Guns n' Roses - Spaghetti Incident (1993) Árið 1993, eftir tveggja ára heimstúr gáfu Guns n’ Roses út sína fimmtu breiðskífu og fékk hún nafnið Spaghetti Incident. Duff McKagan kom með hugmyndina að því að gefa út plötu með eintómum lögum eftir áhrifavalda hljómsveitarinnar og söng hann líka mörg þeirra og átti einna stærstan þátt í gerð plötunnar. Þarna voru aðallega pönklög, en inn á milli leyndust líka rokklög. Dæmi um þau er t.d. að finna í fyrsta laginu sem ber nafnið Since I Don’t Have You og er upphaflega flutt af hljómsveitinni Skyliners. Lagið er samið á sjötta áratugnum af þeim Joseph Rock og James Beaumont. Það er mitt uppáhaldslag á plötunni, bæði er gítarleikur Slash flottur og svo er þetta lag best sungið, auk þess sem það er frábærlega samið. Á eftir því tekur við pönklag með hljómsveitinni The Damned frá áttunda áratugnum. New Rose heitir lagið og er virkilega gott. Það er eitt af lögunum sem Duff syngur og er það ágætlega sungið þrátt fyrir að hann hafi ekkert sérstaka rödd.

Lagið Down On The Farm er annað pönklag og flutt upphaflega af hljómsveitinni UK Subs árið 1980. Ekkert sérstakt lag, voða lítil laglína og mikið sungið á sömu nótunum. Gítar-riffin eru þó flott í laginu og Slash tekur kúl sóló. Næsta lag er líka pönklag og er samið af Johnny Thunders og hljómsveit hans, New York Dolls. Lagið ber nafnið Human Being og er ágætt. Það er eitt af tveimur Johnny Thunders-lögum á plötunni. Þá tekur við lagið Raw Power og er það samið af Iggy Pop og hljómsveit hans, The Stooges. Hér er um að ræða enn eitt pönklagið, að mínu mati ekkert merkilegt og lítið að gerast í því þrátt fyrir góð sóló sem blandast inn í sönginn. Það er sungið af Duff McKagan og Axl Rose. Sjötta lag plötunnar er Ain’t It Fun og lenti það ásamt Since I don’t Have You inn á Greates Hits disk hljómsveitarinnar sem kom út núna fyrir stuttu. Með betri lögum plötunnar, samið á áttunda áratugnum af pönkhljómsveitinni The Dead Boys. Ásamt Axl Rose syngur þar söngvari að nafni að nafni Michael Monroe. Þarna spilar líka gítarleikarinn Mike Staggs í staðinn fyrir Gilby Clarke. Næsta lag, Buick Makane (Big Dumb Sex) er búið til úr tveimur lögum, annars vegar lagi með T.Rex og hins vegar lagi með Soundgarden. Ágætis hugmynd þar á ferð og skemmtilegt hvernig þeir geta látið lögin nokkurnveginn passa saman. Þarna syngur Slash með Axl Rose, sem gerir lagið skemmtilegra.

Hair Of The Dog er frægt lag, frumflutt af Nazareth, en að mínu mati flottara með Guns n’ Roses. Það sem gerir það flottara með þeim er að gítarinn er framar í mixinu og kröftugri og að mínu mati er lagið betur sungið. Níunda lag plötunnar heitir Attitude og er upphaflega með hljómsveitinni Misfits. Ágætis pönklag, sungið af Duff McKagan og röddin hans smellpassar inn í það. Black Leather er Sex Pistols-lag og með verri lögum plötunnar, þrátt fyrir að mörg lög Pistolanna séu klassík. You Can’t Put Your Arms Around A Memory er eftir Johnny Thunders. Það má segja að þetta sé hálfgert sólólag Duffs, en hann syngur það, spilar á kassagítar, bassa og trommur. Með honum spilar gítarleikari að nafni Richard Duguay og Eddie Huletz syngur með Duff og Dizzy Reed í bakröddunum. Það er prodúserað af Duff ásamt Jim Mitchell. Lagið er rólegt og flott, og til minningar um Johnny Thunders sem dó árið 1991 úr eiturlyfjaneyslu. Röddin hans Duffs er örlítið fölsk í því, en mér finnst það bara passa ágætlega. I Don’t Care About You er upphaflega með hljómsveitinni Fear. Ágætis pönklag með ýmsum utanaðkomandi bakröddum.

Ég má auðvitað ekki gleyma að segja frá aukalaginu eða falna laginu sem vakti gríðarlega athygli. Fjöldamorðinginn Charles Manson er höfundur þess og heitir það Look At Your Game Girl. Fínt lag og Axl Rose syngur það frábærlega, en lagið er rólegt popplag með kassagíturum. Frábært lag til að enda ágætis plötu.

Þessi plata er að mínu mati ekki jafn góð og hinar GN’R plöturnar en ég gef henni þó 7,5 í einkunn. Hún inniheldur mikið af meðallögum, en upp úr standa lög eins og Since I Don’t Have You, Ain’t It Fun, Hair Of The Dog og You Can’t Put Your Arms Around A Memory. Ágætis plata sem mun hugsanlega enda feril einnar flottustu rokkhljómsveitar sögunnar og vel valin og kóveruð lög.

Kv. Jói