Leonardo da Vinci - Sforza hertogi og verk hans hjá honum og markgreifynjan í Mantúa Þriðji hlutinn um Leonardo da Vinci, svolítið seint en betra seint en aldrei!
Í þessum hluta verður fjallað um þegar Leonardo fór í þjónustu Sforza hertoga í Mílanó og þau verk sem hann gerði hjá honum. Svo verður líka stutt umfjöllun um markgreifynjuna í Mantúa.


9.0 Sforza hertogi í Mílanó


Þegar Leonardo var þrítugur fluttist hann frá Flórens til Mílanó í þjónustu Lodovico Sforza hertoga. Áður en Leonardo kom til hertogans sendi hann honum bréf. Formlega átti það bréf að vera umsókn um stöðu sem málari og listamaður, en ef bréfið er lesið sést greinilega að Leonardo kynnti sig fyrst og fremst sem uppfinninga- og vísindamann. Hann fer stórum orðum um stríðsvélar og uppfinningar sem hann hefur hugsað og teiknað upp, en endar bréfið með einungis stuttu innskoti þar sem hann minnist á að hann kunni líka fyrir sér í málara og höggmyndalist.

Sforza tók hann í þjónustu sína, en var ekki styrkasti bakhjarl sem Leonardo hefði getað náð í. Vegna þess að Sforza sóttist frekar í baktjaldamakk heldur en vopnaskipti, hann var slunginn og varkár og var tortrygginn í garð þeirra sem færðu nýjungar inn í hernað. Árum saman færði Leonardo honum hugmyndir að hverri uppfinningunni á fætur annarri, en engri þeirra virtist hafa verið hrint í framkvæmd.
Þrátt fyrir trega hertogans til þess að kosta uppfinningasmíð Leonardos hefði mátt búast við því að hann hefði þó látið eitthvað út fyrir listsköpun hans. En hertoginn var áhugalítill um list, og virtist einungis vilja nota listina sér til upphafningar og nýta sem stöðutákn. Listamenn í Mílanó voru stutt komnir í samanburði við starfsbræður sína í Flórens. Mílanó var iðnaðarborg, vefnaður og vopnaframleiðsla voru hennar sterku hliðar, en ekki málara- og höggmyndalist.



9.1 Verk Leonardos í Mílanó


9.1.1 Bronshesturinn


Fyrsta verkefnið, sem Sforza fékk Leonardo í hendur var að byggja riddarastyttu látnum föður sínum til heiðurs. Þetta verk átti að verða til þess að styrkja afstöðu Sforza ættarinnar í Mílanó, en hún hafði tekið völdin í borginni fyrir aðeins einum ættlið og var því óstöðug innan hennar.

Það voru aðeins þrjár riddarastyttur á Ítalíu, þegar Leonardo hófst handa við hestinn, sem höfðu sloppið við rán og skemmdarverk germanskra þjóða og frumkristinna manna, sem höfðu brotið nef af öllum styttum sem þeir álitu skurðgoð. Allar áttu þær það sameiginlegt að hestarnir lyftu öðrum framfætinum frá jörðinni en voru annars í kyrrstöðu eða gangandi. En Leondardo vildi fara djarfari leiðir, hann stefndi á það að hafa hestinn prjónandi þar sem reiðmaðurinn kallar aftur til herfylkingar sinnar og hvetur hana til dáða. Og ekki nóg með það heldur stefndi hann líka á svokölluð „Hómersk hlutföll“ eða tvöföld venjuleg stærð, sem þýddi að hesturinn yrði meira en 5 metrar á hæð, 8 ½ ef hann yrði prjónandi.

Innifaldir voru auðvitað gríðarmiklir útreikningar í burðaraflsfræðum, svo að hesturinn gæti staðið í þeirri stöðu sem Leonardo ætlaði honum. Leonardo eyddi 16 árum í útreikninga og hannanir að þessu mikilfenglega sköpunarverki, en því miður leit hesturinn aldrei dagsins ljós. Það má að hluta til kenna seinlæti Leonardos um, gerð hestsins dróst í meira en áratug, en þegar hann var loksins tilbúinn til þess að móta hann var hertoginn ekki lengur fær um að kosta verkið.

Þó mótaði Leonardo einn hest sem var hafður til sýnis í brúðkaupshátíð í Sforza-kastala í nóvember 1493. Hesturinn var gangandi í fullri stærð. Áhrifin sem hesturinn hafði voru gríðarleg og á örskotsstundu breiddist frægð Leonardos út um Ítalíu. Loksins fékk hann þá frægð sem hann hafði svo lengi sóst eftir, en á röngum forsendum. Meistaraverk sem hann hafði þegar málað eins og Lotning vitringanna og Guðsmóðir í helli hurfu í skugga einfaldrar styttu, sem var vafalaust vel útfærð, en hlaut engu að síður frægð sína að mestu leiti fyrir stærð sína, ekki fegurð.


9.1.2 Myndin af Cecilíu Galleraní
Leonardo málaði mynd af Cecilíu Galleraní sem var hjákona hertogans árið 1483. Hún var sautján ára að aldri en hafði þegar alið hertoganum son og var háttsett innan hirðarinnar. Á myndinni sést hvaða vinnu Leonardo lagði í það að leggja þýðingu í það sem hann málar. Hreysikötturinn er stór og grimmdarlegur svoleiðis að nánd hans við háls konunnar vekur ugg. Með þessu vildi Leonardo sýna fram á óstöðugleika hirðfólks ásamt því að sýna samlíkingu persónugerðar konunnar þar sem þau horfa í sömu átt með köldum augum.

