Lily Evans líður illa og skrifar bréf út í loftið.
James Potter fer allt í einu að fá bréf frá einhverri stúlku sem líður illa og svarar.

(Fékk hugmyndina úr tveimur áttum. Annars vegar frá bók sem ég las sem er eingöngu sett saman úr sendibréfum, e-mailum og kortum, snilldar bók, man ekki hvað hún heitir. Hins vegar frá spuna á FanFiction.net þar sem svipað var sett upp á milli Siriusar og Lupins.
Ég hef oft spáð í hvernig Lily og James náðu loksins saman eftir að hafa lesið verstu minningu Snapes. Hugsanlega var það einhvernveginn svona)

—-

Skrifað út í loftið

—-

21. júní 1975

Til þess sem heyra vill.

Ég er að fara yfir um. Ég get þetta ekki meir.
Ég er svo ein.
Ég hef engan til að tala við svo ég skrifa til þín út í tómið.
Ég er svo þreytt. Þreytt á að rífast, þreytt á að vera stöðugt niðurlægð, þreytt á að vera sorgmædd, þreytt á að sakna mömmu, þreytt á að reyna að fá pabba til að brosa. Að reyna að fá hann til að lifa lífinu. Ekki að það sé auðvelt þegar systir mín gerir ekkert til að hjálpa til. Ekkert nema að rífa mig niður, kalla mig viðrini og segja pabba að hann ætti að henda mér út.
Ég get ekki verið hérna mikið lengur.
Mig langar aftur í skólann. Aftur þangað sem ég get gleymt mér í námi og stöðugleika.
Ég held ég sé að verða klikkuð.

Fröken Einmanna



22. júní 1975

Kæra fröken Einmanna.

Uglan þín flaug inn um gluggann minn í morgun og rétti mér bréfið þitt. Þú ert svo sorgmædd. Ég vildi að ég gæti hjálpað þér. Ég á engin systkin sjálfur en besti vinur minn á bróður sem hann þolir ekki. Þeir rífast eins og hundur og köttur (vinur minn er hundurinn ^^, ) ég hef oft orðið vitni af því og veit hversu grimmir þeir geta orðið og þeir eru strákar. Stelpur eru yfirleitt ennþá grimmari, alla vega í orðum.
Afhverju í ósköpunum leyfir systir þín sér að kalla þig viðrini? Það er bara alrangt að kalla systur sína viðrini.
Afhverju saknar þú mömmu þinnar? Hvar er hún?
Er eitthvað sem ég get gert til að hjálpa þér?

Hr. Áhyggjufullur




25. júní 1975

Herra Áhyggjufullur

Takk fyrir að svara mér.
Ég átti ekki von á þessu. Ég bjóst við að uglan mín myndi kannski fljúga í smá hring og koma svo aftur til mín með bréfið mitt. Ég átti ekki von á að hún gæfi einhverjum bréfið og hvað þá að einhver myndi svara mér.
Ég sakna mömmu því að hún dó fyrir tveimur vikum. Foreldrar mínir voru bæði Muggar og ég er eina manneskjan í fjölskyldunni okkar með galdramátt. Systir mín hatar mig fyrir það og finnst ég þess vegna vera viðrini. Hún er mjög ákveðin í að vera “venjuleg” hvað sem það nú þýðir. Mamma og pabbi voru alltaf mjög stolt af því að ég væri norn og voru yfir sig glöð þegar ég fékk að fara í galdraskóla. Systir mín reifst mikið við þau út af því. Núna þegar mamma er farin er pabbi mjög leiður. Hann situr bara allan daginn og horfir á sjónvarpið eða les blöðin. Í rauninni situr hann bara og starir fram fyrir sig. Ég held að hann sjái ekki hvað er fyrir framan hann. Hann er svo leiður og honum líður svo illa. Ég vildi að ég gæti hjálpað honum en það skiptir engu máli hvað ég geri hann starir bara fram fyrir sig.
Systir mín reyndi um daginn að segja honum að henda mér út því ég væri of mikið viðrini til að búa í “siðmenntuðum heimi”. Ég hata hana.
Ég skil vel hvernig vini þínum líður. Ég held að ég sé líka hundurinn í okkar tilfelli. Ég þoli ekki ketti og systir mín er eins lævís og ógeðsleg í hugsun og kattarkvikindi.

Hmm… ég ætlaði nú ekki að hella þessu öllu yfir þig, kannski ætti ég ekki að senda þér þetta… ég hef bara engan annan til að tala við. Ég á ekki marga vini í skólanum. Ég á kunningja. Stelpurnar á heimavistinni eru almennilegar við mig og ég við þær en við erum ekki mjög nánar og ég get einhvernveginn ekki talað um þessi mál við þær. Engin þeirra er mugga-fædd og þær skilja ekki hvað ég er að tala um.

