Íran-Írak stríðið - Fyrri hluti Styrjöldin milli Íraks og Írans 1980-88 er ekki jafn áberandi í sögu 20. aldar eins og hún á skilið, oft er litið á hana sem aðeins eitt af fjölmörgum þriðjaheims-smástríðum sem litlu máli skipta í sögunni. Ekkert gæti í raun verið fjær sannleikanum. Íran-Írak stríðið var meðal hinna lengstu og mannskæðustu á öldinni, og hafði víðtæk áhrif á alþjóðastjórnmál meðan það stóð yfir. Enn víðtækari hafa áhrifin þó reynst vera fyrir framvindu mála í þessum heimshluta síðan. Nægir þar að nefna að ef ekki hefði verið fyrir Íran-Írak stríðið, hefði ekki orðið neitt Persaflóastríð 1990-91. Ekki þarf neitt að fjölyrða um að ýmislegt væri þá öðruvísi í heimsmálunum nú á dögum.



Miðausturlönd árið 1980

Miðausturlönd eru enn í dag talin vera “púðurtunna” , en fyrir 25 árum voru kveikiþræðir að henni fleiri og styttri en þeir eru í dag, enda spilaði Kalda stríð risaveldanna þá stóran þátt. Undanfarna þrjá áratugi hafði stanslaus ófriður geisað fyrir botni Miðjarðarhafs, sem fjórum sinnum hafði magnast upp í allsherjar styrjaldir á milli Ísraels og Arabalandanna undir forystu Egyptalands. Löndin höfðu háð sína síðustu stór-styrjöld, Yom Kippur stríðið, árið 1973. Eftir það stríð hafði Anwar Sadat Egyptalandsforseti séð að engin von yrði nokkurntíman um að sigra Ísrael hernaðarlega, og hafið friðarumleitanir. Árið 1979 var Camp David samkomulagið gert, um varanlegan frið og stjórnmálasamband milli Ísraels og Egyptalands.

Því fór þó víðs fjarri að varanlegur friður milli Ísraels og Arabaheimsins almennt væri í raun kominn á. Arabískur almenningur og ráðamenn í Sýrlandi og víðar, höfðu megnustu skömm á samkomulaginu. Þeir kölluðu Sadat ótíndan svikara við málstað Araba, þó sjálfir væru þeir engu betur staddir gagnvart hernaðarmætti Ísraels. Máttleysi sitt í hernaði gegn Ísrael reyndu Sýrlendingar og fleiri Arabalönd að bæta upp með víðtækum stuðningi við PLO-skæruliðasveitir Yassir Arafats og fleira sem honum til heyrði.

Uppúr 1970 höfðu arabískir hryðjuverkamenn fyrst farið að láta verulega til sín taka á vesturlöndum, og sóttu sífellt í sig veðrið næstu 15 árin. Ólíkt hinum ofsatrúuðu sjálfsmorðs-hryðjuverkamönnum í dag, þóttust þessir vera veraldlegir stríðsmenn fyrir málstað Palestínu. Þeir stunduðu langvinn flugrán með gíslatökum og samningaviðræðum með tilheyrandi gísla-drápum. Með þessu vöktu þeir auðvitað athygli vesturlandabúa á vandamálum miðausturlanda, þó ekki væri hún beinlínis jákvæð. 1980 var Yassir Arafat langt frá því að hljóta Friðarverðlaun Nóbels, hann var um öll vesturlönd erki-ímynd hryðjuverkamanns.

Með Camp David samkomulaginu breyttist staðan fyrir botni Miðjarðarhafs, því nú var ljóst að ekki yrðu fleiri stór-styrjaldir milli Ísraels og Egyptalands. Fótunum var endanlega kippt undan tilraunum Sovétríkjanna (sem nú voru hvort eð er að missa áhuga á svæðinu) til að seilast til áhrifa fyrir botni Miðjarðarhafs; því þriggja áratuga baráttu þar var nú í raun lokið með hernaðarlegum sigri Ísraels. Þó endalaus hryðjuverk um allan heim og hjaðningavíg milli Ísraelshers og arabískra skæruliða héldu áfram, voru formleg milliríkjaátök á svæðinu að færast í austur - að Persaflóa.


Byltingin í Íran – Khomeini erkiklerkur

Allt frá í Seinni heimsstyrjöld hafði Íran verið helsti bandamaður Bandaríkjanna á Persaflóasvæðinu. Keisari (Shah) Írans, Reza Pahlavi átti reyndar CIA völd sín að þakka, því þeir höfðu rúmum 25 árum áður komið honum honum aftur til valda eftir skammvinnt lýðveldistímabil. Áhugi Bandaríkjamanna á landinu var mjög skiljanlegur bæði í ljósi efnahagsmála; landið var gífurlega ríkt af olíulindum – og ekki síður í ljósi Kaldastríðs-pólitíkur; öll norðurlandamæri þessa gríðarstóra lands lágu að Sovétríkjunum. Íran var réttilega talið vera lykillinn að auðlindum Persaflóasvæðisins, og Bandaríkjamenn voru harð-ákveðnir í að koma í veg fyrir öll sovésk áhrif þar.

