópurinn stofnaði svokallaða „Rannsóknarstofu í súrrealískum fræðum” (Bureau de recherches surréalistes). Það var í október 1924, skömmu áður en Breton vekur athygli á hreyfingunni með áðurnefndum stefnuyfirlýsingum, og er upphaf ofursæis jafnan miðað við þá útgáfu. Tilgangur rannsóknarstofunnar var að „koma á framfæri orðum byltingarsinna, geðsjúklinga, útskúfaðra skálda og annarra utangarðsmanna sem þangað leituðu”28 Seinna verður nokkur breyting á, þetta kemur æ meira til með að líkjast einöngruðum hópi byltingarsinna. Á þeim tíma tók einn meðlimur, Antonin Artaud (1896-1966), til óspilltra málanna og gaf út kraðak yfirlýsinga og áskoranna. Þær gengu mikið út á að koma ætti á fullkomlega óheftu frelsi andans með því að virða að vettugi ýmsan vestrænan menningararf og gagnrýna viðvarandi stofnanakerfi og þar fram eftir götunum. Þessir textar voru sendir á ótrúlegustu staði víst, til páfans, Dalai Lama og forstöðumanna geðsjúkrahúsa svo eitthvað sé nefnt.29
Að stofninum til var þetta sami hópur og stóð að dadahreyfingunni þegar hún var og hét, svo í raun tók tímaritið La Révolution surréaliste við af Littérature sem málgagn listamannanna.
Orðabókaskilgreiningin á ofursæi er svona: „Með súrrealisma var stefnt að því að túlka veruleikann eins og hann speglast í dulvituðu sálarlífi einstaklingsins, draumum hans og óheftum hugmyndatengslum; venjubundin mörk milli draums og veruleika, fjarstæðu og röklegrar skynsemi eru þurrkuð burt.”30 Nýlegar kenningar Sigmunds Freuds (1856-1939) um sálkönnun og drauma hafði þónokkur áhrif á súrrealisma, aðallega í gegnum Breton. Freud sýndi þó sjálfur lítinn skilning á túlkunum listamannanna á kenningum hans.31
Tímaritið, málgagnið hópsins, var mestmegnis með endursögnum á draumum og ósjálfráðum skrifum – með það að markmið að miðla flæðiskenndri og hömlulausri hugsun.
Ekki var lengi að bíða eftir hugmyndafræðilegum ágreiningi innan hópsins, Breton varð snemma mótfallinn þeim yfirdrifna tón sem auðkenndi málgagnið að hans mati. Tekur Breton sér því það bessaleyfi að gerast einráður í hreyfingunni, lokar Rannsóknarstofunni og gerist ritstjóri blaðsins.
Í kjölfar þessa kemst Breton í kynni við ævisögu Vladímírs Leníns (1870-1924), og þá fær hreyfinginn nokkuð pólitískt yfirbragð. Nú verður sú breyting á kenningum ofursæisins að pólitísk bylting verður bráðnauðsynleg forsenda frelsunar hugans – þó voru alltaf deilur milli kommúnista og súrrealista um eðli byltingarinnar. Samt ganga súrrealistar til liðs við Franska kommúnistaflokkinn, og eru tveir stofnendur hreyfingarinnar reknir vegna ágreinings; Artaud og Soupault. Þessi brottrekstrar og pólitíska stefna nær vissu hámarki í stefnuyfirlýsingu sem Breton gefur út 1929 en þar fá þeir sem vísað var brott til tevatnsins. Þessu fylgdi sterkari kommúnismi – nánast bara algjör kommúnísk stefna.
Aldrei gátu þessir menn verið sáttir um neitt, eða svo virðist vera. Louis Aragon fær nefnilega bakþanka og lendir í miklum deilum við Breton, og dregur Aragon sig út úr starfseminni þess vegna.
1933 er súrrealistum vikið úr Franska kommúnistaflokknum vegna ágreinings. En árið 1938 fer Breton í heimsókn til Levs Trotskijs (1879-1940) í Mexíkó og skrifar með honum stefnuyfirlýsingu. En uppúr þessu fara súrrealískar hreyfingar um allan heim að leysast upp. Reyndar myndar Breton nýjan hóp súrrealista 1946, en það varð aldrei jafn stórt og fyrri skiptin.32
Ofursæið hefur haft mikil áhrif á vestrænt samfélag nútímans og til marks um það eru orðin sýrður og súr. Meðal unglinga í dag hafa þau svipaða merkingu og undarlegt, furðulegt, kynlegt, skrýtið og steikt. Mér finnst líklegt að ástæðan séu áhrif frá orðinu súrrealismi.
Ég hef oft efast um að Breton hafi í raun „búið til” stefnu, heldur hafi hann bara smíðað þetta orð yfir ævaforna hugmynd. Ég meina, hvað er Gylfaginning eftir Snorra Sturluson annað en hreinræktað ofursæi? Og hvað með Biflíuna? Gargantúi og Pantagrúll eftir Rabelais? Jakob Forlagasinni eftir Diderot? Vísur Æra-Tobba?
Nú er ekki úr vegi að fjalla aðeins um einhver skáld sem skrifuðu undir áhrifum þessara stefna.
.james joyce

