Vegna þess hversu sniðug ég var að fara á fyrsta undankvöld Músíktilrauna 27. mars hef ég núna ákveðið að skrifa stutta og snubbótta grein um fammistöðu hverrar hljómsveitar fyrir sig. Vil taka fram að þetta er indeed stutt og snubbótt grein, svo ekki búast við miklu um hvert band :) Athugið svo að þetta eru einungis mínar skoðanir, svo skítköstum um hvað ég sé vangefin verður umsvifalaust hlegið að.

DISCORD:

+ Fyrsta band á svið og byrjuðu án efa með glæsibrag. Voru þéttir og progressive og mér fannst þeir allavega vel hlustanlegir. Best fannst mér samt hvernig þeir slömmuðu við tónlistina. Söngvarinn var snoðaður og bara rétt svo hreyfði hausinn eins og hann væri að reyna að halda sér vakandi, gítarleikararnir voru báðir með hár rétt yfir eyru sem kom voða krúttlega út, en bestur var bassaleikarinn. Tók sérstaklega eftir því hvað hárið hans var epic, eyrnasítt öðru megin, en þrisvar sinnum síðara hinum megin. Verulega nice.

- Þó svo að fyrra lagið þeirra hafi verið gott varð það mjög langdregið á endanum. Einnig fór í taugarnar á mér hversu falskur gítarinn (heyrði ekki alveg hvor) var í öðru laginu. Hvort það átti að vera svona veit ég ekki, en það fór allavega í mig.

CAPTAIN FUFANU:

+ Bara tveir strákar með hljómborð og tölvur. Í fyrstu virtist þetta vera ekkert spes, en svo kom á daginn að þetta var bara skemmtilega skondið. Minnti mig svolítið á auglýsingu fyrir orkudrykk eða eitthvað þannig. Vel hlustunarhæft þótt það hafi verið electronic, og svo var sviðsframkoma þeirra kappa svo yndislega lúðaleg að ég gat ekki annað en elskað þá. Þeir voru svona eins og DJar sem vissu ekkert hvað þeir áttu að vera að gera eða hvernig þeir áttu að hreyfa sig. Verulega skemmtilegt.

- Þeir kynntu hvorki sig né lögin þannig að það var frekar erfitt að heyra hvort þeir væru að spila eitt lag eða tvö. Þess vegna varð þetta alveg skelfilega langdregið og á einum tímapunkti var ég alvarlega farin að íhuga að telja snúrurnar í græjunum þeirra til að drepa tímann.

APART FROM LIES:

+ Leist alveg afspyrnu vel á þetta band og fannst mesta synd að þeir skyldu ekki hafa komist áfram. Þeir voru einnig ágætlega progressive, og fannst mér alveg æðislegt að þeir skyldu notast við bæði söng og growl. Tók líka sérstaklega eftir því að þeir þrír sem notuðu mæka skiptust allir á að syngja og growla eftir því sem lögin gengu.

- Ég veit ekki hvort það voru óþægindi eða ekki, en það fór rosalega í mig hvernig söngvarinn hreyfði sig á sviðinu. Hann einhvern veginn skoppaði bara í einn hring, fór fram, með fótinn á monitorinn, niður aftur, og svo loop-aði þetta bara allan tímann. Seinna lagið þeirra var heldur ekki eins progressive og hitt, en samt flott.

MISS PISS:

+ Eina stelpubandið (þó eitt af þremur stelpuböndum af 40 böndum allt í allt) og fannst mér það liggur við aðdáunarvert. Voru bara þrjár og spilaði ein bæði á gítar og bassa. Svo fannst mér söngkonan mjög svona… sérstök í seinna laginu, en þá var hún eiginlega meira að tala en að syngja. Frekar spes, en virkaði fínt fyrir mig.

- Alls ekki gott að byrja á trommuklikki. Einnig virtist trommuleikarinn ekki ráða almennilega við taktinn – allavega fannst mér hún nokkrum sinnum hægja á fyrsta laginu. Bæði lögin voru hreinlega of plain til að mér gæti fundist þau góð. Þó sérstaklega seinna lagið, sem var bara trommur og bassi plús áðurnefnt tal. Mjög tómlegt.

FUNKTASTIC:

+ Þó svo að þeir höfðu bara verið þrír var hljómurinn samt sem áður rosalega góður og var eiginlega á við helmingi stærri hljómsveit. Í báðum lögunum var takturinn skemmtilega ruglandi og átti ég allavega erfitt með að finna hann hverju sinni.

- Seinna lagið fannst mér deyja svolítið, þar sem söngvaranum virtist leiðast alveg heiftarlega. Allavega stundi hann liggur við erindin upp úr sér eins og letingi og fannst mér engan veginn varið í það.

