Sælir, ég skrifaði þessa grein fyrst fyrir http://www.mania.stuff.is

Útgáfuár: 2006.
Leikstjóri: Frank Coraci.
Leikarar: Adam Sandler, Christopher Walken, Kate Beckinsale, David Hasselhoff og Henry Winkler.
Handrit: Steve Koren og Mark O'Keefe.
Lengd: 107 mín.

Fyrst að leikstjóranum, Frank Coraci. Þetta er þriðja myndin sem hann leikstýrir með Adam Sandler í aðalhlutverki, fyrst voru það The Wedding Singer og The Waterboy. Nú átta árum seinna færir hann okkur Click. Fyrri tvær myndirnar eru fyrir löngu orðar klassískar í sögu grínmynda.
Þetta er önnur myndin sem hann leikstýrir Henry Winkler í, en í fyrra skiptið var það í The Waterboy.
Á þeim ellefu árum sem Frank Coraci leikstýrt myndum er þetta sú fimmta eftir hann.
Handritið kemur einnig frá ekki ómerkari mönnum en handritshöfundum A Night At The Roxbury, að mínu mati bestu grínmynd seinni ára, og Bruce Almighty.

Myndin byrjar á að Michael Newman (Sandler), farsæll arkitekt, reynir að kveikja á sjónvarpinu en eftir að hafa kveikt á viftunni, keyrt fjarstýrðan bíl og opnað bílskúrinn segir hann að þegar hann hafi verið ungur hafi bara verið ein fjarstýring á heimilinu - og hún hafi verið að sjónvarpinu. Allavega gefst hann upp og fer að gera eitthvað annað. Um kvöldið þegar hann ætlar hins vegar að horfa á sjónvarpið brjálast hann þegar hann flýgur fjarstýrðri þyrlu sonar síns á sig og rýkur út að finna fjarstýringu sem gengur að öllum tækjum heimilisins til að gera lífið aðeins auðveldara. Auðvitað eru allar búðir lokaðar enda seint liðið á kvöldið. Hann rekst á eina búð sem líkja mætti við Rúmfatalagerinn, allt til þarna - frá rúmum til baðvara. Inn af þessari búð finnur hann búðina „Beyond“ sem uppfinningamaðurinn Morty (Walken) rekur. Þar finnur hann fjarstýringuna sem hann var að leita að.
Þegar heim er komið finnur hann óvænta hæfileika fjarstýringarinnar. Hún getur stjórnað lífi hans eins og DVD-mynd. Hann getur skipt um kafla og hraðspólað. Meira að segja getur hann skoðað Special Features.
Þetta kemur sér vel fyrir Michael, sem er vinnualki með þá drauma að vinna sig upp í meðeigandastöðu í fyrirtækinu með Ammer (Hasselhoff), því nú getur hann spólað yfir umferðarteppurnar og sturtuferðirnar.
En fjarstýringin er ekki öll þar sem hún er séð því hún hefur gervigreind og man hvað hann spólar yfir, og það sem hann spólar mikið yfir fer hún sjálfkrafa að spóla yfir fyrir hann. Þess vegna fer allt í hönk þegar hann spólar yfir nokkra mánuði, til dagsins sem hann verður meðeigandi.
Áður en hann veit af hefur hann enga stjórn á lífi sínu því ef fjarstýringin spólar yfir mest allt sem hann gerir. Áður en hann veit af er hann búinn að ljúka krabbameinsmeðferð og orðinn gamall - búinn að klúðra lífi sínu.

Það sem var frábær grínmynd var þarna orðið til þess að kærastan var grátandi og ég og tveir vinir mínir vorum þarna þerrandi augun. Ég hafði heyrt að seinni hlutinn væri sorglegur, en þetta datt mér aldrei í hug. Þetta gerði samt myndina betri, á annan hátt en að verða skemmtilegri. Hún fór eiginlega úr flokknum að vera grínmynd í eitthvað svo miklu miklu betra. Manni á að þykja vænt um lífið og ekki taka því sem sjálfsögðum hlut er boðskapurinn og trúið mér, hann er settur betur fram þarna en ég hef oftast séð hann í kvikmyndum.

Adam Sandler fór úr því að vera uppáhalds grínmyndaleikarinn minn í að vera lang-uppáhalds grínmyndaleikarinn minn. Þú færð að sjá svo allt aðra hlið á honum í þessari mynd en þú átt að venjast. Frábær framistaða.
Álit mitt á Christopher Walken hefur verið hátt allt frá því ég sá A Blast From The Past þegar ég var lítill, og er sú kvikmynd enn ein af mínum uppáhalds, og álitið gerði ekkert annað en að hækka með Catch Me If You Can. Það hækkar enn meira eftir þessa mynd.
Það reynir ekkert á leik Kate Beckinsale í myndinni, því hún þarf ekkert að gera nema vera mamma og eiginkona.
Þetta David Hasselhoff og Chuck Norris æði fara mikið í taugarnar á mér, en David Hasselhoff er samt ekkert nema flottur í þessari mynd, eins og sniðinn að hlutverkinu og því ekki annað hægt en að njóta kappans í myndinni.
Henry Winkler man ég bara eftir úr The Waterboy, sé minnið ekki að svíkja mig.
Mikið af öðrum þekktum leikurum komu fram í myndinni eins og Sean Austin, sem leikur Sam í The Lord Of The Rings, Jennifer Coolidge, best þekkt sem Stifler's Mom úr American Pie myndunum, og Julie Kavner, sem talar fyrir Marge Simpsons og aðrar persónur úr þáttunum.

Myndin er góð, um það verður ekki deilt. Hún er ekki bara góð sem grínmynd heldur mun hún haldast á lofti sem meira en bara grínmynd, ég er viss um það.
8/10