Katherine Jackson var nýr nemandi í Hogwarts. Það væri ekki svo merkilegt ef hún væri ekki að byrja á sínu 6.ári, en ekki sínu fyrsta, ólíkt öllum öðrum. Um leið og tríóið og Draco nokkur Malfoy fréttu af því ákváðu þau að taka til sinna ráða. Aldrei aftur skyldi Harry verða ástfanginn af dóttur Snapes eða Draco af norn með óhreint blóð, ekki fleiri nýjir nemendur sem voru mörgum sinnum gáfaðri en Hermione eða Ron varð hrifinn af bara vegna útlits. Engar fleiri Mary Sue!

Svo að þau hittust og gerðu áætlun. Hún var einföld, ná stúlkunni inn í Þarfaherbergið og yfirheyra hana þar. Ron fékk hana til að hjálpa sér við að bera bækur og um það leiti sem hún uppgötvaði að þau voru ekki að fara á bókasafnið var það orðið of seint. Dyrnar á Þarfaherberginu lokuðust að baki hennar og þrjár manneskjur réðust á hana og bundu við stól. Hún þekkti um leið þann frægasta af þeim, sjálfan Harry Potter.
“Jæja þá. Hvað heitirðu?” spurði hann og beindi sprotanum að henni.
“K-Katherine Jackson. Kölluð Kate.”
“Bara Katherine Jackson? Ekki Katherine Dawn Amethyst Bella Raven Fenecca Milkshake Dragonia Viola Sunset Diamond-Jackson?” spurði Draco. Kate hristi höfuðið.
“Nei. Er Fenecca Dragonia einu sinni nafn?” spurði hún hissa.
“Hvaðan ertu?” spurði Ron. “Annars, leyfðu mér að giska, Bandaríkjunum?”
“Nei. Ég bjó í Manchester fyrstu 7 ár lífs míns, svo þurftum við að flytja til Finnlands vegna vinnu foreldra minna.”
“Jahá, einmitt, svo að… bíddu, Finnland? Finnland? Af hverju Finnland, af öllum stöðum?” spurði Hermione, augabrúnir svo hátt uppi að þær flugu næstum af enninu. “Við hvað vinna foreldrar þínir eiginlega?” bætti hún tortryggin við.
“Mamma er fornleifafræðingur sem sérhæfir sig í tímabilinu frá 500-1500. Pabbi er hálfgerður galdra-fornleifafræðingur, hann passar upp á að fornir galdramunir sem Mugga finna fari ekki að gera eitthvað, eða að Muggarnir finni út hvað þeir virkilega eru. Og… og Finnland er mjög fínn og áhugaverður staður, sko,” reyndi Kate að útskýra. Augun hvörfluðu á milli hinna fjögurra nemanda sem stóðu yfir henni.
“Fornleifafræðingar, já. Og hafa þau uppgötvað einhvern gríðarlega mikilvægan hlut sem gæti breytt sögu galdranna?”
“Nei, pabbi fær aldrei spennandi störf, eins og þeir í Egyptalandi eða Suður-Afríku, hann heldur sig í Skandinavíu. Galdrarnir þar eru öðruvísi, minna af bölvunum. Það var í mesta lagi að bölvunin beindist að einhverri sérstakri ætt, en ekkert… stórt.” Hún yppti öxlum. “Ekkert sérstakt.”
“Komið aðeins, ég þarf að tala við ykkur,” sagði Draco og hnykkti höfðinu til. Þau gengu fyrir horn og lækkuðu raddirnar.
“Hún virðist ekki vera þessi týpíski skiptinemi okkar, er það nokkuð?”
“Nei, ég var einmitt að hugsa það sama.”
“Hún lítur ekki einu sinni það vel út, hún er með músabrúnt hár og venjuleg, blá augu. Hún er meira að segja með frekar stór eyru og jafnvel í þykkari kantinum.”
“Granger, þú ert með henni í herbergi, er það ekki? Geturðu ekki-”
“Ég er ekki með henni í herbergi, hún er ekki í Gryffindor!”
“Við héldum að hún væri í Slytherin!”
“Og ég hélt að hún væri með ykkur… þá hlýtur hún að vera í Ravenclaw. Spyrjum hana út í skólann, námið, þá hljótum við að finna eitthvað út.”
Þau gengu aftur til Kate og brostu gervilegu brosi.
“Hvernig er það, ertu ekki í Ravenclaw?” spurði Harry og settist á borð sem að birtist allt í einu. Kate gapti smá.
“Uh, nei, ég er í Huffelpuff,” svaraði hún móðguð. Harry, Ron, Hermione og Draco litu út eins og einhver hefði hellt fötu af ísköldu vatni framan í þau.
“H-h-Huffelpuff?” stamaði Ron og gapti áfram.
“Já. Þið vitið, fólkið sem enginn tekur yfirleitt eftir. Við þessi sem að vinnum svo vel og erum vandvirk og hjálpsöm.”
“Hérna, hvernig gengur þér í náminu?” spurði Hermione og reyndi að láta ekki slá sig út áf laginu.
“Bara, svona. Ég er eftir á í sumum áföngum, en á undan í öðrum. Ég lærði allt aðra hluti í Sögu galdranna úti, en er aðeins eftir á í ummyndun og töfrum. Ég hélt ég væri líka góð í töfradrykkjum, en þessi kennari, púff, hann er hræðilegur! Ég var alltaf yfir meðaltali heima í Finnlandi, en þessi maður stressar mig svo upp að ég er langt fyrir neðan meðaltalið. Mér gengur ágætlega í rúnagöldrum, en kennarinn hérna er með aðeins aðrar áherslur en sú sem ég var hjá og svo geri ég mér ekki grein fyrir hvernig mér gengur í vörnum gegn myrku öflunum. Sumir í hópnum standa sig mjög vel á meðan aðrir virðast ekki einu sinni vita hvað grindilói er. Jurtafræðin er líka eitthvað sem ég stend mig ágætlega í, en hérna eru bara aðeins öðruvísi plöntur en ég er vön, ég vann meira með fjallagrös og það sem að vex í mýrum,” sagði Kate í belg og biðu. Hin horfðu á hana.
