Valdaránið í Chile 1973 Inngangur

Nánast allt frá stofnun Bandaríkjanna árið 1776 hafa Bandaríkjamenn litið á Vesturheim allan (báðar álfurnar og nærliggjandi hafsvæði) sem “sitt áhrifasvæði”. Þegar Suður-Ameríka fór snemma á 19. öld að brjótast undan yfirráðum nýlenduveldanna (aðallega Spánar) litu bandarískir hugsjónamenn á það sem framhald af þeirra eigin sjálfstæðisbaráttu mannsaldri fyrr. T.d. var Símon Bólivar, einum helsta sjálfstæðisbaráttumanninum oft lýst sem “Suður-Amerískum George Washington”. Fyrrum nýlendur á svæðinu höfðu varla tíma til að berja saman sjálfstæðisyfirlýsingar og stjórnarskrár áður en viðurkenning á fullveldi hins nýja lands var komin frá Hvíta húsinu í Washington.

Þessi hugsjónastefna, sem reyndar var mjög blönduð eiginhagsmunum, varð opinber langtímastefna Bandaríkjanna árið 1823 þegar James Monroe forseti og John Quincy Adams utanríkisráðherra hans (og eftirmaður í forsetaembætti), lögðu fram stefnumarkmið sín í þessum málum. Fengu þau víðtækan stuðning Bandaríkjaþings, og urðu eftirleiðis þekkt sem “Monroe-kenningin” (doctrine). Framvegis yrðu Bandaríkin hið ríkjandi stórveldi Vesturheims.

Of langt mál væri hér að rekja alla sögu Monroe-kenningarinnar í framkvæmd, en hún hefur alla tíð síðan verið hornsteinn í stefnumótun Bandaríkjanna varðandi Vesturheim. Næstu 120 árin voru Bandaríkjamenn víða afskiptasamir um stjórnmál Rómönsku (þ.e. spænskumælandi, þ.e. Mið- og Suður-) Ameríku, reyndu hvarvetna að sjá til þess að “sínir menn” væru við stjórnvölinn. Dæmi um þetta eru mýmörg, og stundum allt að því skondin í ófyrleitni sinni: Þegar ekki náðust nógu hagstæðir samningar við Kólumbíu um skipaskurð yfir Panama-eiði, var einfaldlega gerð uppreisn í því héraði með stuðningi Bandaríkjanna, og þar stofnað nýtt (og auðvitað samningsliprara) ríki!


Kalda stríðið og Rómanska Ameríka

Í Kalda stríðinu sem hófst uppúr Seinni heimsstyrjöld, má síðan segja að Monroe-kenningin hafi fengið nýtt hlutverk. Í víða í Rómönsku Ameríku voru kjöraðstæður fyrir uppgang kommúnisma – mikil stéttaskipting og harðneskjuleg undirokun hinna fátækari. Í mörgum þessara landa voru hálf-fasískar herforingjastjórnir við völd, dyggilega studdar af fornri landeigendastétt, sem síðan átti sameiginlega hagsmuni með bandarískum auðhringum. (Hugtakið “Bananalýðveldi” á uppruna sinn hér, en það er önnur saga!)

Þó alls ekki sé hægt að segja að ýmiskonar vinstrisinnuð byltingar-róttækni væri ný af nálinni í þessum heimshluta, fóru nú Bandaríkjamenn að líta hana miklu alvarlegri augum en þeir höfðu áður gert. Kommúnistahystería hafði nú gripið um sig í Bandaríkjunum, og litu margir þannig á að land þeirra væri í baráttu upp á líf og dauða við hin illu Sovétríki. Kaldastríðshaukar litu á þessum árum á allan kommúnisma sem hinn sama, og öllu væri lævíslega stjórnað frá Moskvu í því markmiði að ná heimssyfirráðum.

Þó vinstrihreyfingar í Rómönsku Ameríku væru að langmestu leyti “sjálfsprottnar” og reyndar þráðbein afleiðing stjórnarfarsins í viðkomandi löndum, þóttust Bandaríkjamenn sjá fingraför Kremlverja hvar sem þeir sáu rautt. Þeir sameinuðu því stefnu gömlu Monroe-kenningarinnar, að Bandaríkin myndu ekki líða utanaðkomandi stórveldum ítök í Rómönsku Ameríku - við hina nýju Truman-kenningu, um að þau myndu allstaðar í heiminum aðstoða stjórnvöld í baráttunni gegn kommúnisma. Framvegis yrði CIA séð fyrir nægum starfa í Rómönsku Ameríku. Þeir bæði aðstoðuðu ríkisstjórnir í baráttu við skæruliða kommúnista, eða ef illa hafði farið, hægrisinnaða skæruliða í baráttu við byltingarstjórnir.

