Hinn sanni konungur platform leikjanna! (1991-95) The name's Mario, Mario Mario! *Blæs rykið af pípararörinu og setur upp ógnandi svip*

Já, enn heldur sagan af hinum geysivinsæla Mario..
Ég vil benda fólki á að lesa einnig fyrri tvær greinarnar um kauða, svo þeir fái alla söguna í heild sinni. Þar er einnig um fínustu skrif að ræða svo engum ætti að leiðast lesningin.

En snúum okkur að efninu, árið 1991 var gengið í garð eftir eitt stærsta ár allra tíma í tölvuleikjum þegar leikirnir Super Mario Bros 3 og Super Mario World komu báðir í heiminn.
Skiljanlega varð ekki mikið um stórleiki hjá píparanum strax eftir svona meistaraverk, og breytti það litlu því flestir voru ennþá að spila Mario 3 og Mario World í öllum frístundum sínum.

En þrátt fyrir það þá er verðugt að nefna nokkra leiki sem Mario tók þátt í það árið.
Við byrjum á leiknum F1 Race á Game Boy, þar gerir Mario ekki mikið annað en að sveifla fána.

Svo er það Sim City á SNES, Mario sjálfur kom nú ekkert við sögu þar.. En það er nú samt hægt að fá styttu af honum í verðlaun fyrir eitthvað afrek, og skella henni í bæinn sinn.

Síðan kom stórleikur að nafni Legend of Zelda : A Link to the Past, þá spyrja eflaust margir sjálfan sig hvað Mario komi Zelda leik við? Í rauninn ekkert, nema hvað hann þykir víst mikið veggprýði og ef vel er að gáð má sjá hann á einu málverkinu í hinum fjölmörgu húsum leiksins..

Nú höfum við séð Mario bregða sér í ýmsa búninga og ýmis störf, þar má helst nefna dómarastarfið. En núna var komið að því að spreyta sig sem kennari!
Já, ekki væri nú amalegt að hafa hann Mario sem tölvukennara, og það er örugglega það sem fólk hugsaði þegar það var ákveðið að búa til leik með Mario og félögum til að kenna fólki að vélrita á tölvur.
Mario Teaches Typing heitir leikurinn sem kom útúr þeirri hugmynd, og hefði ég alveg verið til í að læra á lyklaborðið í þeim leik. Hann inniheldur fullt af þrautum sem eiga kenna manni að vélrita sem hraðast og best. Ein þrautin til dæmis snýst útá að Boss Bass (einn af parsónunum úr SMB3) er að elta þig og þú þarft að vélrita hraðar og hraðar svo hann nái þér ekki!
Hver veit nema maður hefði líka nennt að læra fingrasetninguna þegar maður var yngri ef maður hefði fengið innblástur frá master Mario?

Einn leikur í viðbót átti eftir að koma á sjónarsviðið þetta árið, en það er leikurinn NES Open Tournament Golf og er hann jafnframt 3. golf leikurinn sem Mario tekur þátt í, og tekst honum að draga Luigi með sér í golfmennskuna í þetta skiptið.

Jæja, þá var það ár liðið og óþarfi að bíða lengur eftir því næsta. 1992 var nú orðin staðreynd og fylgdi í kjölfarið leikur sem heitir Yoshi.
Hann er nú óttalega “Tetrislegur” þannig það þarf lítið að útskýra útá hvað hann gengur.

Síðan var hins vegar komið að ansi mögnuðum leik, eða Super Mario Land 2, framhald hins magnaða leik Super Mario Land á Game Boy. Þótti þessi nú samt töluvert betri og grafíkin einnig bætt til muna.
Í þessum leik hefur Wario tekið kastala Mario í sitt vald og læst honum með lás sem aðeins er hægt að rjúfa með því að safna 6 gull peningum.
Mario sér þá ekki annan kost en að fara að leita af þessum öflugu gull peningum, og snýst leikurinn aðallega útá það og hinar ýmsu þrautir sem fylgja í kjölfarið.
Þessi leikur var talinn virkilega léttur, sérstaklega miðað við fyrirrennara sinn sem var ansi erfiður á köflum. Og ekki má svo gleyma að leikurinn seldist í 7 milljónum eintaka.

Stuttu síðar kom út leikur sem flest allir ættu að kannast við, hann gekk undir nafninu Super Mario Kart, og gerir enn. Eins og nafnið gefur til kynna þá kom hann út á SNES tölvuna og býður uppá Kart-racing af bestu gerð.
Í þessum leik koma saman Mario og allir hans helstu vinir/óvinir og etja kappi í keyrslu og skeljakasti, fullkomin uppskrift af fjöri myndu flestir segja. Og myndi ég segja að flestir hefðu rétt fyrir sér. Enda sannaðist það seinna meir því Super Mario Kart varð mest seldi leikur allra tíma á SNES tölvuna.

Mario Paint var svo næstur í röðinni og kom hann út skömmu eftir hinn gríðarlega Kart leik. Margur gæti vel skilið að Mario vildi nú bara setjast niður og taka því rólega eftir alla þessa gríðarlegu kappakstra, svo maður tali nú ekki um að láta alla marblettina eftir skeljarnar hverfa.
Og hvað er nú betra til þess en að slappa af og mála nokkrar myndir. En lífið var ekki svo einfalt því þegar hann hófst handa við að mála byrjuðu flugur að sækja á hann og það er einmitt ástæðan fyrir því að það er annar lítill leikur innifalinn sem snýst um það að slátra flugum með flugnaspaða.
Einnig er rétt að taka fram að þessi leikur krefst þess að þú eigir músina sem kom út á SNES.

Wario hefur augljóslega ekki ætlað að hætta að ofsækja Mario þrátt fyrir að það hafi misheppnast að eigna sér kastalann úr Super Mario Land 2. Hérna er hann snúinn aftur, í leik sem heitir Mario & Wario.
Í þessum þrautaleik hefur Wario einhvernveginn tekist að koma höndum yfir litla flugvél, ásamt góðu úrvali af drasli til að henda í Mario, Peach og Yoshi. Hvert borð byrjar þannig að þú leikur einn af þessum 3 fyrrnefndu karakterum, og Wario gerir sér lítið fyrir og lætur fötu detta ofan á höfuð þeirra.
Þá byrjar þrautagangan og þarftu að stjórna litlum verndarengil sem getur galdrað, og hjálpa þannig óheppna fötuberanum á leiðarenda. Þar bíður svo Luigi spenntur eftir að fá að taka fötuna af höfðinu á þrautakónginum.
Ástæðan fyrir því að þú getur valið um 3 mismunandi einstaklinga til að bera fötuna á sér, er einfaldlega sú að þeir eru misfljótir að hlaupa í gegnum borðið. Peach röltir þetta bara í rólegheitunum og er þá frekar auðvelt að bjarga henni, Mario aftur á móti skokkar þetta og svo sprettar Yoshi þetta eins og sannur íþróttamaður.

Nú er árið 1992 og 1993 gengið í garð… Þá komu út leikir eins og Mario is Missing, Super Mario Allstars sem er samansafn af Mario leikjum; s.s. SMB, SMB2, SMB: Lost Levels, og SMB3. Einnig var gefinn út Super Mario Allstars sem innihélt líka Super Mario World, ekki slæmur safngripur það. Wario Land kom svo líka út á Game Boy undir lok ársins.

Árið 1994 má helst nefna leikinn Donkey Kong ‘94 á Game Boy, sem er framhald af fyrsta Donkey Kong leiknum. Enn og aftur þarf þá Mario að bjarga “kærustunni” Pauline.

Árið 1995 innihélt svo þónokkra gæðatitla, þar má helst nefna leikinn Super Mario World 2: Yoshi’s Island sem margir vilja meina að sé einn besti Mario leikur allra tíma. Eitt er allavega víst að þessi leikur var með einstakri grafík og nýtti krafta SNES tölvunnar alveg óspart.

Nintendo 64 er tölva sem eflaust allir hérna kannast við, hún skreið úr egginu árið 1996 og fylgdu í hennar kjölfar ófáir gæðaleikirnir… Þið munið eflaust vel eftir því sem gerðist eftir að Nintendo 64 kom á markaðinn. Super Mario 64 og Mario Kart 64 voru gefnir út öllum til mikillar ánægju og yndisauka svo lítið sé nefnt.
Það sem gerðist svo í lífi Mario eftir þennan atburð ættuð þið flest að vita því ekki nema nokkur ár síðan.
Ætla ég hér með að enda þetta æviágrip mitt um konung platform leikjanna, Mario Mario, og alla hans kumpána og fjendur.

Vil ég helst þakka NintendoLand fyrir sinn frábæra gagnagrunn, án hans hefði þetta eflaust verið mögulegt. Einnig vil ég þakka ykkur lesendum fyrir frábærar móttökur og eru þær eina ástæðan fyrir því að ég nennti að halda þessum skrifum áfram. Gaman að sjá hversu margir hafa áhuga á sögu Mario leikjanna og segir það manni að mainstream grafíkgleðikonurnar hafa ekki enn tekið undir sig heiminn…

Ég vona að þið hafið haft gaman af þessari frásögn..
Takk fyrir,
-Aage