Ég hef aldrei skilið hversvegna [James] Joyce [1882-1941] er ekki talinn höfuðskáld surrealismans, heldur ævinlega hafður í flokki útaf fyrir sig. Það er eftilvill vegna þess að frakkar vilja eigna sér surrealismann einsog alla aðra frammúrstefnu, avantgardisma, sem þó eingin þjóð hatast við og fyrirlítur eins innilega og franskur almenningur; en Joyce skrifaði á ensku, sem er óþekt túngumál í Frakklandi. Munurinn á James Joyce og öðrum surrealistum er einfaldlega sá að hann ber höfuð og herðar yfir þá alla og hefur með stærð sinni einni saman útrýmt sambræðrum sínum, svo eftir stendur af upskeru þessarar stefnu aðeins ein bók, Ulysses, sem verkar á nútímamenn einsog Fjallið Eina.33
Þetta skrifar Halldór Laxness í ritgerð um Sinclair Lewis og James Joyce, og hefur nokkuð til síns máls held ég. Ódysseifur (Ulysses; 1914-1922) og Líkvaka Finnegans (Finnegans Wake; 1922-1939) eru réttnefnd höfuðrit ofursæisstefnunnar.
Bókin Ódysseifur hefur verið þýdd á íslensku, það hefur ekki reynst þýðandanum auðvelt – en það var enginn annar en Sigurður A. Magnússon (1928-) sem tók það þrekvirki að sér. Hún fjallar um einn dag í lífi Leopolds Blooms, nánar tiltekið 16da júní 1904. Notkun Joyces á hugflæði og innra eintali hafði og mun hafa ómæld áhrif á bókmenntir heimsins.
Ekki er úr vegi að nefna að Joyce og Samuel Beckett (1906-1989), einn þekktasti absúrdistinn34, voru góðir vinir. Báðir voru Írar staddir í París, og hjálpaði Beckett hinum sjóndapra Joyce að skrá niður Líkvöku Finnegans – sem er eitthvert torræðasta rit sögunnar. Fólk er ekki einu sinni á eitt sátt um hvort aðalpersónan heiti Humphrey Chimpden Earwicker eða Porter. Í þessu 628 blaðsíðna verki, sem tók manninn 17 ár að semja er að finna um 800 til 1.100 heiti á ám, 300 vísanir í Shakespeare og 1.200 skírskotanir í annars konar einhver vötn og fisktegundir. Joyce útskýrði þennan urmul vatnsfalla í bók sinni með því að segja að einhvern tíma myndi lítill drengur eða lítil stúlka í Tíbet eða Sómalíu, sem læsu bókina, verða ákaflega ánægð þegar þau læsu nafnið á ánni sem liggur meðfram þorpinu þeirra.35

.hannes sigfússon

Hannes Sigfússon (1922-1997) hefur verið kallaður fyrsta íslenska súrrealíska skáldið. En Únglíngurinn í skóginum eftir Halldór Laxness fyrsta súrrealíska ljóðið, enda hefst það á „Mig dreymdi…” og endar „…og þá vaknaði ég” og ofursæi gekk að miklu leyti út á drauma einsog áður sagði.
Steinn Steinarr (réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson; 1908-1958) hafði mikil áhrif á feril Hannesar. Annars vega hvatti Steinn hann til þýðinga, sem hjálpaði honum mjög mikið, og hins vegar útvegaði hann Hannesi stöðu sem kauplaus aðstoðarmaður vitavarðarins í Reykjanesvita – svo hann gæti ort þar. Vökunætur í vitanum sköpuðu einhvern hreinræktaðasta súrrealisma á íslenska tungu, einsog hann segir sjálfur þá „leystu [þær] úr læðingi undarlega runu orða og setninga sem oftast virtust vera úr samhengi eins og þegar talað er upp úr svefni”.
Fyrsta ljóðabók Hannesar Dymbilvaka (1949) og önnur Imbrudagar (1951) voru báðar skrifaðar í anda ofursæis, en Hannes var mjög pólitískur og síðar tekur hann að skrifa ljóð með mjög berorðum kommúnískum boðskap. Einhvern veginn finnst mér ómögulegt að ákveða boðskap fyrirfram í súrrealisma – það gerir ljóðin fölsk. Þá er ekkert hugflæði og það að „fanga það sem í hugann kemur án þess að hafa of mikil áhrif á hvað úr því verður” víkur fyrir pólitískri predikun.36
Dymbilvaka hefst á „Eg sem fæ ekki sofið” og endar á að perlu dreymi ljós. Í fyrsta erindi Imbrudaga er einhver sofandi og bókinni líkur með orðunum: „Andvökunnar auga / Októbersyfjað haust”. Þetta sýnir augljós tengsl við ofursæi.