Pahlavi var hund-tryggur Bandaríkjamönnum, enda hafði honum ávallt staðið mikill stuggur af nágrannanum í norðri. Íran var ásamt Saudi-Arabíu mikilvægasta olíuland vesturlanda, og auðurinn af olíunni skilaði sér að miklu leyti aftur til Bandaríkjanna í formi gríðarlegra vopnakaupa. Draumur keisarans var að gera Íran að gildandi vestrænt-sinnuðu stórveldi í þessum heimsluta, og víst var að margir í Pentagon vildu endilega aðstoða við að gera þann draum að veruleika. Íranir fengu flest þau hátæknivopn sem þeir báðu um, enda staðgreiddu þeir í beinhörðum dollurum.

Á vesturlöndum var Pahlavi keisari eftirlæti ráðamanna, og var í fjölmiðlum útmálaður sem fyrirmyndar leiðtogi þróunarlands á hraðri uppleið. Í reynd var hann löngu orðinn gerspilltur og veruleikafirrtur harðstjóri sem sífellt versnaði eftir því sem andstaða við hann færðist í aukana. Öryggislögregla hans SAVAK fylgdist grannt með andófsmönnum heima og erlendis, og varð fræg fyrir hrottaskap. Þeim auð sem ekki fór í kaup á bandarískum vopnum, sólundaði keisarinn í glórulaust sýndarmennsku-bruðl. Frægasta dæmið er hátíð sem hann hélt árið 1971 í tilefni 2500 ára afmælis Persaveldis, og bauð mörgu frægðarfólki hvaðanæva úr heiminum til. Ekkert var til sparað til að ganga í augun á þotuliðinu, og alls kostuðu herlegheitin yfir 300 milljónir dollara. Íranskur almenningur var jafn blankur eftir, og var í auknum mæli farinn að hallast að skoðunum bókstafstrúar Sjíta-múslima meðal annars undir forystu hins útlæga erkiklerks (ayatollah) Khomeinis.

Árið 1978 fór verulega að hitna undir hásæti Reza Pahlavis þegar bókstafstrúarhreyfingin sótti í sig veðrið. Í desember var landið lamað í fjöldamótmælum og óeirðum, sem einnig náði inn í raðir hersins. Í janúar 1979 neyddist keisarinn til að flýja land, og Khomeini erkiklerkur sneri heim úr útlegð og lýsti yfir stofnun Íslamsks lýðveldis. Þótti þessi bylting hafa gengið óvenju hratt fyrir sig, og kom flestum utan Írans í opna skjöldu. Í hinni stanslausu baráttu sinni við Heims-kommúnismann í Íran, (sem í sjálfu sér gekk alveg þokkalega), hafði Bandaríkjamönnum nánast algerlega yfirsést þessi hreina innanlands-ógn við keisarann. Bandarískir sendiráðsfulltrúar höfðu reyndar varað við þessari hættu í mörg ár, en lítið var hlustað á þá í Washington. Þar kusu menn heldur að trúa embættismönnum keisarans, sem auðvitað sögðu bókstafstrúarmenn vera “nothing to worry about”.

Nú höfðu hinsvegar Bandaríkjamenn undir forystu Carters forseta næg áhyggjuefni í Íran. Ekki nóg með að þeirra helsta vinaland við Persaflóa væri nú í einu vetfangi orðinn svarið óvinaland, heldur varð illt verra þegar sendiráðið í Teheran var hertekið og allt starfsliðið tekið í gíslingu. Tilgangurinn var að knýja á um framsal keisarans. Málið dróst sífellt á langinn, og að endingu fór það svo að þegar síðustu gíslunum var loks sleppt var keisarinn látinn (af eðlilegum orsökum), og nýr forseti tekinn við í Washington. Í Bandaríkunum og víðar á vesturlöndum var hinn svartklæddi síðskeggjaði Khomeini erkiklerkur nánast orðinn ímynd djöfulsins sjálfs. En handan suðurlandamæra Írans var annar einræðisherra sem áratug síðar átti eftir að taka við þeim status.


