Vinasvæðið (friend zone)
Sælir kæru Hugarar!

Í þessari grein mun ég fjalla um hið svokallaða „vinasvæði“ (friend zone). Áður en lengra er haldið er best að minna á að:

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Hér er einungis um mínar skoðanir að ræða, ekki vísindi eða sjálfgefinn sannleik. Fólk verður að taka ákvörðun um að aðhyllast eða hafna því sem ég hér skrifa byggt á þeim forsendum.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Greinin er skrifuð í formi spurninga og svara um málefnið.

Af hverju virðist það vera að maður getur ekki fengið manneskju til þess að vera „meira en vinur“ þrátt fyrir að sambandið sé frábært?

Svarið við því er nokkuð flókið. Því til stuðnings og einföldunar skulum við taka dæmi um hann Jón og hana Gunnu, enda eru þau sívinsæl hjá íslensku þjóðinni.

Jón fæðist inn í íþróttafjölskyldu. Pabbi hans og mamma eru bæði íþróttakennarar og leggja mikla áherslu á líkamlegt heilbrigði. Alveg frá unga aldri Jóns hefur áhersla þeirra í uppeldinu verið íþróttir og að rækta líkamann.

Gunna fæðist inn í háskólafjölskyldu. Pabbi hennar og mamma eru bæði háskólaprófessorar og kenna heimspeki. Frá unga aldri Gunnu hefur áhersla þeirra í uppeldinu verið sú að rækta hugann.  

Ef líf Jóns og Gunnu myndi afmarkast við uppeldi þeirra myndu þau leita sér að maka sem passaði inn í þau lífsgildi sem þau ólust upp við. Jón myndi leita sér að kærustu/kærasta  sem væri virk/ur í íþróttum og Gunna myndi leita sér að háskólamenntuðum/aðri kærasta/kærustu. En lífið er flóknara en svo. Óendanlega margir þættir hafa áhrif á mótun persónuleika okkar, viðhorfa og væntinga til lífsins. Einn af þeim þáttum er hið síbreytilega hugtak sem kallast ástin.

Ástin og vinasvæðið

Hvað „ást“ er verður flóknara með hverju árinu sem líður. Í eina tíð var ást í sambandi tveggja einstaklinga mestmegnis samingur um að lifa saman, eiga börn og sjá um hvort annað. Það voru ekki gerðar kröfur um „sálufélaga“ eins og oft vill vera í dag.

Þessar miklu kröfur sem við gerum orðið til ástarinnar takmarka umtalsvert þá sem við höfum úr að velja, sem og þá sem hafa áhuga á okkur. Nú er oft ekki nóg að finna einhvern sem er manni góður vinur, traustur og trúr, heldur þarf hann að uppfylla langan lista af kröfum. Líkurnar á að finna einhvern sem passar við listann minnka eftir því sem listinn verður lengri.

Þýðir það að við eigum að gera engar kröfur til maka?

Nei. Það þýðir hinsvegar að við ættum að hafa kröfur okkar innan hóflegra marka og nokkuð almennar. Annars gætum við endað á því að leita að „hinum fullkomna maka“ þar til að við deyjum, eða einfaldlega hættum að reyna.

Hver eru dæmi um slíkar kröfur?

Dæmi um slíkar kröfur eru t.d.  „metnaður,“ „góðmennska“ og „sanngirni,“.  Kröfur sem fólk hefur möguleika á að uppfylla án þess að vera af „guði gotinn“.

Má maður ekki gera neinar kröfur til útlits?

Jú en það sama á við hér og fyrir ofan að kröfurnar þurfa að vera innan hóflegra marka. Einnig skiptir vogarskálin með persónuleikanum hér máli.

En hvað ef ég vil í samband með einhverjum sem hefur sérstakar kröfur um hvernig kærasta/kærustu hann/hún vill eignast og ég passa ekki inn í þær?

Þá gætir þú þurft að breyta þér til þess að uppfylla þau viðmið. En er það eitthvað sem við viljum gera, að breyta okkur til þess að passa inn í væntingar annarra? Mín skoðun á því er nei (með viðauka) en það er önnur saga.

Samantekt

Vinasvæðið er ekki til. Vinir verða ekki að pari vegna þess að sá sem sækist eftir sambandi uppfyllir ekki allar þær kröfur sem vinur hans gerir til maka. Hann gæti mögulega uppfyllt þær ef hann vissi hverjar þær væru og svo óskaði, en þá er alltaf spurning hvort maður eigi að breyta sér til þess eins að ganga í augun á öðrum.

Vonandi höfðuð þið gagn sem gaman af!
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard