U2 - einfaldlega bezta tónleikasveit heims - Twickenham Þegar ég var úngur drengur í eðlisfræðideild í Menntaskólanum á Laugarvatni lærði ég fræðin á bak við byggingu kjarnorkusprengju. Þetta var í síðasta eðlisfræðitímunum fyrir 20 árum. Ekki var farið í fræðin um hvernig aftengja ætti atómbombuna.

Ég ákvað því að auka við þekkingu mína á kjarnorkusprengjum og klára dæmið með því að skrá mig á helgarnámskeið í aftengingarfræðum. Námskeiðið var haldið í Twickenham í London á rúgbýleikvangi í suðvestur hluta heimsborgarinnar þann 18. júní 2005. Löngu uppselt var á námskeiðið – Vertigo 05, það þurfti rúmgóðan leikvöll sem tók 70.000 nemendur.

Það var Beautiful Day og sól í London, heitasta júníhelgi síðan 1976. Gaman að nálgast námskeiðsstaðinn og sjá fólk sem hafði sama áhugamál og maður sjálfur. Sjá hvernig það klæddi sig og leit út. Markhópurinn hvítt fólk á 25 til 35 ára aldri. Það kom á óvart hversu fáir blökkumenn voru í hópnum. Aðeins starfsmenn. Fólk kom víða að, fá Ástralíu, Japan, Þýskalandi, Ítalíu, Skandínavíu og Íslandi. Vel á þriðja hundrað Íslendingar voru skráðir og var ég í hóp frá ÍT-ferðum sem sendi 80 manns. Þegar nær dró breyttist andrúmsloftið og minnti mig á ferð á Síðujökul 1994. Það varð svalara og stemming í loftinu.

Kennararnir á námskeiðinu voru Írarnir frá U2 háskólanum: Prófessorarnir, Paul Hewson – Bono, fyrirlesari. Larry Mullen jr. sem sá um taktinn. The Edge sem sá um bítið og riffið og Adam Clayton þungavatnið.

Félagarnir voru að fylgja eftir doðrantinum, How To Dismantle An Atomic Bomb sem kom út í nóvember 2004. Þetta er fjórtánda kennslubók U2 en fjöldi bæklinga hefur litið dagsins ljós.

Námskeiðinu var skipulega stillt upp í kafla og vel formúlerað. Fyrst var farið í gömul fræði eftir setninguna. Þar var m.a. farið í Boy og War bækurnar, pönkuðu rokksprengjurnar rifjaðar upp. Upprifjun og aftengin komu svo við sögu. Síðan voru mannréttindi og stjórnmál rifjuð upp og vandamál Afríku, fátækt og eyðni tekin fyrir í Pride, Where the Streets Have No Name og One.
Eftir sprengjuhlé kom feikna sjóv enda orðið dimmt og hófst það á Zoo Station.

Kíkjum nú á hvernig kjarnorkusprengja er aftengd lag fyrir lag.

Vertigo How To Dismantle An Atomic Bomb
Svimi. Djúppælt lag frá hinum réttsýna Bono. Lagið hefst á setningarorðunum Hello, hello og einfaldari og kurteisari byrjun er ekki hægt að hugsa sér. Fyrirlesarinn Bono, náði kennslustofunni strax á sitt band með þessum tveim einföldu kurteisilegu orðum.

I Will Follow Boy
Byrjaði í Evrópuleggnum. Ekkert spilað í Bandaríkjunum. Bono sækir efnivið til bernskuáranna þegar móðir hans tekur hann upp með örmum sínaum. Hún lést er hann var á unglingsaldri.

The Electric Co. Boy
Klassískur U2-fyrirlestur. Hefur fylgt sveitinni á flestum tónleikum sveitarinnar. Nemendur könnuðust vel við þennan fyrirlestur.

Elevation All That You Can't Leave Behind (3)
Upphækkun. Meiriháttar vel útsett og kröftugt í kvöld. Elevation parturinn hristi verulega upp í fólki. Trommur lítið notaðar. Var samið á sínum tíma fyrir tónleika og mikill dansbolti.
“a mloe, digging in a hole, Digging up my sole now, going down, excavation”? Þá sprakk söngsprengjan, Elevation.
Magnað að sjá fólkið á kennslugólfinu í þessu lagi.