Fyrirgefðu að ég skuli úthella tilfinningum mínum yfir þig. Þú átt það ekki skilið. Þú ert greinilega ótrúlega ljúfur og góður að svara svona tilfinningaflaki eins og mér.
Þú sagðir að þú vildir hjálpa. Þú hjálpaðir mér ótrúlega mikið bara með því að skrifa til baka.
Mér brá svo að ég þurfti tvo daga til að jafna mig áður en ég gat svarað þér.
Það er ótrúleg hjálp í að vita að einhver heyrir í mér og að ég er ekki alveg ein.

Takk fyrir að vera til.
Frk. Einmanna



26. júní 1975

Kæra fröken Einmanna

Þetta er ömurlegt að heyra. Systir þín hljómar eins og versta skass.
Ég samhryggist þér vegna mömmu þinnar. Ég veit ekki hvað við pabbi myndum gera ef mamma myndi taka upp á því að deyja. Þau eru reyndar orðin svolítið gömul en ég vona að þau tóri mörg ár í viðbót. Ég hef einhvernveginn aldrei hugsað um hvernig það væri að missa þau. Ég skammast mín eiginlega fyrir það hversu gott ég hef það þegar ég heyri þína sögu.
Ég er einkabarn og á dásamlega foreldra sem vilja allt fyrir mig gera. Ég er reyndar frekar spilltur af eftirlæti skilst mér… það segja vinir mínir alla vega… og þeir sem ekki vilja vera vinir mínir…
En ég vona að ég sé ekki of slæmur. Ég á líka dásamlega vini í skólanum. Stráka sem standa með mér í gegn um súrt og sætt og ég myndi deyja fyrir þá ef þyrfti. Enginn þeirra hefur það eins gott og ég heima hjá sér og eftir því sem ég kynnist þeim betur og kynnist fleira fólki uppgötva ég hvað ég hef það í raun og veru gott. Mín stærstu vandamál eru hvernig kúst ég á að kaupa mér næst, í hvaða fötum ég á að vera og hvort að The Chudley Cannons vinni næsta Quidditch mót.

Ekki biðjast afsökunnar á að þú skulir senda mér þetta bréf. Ég er búin að hugsa til þín á hverjum degi síðan fyrsta bréfið þitt kom og ég vil gjarnan fá að tala við þig meira. Það er gott að ég get hjálpað með að spjalla við þig. Mér finnst hrikalegt að heyra að þú eigir ekki góða vini. Ef þú vilt þá vil ég gjarnan vera vinur þinn. Þú getur létt á hjarta þínu við mig og ég skal hlusta. Ég get kannski ekki gefið góð ráð en ég get hlustað. Ég er góður í því. Reyndar er ég ekki bestur í því í mínum vinahóp… betri en hundurinn reyndar ^^, en þriðji vinurinn okkar er bestur í því. Ég vil samt gjarnan gera mitt besta til að vera til staðar fyrir þig og hlusta á þig, ef þú vilt leyfa mér það.

Ánægður að heyra um skoðanir þínar á köttum og hundum. Ég er alveg sammála þér, kettir eru ömurlegir. Hins vegar eru hirtir uppáhalds dýrin mín.

Segðu mér endilega meira frá sjálfri þér, vinkona.
Þinn vinur
Hr. Ofdekraður.



27. júní 1975

Elsku vinur. (ég neita að kalla þig Hr. Ofdekraðan)

Þú ert dásamlegur. Ekki skammast þín fyrir að hafa það gott. Njóttu þess. Njóttu þess og ekki vanmeta það. Þó að aðrir hafi það slæmt þýðir það ekki að þú þurfir að hafa það slæmt líka. Það eina sem þú skuldar okkur sem höfum það ekki jafn gott og þú er að þú vanmetir það ekki og gleymir ekki að njóta þess.
Hver hefði getað trúað því að í þessum heimi væri eins dásamlegur einstaklingur og þú.
Ég vil gjarnan vera vinkona þín.
En við skulum ekki nota nöfnin okkar. Ég þori varla að trúa því að ég sé að eignast eins dásamlegan vin og þú ert og ég er svo hrædd um að ef ég haldi of fast í þessa vináttu að þá renni hún úr greipum mér. Við skulum vera nafnlaus. Það er líka svolítið leyndardómsfullt og skemmtilegt.
Finnst þér það ekki?
Ég skal samt segja þér að ég er 16 ára.
Hvað ert þú gamall?

En já það er rétt hjá þér. Petunia er versta skass. Ég þoli hana ekki en einhvernveginn er mikið auðveldara að þola hana þegar ég veit að ég get átt von á ánægjulegu bréfi frá þér kæri vinur.