Fall Kúbu í hendur skæruliða Fídel Kastrós árið 1959 var mikið áfall fyrir Bandaríkjamenn. Kúba var vissulega gerð að útverði fyrir Kremlverja, en það gleymist oft að það var eftir að Bandaríkjamenn sjálfir höfðu nánast rekið Castró í faðm þeirra, með allt of harkalegum viðbrögðum við valdatöku hans. Hvað sem því leið voru Bandaríkjamenn ákveðnir í að sagan frá Kúbu skyldi ekki fá að endurtaka sig. Og eitt af þeim löndum sem nú var talið í hættu var Chile.


Chile

Chile er stundum nefnt “lengsta land í heimi” því það teygist yfir meira en helming Kyrrahafsstrandar Suður-Ameríku, allt frá hinum fornu Inkaslóðum í norðri til hins alræmda Hornhöfða í veðravíti Suður-Íshafs. Þetta eru næstum 5000 kílómetrar, en landið er þó aðeins 430 km þar sem það er breiðast. Um miðbik landsins er mikið og frjósamt sléttlendi þar sem m.a. heimsfræg vínrækt stendur á gömlum grunni. Þar stendur höfuðborgin Santiago, stofnuð af spænskum konkvistardorum á 16. öld og nú ein af stærstu borgum álfunnar. Íbúar Chile eru um 16 milljónir, 95% afkomendur spænskra landnema, 5% aðrir innflytjendur og frumbyggjar.

Saga landsins hafði að flestu leyti verið áþekk sögu annara ríkja álfunnar, og stjórnarfarið var oftast eftir því. Landið vann sjálfstæði frá Spáni árið 1818, og var þá stofnað lýðveldi. Landið hafði síðan þá gengið í gegnum valdarán og smástríð við nágrannalöndin með reglulegu millibili. Á 20. öld voru tilraunir gerðar til félagslegra og stjórnarfars- umbóta, sem þó ristu ekki mjög djúpt. Hin gamla stétt landeiganda hélt jafnan raunverulegum völdum í landinu með gagnkvæmum stuðningi við þá klíku sem stýrði hernum hverju sinni.

Þrátt fyrir það var Chile eitt af lýðræðislegri löndum Suður-Ameríku (ekki mikið með því sagt), og uppúr 1960 leit út fyrir að landið væri að færast í átt að umbótum og raunverulegu lýðræði. Árið 1964 var jafnaðarmaður, sósíal-demókratinn Eduardo Frei kosinn forseti landsins og hóf ýmsar umbætur. Þær voru þó hvergi nærri nógu róttækar að mati vinstrimannsins Salvador Allende sem einnig hafði verulegt fylgi. Bandaríkjamönnum stóð verulegur stuggur af Allende, enda óttuðust þeir að hann kynni að höggva nærri viðskiptahagsmunum þeirra í landinu kæmist hann til valda.

Bandarísk fyrirtæki áttu stóran hlut í mikilli silfur- og koparvinnslu Chile, og fjarskiptarisinn ITT átti nánast allt fjarskiptakerfi þessa langa og víða ógreiðfæra lands. Hafði reyndar CIA-fjármagni verið beitt í þágu Freis og gegn Allende árið 1964, en erfitt er að segja með vissu til um áhrifin af því. En bandaríski utanríkisríkisráðherrann Henry Kissinger hafði enga trú á árangri slíkra aðgerða.1969 hafnaði hann tillögu Richard Helms forstjóra CIA um leynilega fjármögnun í næstu Chileönsku kosningabaráttu.

Í forsetakosningum 1970 hafði Allende góðan sigur á helsta keppinauti sínum, íhaldsmanninum Jorge Alessesandri. Hann hlaut flest atkvæði, en skorti þó hreinan meirihluta sem þurfti til kjörs í embættið. Í slíkri aðstöðu var það þingsins að kjósa forseta, og var áður litið á það sem hálfgert formsatriði, því aldrei hafði það brugðist að sigurvegari kosninga hlyti einnig kjör í þinginu.

Þegar Richard Nixon bandaríkjaforseti frétti af sigri Allendes varð hann æfur. Hann kallaði Kissinger og Helms á sinn fund, jós yfir þá skömmum og skipaði þeim að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir að Allende yrði forseti. Chile skyldi “bjargað” sama hvað það kostaði!


