Síðustu metrar Gunnars Nelson að svarta beltinu Fyrst það er grein hér að neðan um það þegar Gunnar var gráðaður í brúnt belti þá fannst mér rétt henda hér inn grein, núna þegar hann hefur verið gráðaður í svart af Renzo Gracie, og renna aðeins yfir síðustu vikurnar á „leiðina að svarta beltinu.“ Eins og margir vita hóf Gunni að æfa BJJ og MMA árið 2005 samhliða æfingum í karate. Árið 2006 ákvað hann að hætta í karate og snúa sér alfarið á BJJ/MMA. Hann fékk blátt belti (undir Matt Thornton forseta SBGi) 25. apríl 2006 og fjólublátt (einnig undir Matt) 3. júní 2007. Brúnt belti fékk hann svo (undir John Kavanagh) 28. júní 2008.

Í lok október 2008 fór Gunnar til NY til að æfa undir Renzo Gracie sem hafði boðið honum að þjálfa hjá sér eftir að hafa komið til að þjálfa hjá Mjölni í júní sama ár. Síðan þá hefur Gunni dvalið meira og minna í New York við þjálfun hjá Renzo Gracie Academy og æft þar undir leiðsögn Renzo og fleiri, en m.a. hefur John Danaher þjálfað hann mikið og Gunni segir hann einhvern magnaðasta BJJ þjálfara sem hann hafi kynnst. Eftir að Gunni vann til silfurverðlauna í brúnbeltaflokki á heimsmeistaramótinu núna júní var honum boðinn þátttaka í ADCC 2009 sem fram fór í Barcelona helgina 26.-27. september síðastliðinn. Það má með sanni segja að Gunni hafi slegið í gegn á ADCC 2009 og verið „upset“ keppninnar þegar hann lenti í fjórða sæti í opnum flokki eftir að hafa unnið legend og þyngsta mann keppninnar Jeff Monson og hengt Dave Avellan til uppgjafar.

Eftir þessa frammistöðu var nokkuð ljóst að svarta beltið var ekki langt undan, jafnvel þótt Renzo Gracie sé frægur fyrir að láta svört belti ekki auðveldlega af hendi. Enda var það svo að þremur dögum eftir sigurinn á Monson og Avellan, eða þann 30. september sæmdi Renzo hann svarta beltinu.

Gunna keppti síðan í fyrsta skipti í svartbelta flokki á Pan Jiu-Jitsu No-Gi Championship í New York 3. október og vann þá til gullverðlauna í sínum þyngdaflokki og silfur í opnum flokki. Gunnar keppti reyndar aldrei um gullið í opnum flokki því hann hefði lent á móti liðsfélaga sínum, Rafael "Sapo”, og þegar svo er þá varpa þeir hlutkesti. Gunnar tapaði sem sagt hlutkestinum í opnum flokki. Gunni verður nú meira og minna á Íslandi við kennslu og þjálfun í Mjölni við Mýrargötuna fram að áramótum utan þess að hann fer ásamt 10 keppendum frá Mjölni til að keppa á BJJ Scandinavian Open um næstu helgi.

Nánari fréttir um gengi Gunnars eru á opinbera vefsetrinu:
http://www.nelson.is/

Þessi síða er að vísu á ensku en þeir sem vilja lesa fréttir af gengi hans á íslensku geta kíkt á bloggið mitt:
http://combat.blog.is