ANCIENT HISTORY:

+ Mjög fínt band sem ég gæti alveg mælt með ef þeir væru official. Spiluðu voða nice tónlist sem minnti svolítið á Fall Out Boy eða eitthvað í þeim dúr (hef ekkert lagt í að læra nöfnin á böndunum sem spila svona tónlist). Vel hlustanlegt og mikill metnaður settur í tónsmíðina.

- Á einhverjum tímapunkti í fyrra laginu kom verulega augljós falskur hljómur. Er samt ekki viss um hvort hann var virkilega falskur eða hvort hann hafi átt að vera súr.

BLANCO:

+ Yngsta hljómsveitin en fékk samt góða hylli áhorfenda. Mér fannst söngvarinn mjög góður, enda gat hann farið frekar djúpt niður og hátt upp í rassgat í tónhæð án þess að það heyrðist einhver áreynsla á röddina. Flott taktbreytingin í fyrsta laginu þeirra þegar þeir skiptu frá erindum í viðlög. Í lok seinna lagsins gólaði söngvarinn! Ég lýg því ekki, hann gólaði! Og gerði það actually vel!

- Í fyrra laginu virtist söngvarinn vera eitthvað óviss á sumum köflum. Erindin og millispilið í seinna laginu minntu mig svo einum of mikið á Agent Fresco til að ég gæti haft gaman af því.

WE WENT TO SPAIN:

+ Leist ágætlega vel á þessa hljómsveit, en tónlistin þeirra minnti mig svolítið á sambland af Sigur Rós og Coldplay. Fannst virkilega töff hvernig bassaleikarinn mútlítaskaði: hann stökk frá því að spila á bassann yfir að spila á hljómborð og gerði það alveg nokkrum sinnum yfir lögin án þess að detta úr takti. Seinna lagið, sem var á frekar hröðu tempói, endaði á hægum kafla og skiptingin í þennan hæga kafla var verulega flott að mínu mati. Einnig voru lok laganna (fade-out í fyrra laginu og vind-effect í því seinna) mjög fín. Vel hlustanlegt.

- Á sama tíma og vind-effectinn tók að spila í lok síðara lagsins byrjaði söngvarinn að æpa eitthvað. Jújú, það var partur af laginu, en hann steig svo langt frá mæknum að það skar í eyrun. Frekar óþægilegt. Svo var það nú eitt: Kannski er það af því ég hef ekki getið mér mikið til um hvernig á að halda á gítar, en söngvarinn hélt allavega á honum eins og hann væri með kviðslit.

KNIGHTS TEMPLAR:

+ Virkilega flott tónlist, akkúrat sú tónlist sem ég get fílað. Blanda af rokk og ról, og blúskenndum metal (allavega samkvæmt þeim sjálfum). Söngvarinn var rosalega góður og ég held að hann hafi verið sá eini sem þorði að syngja alveg ofan í mækinn. Allavega var hann sá eini sem ég heyrði textann af. Lögin bæði frábær og mjög gaman að hlusta á þau.

- Þeir voru mjög lengi að byrja, eitthvað vegna þess hvað það tók trommuleikarann langan tíma að stilla upp. Söngvarinn gat ekki látið hárið á sér í friði (hvort það er kækur veit ég samt ekki, ætla ekkert að dæma hann fyrirfram), auk þess sem ég held að hann hafi haldið eitthvað vitlaust um mækinn í seinna laginu (sennilega utan um kúluna – sem á ekki að gera nema um rapp eða growl sé að ræða). Allavega skar röddin rosalega. Einnig var litli gítarinn (ukulele?) í upphafi fyrra lagsins eitthvað falskur. Mér er þó tjáð að hann hafi átt að vera svona, þannig að það er þá í lagi, býst ég við.

DECIMATION DAWN:

+ Skemmtilegt attitude í söngvaranum á milli laganna. Fannst það allavega fylla ágætlega upp í biðina eftir uppsetningunni. Þeir voru mjög þéttir að mínu mati og fannst mér trommarinn einmitt skila mjög góðum árangri. Frekar progressive en samt ekki of mikið (ef það er yfirhöfuð hægt).

- Söngvarinn growlaði svolítið mikið eins og það varð þreytandi á endanum. Svo var ég orðin svo þreytt á þessum tímapunkti að ég var hætt að nenna að gagnrýna. Stóóóóór mínus á mig þar.




Þannig var það. Sem sagt ágætt kvöld – sé allavega alls ekki eftir því að hafa farið – og ég óska Discord og Blanco (böndunum sem komust áfram, augljóslega) bara góðs gengis í keppninni sjálfri. Einnig skuluði ekki búast við annarri svona grein frá mér þar sem ég kem mjög sennilega ekki til með að fara á fleiri keppniskvöld. Og munið: Allt sem er sagt hér er In My Opinion :)

PS: sabbath, ekki taka neinu nærri þé