Það er þó engin ráðgáta hvers vegna Leonardo hafði hreysikött innan myndarinnar í staðinn fyrir annað dýr. Hreysikettir voru konunglegir með dýran feld ásamt því að standa fyrir hreinleika. Þjóðsögur sögðu frá því að hreysikettir kusu frekar að vera drepnir eða fangaðir heldur en að flýja í gegnum leðju. Hreinlætiseiginleikar voru það sem hertoginn vildi tileinka sér og tók hann því inn í skjaldamerki sitt.

Leonardo hafði örugglega ætlað að mála inn draumrænt landslag í bakgrunn og hafði líklega verið byrjaður á því þegar annar listamaður tók yfir verkið og málaði svart í bakgrunninn.


9.1.3 Síðasta kvöldmáltíðin


Eitt stærsta verkið sem Leonardo vann að hjá Sforza var Síðasta kvöldmáltíðin í Maríunáðarklaustri. Það tók Leonardo u.þ.b. 15 ár að gera kvöldmáltíðina, það má finna ótal margar arkir eftir hann með uppköstum að heildarmyndum og einstaklingum til þess að setja inn á myndina.

Sforza hafði beðið einn aðstoðarmann sinn um að hafa auga með Leonardo og gefa skýrslu um það hvernig gengi hjá honum við verkið. Hann sagði frá því að stundum eyddi Leonardo öllum sínum tíma við málverkið, viki ekki frá því frá morgni til kvölds. En aðra daga yfirgefur hann það og snýr ekki aftur að því til þess að vinna fyrr en mörgum dögum seinna, en þá vinni hann jafn þétt og lengi og áður.

Það sem þeir vissu ekki var það að hann vann jafn ötullega hvort sem hann var að mála eða niðri í bæ. Ástæðan að baki bæjarferða hans var að finna fyrirmyndir þess sem átti að vera á myndinni. Hann teiknaði svipi, líkamstellingar og handahreyfingar og vann úr þeim til þess að skapa nákvæmlega það andrúmsloft og tilfinningar inn á myndinni sem hann vildi ná fram. Oft ef hann fann rétta einstaklinginn til þess að setja inn á myndina elti hann fyrirmyndina heilu dagana og teiknaði aftur og aftur til þess að geta náð nákvæmlega réttu andlitsfalli og svipbrigðum.

Veggjamálverk voru máluð beint á blautan múrsteinninn sem þýddi að það þurfti að mála hratt og örugglega þegar maður ynni að þeim. Sá asi hæfði Leonardo ekki vel og tók hann upp á því að finna upp nýja aðferð við að mála veggjamálverk með því að notast við olíu í staðinn fyrir að mála með þeirri aðferð er tíðkaðist. En þrátt fyrir það að við þetta gat hann unnið á sínum eigin hraða, varð það til þess að málverkið eltist mjög illa og skemmdist hratt. Þegar Vasari skrifar rit sitt árið 1556 segir hann að hún sé öll í blettum. Ekki einungis var efniviður da Vincis slæmur, heldur urðu líka raki í múrnum og vatnsskemmdir eftir miklar rigningar í kringum 1800 til þess að málverkið skaddaðist enn frekar.

á 17. og 18. öld hófst sífelld endurnýjun og yfirmálun myndarinnar. Því miður voru þeir listamenn sem reyndu við endurnýjunina ekki jafn hæfir og hefði verið óskandi. Lærisveinarnir fengu aðra mynd á sig en upprunalega átti að vera og lýstu margir myndinni eins og hún var orðin sem sorglegri skrípamynd af upprunalegu meistaraverki. Árið 1901 sá ítalska skáldið Gabriele d‘Annunzio meira að segja ástæðu til þess að yrka erfiljóð um málverkið, „Óður um dauða meistaraverks.“

Nú hefur þó verið mikið úr því bætt. Á árunum 1946-54 var viðgerðarmeistarinn Mauro Pellicioli fenginn í björgun myndarinnar. Hann fjarlægði alla viðbótarmálningu sem hafði verið bætt við í gegnum aldirnar svo að eftir sat upprunalega mynd Leonardos svo að loksins var hægt að virða fyrir sér ósvikið meistaraverk Leonardos enn að nýju.


10.0 Markgreifynjan í Mantúa

Árið 1500 féll veldi Sforza. Þar með stefndi Leonardo aftur til Flórens eftir 17 ára dvöl í Mílanó. Á leið sinni kom hann við í Mantúa til þess að kynna sér myndir Andrea Mantegna í hertogahöllinni. Það var Ísabella af Este, markgreifynja, sem er lýst sem gáfaðri, ófríðri og mjög ágengri konu. Hún hafði fengið verður af komu Leonardos og vildi óð og uppvæg fá hann til þess að mála mynd af sér. Leonardo var ófús til, en hún nauðaði í honum og svo gott sem lét hann aldrei í friði. Þetta varð til þess að Leonardo teiknaði vangasvip hennar í kolum en á henni má sjá merki þess að honum hafi ekki verið vel vil greifynjuna. Myndin er ekki bein skopmynd, greifynjan var of voldug fyrir Leonardo til þess að hætta á það, heldur er myndin teiknuð af vægðarlausri nákvæmni. Hún virðist sljó og ófríð með undirhöku sem einmitt sker sig út í vangasvip.

En þrátt fyrir þetta virtist hún ekki gefast upp og vildi enn að Leonardo málaði myndina sem hann hafði teiknað. Þegar Leonardo fór frá Mantúa beitti hún sendimönnum sínum til þess að njósna um Leonardo og inna eftir málverkinu. Þrátt fyrir tilraunir greifynjunnar málaði Leonardo myndina aldrei og mátti hún prísa sig sæla með kolamyndina.