New Year's Day War
Fyrsta lag sveitarinnar sem sló í gegn. Lagið tengdist baráttu Samstöðu í Póllandi árið 1983. Edge spilaði á hljómborð í laginu.

Beautiful Day - Here Comes the Sun All That You Can't Leave Behind (1)
Já, það var fallegur dagur í London, laugardagurinn 18. júní. Lagið hófst með bíti og riffi frá gamla Gibson Explorer gítar Edge.

I Still Haven't Found What I'm Looking for Joshua Tree
Perla af trénu hans Jósúa. Bono notaði sviðið vel og hljóp fram og aftur rampana sem teygðu sig eins og fálmarar farm í mannþröngina.

All I Want Is You Rattle and Hum
Hér naut The Edge sín vel á gítarnum og 70.000 nemendur fengu að taka þátt í kennslunni.

City of Blinding Lights How To Dismantle An Atomic Bomb
Hér kom BBC2 inn og útvarpaði restinni af tónleikunum. Einnig kom stóri skjárinn inn og var meistaralega hannaður og allt sem á honum birtist.

Miracle Drug How To Dismantle An Atomic Bomb
Þetta lag var tileinkað vísindamönnum, læknum og hjúkrunarfólki. Fólk sem hefur aukið lífsgæði okkar. Grænt línurit gekk fyrir aftan og fylgdist ég vel með punktinum fara upp og niður. Þegar krafturinn kom fór punkturinn á fleygiferð. Magnað lag, mögnuð útsetning og mögnuð glæra.

Sometimes You Can't Make It On Your Own - How To Dismantle An Atomic Bomb
Í þessu lagi breyttist Bono úr töffara í eðlilegan mann. Hann tók vörumerkið, gleraugun af andlitinu, rétt svona til að sína okkur sitt rétta andlit. Bono söng þetta lag fyrst á útför föður síns, Bob Hewson haustið 2001. Meðganga lagsins var löng en loks hitti bandið á rétta útfærslu með hjálp frá Danny Lanois.
Mjög tilfinningaþrungið lag. Byrjaði rólega en kom kröftuglega inn. Boðskapurinn er að stundum þarftu að vera hluti af heild til að njóta þín. T.d. í góðu kennarateymi eða hljómsveit.

Love and Peace or Else How To Dismantle An Atomic Bomb
Frábærlega útsett á tónleikunum. Larry kom úr fylgsni sínu og trommaði á öðru sviðinu. Á móti honum var bassinn Adam. Kröftugur slátturinn endaði hjá Bono sem setti á höfuðið hvítt friðarband. Á höfuðbandinu var orðið CoeXisT með táknum múhamaðstrúarmanna, gyðinga og kristinna á milli.

Sunday Bloody Sunday War
Tilfinningaþrungið lag sem allir U2-nemendur kunna. Samið um atburð þegar 13 óvopnaðir mótmælendur voru skotnir af breska hernum í Derry 1972. “How long must we sing this song?” söng kröftugur kórinn með.

Bullet the Blue Sky - When Johnny Comes Marching Home - The Joshua Tree (4)
Lag ættað frá Edge og Bono. Jimmy Hendrix taktar hjá Edge og áhrif hjá Bono eftir fyrirlestarferð til mið-Ameríku. Bono varð vitni að því er árás frá her San Salvador á friðsama mótmælendur í San Salvador. Árekstarar víðar en á milli Breta og Íra. Einnig á milli fólks á fjöllum. Með og á móti virkjunum.

Running to Stand Still The Joshua Tree (5)
Lag tileinkað Bretum, konum og körlum sem hafa barist við erfiðar aðstæður víða um heim. Í lokin á þessu rólega lagi kom úrdráttur úr Mannréttindasáttmálanum. Þá sveimaði hugurinn til mótmælenda við Kárahnjúka en íslensk stjórnvöld ætla að fylgjast vel með fólki og jafnvel stoppa áður en það kemur til landsins.