Fyrstu mistök Saddams Hussein

Nágrannalandið Írak var einnig olíuauðugt, en hafði þó hvergi nærri þá stöðu í alþjóðapólitík sem Íran keisarans hafði notið undanfarna áratugi. Írak var um þrefalt minna að flatarmáli og að sama skapi fámennara en Íran, en þó að mörgu leyti þróaðra, enda stóð miðhluti þess, “landið milli fljótanna”, á ævagömlum merg í menningarsögu mannkyns. En ólíkt Íran sem hafði verið “kjölturakki” vesturlanda í áratugi, var Írak Arabaland sem tekið hafði þátt í fjórum misheppnuðum styrjöldum gegn Ísrael, og í biturð sinni hallað sér meira að Sovétríkjunum en vesturlöndum, þó ekki væri neitt formlegt bandalag gert.

Landið hafði að auki alltaf verið róstusamt og blóðugar byltingar tíðar. 1968 komst loks svonefndur Baath-flokkur til valda, en hann boðaði sér-arabíska útgáfu af sósíalisma, með algjörum aðskilnaði múslimatrúar og stjórnmála. Einn af helstu ráðamönnum Baath-flokksins var ósvífinn og grimmur klækjarefur að nafni Saddam Hussein. Hann varð varaforseti Íraks fljótlega uppúr valdatöku Baath, og árið 1979 varð hann forseti. Eitt af hans fyrstu verkum var að láta myrða alla flokksmenn sem staðið höfðu á móti honum, nánast fyrir opnum tjöldum. Þannig gat hann sér strax orð sem grimmasti einræðisherra Arabaheimsins, og er þá nokkuð sagt.

Hinn stóri nágranni í norðri, Íran, hafði lengi verið þyrnir í augum ráðamanna í Írak. Fyrir það fyrsta höfðu Persar (forfeður Írana) og Arabar aldrei verið neinir sérstakir vinir í gegnum aldirnar. Í öðru lagi voru landamæradeilur Írans og Íraks jafngamlar ríkjunum sjálfum, og höfðu Írakar loks neyðst til að skrifa undir “endanlegt” samkomulag um landamærin árið 1975. En það var fleira: Ekki aðeins var keisarinn Bandaríkjaleppur, heldur voru Íranir Sjíta-múslimar. Flestir írakskir ráðamenn, þ.á.m. nánast öll Saddams-klíkan, voru hinsvegar af minnhluta Sunní-múslima í Írak. Mjög grunnt var (og er enn) á því góða milli þessara trúflokka. Hinn tækifærissinnaði Saddam hafði að vísu áður samþykkt að veita Khomeini hæli í Írak um skeið, en það var eingöngu gert til að kynda undir ólgu í Íran keisarans; það tókst bara betur en til var ætlast.

Ljóst er að Saddam Hussein hefði aldrei komið til hugar að ráðast á Íran meðan það var enn undir stjórn keisarans og þar með vernd Bandaríkjanna. En nú eftir hinn snögga viðsnúning þar, þóttist hann sjá einstakt og gullið tækifæri: Hinir hötuðu Íranir voru nú “fresh out of friends”, hann gæti ráðist á þá með þegjandi samþykki (ef ekki hreinlega stuðningi) bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Kostirnir við þessa áætlun áttu líka að vera margþættir: Íranski herinn var í byltingar-glundroða, og því ætti hinum sovésk-vopnaða Íraks-her að takast nokkuð auðveldlega að ná undir sig mörgum af helstu olíulindum Írana við landamærin, og leiðinni að opna Írökum varanlegan aðgang að góðum olíu-útlutningshöfnum við Persaflóa.

Íranir myndu fljótlega neyðast til að semja frið, og Saddam stæði þá með pálmann í höndunum: Ný og hagstæð landamæri við Íran, öruggar hafnir við Persaflóa, og (í það minnsta þegjandi) velþóknun beggja risaveldanna. Auk þess yrðu áhrif Khomeinis á uppreisnarsinnaða Sjíta innan Íraks að litlu gerð. Fyrir Saddam var væntanlegur ávinningur mun meiri en áhættan, og teningunum var kastað.


Sókn Íraka – Gagnsókn Írana

Þann 22. september 1980 hóf Saddam Hussein innrás sína í Íran. Í fyrstu gekk hún vel, Íraksher náði á sumum stöðum meira en 100 kílómetra inn í Íran, og hertók marga mikilvæga staði. Írakar höfðu hinsvegar varla tíma til að gleðjast yfir velgengninni áður en þeir fóru að lenda í alvarlegum vandræðum.

Það kom fljótlega í ljós að Saddam hafði stórlega ofmetið áhrif byltingarinnar á íranska herinn, hann var hvergi nærri í þeim glundroða sem búist var við. Margir herforingjar keisarastjórnarinnar höfðu einfaldlega haldið áfram störfum undir nýrri stjórn. Annað sem Írakar bjuggust við var að Íranir ættu nú í stökustu vandræðum með að viðhalda vopnabúnaði sínum, sem var að mestu bandarískur, vegna skorts á varahlutum og viðhaldskunnáttu nú þegar klippt hafði verið á stuðning frá Bandaríkunum.

