Það er ekki svo langt síðan ég gerði mér grein fyrir því hve margt vefsíðan YouTube, sem flestir ættu að kannast við, hefur upp á að bjóða. Einungis um þrjú ár eða svo síðan. Fram að því hafði ég þó notað síðuna í allt öðrum tilgangi, svo sem að skoða myndbönd sem fundust oftar en ekki á leitarorðunum "BIGGEST FAIL EVER", "OLD PEOPLE FALLING" og þar fram eftir götunum.

Þegar maður var aðeins farinn að ná sér upp úr þessari meðalmennsku vildi svo til að mig vantaði nýja tölvu. Mig langaði að kynna mér eitthvað nýtt, framandi og spennandi. Í kjölfarið fór ég að kynna mér Mac OS stýrikerfið, kosti þess og galla. Einhvern veginn endaði ég á rosalegu grúski um YouTube og fann þar ýmsa náunga sem voru með alla flóruna af svona tegundum myndbanda, ásamt öðrum. Eftir að hafa horft á ógrynni myndbandanna komst ég loks að því að þetta var að hluta til, og jú í sumum tilvikum, atvinna þeirra! Það má vera að þetta séu gamlar fréttir fyrir sumum, en jú, stærstu gæjarnir hafa atvinnu af því að framleiða myndefni inn á YouTube. 

Eftir allt saman voru það helst tveir náungar sem stóðu virkilega upp úr að mínu mati, og ég horfi á hvert einasta myndband sem þeir setja inn enn þann dag í dag. Stutt lýsing á þeim ásamt link á stöðina (e. channel) þeirra fylgir með.


                                                      

                                                                                                Chris Pirillo.
                                                                             www.youtube.com/lockergnome


Einstakur karakter. Algjör "geek" í húð og hár sem elskar Star Wars, Lego og rauðvín. Pirillo er ekki feiminn við að sýna barnið sem blundar innra með honum í myndböndum sínum. Hann heldur úti vefsvæðinu/samfélaginu LockerGnome ásamt allskyns undirsíðum. Myndböndin hans fjalla um allt milli himins og jarðar, þó aðallega nördamálefni. Nýlega byrjaði hann með "daily vlogs" sem sýnir það sem á daga hans drífur, samskipti hans við hina gullfalegu Diönu og hundana hans, Pixie og Wicket. Chris er ólýsanlegur karakter og mæli ég eindregið með þvi að kíkja á hann og hans vinnu ef það blundar smá nördi í ykkur, eða bara ef þið viljið hlæja að algjörum snillingi.


                                                                      

                                                                                            David Di Franco
                                                                        www.youtube.com/thecreativeone

Skemmtilegur karakter, mun eðlilegri en Pirillo. Nær með einstakri fullkomnunaráráttu og áhuga að setja saman frábæra YouTube stöð (e. channel) þar sem megináherslur eru lagðar á nýjustu tækni ásamt fjölskyldu og vinum. Það sem er merkilegt við fjölskylduna hans Davids er hversu gaman þeim finnst öllum að taka þátt í myndböndunum hans. David vinnur sjálfstætt sem grafískur hönnuður, með meiru, og aflar sér aukatekna á YouTube. Klárlega maður sem þið ættuð að kíkja á ef þið hafið áhuga á tækni (sérstaklega Apple) og innsýn inn í flippaða fjölskyldu.


Það sem ég bið ykkur um, kæru Hugarar, er að deila með okkur því sem þið fylgist helst með á YouTube. Aldrei er of mikið af skemmtilegum stöðvum hjá manni á áskrifendalistanum (e. subscription list) og alltaf er skemmtilegt að bæta við. 

Þið þurfið alls ekki að setja þetta jafn formlega upp og ég, þó það væri að sjálfsögðu algjör snilld! Nóg væri að henda inn smá upplýsingum í athugasemdir. Ég vildi einungis skapa umræðu með þessari grein.

Einnig finnst mér að þið sjálf ættuð að deila ykkar efni á þessu magnaða vefsvæði, þar sem þið hafið klárlega öll eitthvað merkilegt fram að færa, það getur verið hvað sem er. Þið gætuð jafnvel dottið í lukkupottinn eins og tölvuleikjaspilarinn frækni, Birgir Páll Bjarnason, sem aflar allra sinna tekna á YouTube. Sjálfur gæti ég hugsað mér að gera eitthvað svona, en fyrst þarf ég að afla hugmynda og sjálfstrausts.


Þetta er mitt fyrsta framlag til að auka efnismagn hér á Huga og blása í hann lífi á ný. Gaman væri að sjá sem flesta senda inn efni því margt smátt gerir eitt stórt. Ég ætla að reyna að vera duglegur.

Lengi lifi Hugi!