Næstu þrjú lög voru tileinkuð Afríku. Útrýma fátækt. Pólitíski kaflinn.

Pride The Unforgettable Fire
Upphaflega upphitunarlag hjá sveitinni. The Edge framleiðir flott gítarriff og ekkert þeirra er eins í gegnum kvæðin. Allir kunna þetta lag og þegar laglínan In the name of love kom þá heyrðist ekki í hljómsveitinni – gæsahúð upp á tíu!
Blá ljós mögnuðu upp stemminguna.

Where the Streets Have No Name The Joshua Tree (1)
Hér var fullt að orku. U2 breyttir í orkuver. Þvílíkur kraftur. Formúla um götur Manhattan sem hafa engin nöfn, aðeins númer. Sama gildir um stræti Eþíópíu, þau hafa aðeins númer.
Fánar Afríkuríkja komu á skjáinn fyrir og á meðan lagið rúllaði. Bono sendiherra DATA (Debts, AIDS, and Trade for Africa) benti á að nú væri tími til kominn að gera “To make poverty history” og hvatti fólk til að nota SMS og senda skilaboð m.a. til leiðtoga G8 ríkjanna. Benti á að 6000 manns deyja úr malaríu á hverjum degi í Afríku vegna moskítóbita. Það er einfalt að bjarga þessu fólki. Vilji er allt sem þarf. Kennararnir í U2 akademíunni hafa verið ósparir að benda á það.

One Actung Baby (3)
Tileinkað baráttunni um alnæmi. Kveikjarar og GSM símar sáust á lofti og pör föðmuðu hvort annað. Lagið er mjög vinsælt í giftingum en spurning um hvort pör viti um tilgang lagsins eða hvort það hafi kynnst við hljóma lagsins?
Gospell útsetning á laginu. Adam og Larry aðalmenn enda þéttir saman.

Zoo Station Actung Baby (1)
Fyrsta lag eftir uppklapp. Kröftugt lag og grafíkin á skermunum var frábær. Meiriháttar sjóv.

The Fly Actung Baby (2)
Hér hélt glærusjóvið áfram. Fyrst komu orð svo setningar sem fengu fólk til að pæla.

Mysterious Ways Actung Baby (8)
Í þessu lagi var ung stúlka tekin upp á svið og tók myndir af kennaranum sem sög óð til hennar.

Yahweh How To Dismantle An Atomic Bomb
Textinn kom fljótt undir í þessu lagi. Lagið er bæn. Gyðingar nota þetta hugtak Yahweh. Trommarinn Larry Mullen jr. spilaði á hljómborð.

Vertigo How To Dismantle An Atomic Bomb
Hringnum lokað. Hér fara listamennirnir aftur í fortíðina en þegar þeir spiluðu fyrst í London árið 1979 höfðu þeir lög fyrir 45 mínútur. Því tóku þeir ávallt aukalag í lokin. Oftast var þar lagið 11 O'Clock Tick Tock eða I Will Follow.

Mun betra í síðara skiptið rafmögnuð stemming enda 25 ára kennslureynsla. En ég er hrifinn af því hvernig formúlan byrjar og endar.

Er það mál manna að námskeiðið hjá U2 hafi aldrei verið betra. Enda hafa félagarnir í U2 akademíunni verið að sópa að sér kennsluverðlaunum. Þegar þeir komu til London voru þeim veitt sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag til kennslufræða. Þeir hafa gefið okkur mikið. U2 is always running and never standing still.
Feikna góðir fyrirlestrar hjá U2 prófessorunum, áhugi, kraftur og reynsla. Snilldarlega hönnuð tafla, góðar glærur, hljóð og lýsing fyrsta flokks. Prófessor Bono hefur aldrei kennt betur. Sannfæringarkrafturinn óaðfinnanlegur. Þeir eru einfaldlega stærstu kennarar heims. Þeir gáfu okkur loforð um að halda áfram og kenna betur. Er það hægt?