Ég læt hér fljót með brot úr nokkrum ljóðum Imbrudaga, þetta ætti að gefa manni ágætis hugmynd um hvernig „frummynd” súrrealísks skáldskapar lítur út:

Hin hringhenda þula dægranna, hvísluð af vindum
við næm eyru lindarinnar, spegilinn sem brotnar
og er aftur heill

…

Í hnotskurn efnisins
er leikur eins og hnattlíkan á möndli
milli oddhvassra augntanna vorra
býr heili guðs: hin gráa þoka

…

Lík unglingsins flýtur upp af þaragróðrinum
líkt og niðurbæld stuna.
Um annað auga hans lykja öðuskeljar
hitt er opið til hálfs

…

Og glerbrot rúðunnar glitra í hári mínu
líkt og gimsteinar…37


.epilogus

Já, skáldskapur væri nú væntanlega nokkuð einsleitur og bragðdaufur ef ekki hefði verið fyrir þessar tvær stefnur sem fjallað var um í ritgerðinni. Það er þeim að þakka að við erum ekki að hjakka í sama farinu, þetta voru margar misstórar byltingar sem við njótum nú góðs af.
Þessar byltingar í listum og menningu voru að einhverju leyti undanfarar hippatímans og aukins frjálsræðis í hinum vestræna heimi. Þær sýndu framá það að hefðir þurfi ekki að vera af hinu góða, og þegar þú yfirgefur hefðirnar færðu fjölbreyttara og frjórra hugarstarf.
Kannski er samt kominn tími til að snúa blaðinu við, ætli við séum búin að njóta of mikils frjálsræðis og málfrelsis? Er hefðin orðin sú að reyna að brjóta sem flestar hefðir? Ekki ætla ég að dæma í því, en þetta býður upp á vangaveltur.


