Kjarnorkuógn Kaldastríðsáranna, Seinni hluti: The Day After Allir í byrgin!

Eins og fram kom í fyrri hluta, voru (í það minnsta í Bandaríkjunum) lengi uppi hugmyndir um kjarnorkustríð sem unnt væri að “vinna”. Átti það að gerast einfaldlega með því að missa færri menn en óvinurinn. Að mati áðurnefnds Kahns og álíka hugsuða, yrðu 20-30 “megadeath” ekki Bandaríkjunum óyfirstíganleg. Landið myndi jafna sig á nokkrum árum, en óvininum hefði verið útrýmt svo rækilega að hann ætti sér enga viðreisnar von.

En forsenda fyrir slíku átti þó að vera skilvirkt almannavarnarkerfi, sem virkja þyrfti almenning sjálfan. Almenningur var nógu skelkaður fyrir, en uppúr 1950 fór að bera á að stjórnvöld reyndu að sefa óttann með því að leggja áherslu á almannavarnir. Heill mýgrútur var gerður af plakötum, bæklingum og fræðslukvikmyndum um kjarnorkustríð og ekki síður varnir við því. Í nú alræmdri fræðslumynd fyrir börn var þeim kennt að henda sér undir borð og skýla höfði með handleggjum (“Duck & Cover”) þegar sprengjan félli. Og foreldrarnir fóru eftir leiðbeiningabæklingum og byggðu “family shelter” í garðinum. Hámarki náði þessi hystería í Kúbudeilunni 1962, þegar heimurinn virtist í raun og veru standa á barmi kjarnorkugereyðingar.

Á næstu árum dró fremur úr þessum ótta, kjarnorkubyrgin fóru að rykfalla á meðan önnur þjóðfélagsmein komust ofar á baug. Það þýddi þó ekki að búið væri að kveða niður kjarnorkuógnina. Risaveldin tvö (og önnur ríki) héldu sífellt áfram að auka og þróa vopnabúr sín. Það var síðan á árunum um 1980, þegar verulega tók að kólna á ný milli austurs og vesturs, sem kjarnorkuógnin komst aftur í hámæli í þjóðfélagsumræðu.


Kenningin um kjarnorkuvetur

Þegar mörgum þótti sem Reagan-stjórnin væri að dusta rykið af gömlu hugmyndafræðinni um “vinnanlegt kjarnorkustríð” urðu viðbrögðin sterk. Alþjóðlegur hópur virtra vísindamanna gaf út rannsókn sem varð upphafið að kenningunni um Kjarnorkuvetur. Sú kenning hélt því fram að áhrif allsherjar kjarnorkustyrjaldar á vistkerfi jarðar yrðu mun alvarlegri og hrikalegri en áður var talið. Reykurinn frá þúsundum borga að brenna samtímis myndi stíga upp í heiðhvolf jarðar og sameinast í stóran svartan hjúp sem hylja myndi a.m.k. norðurhvel jarðar mánuðum saman, og valda langvinnum fimbulvetri sem fátt gæti lifað af, sérlega þegar geislavirknin bættist við.

Þegar loks færi að rofa til, og sólin tæki að skína á þessa frosnu og lífvana veröld, yrðu geislar hennar brennandi og banvænir, því ózónlagið yrði gersamlega horfið. Mannleg siðmenning væri liðin undir lok, rottur og kakkalakkar tekin við í rústum hennar. Þetta var öllu nöturlegri sýn á horfunar “daginn eftir” en þær sem áður höfðu fram komið – ekki að þær væru neitt sérlega eftirsóknarverðar heldur!

Ýmsar bækur komu út um þessar kenningar. Vísindamaðurinn frægi Carl Sagan var einn af höfundum kenningarinnar, og gaf út bók þar sem hann útskýrði hana fyrir almenningi: “A Path Where No Man Thought: Nuclear Winter and the End of the Arms Race” Stjórnmálamennirnir Mark Hatfield og Edward Kennedy gáfu út bókina “Freeze! How You Can Help Prevent Nuclear War” sem m.a. var þýdd á íslensku. Auk þessa fékk þessi kenning rækilega umfjöllun í ýmsum fræðsluþáttum í sjónvarpi, og allt varð þetta til að auka verulega meðvitund fólks um þessi mál, og efla mótmælahreyfingar um allan helming.


