Katatonia Katatonia

Í tilefni af því að þessi frábæra sveit er að fara að gefa út sína 7. breiðskífu sem mun bera titilinn The Great Cold Distance, þá ætla ég að henda saman í eina grein til að kynna þessa sveit fyrir þeim sem ekki hafa enn komist á bragðið. Árið 2006 verður 15 starfsár Katatonia, og á þeim tíma hafa þeir gefið út 6 breiðskífur (7. á leiðinni), tvo safndiska, og slatta af smáskífum.

Katatonia var stofnuð í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 1991 af þeim Anders Nyström og Jonas Renske. Fyrsta árinu eyddu þeir í æfingar og lagasmíðar, og árið 1992 gáfu þeir út 5 laga demo sem hét ‘Jhva Elohim Meth’, og sá Renske um trommur og söng, og Anders sá um gítar og bassa. Lögin voru með sterkum black metal áhrifum í samræmi við tíðarandann á þessum tíma. Demoið seldist upp næstum strax og Katatonia náðu að skapa sér nafn í underground-heiminum. Hollenskt útgáfufyrirtæki heyrði af hljómsveitinni og eftirspurninni eftir þessu demoi, og endurútgaf það á mini CD formi, sem hlaut nafnið ‘Jhva Elohim Meth - The Revival’. Endurútgáfan seldist líka upp á stuttum tíma, og þeir réðu til sín bassaleikarann Guillaume Le Huche til þess að geta spilað á tónleikum, og á svipuðum tíma fengu þeir samning við sænskt útgáfufyrirtæki, Vic Records, um að gefa út eina plötu.

Þeir fóru í stúdíó og tóku upp plötuna ‘Dance of December Souls’, og var hún gefin út í Desember 1993 eftir mikla erfiðleika við útgáfu plötunnar og margar frestanir. Black metal áhrifin voru farin, og tónlistin orðin meira ‘doomy’ heldur en áður, með sterkari áherslum á melódíuna. Í dag þykir þessi plata klassík meðal doom metal aðdáenda, þó ég persónulega sé ekkert alltof hrifinn af henni. Eftir útgáfu plötunnar fóru þeir aftur í stúdíóið og tóku upp nokkur lög sem enduðu á þremur mismunandi plötum á næstu tveimur árum, eða á safndiski gefinn út af ítösku útgáfufyrirtæki, splitti með Primordial og á ‘For Funeral To Come’ EP sem að Avantgarde Rec. gáfu út, en Katatonia var nú komin með samning við þá. Guillaume sagði skilið við hljómsveitina og voru þeir heillengi í vandræðum með að finna almennilegt line-up, og endaði þetta með því að þeir ákváðu að fara í sitthvora áttina. Báðir einbeittu þeir sér að hliðarverkefnum sínum, Renske í October Tide, og Anders í bæði Diabolical Masquerade og Bewitched. Katatonia var hætt.

En það entist nú ekki lengi, því þeir söknuðu báðir Katatonia það mikið að þeir ákváðu að endurvekja hljómsveitina árið 1996, og Renske kom með annann gítarleikara með sér úr October Tide, Fredrik Norrman. Einum meðlimi ríkari fóru þeir í stúdíó til að taka upp næstu plötu, og var hún að stórum hluta samin líka í stúdíóinu. Platan hlaut nafnið ‘Brave Murder Day’. Renske hafði hlotið skaða á rödd sinni eftir upptökur á plötunni Rain Without End með October Tide með þeim afleiðingum að hann sá sér ekki fært að öskra lengur. Hann dró sig þess vegna í hlé frá því en sá um allann ‘clean’ söng á plötunni, og bað hann vin sinn til margra ára, Mikael nokkurn Åkerfeldt, að sjá um að öskra. Með þessari plötu breyttu Katatonia gjörsamlega um stíl, en lagasmíðarnar á þessari plötu eru mjög sérstakar. Uppbygging laganna eru einfaldari en áður, einföld riff endurtekin aftur og aftur og fallegar melódíur yfir þessu öllu saman. Þunglyndi, einmannaleiki og einangrun eru lykilorð á þessarri plötu. Þetta kannski lítur ekki vel út á prenti, en þetta svínvirkar hjá þeim og þessi plata er geðveik!

Eftir útgáfu Brave Murder Day fór Katatonia á sinn fyrsta túr um Evrópu, en snemma á árinu 1997 fór þeim að langa að koma nýju efni frá sér og fóru því í stúdíó. Niðurstaðan varð ‘Sounds of Decay’, þriggja laga plata. Lagasmíðarnar voru í sama stíl og á Brave Murder Day, og aftur sá Mikael Åkerfeldt um öskrin. Eftir útgáfu þessarar plötu fóru þeir aftur í stúdíó, sama ár, og hófu vinnu að næstu breiðskífu í fullri lengd, ásamt nýjum bassaleikara, Mikael Oretoft. Renske hafði hlotið bata á rödd sinni og ákvað að hann myndi sjá um sönginn ásamt því að vera trommarinn. Mikael Åkerfeldt sá um upptökur og pródúseringu á rödd Renske í stúdíóinu, í stað þess að ljá þeim rödd sína í þetta sinn. Árið eftir að ‘Sounds of Decay’ kom út, gáfu þeir út 4 laga disk, ‘Saw You Drown’, sem átti að undirbúa fólk fyrir útkomu ‘Discouraged Ones’, sem kom einnig út 1998. Katatonia hætti að notast við öskursöngstíl á ‘Discouraged Ones’ sem var mikil áhætta fyrir bandið og voru sumir ekki sáttir. Katatonia hefur verið í stöðugri þróun frá byrjun, og ég tel þetta bara vera enn eitt skrefið í þeirra þróun. Fyrir utan sönginn þá halda þeir áfram á sömu braut og síðustu tveimur plötum, nema þá bara að tónlistin er orðin jafnvel enn þunglyndari en áður. Geðveik plata, ég mæli með henni.

