Um uppstillingu leikkerfis úr minni fyrri grein:

Uppstillingin.

Þegar þú vilt búa til leikkerfi er það hérna sem þú þarft að byrja. Í FM hefurðu ótal möguleika til þess að stilla upp liðinu þínu en loka uppstillingin þarf að vera útpæld svo að sem bestur árangur náist. Þú hefur í raun tvenna möguleika í stöðunni - þú getur valið einhverja hefðbundna uppstillingu sem FM býður upp á (Tactics – Standard Tactics – og velur t.d. 4-4-2) eða farið þínar eigin leiðir og búið til uppstillingu sem þú telur henta liði þínu best.

Þegar þú velur uppstillingu þarftu að hafa í liðið þitt í heild í huga og hvernig fótbolta þú vilt láta það spila.
Dæmi 1: Ef þú vilt láta liðið þitt spila þannig að það stjórni miðjunni þá er besti kosturinn að hafa 5 manna miðju (dæmi um lið: Chelsea).
Dæmi 2: Ef liðið þitt hefur marga góða miðverði en ekki nógu marga/sterka bakverði þá er góður kostur að spila með 3 manna miðju.


Hérna á eftir koma nokkrar algengustu og bestu stöðluðu uppstillingarnar sem finnast í leiknum. Þeir sem hafa ekki áhuga á að hanna sínar eigin uppstillingar eða eru ekki nógu góðir við það ættu að kynna sér þessar uppstillingar því þær geta oft reynst ágætar.

Athugið að ég fer aðallega bara yfir uppstillinguna sjálfa en ekki taktíkina í heild sinni, s.s. ég fjalla lítið sem ekkert um æskilegar stillingar sem þurfa vanalega að fylgja með og þar fram eftir götum. Athugið að ég notast við FM 2006 en sjálfsagt getur þetta nýst þeim sem spila aðra leiki.

Vonandi gagnast þetta einhverjum.



4-4-2 – Þessi uppstilling er líklegast sú vinsælasta og algengasta og það má segja að þetta sé hin hefðbundna uppstilling. Hún hefur tvo kantmenn og tvo miðlæga miðjumenn og þegar hún er notuð er hægt að velja á milli þess að spila boltann “width” eða “narrow”, sem er góður kostur. Varnarlega séð getur þessi uppstilling verið mjög góð en það fer eftir því hvernig þú stillir smáatriðin. Ef þú notar attacking gerðina af þessari uppstillingu þá geturðu fengið mjög mörg auðveld mörk á þig vegna þess að þú hefur engan varnarsinnaðan, afturliggjandi miðjumann til þess að hjálpa tveimur varnarmönnunum þínum, en þú munt skora fleiri mörk en ella. Ef þú notar hins vegar definsive gerðina þá færðu líklega fá mörk á þig en þarft aftur á móti mjög góða og hæfileikaríka miðjumenn og sóknarmenn til þess að geta skapað mörkin sem þú vilt skora.

3-5-2 – Þetta er önnur mjög vinsæl uppstilling og getur annað hvort verið mjög banvæn í sókninni eða traust í vörninni, háð því hvernig þú notar hana. Vegna þess að það eru bara 3 varnarmenn þá verðurðu að ganga úr skugga um að einhverjir miðjumannanna séu afturliggjandi, ef þú vilt ekki fá á þig alltof mörg mörk (þetta gildir líka þegar þú ert að nota defensive mentality). Venjulega (alls ekki nein regla) eru varnarmennirnir 3 hafsentar og 2 ytri með örvar til hliðanna. Miðjumennina 5 getur þú leikið þér svolítið með og haft þá eins og þú kýst persónlega. Með 5 flata miðjumenn muntu hugsanlega ráða yfir öllu miðsvæðinu í leikjum. Það er samt sem áður gáfulegt að draga einn miðjumann niður og hafa afturliggjandi, og hafa einn miðjumann framliggjandi. Þannig ertu með 3 miðjumenn flata eftir og þú getur með þessu móti ráðið bæði yfir vörninni og sókninni þinni.

4-3-3 – Þessi uppstilling er, líkt og hinar, mjög vinsæl. Fyrst ber að nefna gallann við hana og hann er sá að vegna þess að þú ert aðeins með þrjá miðjumenn verðurðu að vera mjög varkár með það hvernig þú stillir þeim upp. Ef þú ákveður að hafa uppstillinguna “narrow” og hafa miðjumennina alla central þá er mælt með því að þú hafir þá a.m.k. einn mjög varnarsinnaðan, jafnvel afturliggjandi, svo að þú sért með vörn gegn sóknum í gegnum miðjuna. Hins vegar ertu mjög berskjaldaður á köntunum og allar sóknaraðgerðirnar þínar geta verið mjög mislukkaðar vegna þess að þú ert nauðugur til þess að sækja á mark andstæðingina einungis í gegnum miðjuna. Ef þú notar tvo miðjumannanna á köntunum þá mun það strax lagast en þá ertu hins vegar bara með einn miðlægan miðjumann og þá getur verið mjög erfitt að vinna baráttuna á miðjunni. En það eru ekki bara gallar við þessa uppstillingu. Þú ert með þrjá framherja og það er alltaf betra heldur en að vera með tvo vegna þess að það opnar möguleika á að sóknarleikur þinn verði meira skapandi og banvænni. Það besta við að hafa þrjá framherja er að þú getur stillt þá alla á mismunandi vegu, ef þú ert t.d. með einn mjög stóran og sterkan en jafnframt hægan framherja og tvo mjög fljóta framherja þá geturðu látið þá gera mismunandi hluti á vellinum með mismunandi skipunum. Sem dæmi látið hæga framherjann spila djúpt og skapa mikið af færum fyrir fljótu framherjana.

4-1-2-1-2 (diamond) – Demanturinn er uppstilling mjög lík 4-4-2. Það er fjögurra manna varnarlína og tveggja manna sókn. Á miðjunni eru tveir kantmenn og þess vegna getur spilið verið mjög vítt. Munurinn á þessari uppstillingu og 4-4-2 er að núna höfum við einn sóknarsinnaðan, framliggjandi miðjumann og einn varnarsinnaðan, afturliggjandi miðjumann. Þetta gerir það að verkum að vörnin fær meiri aðstoð frá miðjunni og verður betri, og sóknarþunginn eykst og verður meira skapandi með hjálp frá framliggjandi miðjumanninum. Til þess að þessi uppstilling þjóni sínum tilgangi verður framliggjandi miðjumaðurinn að vera mjög hæfur í að vera playmaker svo hann geti búið til færi fyrir sóknarmennina.

5-4-1 – Þessi uppstilling var fyrst og fremst hönnuð með það markmið í huga að fá mjög fá mörk á sig. Fimm manna varnarlínan gefur það til kynna að andstæðingarnir þurfa að gera allt sitt besta til að koma boltanum í markið. Þeir munu annað hvort reyna sendingar inn fyrir vörnina, sem þú ættir að geta ráðið við vegna fjölda varnarmanna, eða þeir munu reyna langa og háa bolta, sem þú ættir líka að geta ráðið við því þú hefur svo marga menn til að dekka andstæðinga. Þessi fimm manna varnarlína ætti því að vera nokkuð stöðug og örugg gegn sóknaraðgerðum andstæðinginna, en það er að vísu aldrei hægt að vera öruggur fyrir góðum skotmönnunum eins og Gerrard eða Lampard. Með vörnina svona margmannaða hefur þú möguleika á að hagnýta miðjuna eins og þú vilt og láta fleiri leikmenn taka þátt í sókninni. Með tvo kantmenn og tvo miðlæga miðjumenn sem stjórna baráttu liðsins á miðjunni ætti ekki að vera svo erfitt að einoka boltann. En því miður, eins og í öllum uppstillingum, fylgja einhverjir gallar. Gallinn liggur að þessu sinni í sókninni þinni. Ef að miðjumennirnir þínir munu ekki veita framherjanum þínum nægilega aðstoð þá mun frekar lítið bera á sóknarleik liðsins. Sóknarmaðurinn þarf fyrst og fremst að fá boltann, sem getur verið snúið þegar að hann er einn og hefur engan annan sóknarmann sér til aðstoðar. Þess vegna er mjög góður kostur að hafa sóknarmanninn hávaxinn, sem á auðvelt með að ná til boltans og koma honum á aðra miðjumenn sem hjálpa til við sóknina. Dæmi um leikmenn sem munu sæma sig vel í þessari stöðu eru Jan Koller og Peter Crouch. Ef þú ert að spila FM 2006 geturðu stillt hvernig þú vilt láta leikmennina þína gefa á target manninn, sem væri í þessu tilfelli sóknarmaðurinn, og er þá sniðugt að velja að þeir miði á hausinn á honum en ekki á fæturnar, því í hausnum liggur styrkurinn vegna hæðarinnar.