Ung stúlka bar upp spurningu varðandi þetta málefni við mig. Ég ákvað að breyta svari mínu til hennar í þessa grein í staðinn, þar sem þetta er eflaust eitt af þeim málefnum sem fólk vildi sjá mig fjalla um.

Eins og áður vil ég minna fólk á að hér er einungis um mína skoðun að ræða, engar óhrekjanlegar staðreyndir - og bið ég fólk að haga gagnrýni sinni á skrif mín samkvæmt því.

Njótið heil.
————————————————————————

Klám og sambönd er málefni sem er farið að láta allverulega á sér kræla. Með breyttum tímum hefur kynlíf færst frá því að vera meira feimnismál yfir í að vera nánast áhugamál (samt ekki eitthvað sem maður setur á vinnumsóknina sína).

Umræðan varðandi það hvernig áhrif klám hefur á sambönd er heit og hefur marga stuðningsmenn báðum megin við borðið. Sumir vilja meina að klám geti haft nánast ekkert nema jákvæð áhrif á sambönd svo lengi sem báðir sambandsaðilar séu á sama bandi varðandi hugtakið klám og öllu sem því fylgir. Aðrir vilja meina að klám sé í raun fátt annað en „menningarsjúkdómur“ og sé óþarfa „pervertismi“ sem eigi sér ekki heima innan sambanda og sé tilkomin útfrá veruleikafirringu nútímans tengt samskiptum kynjanna.

Svo er það spurningin: „er til eitthvað rétt svar varðandi þetta ágreiningsmál?“ Mitt svar við þeirri spurningu, eins og svo oft áður og með flest allt tengt samskiptum kynjanna – nei.

Hvert par fyrir sig verður að ákveða hvaða merkingu klám hefur í þeirra augum. Besta leiðin til þessa er þegar klám kemur á einn hátt eða annan fyrir í sambandi, að setjast niður í sameiningu og ræða hvaða skoðun hver aðili fyrir sig hefur á málefninu. Ef báðir einstaklingar eru á sama máli varðandi þetta, þá er fátt eftir nema að prufa sig áfram ef skoðunin er sameiginlega jákvæð, eða loka það úti og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því framar ef hún er neikvæð.

En það sem gerir þetta málefni hvað heitast hér á landi (að mínu mati) er einmitt sú aðstaða þar sem karlmaðurinn í sambandi hefur verið að notast við klám í mörg ár til losunar á kynferðislegri spennu, en kvenmaðurinn ekki. Það sem gerist oft á tíð í þeim aðstæðum er það að stúlkunni líður ílla yfir því að kærasti hennar sé sífellt að horfa á nakið fólk í samförum – og oftast all grófum. Þær tilfinningar sem geta komið upp í kjölfari þessa er meðal annars sú að stúlkunni finnst hún „ekki nóg“, fer að efast sitt eigið ágæti (þarf hann meira en mig til þess að vera kynferðislega fullnægður?) og verður jafnvel afbryðissöm út í þær konur sem leika sitt hlutverk í klámmyndum kærastans.

Hér munu eflaust margir hugsa: „Er það skrýtið að stúlkunni líði svona? Er eitthvað eðlilegt fyrir karlmann sem er búinn að finna sér maka sem hann segist elska að þurfa svo að horfa á aðrar naktar konur í samförum til þess að fá kynferðislega fullnægjinu? Er kærastan hans ekki „nóg?““.

Til að byrja með ætla ég að segja að þessar vangaveltur eru fullkomlega skiljanlegar. Þegar við endurskoðum fyrri reynslu og skilning á rómantískum og hamingjusömum samböndum, þá felur niðurstaðan að öllum líkindum ekki í sér staðbundinn þátt þar sem annar aðilinn sækir reglubundið í kynferðislega nautn utan sambandsins, sem er eitthvað sem margir telja klám vera.

En einmitt útfrá þessu kemur aftur fram spurningin: „Hvað er klám?“

Fólki kemur alls ekki saman um hugtakið klám – sem er ekki eitthvað sem mér finnst skrýtið, vegna þess að með klám eins og flestar aðrar lífsbundnar reynslur, þá er það þín afstaða til þeirrar reynslu sem ákveður hvaða part sú reynsla spilar í þínu lífi, sem og þeim ákvörðunum sem þú tekur og þeim skoðunum sem þú myndar þér í framtíðinni.

Af hverju er klám orðið svona vinsælt hjá mörgum drengjum yngri kynslóðarinnar (af hverju meira strákum en stúlkum er umræða um menningabundna þætti o.fl. sem er of löng og flókin ein og sér til að fara nánar út í hér)?

Svarið er í raun ofur einfalt - Forvitni.

Áður fyrr reyndu drengir að lauma sér í bókabúðir, stela klámblöðum frá pabba/bróður/o.s.frv – en með tilkomu internetsins varð aðgengi að klámi mun einfaldara en ella. Þetta gerði það að verkum að nánast hvaða strákur sem er gat komist yfir ógrynni af klámi án þess að hafa mikið fyrir því.

