Hvert einasta mannsbarn sem hefur farið í bíó, hefur tekið eftir þeirri staðreynd að verðlagið þar er allt of hátt. Sem dæmi má nefna gos, en stór gos (hálfur lítri) kostar nálægt 200 kr, en fjórfalt það magn getur þú keypt fyrir sama pening út í búð. Nachos skammtur kostar 300 kr, en inniheldur hálft magnið á við nachos-poka, sem kostar ívið minna. Svona mætti lengi telja, en ég ætla mér að einbeita mér að aðalatriðinu, aðgöngumiðanum sjálfum.

Fyrir þá sem hafa aldurinn og minnið, var einu sinni sú tíð þegar aðgöngumiðinn kostaði mun minna en hann gerir í dag. Í dag kostar aðgöngumiðinn 800 kr (þó minnir mig að einhver kvikmyndahús rukki “aðeins” 750kr fyrir miðann, ef einhver getur staðfest það, væri ég mjög þakklátur fyrir) og hefur gert það í nokkur ár. Ég er svo heppinn að hafa í fórum mínum bíómiða allt frá árinu 1992, og eins og allir vita er miðaverð gefið upp á hverjum einum og einasta þeirra. Þróunin á miðaverðunum, samkvæmt þeim miðum sem ég hef, er eftirfarandi:

Seinni parts árs 1992: 500 kr
Seinni parts árs 1993: 500 kr
Seinni parts árs 1994: 550 kr
Allt árið 1995: 550 kr
Alveg til jóla 1996: 550 kr
Þegar Kringlubío opnar (sem var um jólin 1996): 600 kr
Allt árið 1997: 600 kr
Frá Janúar til September 1998: 650 kr
September 1998 til ársbyrjun 1999: 600 kr
Allt árið 1999: 650 kr.
Allt árið 2000: 700 kr.
Seinni parts árið 2001 og til dagsins í dag: 800 kr.

Semsagt, á 10 árum hækkaði verð aðgöngumiðans um 62.5%. Það er þokkaleg verðþróun. En áður en við förum að brenna fólk á báli, skulum við spá aðeins í einu. Nákvæmlega hvað réttlætir þessa hækkun?

Mikilvægasta atriðið er gengi krónunnar gagnvart dollarnum. Næstum allar myndir kvikmyndahúsanna eru bandarískar, og er innkaupaverð þeirra reiknað í dollurum. Lár dollar = Ódýr mynd. Hár dollar = Dýr mynd. Dollarinn hefur hækkað á þessum 10 árum, en hann hefur líka lækkað. Reyndar er það svo, þegar þessi grein er skrifuð, að dollarinn er jafnsterkur í dag og hann var á árunum 1994 og 1996, eða rétt undir 70 kr.

Þá hlýtur útskýringin að liggja annarsstaðar. Og þá bendi ég á kvikmyndahúsin sjálf. Á meðan fjöldi kvikmyndahúsa hefur staðið í stað á þessum 10 árum, þá hafa húsin sjálf sætt gagngerum breytingum. Árið 1992 voru bíóhús lítið annað en stórir salir með hátalara, tjald og fullt af sætum. Í dag eru tjöldin stærri og betri, sætin betri og þægilegri og síðast en ekki síst eru hljómkerfin orðin margfalt betri (eins og kvikmyndahúsin hafa minnt okkur á trekk í trekk). Og þessar “hátækninýjungar” kosta mikinn pening. Þannig að með þessari “tæknivæðingu” kvikmyndahúsanna er óumflýjalegt að miðaverðið hækki.

Annað atriði sem má líka minnast á hér eru kvikmyndirnar sjálfar. Fyrir 10 árum eða svo voru myndir allt annað en nýjar á nálinni. Það komst í blöðin þegar Ísland var með heimsfrumsýningu á Highlander 2: The Quickening árið 1992, og landinn man ekki eftir því hvenær við fengum að sjá kvikmynd svona snemma í íslenskum bíóhúsum. Það gat tekið mánuði fyrir mynd að koma úr sýningu í Bandaríkjunum áður en hún kom loks til sýningar á Íslandi. Í dag er raunin önnur. Myndir eru frumsýndar hér jafnhliða Bandaríkjunum, og sjaldan líður meira en mánuður þangað til myndin er sýnd hér. Stór undantekning á þeirri reglu er Finding Nemo, en meira en hálft ár leið frá frumsýningu hennar erlendis þar til Ísland loks tók hana til sýningar, og ekki þurfti að bíða lengi eftir “hneykslisorðum” landans um “seinagang” kvikmyndahúsanna varðandi þessa einu mynd. Og að sýna myndir svona snemma þýðir auðvitað meiri útgjöld að hálfu kvikmyndahúsanna, ekki satt?

Ef einhver önnur atriði hafa jafnmikil áhrif á bíómiðann, þá vil ég heyra um það, en núna ætla ég að snúa aftur að dollarnum. Seinast þegar einhverjir fóru að rellast yfir háu miðaverði, var svarið á þann veg að kvikmyndir eru keyptar fram í tímann, eða eitthvað svoleiðis (Ég viðurkenni fúslega að ég man þetta ekki með fullvissu. Enn og aftur, ef einhver er með þetta á hreinu, endilega látið heyra í ykkur).

Nú er dollarinn lægri en hann hefur verið í 5 ár, hefur verið það í einhvern tíma, og mun vera það áfram í einhvern tíma til viðbótar. Svo ég spyr kvikmyndahúsin: Hvenær á eiginlega að lækka miðaverðið? Og ef það er ekki á dagskrá, þá vil ég (og allir aðrir) fá að vita af hverju.