Kvikmyndagagnrýni: Fjandinn hafi Nostalgia Critic. Hann er opinberlega búinn að smita mig af því að þurfa að gagnrýna allt sem ég sé. Ekki það að ég hafi ekki verið gagnrýnin áður, málið er bara að ég gagnrýni allt eftir að ég komst að því að hann væri til. En þetta er ekki skrifað til að fjalla um hann, heldur nýjustu mynd Kevin James: Paul Blart: Mall Cop.

Fyrir það fyrsta fannst mér James gjörsamlega fullkominn í þetta hlutverk og það var gaman að sjá hann einan í aðalhlutverki í kvikmynd í stað þess að vera einn af tveimur aðalpersónum (I Now Pronounce You Chuck And Larry) eða aukapersóna fyrir aðal (Hitch). Hann skilaði hlutverki sínu af mikilli prýði og fannst mér æðislegt hversu vel hann túlkaði persónu Paul Blart á hverri stundu fyrir sig. Eina stundina var hann bara þessi lúðalega týpa sem býr hjá mömmu sinni og er svo nördalegur að það þolir hann enginn (já, fyrsti hluti myndarinnar mjöööög kjánalegur), aðra stundina var hann pissfullur (sem er, ef ég miða við það sem ég hef heyrt, uppáhaldssena margra úr þessari mynd, enda náði hann að leika fullan mann án þess að ofleika), sorgmæddur, hræddur, eða bara algjör BAMF, sem mér fannst virkilega góð persónuþróun (e. Character development).

Mikið af hlátrasköllunum sem duttu út úr mér voru samt ekki út af góðum brandörum eða öðru slíku, heldur orsakaðir af yndislegum svipum og líkamstúlkunum sem James setti fram. Ekki að hann hafi verið mikið að reyna að gera einhvern skemmtilegan svip eða tilburði (líkt og til dæmis gúmmífés– öh, ég meina Jim Carrey) heldur var það frekar svona óvart ótrúlega hlægilegt. En sem sagt, Kevin James var frábær í sínu hlutverki og verður gaman að sjá hvort honum takist að ná öðru góðu hlutverki sem þessu.

Aðrir leikarar stóðu sig líka prýðilega í stykkinu en féllu svolítið í skuggann af bangsa-sjarmörnum sem mér finnst James hafa borið með sér í gegnum myndina. Þó má ég til með að taka fram að Keir O‘Donnel í hlutverki andstæðingsins SPOILER Vick Sims var virkilega góður. Þó að myndin sé tiltölulega mjúk fannst mér sadismi og illska hreinlega skína úr honum þegar hann varð loksins merkileg persóna (það að hann sé andstæðingurinn er nefnilega svona plot-twist). /SPOILER Mjög flott frammistaða. Aðrar persónur fannst mér heldur flatar, að Raini Rodriguez undantekinni. Hún stóð sig þokkalega vel sem dóttir Blart.

Hvað söguþráðinn varðar þá kom mér á óvart hversu fáar klisjur voru til staðar. Vissulega er notast við eins konar “Lúði/outcast finnur skyndilega stelpu, smá vesen til að búa til spennu/vandræðaleika, hápunktur (plot-twist, gíslataka), happy ending”-formúlu, en af einhverjum ástæðum nær hún alveg í mark. Kannski hjálpar sú staðreynd að þetta gerist nánast allt saman í klasa (eins og orðið Mall var snilldarlega þýtt) sem mér þykir mjög frumleg hugmynd. Ég held að það hafi aðeins verið notast við þrjú önnur sett, sem mér þykir merkilega lítið miðað við bandaríska rómantíska gamanmynd.

Handritið sjálft var ágætt, ef ég á að segja eins og er. Engir áberandi “trying-too-hard” brandarar (þó má deila um hvort atriðið þar sem persóna James er að spila Rock Band sé þannig móment) og allt rennur frekar mjúklega. Ólíkt mörgum myndum sem ég hef séð nýlega fannst mér hún ekkert vera að flýta sér og varð því ekkert ruglandi fyrir vikið. Stór plús þar.

Mistök voru mjög smávægileg. Það eina sem ég tók sérstaklega eftir var að eftir að Blart er lokaður í brúnkusprautuklefa er efri hluti líkama hans allur í blettum, stuttu seinna er hann hreinn, og svo aftur blettóttur. Tók pínu á taugarnar en það er jú bara af því að ég er svo endalaust mikill trivia geek og tek eftir svona hlutum.

En svona til að ljúka þessu af, þá fær Mall Cop mjög góða einkun hjá mér, svona á bilinu 8 - 8,5 af 10 og er sannarlega mynd sem ég get mælt með. Og þeir sem þekkja mig vita að þá er mikið sagt. En eins og allt annað sem ég set frá mér, þá eru þetta einungis mínar skoðanir, svo að öllum óþarfa skítköstum um hvað þetta sé glötuð mynd og hvað ég sé vangefin að þykja hún svona góð verður umsvifalaust hlegið að.

Friður!


PS: Er það bara ég eða hefur Kevin James bætt á sig?