Unglingsárin eru ár kynkvatarinnar. Um leið og hún fer að kræla á sér verður kynlíf eitt það mest spennandi í heimi og forvitnin eftir því. Það eitt og sér skýrir að mínu mati þann gífurlega áhuga ungra drengja á klámi. Þeir eru algjörlega óreyndir í samskiptum kynjanna en eru farnir að finna til kynferðislegrar löngunar til næstum hverrar einustu myndarlegu stúlku sem þeir hitta. Þetta byggir upp sterkar kynferðislegar langanir sem mun vera hvað ánægjulegast að losa um með klámi. Af hverju? Í raun er svarið jafn ofur einfalt: Með því að horfa á klám ertu að gera sem mest úr því sem þú getur þegar þú hefur ekkert annað til umráða. Fleiri skynfæri koma til greina þegar horft er á klám en þegar engu öðru en hugmyndunarfluginu er beitt (sjón og heyrn) sem ýtir undir og magnar upplifuna bakvið sjálfsfróun – og þar sem fullnægingin er betri eftir því sem upplifunin er sterkari þá finnst mér ekki skýtið hvað klám nýtur mikilla vinsælla hjá þeim sem hafa ekkert annað.

En af hverju halda drengir þá áfram sjálfsfróun með klámi eftir að í samband er komið?

Að mínu mati liggur svarið við þessu mest í vana og einfaldleika. Sem dæmi byrja margir drengir að stunda sjálfsfróun í kringum 10 til 14 ára aldur. Segjum sem svo að drengur byrji sjálfsfróun um 12 ára aldur og byrjar svo í sínu fyrsta sambandi um 16 ára. Þetta þýðir að hann hefur notast við klám til kynferðislegrar losunar í fjögur ár, eflaust allt að daglega; 1 – 5 sinnum á dag. Við þetta myndast gífurlegur vani tengt einfaldri lausn til að losa um kynferðislega spennu sem erfitt er fyrir marga að venja sig af.

En mörgum stúlkum finnst kærastinn vera að fara framhjá sér með því að stunda sjálfsfróun yfir klámi. Spurningar sem koma oft upp í huga þeirra eru sem dæmi má nefna:

1. Af hverju, ef hann er graður, kemur hann ekki til mín til þess að fá kynferðislega losun?
2. Þegar hann er að horfa á klám - er hann að hugsa um stúlkurnar í myndbandinu á meðan hann fróar sér eða mig?

Við fyrstu spurningunni held ég að svarið liggji aftur í einfaldleika. Ungir strákar sérstaklega verða oft og óreglulega graðir. Tilefnislaus gredda getur komið upp aftur og aftur og aftur hjá strákum á unglingsaldri hvern einasta dag. Í gegnum þau ár þar sem þeir höfðu enga stúlku til þess að fullnægja kynferðislegum þörfum sínum var svarið einfalt – skella einni klámmynd í tækið og “losa um“ fljótlega og einfaldlega með sjálfum sér.

Málið er að strákar sem hafa notast við klám í mörg ár til þess að létta á kynferðislegri spennu eru orðnir því vanir hversu fljótlegt og einfalt klám gerir það að láta þá sterku þörf hverfa tímabundið. Þess vegna tel ég að þeir eigi erfitt með að láta verða af því þegar í samband er komið. Gredda getur komið upp hvenær sem er, þannig að ef strákur verður graður þegar kærastan er til dæmis ekki til staðar, þá finnst honum lítið mál að redda þeirri knýjandi þörf á sama hátt og hann hefur gert til fjölda ára.

Kynlíf – eins gott og yndislegt sem það nú er tekur tíma og er í raun gífurleg athöfn með öllu tilheyrandi. Ef drengur finnur fyrir kynferðislegri löngun en hefur ekki tíma/nennir ekki (já – bæði kynin geta verið „ekki í stuði“ fyrir kynlíf endrum og sinnum, meira segja strákar :)/getur einhverra hluta vegna ekki fengið kynferðislega losun með kærustunni, þá er erfitt fyrir þann sama dreng að beita ekki þeirri einföldu og fljótvirku tækni sem hann hefur beitt í lengri tíma til þess að láta þá sterku þörf hverfa (Það getur vel verið að klám hljómi talsvert jákvætt hjá mér í fyrri setningum – ástæða þessa er sú að það er ekki hægt að breyta þeirri staðreynd að fyrir drengi sem aðhyllast klám til kynferðislegrar losunar, þá er það langoftast fljótleg og einföld leið).

En eru strákar í sambandi þegar þeir stunda sjálfsfróun yfir klámi að hugsa um stúlkuna í myndbandinu eða kærustuna sína?

Hérna erum við komin út í ansi huglægt efni sem ómögulegt er að alhæfa eitthvað varðandi eins og svo oft áður í samskiptum kynjanna. Eflaust kemur það upp á að drengur verður annað hvort kynferðislega dolfallinn af einhverri klámstjörnu eða að honum líði ílla í því sambandi sem hann er í og fer að láta sér dreyma um kynlíf með öðru fólki sem hann spinnur inn í kynferðislegar fantasíur tengdar því klámi sem hann hefur til umráða hverju sinni.