.aftanmálsgreinar og tilvísanir

1. Ofursæi er hér notað í stað orðsins „súrrealismi” og verða þau notuð jöfnum höndum í ritgerðinni. Þennan sið tek ég upp eftir Þorsteini Gylfasyni (1942-), en hann færði rök fyrir upptöku þessa orðs í fyrirlestri sem hann hélt í Deiglunni nú í sumar. Sur á frönsku þýðir yfir og er því eiginlega „raunsæi yfir raunveruleikanum” (Hannes Pétursson 1972:101). Fannst Þorsteini því eðlilegt að kalla súrrealisma ofursæi, og gerir það tengslin við raunsæi mun ljósari.
Myndin á forsíðu heitir „Hlutur” (1936) eftir Méret Oppenheim (1913-1985) og er á Nýlistasafninu í New York. Gera má ráð fyrir að þessi mynd sé orsök þess að sprelligosinn Ali G spyrji lesbíur oftsinnis hvort gott sé að drekka úr loðna bollanum (drink from the furry cup).
2. Albert Einstein (1879-1955) setti fram afstæðiskenningu sína í tvennu lagi 1905 og 1916. En hún kollvarpaði heimsmynd Sir Isaacs Newtons (1642-1727).
3. Hér á ég aðallega við skiptingu í rökgreiningarheimspeki annars vegar og meginlandsheimspeki hins vegar. En sú skipting hófst reyndar á 19du öld – þó er nánast ómögulegt að tímasetja þetta af einhverri nákvæmni með fullri vissu. Søren Kierkegaard (1813-1855) og Friedrich Nietszche (1844-1900) eru oftast nefndir sem upphafsmenn meginlandsheimspeki (tilvistarstefnu þá helst), en varðandi rökgreiningarheimspeki má nefna menn einsog Gottlob Frege (1848-1925), Bertrand Russell (1872-1970) og málspekinginn Ludwig Wittgenstein (1889-1951). Það hvenær þessir menn voru uppi ætti að geta glöggvað fyrir þér hvenær mestu breytingarnar áttu sér stað. Rökgreining og annað henni tengt er helst við lýði hinum engilsaxneska menningarheimi, en meginlandsheimspekin og hennar fylgifiskar halda sig mest í Frakklandi og Þýskalandi. Um þetta má m.a. lesa nánar í Hvað er heimspeki? – tíu greinar frá tuttugustu öld, bls. 21 og víðar (Róbert Jack og Ármann Halldórsson ritstýrðu. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. 2001, Reykjavík).
4. Hér á ég við pissskálina margfrægu „Gosbrunnur” (1917) og myndina af Monu Lisu með skegg „L.H.O.O.Q.” (1919), en ef stafirnir eru bornir fram hratt á frönsku hljómar þetta einsog „elle a chaud au cul” sem þýðir „hún er heit á rassinum”. Duchamp var einn af stofnendum dada í New York (Yfirlýsingar 2001:503).
5. Yfirlýsingar 2001:188.
6. Ibid. 11.
7. Ibid. 89, 148.
8. Ibid. 320.
9. Sjá ítarlegri umfjöllun um þetta hugtak bls. 20-33 í Yfirlýsingum. Evrópska framúrstefnan. Benda má á að einnig hefur þetta verið kallað nýlundulist.
10. Notar það háðslega í Atómstöðinni (1948).
11. Íslenska Alfræðiorðabókin H-O 1990:516.
12. Yfirlýsingar 2001:303. Hugo Ball (1886-1927) var leikhúsmaður og rithöfundur – nánar á bls. 500. Emmy Hennings (1885-1948) var skáld, leikari og lífsförunautur Balls. Marcel Janco (1895-1963) var rúmenskur listmálari – nánar á bls. 506. Tristan Tzara (réttu nafni Samuel Rosenstock; 1896-1963) var rúmenskt skáld – nánar á bls. 513. Hans Arp (1887-1966) var myndlistamaður og rithöfundur – nánar á bls. 500. Richard Huelsenbeck (1892-1972) var skáld og læknir – nánar á bls. 506.
13. Yfirlýsingar 2001:314, 349-350.
14. Ibid. 324 (skýr. 36 bls. 357).
15. Hobsbawm 1994:194.
16. Yfirlýsingar 2001:315 (skýr. 17 bls. 351).
17. Ibid. 355.
18. Ibid. 326-327.
19. Ibid. 305-307. Franz Jung (1888-1963) var rithöfundur og Otto Gross (1877-1920) sálgreinandi (ibidem). Hinir tveir skipta litlu máli.
20. Benedikt telur upp Raoul Hausmann (1886-1971) – nánar á bls. 505, Johannes Baader (1875-1955), Walter Mehring (1896-1981), Hönnuh Höch (1889-1978) og George Grosz (réttu nafni Ehrenfried Groß; 1893-1956) – nánar á bls. 505.
21. Yfirlýsingar 2001:307-308.
22. Ibid. 336.
23. Breton, Soupault og Aragon höfðu þegar stofnað Littérature 1919.
24. Yfirlýsingar 2001:308-311.
25. Brjóst Teiresíasar. Súrrealískt leikrit í tveimur þáttum og forleik.
26. Yfirlýsingar 2001:379-380.
27. Ibid. 459.
28. Ibid. 380.
29. Ibid. 380-381. Artaud var svo að mestu leyti lokaður inni á geðsjúkrahúsum sjálfur það sem eftir var – nánar á bls. 500.
30. Hannes Pétursson 1972:101.
31. Yfirlýsingar 2001:466-467.
32. Ibid. 381-387.
33. Halldór Laxness 1963:60-61.
34. Absúrdisminn er náskyldur súrrealismanum. Sagður eiga uppruna sinn að rekja til frumsýningar á leikritinu „Ubu roi” (Bubbi kóngur) eftir Alfred Jarry 1896. En „En attendant Godot” (Beðið eftir Godot) eftir Beckett er án efa frægasta afurð leikhúss fáránleikans einsog það er kallað (Yfirlýsingar 2001:480).
35. Jón Gunnar Þorsteinsson.
36. Eysteinn Þorvaldsson 2002:220-223.
37. Hannes Sigfússon 1949 & Hannes Sigfússon 1951.


.heimildaskrá

Eysteinn Þorvaldsson. 2002. Ljóðaþing. Um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Ormstunga, Reykjavík.

Halldór Laxness. 1963. Skáldatími. Helgafell, Reykjavík.

Hannes Pétursson. 1972. Bókmenntir. Alfræði Menningarsjóðs. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík.

Hannes Sigfússon. 1949. Dymbilvaka. Prentsmiðjan ODDI h.f., Reykjavík.

Hannes Sigfússon. 1951. Imbrudagar. Prentsmiðjan Hólar h.f., Reykjavík.

Hobsbawm, Eric. 1999. Öld öfganna. Saga heimsins á 20. öld. Mál og menning, Reykjavík.

Íslenska alfræðiorðabókin A-G, H-O, P-Ö. 1990. Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir ritstýrðu. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Jón Gunnar Þorsteinsson. Í hvaða skáldsögu koma fyrir flest nöfn á ám eða fljótum?
www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2961 [Sótt 18da desember 2002].

Kristján Árnason. Eru eða voru til íslenskir súrrealistar?
www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1616 [Sótt 18da desember 2002].

Yfirlýsingar. Evrópska framúrstefnan. 2001. Vilhjálmur Árnason ritstýrði. Hið Íslenzka Bókmenntafélag, Reykjavík.