Dómsdagur festur á filmu

Á kaldastríðsárunum voru gerðar ótal bíómyndir þar sem kjarnorku-ragnarökin komu við sögu á einn eða annan hátt. Og mis-mikið, því í mörgum þessara mynda var kjarnorkustyrjöld einungis notað sem “setup” fyrir sögusviðið, “post-apocalyptic” heim. Ósköpin sjálf skipta minna máli en hin spennandi saga í hinum nöturlega rústaheimi þar sem lögleysa ríkir og hetjur koma fram á sjónarsviðið. Þó margar séu slíkar myndir afar áhugaverðar, eru þær flestar ekki alveg innan efnisins hér. Hér munum við því aðeins staldra við myndir sem beinlínis tengjast efninu á raunsannan hátt, og aðeins gefst tími til að líta á þrjár af þeim helstu…

Kvikmyndin “The War Game” var gerð af BBC árið 1965. Hér var á ferðinni nöturleg samtíðarsýn sett upp sem alvöru heimildarmynd um kjarnorkuárás á Bretland, og lítið var dregið undan í hryllingnum. Stjórn BBC ákvað skömmu áður en myndin átti að vera á dagskrá, að hún væri “of hrollvekjandi”, og hætt var við sýningu hennar. Hin opinbera skýring var sú að sem Ríkissjónvarp gæti BBC ekki verið ábyrgt fyrir því að valda ofsahræðlsu meðal almennings í andstöðu við stefnu stjórnvalda. BBC átti hreint og klárt sýningarréttinn að myndinni, og gat því löglega “læst hana oní skúffu” næstu 20 ár. En þá voru komnir aðrir tímar og aðrar myndir með svipuðu þema höfðu komið fram, beggja vegna Atlantshafsins. Engu að síður þótti “The War Game” nokkuð áhrifarík þegar hún loks kom fyrir almenningssjónir.

Sjónvarpsmyndin “The Day After” var gerð á hámarki kjarnorkuhræðslu Reagan-tímans árið 1983. Frumsýning hennar var vel auglýst sem “major event”, og fékk myndin afar gott áhorf um Bandaríkin. Var myndinni eftir sýningu fylgt eftir með umræðum málsmetandi manna um kjarnorkuógnina. Myndin lýsir lífi nokkurra venjulegra fjölskyldna og einstaklinga í Kansas (“heartland” Bandaríkjanna) fyrir, á meðan, og eftir að ósköpin dynja yfir. Að sjálfsögðu deyja flestar persónurnar á mis-hörmulegan hátt áður en myndinni lýkur. Þó mörgum þætti myndin ansi “saniteruð” (ekki of mikill hryllingur sýndur á prime-time), þótti hún engu að síður hrollvekjandi og vakti mikil viðbrögð um öll Bandaríkin. Sagt er að Reagan sjálfur hafi orðið sleginn yfir henni og þess gætt í afvopnunarviðræðum framvegis.


Hin breska sjónvarpsmynd “Threads” þótti hinsvegar sú áhrifamesta af þessum myndum. Hún var gerð 1984, og titillinn vísar til hinna viðkvæmu þráða (bæði tæknilegra og félagslegra) sem vestrænt þjóðfélag byggir á, og við erum orðin svo vön að við tökum ekki lengur eftir. “Threads” – fyrir utan að vera hin vanalega kjarnorkumartröð – spáir einnig í áhrifum kjarnorkustríðs á vestræna samfélagsskipan almennt, og rífur kenningar um “vinnanlegt kjarnorkustríð” í tætlur. Hér er félagsfræðin tekin inn í myndina: Vestræn þjóðfélagsskipan er – líkt og í mjög samofnu tölvuneti - orðin að afar flóknu neti “þráða” milli fólks almennt og líka milli stofnana samfélagsins. Þegar meirihluti þráðanna sem byggst hafa upp í gegnum aldirnar eru skyndilega slitnir, hrynur öll siðmenning og kemst aftur á núll-punkt, steinaldar- (eða í besta falli miðalda) samfélag.

Fyrir utan að sýna hrylling kjarnorkustyrjaldar mun “grafískar” en “The Day After” gerði, er “Threads” líka meira sannfærandi í þessu tilliti. Þar sem fyrrnefnda myndin endaði á lítilli vonarglætu um endurreisn og góða fjarlæga framtíð, gerir hin síðarnefnda akkúrat hið gagnstæða; Þrátt fyrir að fólk hafi þraukað í áratug eftir ósköpin og reynt að byrja aftur, fæðast börnin andvana eða vansköpuð og mannkynið er dauðadæmt. Myndin var sýnd hér á landi á sínum tíma, og þótti mörgum nær óbærileg að horfa á – slíkur var hinn raunverulegi ótti við “dómsdaginn”.


…við Reykjanes blómstrar geislavirkt ský

Hér á landi varð ekki síður vart við þennan ótta en annarsstaðar. Hryllingssögur voru sagðar af því sem gerast myndi ef að Keflavík og/eða Reykjavík yrðu fyrir kjarnorkusprengjum. Oftar en ekki voru þessi verk samin af vinstrisinnuðum skáldum og notuð sem áróðursvopn gegn herstöðinni í Keflavík. Greinarhöfundur sjálfur náði bara rétt aðeins í skottið á þessum tíma, var smápatti á fyrstu Reagan-árunum. En kjarnorkuóttinn smaug inní mann, enda ýmislegt til að minna á hann. Daglega voru deilur risaveldanna í fréttum, sem snerust oftar en ekki um kjarnorkuflaugar. Enda var það svo að þegar fólk fór að tala um fyrirætlanir sínar næstu 10 árin, gerði það þann fyrirvara á þeim að ekki yrði “búið að sprengja þetta alltsaman þá”. Svo mjög var búið að innprenta þennan dómsdags-ótta í fólk að það leit á ártöl í nánustu framtíð með hrolli: 1990 yrði heimurinn líklega geislavirk auðn, og árið 2000 var bara einhver vísindaskáldsögu-fantasía í órafjarlægri framtíð!

Áðurnefnd bók Hatfields og Kennedys var þýdd og gefin út hér á landi, með viðauka um afleiðingar kjarnorkustríðs á Ísland; Þar var meðal annars stúderað hvað myndi gerast ef einni 1 mt sprengju yrði varpað á herstöðina við Keflavík. Í Almannavarnarsíðum aftast í símaskránni, voru leiðbeiningar um hvernig skyldi bregðast við í helstu hamförum sem fyrirvaralaust gátu dunið yfir: Eldgosum, jarðskjálftum, flóðum - og að sjálfsögðu kjarnorkustríði! Þar var m.a. útskýrt hversu mikla vörn kjallarar veittu gegn geislavirkni eftir því hversu langt þeir væru niðurgrafnir. (Þessar kjarnorkustríðs-síður voru í símaskránni alveg fram undir 1990, ef einhver nennir að tékka.)

En um það þarf ekki að fjölyrða að í slíku “dómsdags-scenaríói” sem menn sáu fyrir sér á þessum tíma, hefðu líklega allir Íslendingar látið lífið innan 2-3 ára frá “dómsdegi”, hvort sem sprengja hefði fallið á landið eða ekki. Ísland hefði verið nær algerlega einangrað frá umheiminum í næfurköldum kjarnorkuvetri og deyjandi lífríki. Eftir aldir hefði kannski ný siðmenning endur-uppgötvað landið, og séð af rústunum að hér á þessari norðlægu eyju hefði hin dularfulla og máttuga menning fornmanna einnig náð að festa rætur endur fyrir löngu.


Var óttinn ástæðulaus?

Um og uppúr 1990, þegar samskipti risaveldanna fóru sífellt batnandi og annað þeirra liðaðist í sundur, snar-dró úr þessari varanlegu kjarnorkuógn. Fólk hafði um nóg annað að hugsa í hinu nýja umhverfi alþjóðastjórnmála, og í dag er þetta minningin ein. En þó er vert að spyrja: Var þessi ótti á rökum reistur, eða var þetta bara “hystería” (eins og t.d. “heimsfaralds”-óttinn sem reglulega skýtur upp kollinum í dag) sem bara varði óvenju lengi?

Komið hefur í ljós síðan kalda stríðinu lauk, að “MAD”-hugmyndafræðin virkaði oftast. Hvorugt risaveldanna vildi í alvöru hætta á kjarnorkudómsdag útaf málum sem við betri umhugsun voru “ekki aaalveg svo mikilvæg”! Besta dæmið eru líklega kjarnorkuflaugar Rússa á Kúbu 1962. Komið hefur í ljós að Rússar hefðu aldrei viljandi lagt út í kjarnorkustyrjöld út af þessum flaugum.

Lykilorðið hér er “viljandi”. Það er óhugnanleg staðreynd að í spennuástandi eins og skapaðist í Kúbudeilunni, hefði ekki mátt mikið út af bera til að allsherjar styrjöld hefðist fyrir slysni. Þá er helst verið að tala um fát stressaðra yfirmanna hjá öðrum hvorum aðila, sem hefðu fyrirskipað árás fyrir misskilning. Enginn tími hefði gefist til að leiðrétta slíkan misskilning fyrr en of seint, og í þeirri algjöru ringulreið sem á eftir hefði fylgt, hefði heimurinn e.t.v. verið dauðadæmdur. Vitað er í dag, að þá og sumsstaðar á öðrum tímapunktum Kalda stríðsins, munaði stundum liltu að illa færi.

Þannig að á meðan risaveldin stóðu andspænis hvort öðru vopnuð þúsundum kjarnorkuvopna, var kannski alltaf meiri möguleiki á að mannleg mistök myndu leiða til dómsdagsins heldur en ákvarðanir stjórnmálamanna. Og það er síst minna hrollvekjandi tilhugsun!


The Day After Tomorrow: Kjarnorkuógn í framtíðinni?

Eins og sagði í upphafi greinar, er sú “kjarnorkuógn” sem til staðar er nú á dögum hvergi nærri jafn yfirþyrmandi og hún var á Kaldastríðsárunum. Vissulega yrði það hrikalegur og ógleymanlegur viðburður ef hryðjuverkamönnum tækist að sprengja kjarnorkuvopn inní stórri borg. 9/11 myndi algerlega falla í skuggann, og líklega yrðu nýjar styrjaldir háðar hér og þar um heiminn, þar sem e.t.v. nokkrar kjarnorkusprengjur til viðbótar yrðu notaðar. Þó það yrðu erfiðir tímar fyrir heimsbyggðina, yrði það þó enginn dómsdagur.

Ísrael hefur um langt skeið (án þess að viðurkenna það) haft kjarnorkuvopn undir höndum, og nýtti sér þá óljósu ógn m.a. í Yom Kippur stríðinu 1973. Eins og kunnugt er stefnir Íran nú á að eignast slík vopn. Hvað sem svo kann að gerast í þessum heimshluta á næstu árum, er afskaplega ólíklegt að kjarnorkuvopnum verði beitt í átökum þar. Ísraelsmenn eru nú orðnir mjög öruggir um sína stöðu í Miðausturlöndum, og gagnvart Íran og/eða Sýrlandi er stefnan “Assured Destruction”, en þar vantar lykilorðið “Mutual”, Ísrael í hag. Aðeins mjög alvarleg árás á Ísrael, með lífrænum-, efna- eða kjarnorkuvopnum gæti kallað fram kjarnorkuárás þeirra á eitthvert nágrannalandanna. Eftir það yrði saminn friður, enginn dómsdagur.

Í Norður-Kóreu er Kim Jong-Il líklega búinn að koma sér upp nokkrum sprengjum og eldflaugum til að skjóta þeim á hugsanleg skotmörk í Suður-Kóreu og jafnvel Japan. Merkilegt er þó hvernig kjarnorku-hótanir hans þagna þegar honum er lofað frekari efnahagsaðstoð frá umheiminum. Kim er því líklega aðeins að nota kjarnorkuvopn sín sem pólitískt “blackmail” vopn, enda veit hann að kjarnorkuárás á nágrannalönd yrði sjálfsmorð. Þannig að þó ólíklegt sé, yrði “Seinna Kóreustríð” vissulega hrikalegt og myndi hafa víðtæk áhrif á alþjóðapólitík og efnahag. En þó þar yrði kjarnorkuvopnum mjög líklega beitt, yrði það enginn dómsdagur.

Einu verulegu milliríkja-kjarnorkuátök sem hugsa mætti sér í nánustu framtíð (næstu 25 ár eða svo) væru á milli hinna fornu fjenda Indlands og Pakistans, sem báðir hafa nú yfir kjarnorkuvopnum að ráða. Í versta hugsanlega falli myndu löndin eyða nokkrum stærstu borgum hvors annars, og slátrunin yrði ólýsanleg. Mannfall yrði meira en í báðum heimsstyrjöldunum samanlagt, og áhrifin á umhverfið yrðu hrikaleg. Þó myndu þau hvergi nærri ná að kollvarpa efnahag heimsins, né að skapa þann kjarnorkuvetur sem átök risaveldanna áður hefðu gert. Semsagt enn og aftur: Enginn dómsdagur.


Eru þá einhverjar líkur á að mannkynið eigi aftur eftir að upplifa þennan sífellda nagandi ótta um kjarnorkugereyðingu sem einkenndi Kalda stríðið? Sumir myndu segja að Kalda stríðið með sinni MAD-hugmyndafræði hefði verið ákveðinn prófsteinn sem mannkynið stóðst: Þrátt fyrir ýmsar svartsýnis-spár, tókst að halda heimsfriðinn næstum hálfa öld og afstýra dómsdeginum, þótt litlu hefði stundum mátt muna. Það má svosem vel vera rétt.

Hinsvegar gæti það einnig verið að í okkar samtíma séum við aðeins að sjá örlítið hlé á brjálæði kjarnorkuvopna-kapphlaups. Þótt afar ólíklegt sé að hinir gömlu Kaldastríðs-andstæðingar fari aftur í gamla farið, þá eru önnur veldi á uppleið, aðallega Kína og Indland. Ef fer fram sem horfir, munu bæði þessi ríki ná efnahagslegum styrk Bandaríkjanna og sameinaðrar Evrópu innan fárra ára, og munu þá líklega sækjast eftir hernaðarmætti í samræmi við þá stöðu. Og víða í Asíu eru suðupunktar þar sem öðru hvoru hinna nýju velda gæti lent saman við þau gömlu. Eða við hvort annað. Eða þá við minni (en þó stór) veldi í álfunni, svo sem Indónesíu eða Japan. Hver veit…?

Heimildir:
Eins og oft áður, var aðal-heimildin hin stórgóða bók:
Cold War eftir Jeremy Isaacs og Taylor Downing

Önnur mjög góð bók um þetta efni er: The Bomb: A Life eftir Gerald D. DeGroot


Eftirfarandi síður innihalda allar ítarlegan fróðleik um sögu kjarnorkuvopna og áhrif þeirra, auk hlekkja á fleiri síður um efnið:
http://www.atomicarchive.com/index.shtml

http://www.nuclearweaponarchive.org/index.html Þessi síða er komin vel til ára sinna og hefur ekki verið uppfærð lengi. Engu að síður hafsjór fróðleiks.

http://www.abomb1.org/index.html
_______________________