“Sko, ég veit ekki hvað er að ykkur fjórum, en ég hef engin sérstök leyndarmál eða neitt hræðilegt til að segja. Ég á foreldra sem eru tiltölulega ánægð saman, ég er miðjubarn, litli bróðir minn byrjar hérna á næsta ári og eldri systir mín varð eftir í Finnlandi hjá kærastanum sínum og…”
“Aha!” hrópaði Ron. “Ertu hrifinn af einhverjum? Einhverjum hérna inni? Eða einhverjum kennara?”
“Hvað þá? Kennara? Af hvaða kennara ætti ég að vera hrifin af?” hrópaði Kate á móti, bæði móðguð og undrandi.
“Nei, maður veit aldrei,” muldraði Ron.
“En hvað með nemendur?” ítrekaði Draco.
“Hvað kemur það ykkur við?”
“Katherine, segðu okkur bara eins og er, ertu hrifin af Harry, Ron eða Malfoy?” spurði Hermione.
“Nei! Nei, almáttugur, nei. Þið eruð ekki mínar týpur, ekki móðgast, þið lítið allir vel út, en… nei. Eitt stórt nei,” sagði Kate og hristi höfuðið kröftuglega.
“En ertu ef til vill hrifin af Hermione?” spurði Draco og blikkaði hana.
“NEI, ég er ekki samkynhneigð.”
“Ertu ekki hrifin af neinum? Áttu slæma fortíð með strákum? Var eitthvað gert við þig?” hélt Draco áfram.
“Nei, ég átti sænskan kærasta um tíma, svo ákváðum við að hætta þessu þegar ég flutti hingað. Það… það kemur ykkur ekkert við að hverjum ég er hrifin.”
“Ef þú svarar þessu eru meiri líkur á að við látum þig vera,” benti Ron á.
“Já, en þið fari ekkert að segja honum það, er það nokkuð?”
“Nei. Svaraðu okkur bara,” sagði Hermione, nú orðin óþolinmóð.
“Hérna… Justin Finch-Fletchley,” muldraði Kate og leit undan.
“Justin? Ó.”
“Já, en það hlýtur að vera eitthvað leyndardómsfullt við þig,” stundi Harry og renndi hendinni gegnum hárið sitt. “Áttu ættingja sem hafa dáið?”
“Amma mín dó úr brjóstakrabbameini og frænka mín úr lungnakrabba, en hún reykti líka eins og strompur. Ég átti frænda sem dó í snjóflóði og vinur foreldra minna varð grænmeti eftir bílslys.” Kate ók sér í stólnum. Þetta voru orðnar óþægilegar og of persónulegar spurningar fyrir hana.
“Var ekkert dularfullt við þetta snjóflóð?”
“Hann var að skíða í Norður-Noregi. Það er eitthvað dularfullt í gangi ef það kemur ekki snjóflóð þar,” svaraði Kate snúðugt.
“Hvernig skap hefurðu? Ertu oftast róleg en ef þú ert reidd til reiði, þá verðurðu alveg bandbrjáluð?” spurði Hermione.
“Ég verð ekki reið, ég verð pirruð út í fólk. Eins og til dæmis núna. Systir mín segir að ég sé alltaf pirruð, en hún er líka pirrandi, svo að það er ekkert að marka. Annars held ég að ég sé ágætlega róleg, bara eins og gengur og gerist. Ég er enginn búdda munkur, ef þið eruð að meina það.”
Harry stundi og dró hin þrjú með sér bak við horn.
“Við verðum að sleppa henni. Hún getur ekki sagt neitt gagnlegt, hún lætur eins og venjuleg manneskja,” hvíslaði hann. Hin kinkuðu kolli.
“Við getum fylgst með henni, tekið eftir því hvort að hún geri eitthvað sérstakt,” sagði Draco.
“Svo getum við líka brotist inn á skrifstofu Spíru og athugað einkannirnar hennar til að athuga hvort hún sé að segja satt,” stakk Hermione upp á.
“Og talað við einhverja í Huffelpuff, þau gætu sagt okkur eitthvað um hana,” bætti Ron við.
“Samþykkt,” sögðu þau öll í kór.
Þau gengu aftur til Katherine.
“Þá það, við sleppum þér núna. En þú skalt vara þig, við erum að fylgjast með þér.”
“Ef þú ferð að sýna einhverja Mary Sue takta, þá er okkur að mæta.”
“Við höfum mikla reynslu.”
“Og við hikum ekki við að nota hana.”
Með þeim orðum ýttu þau henni út úr Þarfaherberginu. Kate stóð undrandi á ganginum og leit í kringum sig. Hún var ekki viss um hvar í skólanum hún væri, hvað þá hvernig hún ætti að komast í setustofu Huffelpuff.



Þetta er skot á öll ficin á fanfiction.net þar sem kemur einhver ný stelpa og er alveg svaðalega sérstök og allir dýrka hana. Næsti hluti kemur eftir nokkra daga! (Ef einhver hefur skrifað álíka hérna á Huga, þá er ég ekki að skjóta á það því ég hef ég ekki lesið eina einustu grein eða fic hérna í ca. 2 ár).