“Two track situation”

Hjá CIA voru strax tvær aðgerðir settar í gang, nefndar “leiðir” að settu markmiði, (track 1 og track 2). “Leið 1” miðaði að því að fá Chileanska þingið til að kjósa ekki Allende þrátt fyrir sigur hans í almennu kosningunum. “Þægum” fjölmiðlamönnum erlendis var uppálagt, eða jafnvel mútað til, að skrifa gegn Allende. Þannig er t.d. talið að afar neikvæð forsíðu-umfjöllun Time um Allende hafi verið að undirlagi CIA. Í Chile voru bæklingar prentaðir og plaköt, allt fjármagnað í gegnum milliliði af ITT og fleiri fyrirtækjum. Samhliða þessu var reynt að fá sitjandi forseta, Frei, til að neita að láta af embætti í trausti þess að lögregla og her myndu hlýða sér. Hann tók slíkt ekki í mál, og urðu CIA menn því að leita á önnur mið.

Nú urðu þeir að treysta á “leið 2”, sem miðaði hreint og beint að valdaráni hersins, sem nokkur fordæmi voru fyrir í sögu Chile. Þáverandi yfirmaður hersins, René Schneider var þekktur lýðræðissinni sem ekki var tjónkandi við, og var því leitað til gamals fyrrum hershöfingja að nafni Roberto Viaux. Planið var að menn hollir Viaux myndu ræna Schneider, ná þannig yfirráðum yfir hernum og fremja valdarán.

Þegar til átti að taka, hætti Bandaríkjamönnum að lítast á blikuna, og drógu stuðning sinn við planið til baka. En það var of seint, Viaux ákvað að framkvæma það uppá eigin spýtur. Að morgni 22. október 1970 renndu þrír bílar samsærismanna upp að heimili Scneiders hershöfðinga í þann mund sem hann var að leggja af stað til vinnu. Mannránið mistókst, en í skotbardaganum sem varð lét Schneider lífið.

Morðið á Schneider vakti gríðarlega reiði í landinu, og hin upprunalega áætlun CIA snerist gersamlega í höndunum á þeim. Samsærismennirnir náðust, og varð allt málið til þess að menn fylktu sér að baki Allendes. Hann var kjörinn forseti landsins tveim dögum síðar. CIA hafði mistekist – í bili.


Valdatími Allendes

Allende hófst þegar handa við mjög róttækar aðgerðir. Um 7 milljón hekturum ræktarlands var skipt upp á milli 40 þúsund bænda, í nýju samyrkjukerfi. Bankar landsins og ýmis gróðafyrirtæki (t.d. í koparvinnslunni) voru þjóðnýtt. Bandaríkjamenn brugðust að sjálfsögðu ókvæða við þessum árásum á hagsmuni sína, og var Kissinger utanríkisráðherra falið að hafa yfirumsjón með og samræma aðgerðir hinna ýmsu ríkisstofnana og hagsmunasamtaka sem málið varðaði. Lokað var á viðskipti við Bandaríkin, og beittu þau áhrifum sínum í að fá önnur lönd til að gera hið sama. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánaði Chile ekki meira fé, þó lánstraust landsins hefði áður verið gott. Í vandræðum sínum gerði Allende það sem allir í svipaðri aðstöðu gerðu, hann leitaði til Sovétríkjanna eftir aðstoð. En þau gátu alls ekki veitt þann fjárhagsstuðning sem þurft hefði (áttu líklega fullt í fangi með Kúbu).

Árið 1971 kom Fidel Castro í fræga heimsókn til Chile, þar sem hann “túraði” vítt og breitt um landið í heilar fjórar vikur. (E.t.v. hefur hann þar viljað feta í fótspor síns gamla fallna félaga Che Guevara, sem hafði gert hið sama sem kornungur maður ?) . Vel fór á með Allende og Fidel. Hvatti Castró Allende til að ganga lengra í að gera Chile að hreinræktuðu kommúnistaríki, og samsama sig þannig meira að “Sovétblokkinni” í alþjóðapólitíkinni. Allende tók heldur fálega í það, sagðist frekar vilja byggja upp sósíalískt þjóðfélag í Chile á innlendum forsendum.

Ekki leið á löngu áður en efnahagseinangrunin fór að segja alvarlega til sín. Iðnaðurinn hrundi, og hinar snögga umbylting landbúnaðarkerfisins sá enn betur til þess að hann var alls ekki tilbúinn undir erfiða tíma. Fátækt til sveita varð verri en nokkru sinni fyrr, og margir streymdu í örvæntingu “á mölina” til Santiago, sem að sjálfsögðu jók á vandamál sem þar voru fyrir. Þegar leið á árið 1972 urðu verkföll og götuóeirðir algengar. Innan hersins fóru menn að komast á þá skoðun að grípa yrði í taumana.