Aðdáunarvert að sjá The Edge spila í hitanum með húfuna sína alla tónleikana og halda það út. Ég sat upp í stúku og svitnaði og fékk reglulega gæsahúð.
Ég fylgdist sérstaklega með The Edge og hann skipti reglulega um gítar eftir hvert lag. Kunningi minn sem var á gólfinu sagði að Adam hefði einnig skipt um bassa eftir hvert lag. Menn þurfa að vera nákvæmir þegar atómsprengja er aftengd.

Þegar kennarar frá U2 háskólanum halda fyrirlestra er pólitíkin ávallt nálæg. Þeir eru ólgandi hugjónarmenn. Ég náði að hlaða batteríin vel. Mér var hugsað til Kárahnjúka þegar farið var yfir Mannréttindasáttmálann. Íslensk stjórnvöld ætla að vísa fólki erlendis frá sem er líklegt til að mótmæla á öræfunum. Svo hlóðst anti kvótakerfa-batteríið vel í leiðinni.

Þegar maður er á námskeiði eða í skóla hafa samnemendur mikil áhrif. Mér á hægri hönd voru miðaldra hjón með unga dóttur. Móðirin var handleggsbrotin á hægri og ég reyndi að ná smá samskiptum við þau. Þau voru ekki málgefin. Ég gat mér í hug að frúin handarbrotna væri strangur kennari, gift miðaldra manni. Þegar Bono kom á sviðið breyttist fjölskyldan og frúin skipti um ham, hún kunni alla textana og dansaði við dóttur sína. Gamli karlinn hennar dansaði hliðar saman hliðar allan tíman. Það var svalt..
Fyrir aftan okkur voru feikna söngmenn, sennilega Álftagerðisbræður frá Jorksír. Þeir tóku vel undir. Fyrir framan okkur var rómantískt par á okkar aldri og þegar lagið One, alnæmislagið kom föðmuðust þau.

Það kom mér á óvart hversu hljótt fólk var eftir námskeiðið er það hélt heim á leið. Það er mun meiri stemming eftir enska knattspyrnuleiki. Þá kveðast menn á. “Come on you Arsenal” og “There is only one Thierry Henry.”

Twickenham er gamalt hverfi og ekki hannað fyrir mikið námskeiðahald. Lenti í tveggja kílómetra biðröð í lest. Þessi leggur tók tvo tíma. Það var skammtað í lestarnar. Þessi stund minnti mig á kvikmyndir um Auschwich og Síberíu. Hins vegar varð hlutskipti mitt farsælla, meira pláss í vagninum og í hitann í miðborg Lundúna. En hinna beið kuldi og gas.

Þegar í vagninn var komið var stefnt á Waterloo brautarstöðina. Klukkan nálgaðist eitt en þá hættu lestirnar frá Twickenham að ganga. Það fór fyrir mér eins og Napóleon við Waterloo. Ég tapaði af síðustu lest til 101 London, Bonaparte tapaði stríði. Þá var farið í krasskúrs í strætó í London og eftir að hafa lent á öngum vagnstjórum komst ég heim kl. 2 um nóttina. Það mætti senda Lundúnavagnstjóra á þjónustunámskeið hjá Gísla Blöndal en þeim er vorkunn, mikið af ölvuðu liði sem ber ekki virðingu fyrir neinu á ferð.
Í vagninum hitti ég ölvaðan Kúbverja, ég þorði ekki að biðja hann fyrir kveðju til Kastró. Aldrei að vita hvernig Fidel hefur farið með hann og fjölskyldu hans.

Eftir námskeiðið var svo mikil kjarnorka í mér að ekki gekk vel að sofna. Eintómar formúlur í höfðinu á mér.

Nú veit ég hvernig á að aftengja kjarnorkusprengju og you too (U2).


Tenglar í örmyndir:
http://www.vatnajokull.com/U2/U2-Vertigo.wmv
http://www.vatnajokull.com/U2/U2-Pride.wmv
http://www.vatnajokull.com/U2/U2-NewYearsDay.wmv

http://www.vatnajokull.com/U2