En þetta var í flestum tilfellum óskhyggja. Einfalda hluti eins og skotfæri í bandarískar byssur var lítið mál að útvega annarsstaðar frá, eða jafnvel framleiða innanlands. Sama átti við um um varahluti í eldri flugvélategundir eins og orustuþoturnar F-4 Phantom og F-5, ýmsar bandarískar þyrlur og Lockheed P-3 Orion könnunarvélar, en allar þessar vélar notuðu Íranir með sæmilegum árangri allt stríðið. Einu bandarísku vopnin sem Íranir lentu í verulegum vandræðum með, voru þau allra nýjustu. Keisarinn hafði t.d. nýlega keypt 80 stykki af spánýjum F-14 Tomcat orustuþotum, sem þá voru einhverjar þær fullkomnustu í heimi. Í því tilfelli höfðu Írakar þó haft rétt fyrir sér (og prísuðu sig sæla með það!). Við byltinguna hafði Írani ennþá skort þjálfun á þessar þotur og ýmsa tæknikunnáttu, og gátu þeir því aldrei nýtt sér þær sem skyldi.

Hið síðasta sem Saddam & félagar höfðu stórlega vanmetið, var sá trúarhiti sem Khomeini erkiklerkur gat vakið í þegnum sínum. Jafnvel ef íranski herinn hefði verið jafn veikur eins og Írakar héldu, var Íran nú einnig uppfullt af milljónum ofstatrúarmanna sem hikuðu ekki við að æða útí opinn dauðann í nafni Allah, að skipun erkiklerksins óskeikula. Rödd Khomeinis hljómaði hvarvetna úr útvarpstækjum í Íran með hvatningum í þá áttina að sýna “guðleysingjanum og hórmangaranum” Saddam Hussein í tvo heimana og “drekkja innrásarmönnunum í eigin blóði”. Fljótlega þurftu Írakar ekki aðeins að berjast við hinn fyrrverandi keisaraher Írans undir nýrri stjórn, því nú bættist honum nær óendanlegur liðsauki af lítt þjálfuðum en ofstækisfullum “stríðsmönnum guðs” sem voru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn.

Hér áttu Írakar klárlega við ofurefli að etja, enda fóru þeir fljótlega halloka undan gagnsókn Khomeinis. Eftir gríðarlegt mannfall á báða bóga var svo komið um mitt ár 1982 að Íranir voru ekki aðeins búnir að reka Íraka úr landi sínu, þeir voru komnir langt innfyrir landamæri Íraks og ógnuðu m.a. borgunum Basra í suðri og Kirkuk í norðri. Saddam Hussein sá nú að hinn “snjalli leikur” sinn hafði herfilega misheppnast, og bauð Írönum vopnahlé. Hefðu Íranir tekið tilboði hans hefði stríðinu lokið þá, og mál stæðu ábyggilega talsvert öðruvísi í þessum heimshluta nú á dögum.

En Íranir voru nú orðnir sigurvissir, og Khomeini var ákveðinn í að refsa Saddam grimmilega fyrir ósvífni sína og gera Írak framvegis að vinveittu Sjíta-ríki. Hann hafnaði alfarið vopnahléstilboði Saddams, og fór að undirbúa sóknir lengra inn í Írak. Það átti þó fljótlega eftir að koma í ljós að hann hafði vanmetið bæði klókindi Saddams, og ekki síður ótta nágrannaríkjanna og alþjóðasamfélagsins við Íran klerkanna yrði of valdamikið. Stríðið átti eftir að standa í 6 ár í viðbót, og því lauk fyrst þegar stórveldi heimsins gerðu sig líkleg til að blanda sér það.



Í seinni partinum verður gangur stríðsins áfram rakinn, og litið á ýmis áhrif sem það hafði bæði á nágrannalönd og alþjóðasamfélagið. Einnig skoðum við hinn blómlega alþjóðlega vopnamarkað, sem nú malaði gull sem aldrei fyrr. Loks lítum við stuttlega á hvernig afleiðingar þessa stríðs leiddu beinlínis til innrásar Íraka í Kuwait árið 1990.

Ath: Nokkurs nafnaruglings gætir um þetta stríð. Í eldri bókum er það oft nefnt “Persaflóastríðið” - “Persian Gulf War” eða bara “Gulf War” en það var áður en stríðið 1991 stal því nafni. Sem er reyndar skrýtið, því seinni hluti Íran-Írak stríðsins fór mun meira fram í Flóanum sjálfum en stríðið 1991. En semsagt: Í dag er þetta nánast eingöngu nefnt “Íran-Írak stríðið”.
_______________________