11. september 1973

Í ágúst 1973 skipaði Allende nýjan yfirmann hersins. Var það gamalreyndur hershöfingi að nafni Augusto Pinochet. Ferill hans í hernum var flekklaus, og aldrei hafði hann gert sig líklegan til að skipta sér af pólitík. Sá Allende því enga ástæðu til að vantreysta honum. Það sem Allende vissi ekki, var að Pinochet og hans nánustu samstarfsmenn í hernum voru þegar byrjaðir að plotta gegn honum, og í sambandi við CIA. Að kvöldi 10. september kallaði Pinochet sína menn á leynifund, þar sem hann lét þá sverja hollustueið með tilheyrandi sverða-seremóníu. Nú var komið að því.

Fyrir Chile-búa varð dagsetningin 11. september ógleymanleg mun fyrr en hjá öðrum. Að morgni þess dags framkvæmdi nánast allur herafli landsins þaulskipulagt valdarán. Flugherinn gerði loftárásir á forsetahöllina í miðborg Santiago. Nokkur mótstaða varð á stöku stað, en menn hollir forsetanum voru óneitanlega mun færri nú en þremur árum fyrr. Víðast tók það herinn ekki langan tíma að brjóta andstöðuna á bak aftur. Allende var ásamt nokkrum dyggum stuðningsmönnum umkringdur í forsetahöllinni, þaðan sem hann útvarpaði kveðjuræðu til þjóðarinnar áður en herinn gerði lokaáhlaupið. Þar lét Allende lífið. Atvik voru umdeild – herforingjastjórn Pinochets sagði hann hafa framið sjálfsmorð á skrifstofu sinni, en stuðningsmenn sögðu hann hafa verið skotinn á tröppum hallarinnar. (Krufning framkvæmd af óháðum aðilum árið 1990, hallaðist fremur að sjálfsmorðs-kenningunni, þó ekki væri neitt fullyrt).

Næstu 17 árin máttu Chile-búar þola einhverja hrottalegustu harðstjórn sem þekkst hafði í álfunni, (þar sem þó ýmislegt hafði þekkst gegnum tíðina). Pinochet-herforingjastjórnin var ávallt ofarlega á lista Amnesty yfir verstu mannréttindabrjóta heims. En eitt hafði hann þó endurheimt, eins og um var samið: Velþóknun Bandaríkjastjórnar. Þjóðnýttar eignir voru aftur afhentar eigendum sínum, og aftur var skrúfað frá peningakrana Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Var Pinochet hampað víða, m.a. af vinkonu sinni Margaret Thatcher fyrir að hafa endurreist efnahaginn.



Eftirmáli

Valdaránið í Chile kom á tíma mikillar vinstrisveiflu í vestrænni alþýðumenningu, og akkúrat á tímapunkti þar sem pláss var fyrir nýja stóratburði og hetjur á hinum róttækari vinstri væng. Víetnamstríðinu var loksins nýlokið, og nokkur ár voru liðin frá víginu á Che Guevara, hinum frægasta af píslarvottum Rómönsku Ameríku. Hér var á besta tíma komið nýtt skýrt samtíma-dæmi um ofbeldi auðvaldsins gagnvart frelsisunnandi alþýðu. Valdaránið í Chile komst strax efst á baug hjá vinstrimönnum. Um allan heim hamraði vinstripressan á þessum atburðum á forsíðum og í leiðurum sínum. Myndir af Allende urðu algengar á kröfuspjöldum í mótmælagöngum, og fjölmargir (og misgóðir) trúbadorar um allan heim sömdu og sungu baráttuljóð með tilvísanir í þessa atburði.

Bókmenntir og kvikmyndir gripu fljótlega þessa bylgju á lofti. Mikið hefur verið skrifað og filmað þar sem valdaránið kemur við sögu. Fyrir áhugasama má þar nefna bíómyndina “Missing” með Jack Lemmon, og hina frægu skáldsögu Isabel Allende “Hús andanna” (á ensku: House of the Spirits) sem líka var kvikmynduð.

Enn í dag líta margir vinstri-róttæklingar á Salvador Allende sem píslarvott og flagga plakötum með honum, enda þykir sumum hann vera hentugri “hetja” en skæruliðinn Che! En hvað sem því líður varð Valdaránið í Chile mun frægari og eftirminnilegri atburður í mannkynssögunni en nokkrum hefði grunað á þeim tíma.



Helsta heimild:

Cold War
Eftir Jeremy Isaacs og Taylor Downing, 1999



PS: Að endingu má svo nefna að í dag eru Bandaríkin síður en svo hætt afskiptum sínum af stjórnmálum Rómönsku Ameríku. Hugo Chavez í Venezúela, og Evo Morales í Bólivíu eru nú nýjustu “óþekktarormarnir” að mati Hvíta hússins, og verður áhugavert að sjá hvernig þeim reiðir af á næstu árum.
_______________________