En að mínu mati er þetta ekki oftast raunin. Í rauninni held ég að hér sé um gífurlegar undantekningar að ræða fremur en eitthvað annað. Í raun tel ég að fyrir drengi í heilbrigðu og hamingjusömu sambandi sé klám fátt annað en hentugt tól til þess að losa um handahófskennda kynferðislega löngun (og já – hún getur komið upp úr þurru) – tól sem þeir bindast engum tilfinningalegum eða persónulegum böndum. Sem dæmi get ég tekið það mikla magn klámfengis efnis sem drengir sanka að sér. Margir hverjir hugsa eflaust „pervert“ þegar þeir koma að 18GB af klámfengu efni inná tölvu einhvers, en í raun myndi ég segja að það sé mun heilbrigðara að eiga mikið klám en lítið.

Af hverju?

Hvort finnst þér persónulegra að eiga eina klámmynd sem þú horfir á aftur og aftur eða eiga þúsund sem þú horfir á einu sinni?

Ef ég væri stúlka sem ætti kærasta sem fróaði sér yfir klámi tel ég að ég væri mun ósáttari með það ef hann væri sífellt að fróa sér yfir sama klámfenga efninu heldur en ef hann væri alltaf að skipta um efni. Ef um einhverja eina mynd eða mynd með sömu leikurum væri að ræða væri greinilegt að hann væri að sækjast í eitthvað ákveðið/einhverja ákveðna og myndi ég þá eflaust finna á mér þörf að ræða það við hann (og skil ég stúlkur sem finna fyrir svipaðri þörf mjög vel).

Einmitt það magn sem drengir sanka að sér af klámi sýnir mér hveru ópersónulegt tól klám er og hvað þeir einstaklingar sem taka þátt í því skipta engu í augum þeirra sem nota það sér til kynferðislegrar aðstoðar. Magnið sýnir einnig að drengir verða leiðir á klámfengu efni og innihaldi þess eftir litla „notkun“ og þurfa þessvegna að skipta reglulega um efni. Sem dæmi um það gagnstæða eru einmitt kærustur þeirra - þar sem þeir eru með manneskju sem virkilega skiptir þá máli og þeir elska og vilja reglulega endurteknar kynferðislegar (sem og aðrar) upplifanir með - jafnvel til æfiloka.

Í raun má segja að kærustur njóti góðs af allri „alvöru“ kynferðislegri löngun kærastann sinna, s.s. þeirri löngun sem kærastar þeirra finna til útfrá þeirri ást, þrá og vellíðan sem fylgir sambandi þeirra, á meðan klámið sér um „restina“, s.s. þessi handahófskenndu og tilefnislausu „gredduköst“ sem fólk upplifir mismikið í gegnum æfina alla - en blómstra allra helst á unglingsárunum.
————————————————-

Gerir þetta allt saman noktun kláms í sambandi „í lagi“ fyrir mér? Eins og ég hef oft oft áður sagt og ætla mér að segja enn einu sinni: Það er aldei hægt að alhæfa neitt í samskiptum kynjanna.

Hinsvegar finnst mér að jafnt stúlkur og strákar verði að skoða tilfinningar sínar betur og gera upp við sig hvar það telur sig hafa maka sinn.

Fyrir stráka: Elskaru maka þinn? Ertu jafnt kynferðislega sem og andlega fullnægður í sambandinu? Hefuru einhverja aðra og skuggalegri ástæðu fyrir því að stunda sjálfsfróun yfir klámi en þá sem ég nefndi hér fyrir ofan? Ef svo er – er þá eitthvað að í sambandinu sem þú getur lagað (kynlífsfíkn/sambandsörðugleikar/o.fl.)? Ef ekki skaltu enda samband ykkar sem allra fyrst því þú ert huglægt að halda framhjá maka þínum og ert greinilega ekki ánægður í sambandinu.

Fyrir stúlkur: Elskaru maka þinn? Treystiru honum? Telur þú hann elska þig og vilja - og einungis þig? Hefur hann gert eitthvað til þess að þú efir ást hans & skuldbindingu eða aðra sambandstengda þætti varðandi tiltekið málefni í þinn garð? Ef svarið hér fyrir ofan var já, já, já, nei – getur þá verið að einhver óhrein hugsun í hans huga geti á annað borð myndast útfrá öðru daglegu atferli hans? Fer það tvennt saman?

Hvort gífurleg aukning á klámnotkun til kynferðislegrar losunar sé ekki einhverskonar veruleikafirring nútímans sem við værum betur stödd án ætla ég mér ekki út í að þessu sinni. Það sem ég vildi allra helst koma á framfæri með þessari grein minni er hvort einstaklingur í sambandi þurfi að hafa áhyggjur af þessu atferli maka síns.

Að mínu mati þarf hann þess í langflestum tilfellum ekki.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli