Heilt og sælt veri fólkið.

Mig langar aðeins að viðra örlitlar vangaveltur sem ég hef verið með um það sem kallast Mixed Martial Arts, og keppnir einsog UFC, og vonast ég eftir að fá skemmtileg álit frá ykkur, samhugurum mínum.

Áður en ég held lengra þykir mér nauðsynlegt, vegna þess hvernig umræður á okkar blessaða Huga hafa tilhneigingu til að þróast, að taka fram að ég er ekki að tala gegn þessum hlutum, heldur einungis að viðra vangaveltur sem ég hef verið með undanfarna daga. Vitaskuld býst ég við, og vonast eftir, gagnrýnum og jafnframt innihaldsríkum svörum, en ég vona bara að fólk svari ekki í flemtri heldur reyni að átta sig á því að ástæða þess að ég skrifa greinina er ekki að ég vilji úthúða einum né neinum heldur til að hjálpa sjálfum mér (í gegnum ykkar svör) til að mynda mér betri, og jafnframt upplýstari, skoðun á þessum viðfangsefnum. Það sem ég lýsi að neðan sem mínar skoðanir er svo byggt, ekki á einhverjum föstum staðreyndum, heldur einungis minni takmörkuðu reynslu af þessum fræðum. Vinsamlegast hafið það í huga.

Jæja, ég vona að þessi ‘disclaimer’ minn hafi verið nógu ítarlegur til að halda í burtu leiðindaskjóðunum :)

Nýlega voru hér menn að ræða hvort hnefaleikar teldust til bardagalista og sýndist svosum sitt hverjum um það mál. Ég er að velta fyrir mér dulítið svipuðum hlut.

Hvað er það sem gerir bardagalist að -list? Í mínum huga er það svosum ekki eins mikilvæg spurning einsog “hvað er bardagalistamaður?” Því ég tel skilgreininguna liggja svolítið í huga iðkandans.

Mín vitund segir mér að til að eitthvað teljist bardagalist, og iðkendur þ.a.l. bardagalistamenn, þurfi auðvitað að koma til sjálf tæknin. Mér finnst nauðsynlegt að til komi hugmyndafræði sem feli í sér mikilvægi æru og sanngirni, og mér þykir mikilvægt að til staðar sé leið ('Do'), vegur eða lífsstíll sem menn fylgi og innihaldi bæði andlega og líkamlega þætti sem í sameiningu leiði til aukins þroska á báðum sviðum. Einnig sýnist mér sem flestar bardagalistir leiði á endanum, með fullkomnun líkama og hugar, til einskonar Zen-ástands þar sem viðkomandi iðkandi í óbeinni merkingu hugtaksins verður “yfir ofbeldi hafinn”.

Að gefinni ofangreindri skilgreiningu velti ég því þá fyrir mér hvort það að keppa í keppnum einsog UFC sé ekki merki um að hafa misst af einu mikilvægasta inntaki bardagalista? Ég segi ekki að þessir menn séu ekki færir í því sem þeir eru að gera, en ég velti því fyrir mér hvort þeir séu ekki í raun hættir að vera bardagalistamenn? Hafa þeir ekki stigið út úr því hlutverki að vera “æruhreinir séntilmenn” yfir í það að vera málaliðar sem berjast um frægð, frama og peningaverðlaun?

Einnig velti ég fyrir mér tilgangi Mixed Martial Arts á svipaðan hátt? Er ekki hætt við að með mikilli blöndun fari áherslur að snúast algerlega um sem áhrifaríkasta tækni, og tapi menn þar með sýninni á heilsteypta hugmyndafræði.

Vitanlega æfa menn bardagalistir á misjöfnum forsendum og mér dettur ekki í hug að halda því fram að einhver ein leið sé réttust og farsælust. Ég veit sem betur fer að það er þvættingur. Ég fór bara að velta þessu fyrir mér þegar í huga mér vaknaði spurningin um af hverju menn æfi bardagalistir og kannski mikilvægara; hvað sé það sem maður græði á því til lengri tíma litið.

Ég vil nefninlega meina að iðkendur hafi mjög ólíklega þörf fyrir að kunna að verja sig, enn síður þörf fyrir að kunna að ráðast á fólk eða drepa einhvern með berum höndum. Það séu því ekki þessir hlutir sem gagnist flestum sem æfa. Ég held þess í stað að flestir sem æfa bardagalistir græði, til langs tíma - og heildarinnar litið, mest á þeirri víkkuðu heimssýn og hugmyndafræði virðingar og umburðalyndis sem bardagalistirnar kenna okkur.

Það er það sem ég óttast að menn kunni að missa af.

Með kærri kveðju,
Vargu
(\_/)