Eftir útgáfu ‘Discouraged Ones’ bauð Peaceville Rec. þeim áframhaldandi samning upp á útgáfu á fimm plötum í viðbót útaf því hversu vel útgáfufyrirtækinu leist á ‘Discouraged Ones’. Katatonia biðu ekki lengi eftir að fara aftur í stúdíó, að venju, og árið 1999 fóru þeir þangað og hófu að leggja drög að sinni fjórðu hljóðversplötu í fullri lengd sem kom út sama ár og hlaut nafnið ‘Tonight’s Decision'. Auðheyranleg þróun varð á þessarri plötu án þess að missa þunglyndið sem hefur einkennt Katatonia frá upphafi. Eins og einhver sagði, þá þegar myrkrið er svona þægilegt, þá verður ljósið bara miklu minna eftirsóknarvert. Á fyrri plötum þeirra voru lögin einhvern veginn bara partur af heildinni, en á þessari plötu er hvert lag miklu sjálfstæðara. Þið vitið hvað ég meina ef þið hafið hlustað á þessa plötu. Mikael Oretoft sagði skilið við hljómsveitina skömmu áður en þeir fóru í stúdíóið, og neyddist því Fredrik Norrman, annar gítarleikari sveitarinnar, að taka upp bassann á þessarri plötu. Renske ákvað að hætta að tromma í Katatonia og einbeita sér að söngnum í staðinn og fengu þeir Dan Swano úr Edge of Sanity til að tromma, en Swano hafði séð um upptökur á fyrstu tveimur plötum Katatonia. Mikael Åkerfeldt sér um upptökur á rödd Renske á þessarri plötu rétt eins og á ‘Discouraged Ones’. Platan inniheldur cover af Jeff Buckley laginu ‘Nightmares by the Sea’, og tekst einkar vel til. Jeff Buckley ásamt Nick Drake eru einir af helstu áhrifavöldum Renske, og heyrist það greinilega á tónlist Katatonia á öllum plötunum að mínu mati.Frábær plata.

Katatonia voru alltaf að verða frægari og frægari, og eftir ‘Tonight’s Decision' túruðu þeir um Skandinavíu og hituðu upp fyrir Paradise Lost með 2 nýja meðlimi, annars vegar bróðir Fredrik Norrman, Matthias Norrman á bassa og Daniel Liljekvist á trommum. Árið 2000 hófu þeir upptökur á fimmtu breiðskífu sinni ásamt því að túra um Bandaríkin ásamt Opeth. Snemma sumars árið 2001 kom svo út smáskífa með laginu Teargas sem var tekið af næstu plötu Katatonia, ‘Last Fair Deal Gone Down’. Smáskífan innihélt einnig 2 önnur lög sem voru sérstaklega samin fyrir smáskífuna, ‘Sulfur’ og ‘March 4’, og var þessi lög var ekki að finna á ‘Last Fair Deal Gone Down’ nema á endurgáfu disksins. Eftir útgáfu ‘Last Fair Deal Gone Down’ túruðu þeir meira með Opeth um Evrópu, og 2001 kom út þriggja laga diskur sem ber nafnið ‘Tonight’s Music'.

Árið 2002 nýttu meðlimir Katatonia til þess að slaka á og semja efni fyrir nýja plötu sem var tekin upp í endann á árinu, ásamt því sem Renske og Anders notuðu tímann í hliðarverkefni þeirra, Dan Swanö og Mikael Åkerfeldt, Bloodbath, sem flestir ættu að þekkja. ‘Viva Emtiness’ var næsta breiðskífa Katatonia, og kom hún út 2003. ‘Viva Emtiness’ er talsvert þyngri heldur en fyrri útgáfur þeirra, og myndi ég segja að það væri mjög gott að byrja á þessari plötu ef maður vill kynna sér Katatonia. Ég vill meina að með þessarri plötu sé ekki lengur hægt að setja Katatonia í einhvern ákveðinn flokk innan tónlistar, heldur eru þeir þarna búnir að mynda sér algjörlega sinn eigin stíl og maður heyrir alveg langar leiðir ef að Katatonia er spiluð. Þeir túruðu massívt í kjölfar þessarar plötu út árið 2003 og megnið af 2004.

Árið 2004 og 2005 komu út tveir safndiskar með Katatonia. Annarsvegar var það ‘Brave Yester Days’ þar sem fyrstu ár Katatonia eru skoðuð (1992-1997), og var platan tvöföld. Hins vegar var það ‘The Black Sessions’, sem að innihélt bestu lögin frá árinu 1998-2004. Platan inniheldur tvo diska af tónlist og DVD disk af tónleikum þeirra í Pólandi af ‘Viva Emptiness’ túrnum. Þeir spiluðu á nokkrum tónleikum áður en þeir hófu upptökur af þeirra 7. breiðskífu, sem á að koma út 13. mars, 2006. Platan á að heita ‘The Great Cold Distance’. Fyrir örfáum dögum kom út fyrsta smáskífan af plötunni, og inniheldur lagið ‘My Twin’, ásamt tveimur öðrum nýjum lögum.

Ég vil benda á nýja og endurbætta vefsíðu Katatonia. www.katatonia.com

Ég þakka lesninguna.