Myrki Riddarinn Rís, og það ekkert smá
Fyrir sjö árum braust fram á sjónarsviðið nýstárleg kvikmynd; jarðbundin ofurhetju mynd. Allavega eins jarðbundin og þú getur verið þegar aðalsöguhetjan klæðir sig upp sem fljúgandi nagdýr.
 
Batman Begins (2005) bauð upp á trúanlega baksögu þéttan söguþráð af góða taginu. Ekki nóg með örugga leikstjórn og gott handrit skartaði hún Christian Bale sem Batman, Gary Oldman sem Lt Gordon, Liam Neeson sem Ras Al Ghul og sjálfan Micheal Caine sem Alfred. Einhver einhversstaðar seldi sál sína.
 
Þremur árum seinna kom The Dark Knight (2008). Þrátt fyrir að skarta ástsælasta óvini Batman, Jókernum, gleymdi annað hvort leikstjórinn eða handritshöfundurinn (þegar ég hugsa um það skiptir litlu máli hvor tekur sökina) hver stefnan væri. Útkoman var flottar senur og umhugsunarverðar línur sem að því miður virtust einungis hanga saman á þeim þræði að um væri að ræða nokkurn vegin sömu persónurnar í hverjum kafla.
 
The Dark Knight Rises (sem að ég úh! var að fatta að ég hefði horft á á afmæli Nolans) tekur öfl úr báðum. Söguþráðurinn er einfaldur að því leiti að maður skynjar að verið sé að byggja upp lokakafla, en þær mörgu beygjur og sveigjur sem að teknar eru virka sem skreytingar á þessa sterku súlu.
Það var Begins þátturinn í henni. Dark Knight aflið er tíminn sem að tekinn er í að skila köflum. Bane er illur, Kyle á í vandræðum með vini sína, Wayne er á kúpunni og Gotham gengur almennt vel. Í fyrsta helmingnum virkar þetta vel og flest sett vel í skorður. Í seinni helmingnum missir þetta marks og reynt er að byggja upp spennu þar sem engin er og manni langar að fylgjast með í rólegheitunum. Þá er ég helst að ræða um endurkomu Batman og lífið í borg Bane. Kaflar sem að eru spilaðir hraðir og harðir ættu að taka sér meiri tíma. Skoða hvað var í gangi hjá gíslunum, átti Bruce í samskiptum við aðra fanga, hvernig tekur umheimurinn þessu? Neibb. Í staðinn er reynt að gera þetta að einum stórum kafla sem að missir marks þegar hann ætti að vera hrífandi. Jafnvel tónlistin er röng. Mögnuð, vissulega, enginn tekur það af Zimmer, en svona hörð bardagastef virka ekki þegar myndefnið er undur, von og innblástur.
Þetta tekur þó allt við sér í frábærum, en ónauðsynlega fyrirsjáanlegum, climax*.
 
Eitt af megin atriðum TDKR er Harvey Dent og dauði hans. Af einhverjum ástæðum er hann orðinn að hetju og er meira að segja með eigin dag tileinkaðan sér. Sem að er frekar undarlegt, þar sem að hann gerði ekki neitt sérstaklega mikið. Nokkur hundruð smákrimma í skammarkrókinn hér og þar er ekki nóg til þess að eiga heilan dag skilið.
Þessi dagur og goðsögn Dent er ekki það sem að pirrar mig heldur hvað þessi goðsögn, byggð á lygi, á að vernda; Dent lögin.
Lög sem að, ef að IMDB hefur rétt fyrir sér, væru í dag talin jafnvel mannréttindabrot.
Ef að ætlun Nolan var að höggva að trú okkar á góðu gaurunum, þá virkaði það fyrir mig.
 
Batman einkennist alltaf af óvini hans, enda er sá skápur stútfullur af flottum flíkum. Þetta var eini veikleiki Batman Begins sem að tefldi fram of mikið af máttlausum (en ágætlega túlkuðum) Scarecrow og of litlum Ras Al Ghul. Og styrkleiki Dark Knight, þegar óvinurinn var ekki svo mikið persóna heldur atburðirnir (jafnvel þó að þessir atburðir hafi haft ofvirka munnvatnskirtla).
Sem manneskja sem að bar virðingu fyrir Ras Al Ghul en fannst Jókerinn (án samhengis við aðstæðurnar sem að hann kom sér í) vera meira í ætt við pirrandi krakka á ímyndunarfylleríi (Í GUÐANNA BÆNUM HÆTTU AÐ SLEFA ÞAÐ FINNST ENGUM ÞETTA SNIÐUGT, öskraði ég einu sinni á skjáinn) þá kom mér skemmtilega á óvart hversu öflug áhrif Bane hafði á mig. Í fyrsta atriðinu með honum eignar Tom Hardy sér senurnar með svo einbeittri illsku og hugviti að í gegnum myndina fann ég til raunverulegs ótta við nærveru hans. Röddin er þá sérstaklega öflug og áhrifarík. Hún er djúp og reið en ekkert að flýta sér, íhugul rödd sem að annars hentaði menntamanni. Eftir á hugsa ég að röddin hafi minnt mig á Lecter í Svarthöfðabúningnum. Svona er það, og auk þess er ég baneitrað svalur, rödd. Ég skil ekki hvað fólk er að væla yfir því að hún sé óskiljanleg, ég skildi allt, en kannski er ég ekki eðlilegur (ég skildi varla helminginn af því sem að Jókerinn sagði).
Eiginlega fullkominn andstæðingur.
 
Ég ætla að láta vera að minnast sérstaklega á minni háttar pirrur eins og hentuga hittinga karaktera í ansi stórri borg, undarlega þverstæðum ræðum (Bane segist hafa alist upp í myrkri, en mér finnst myrkur þessarar dýflissu ansi bjart), handalögmálum hermanna vopnuðum niður í pung og óþörfum tengingum karaktera og bara gefa henni einkunn.
 
Batman Begins: 8 þétt og er fagurfræðilega best

The Dark Knight: 7,5 flottir kaflar en hvar er söguþráðurinn?
 
The Dark Knight Rises: 8,5 og það er Bane sem að eignar sér þetta
 
*Milljarðamæringurinn sem að er ofurhetja í frítímanum gerist umhverfissinni, stórgóð umhverfisvæn uppfinningin snýst gegn honum og óvinurinn notar hana gegn borginni? Svo fórnar milljarðamæringurinn sér með því að fljúga með hættuna út í sólsetrið? Hljómar óneytanlega líkt http://www.imdb.com/title/tt0118661/.