Ég er sammála þér, hirtir eru dásamlegir, svo fallegir og tignarlegir.
Ég er samt af einhverjum óskiljanlegum ástæðum yfir mig hrifin af gíröffum. Þegar ég var lítil fór mamma oft með okkur systurnar í dýragarðinn í London og þá vildi ég aldrei fara frá gíröffunum. Þeir eru ekki líkt því eins tignarlegir og hirtirnir en það er eitthvað við augun þeirra, þau eru svo stór, dökk og dásamleg. Þeir eru ákaflega kjánalegir í laginu en samt eitthvað svo sætir. Það er líka alveg ferlega fyndið að sjá þá hlaupa. Þeir geta hlaupið hraðar en ljón en þeir gera það svo kjánalega að það er ekki hægt annað en að hlæja.

Kveðja
Fröken Ekki-svo-einmanna-lengur.



3. júlí 1975

Sæl vinkona

Gott að heyra að þú ert ekki svo einmanna lengur.
Fyrirgefðu hvað það er langt síðan ég skrifaði þér síðast. Það hefur verið mikið að gera hjá mér undanfarið. Vinur minn (hundurinn þú veist) kom til mín rétt eftir að ég fékk síðasta bréfið frá þér. Foreldrar hans eru hryllilegir og bróðir hans líka. Hann tók allt sitt hafurtask í síðustu viku og fór að heimann. Hann flutti hingað til mín. Mamma og pabbi tóku honum fegins hendi en foreldrar hans eru núna búin að afneita honum og þó að hann þykist ekki taka því nærri sér veit ég að honum líður ekki vel. Ég hef verið að reyna að hressa hann við undanfarið og það gengur misvel.
Hann er kominn til okkar hingað og við erum að innrétta fyrir hann herbergi. Ég held að honum sé að vissu leiti létt að þurfa ekki að búa hjá foreldrum sínum lengur og við höfum alltaf skemmt okkur vel saman og verið góðir vinir. Hann hefur verið besti vinur minn síðan ég byrjaði í skólanum og nú verðum við meira eins og bræður heldur en vinir. Það er vissulega gaman en aðstæðurnar á bakvið eru frekar ömurlegar.
En það þýðir ekki að ég vilji ekki ennþá vera vinur þinn. Þú átt mig að, sama hvað gengur á. Ég gef mér alltaf tíma fyrir þig. Mundu það.

Ég vona að þú hafir ekki verið farin að hafa áhyggjur af uglunni þinni. Ég þorði ekki að leyfa henni að fara því ég var svo hrædd um að mín ugla myndi kannski ekki finna þig. Fyrirgefðu ef það olli þér áhyggjum. Ég er búinn að hugsa vel um hana og gefa henni nóg að borða. Hún er búin að vingast við ugluna mína (hann Apollo) og mér sýnist hún heldur leið að yfirgefa hann. Ég held þau séu að verða skotin í hvort öðru. Þau virtust reyndar þekkjast. Hann er ekkert alltaf til í að deila búri með öðrum uglum en hann tók henni vel um leið og hún kom. Hvað heitir hún? Ég get ekki spjallað við hana almennilega ef ég veit ekki hvað hún heitir.

Ég skal sætta mig við að vita ekki hvað þú heitir. Það er rétt hjá þér, það er svolítið skemmtilegt að skrifast svona á nafnlaust. Ég hef samt farið að velta því fyrir mér hvort að við þekkjumst nú þegar? Ef eitthvað er að dæma uglurnar þá er ekki ólíklegt að þær hafi átt saman stundir í ugluturninum í Hogwarts. Er það rétt hjá mér?
Ég er líka 16 ára.
Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja við öllum þessu fallegu orðum sem þú skrifaðir um mig. Ég held að enginn hafi nokkurn tíman lýst mér svona. Maður fer bara hjá sér…

Ég hef aldrei séð gíraffa. Foreldrar mínir eru bæði galdramenn og við höfum varið nánast öllu okkar lífi í galdramannasamfélaginu. Ekki misskilja mig, ég er alls ekki einn af þessum Slytherin-fávitum sem heldur í heimskulegar hugmyndir um “hreint blóð”. Mér finnst ótrúlega gaman að kíkja á Mugga skemmtistaði og fara í Mugga-bíó og fleira þannig. Hef bara aldrei farið í Mugga-dýragarð. Hef farið með mömmu og pabba í galdradýragarða um allan heim að skoða dreka og gryffina og hippogryffina og allskonar svoleiðis dýr en aldrei gíraffa.
Hvernig líta þeir út?
Geturðu lýst þeim fyrir mér? Augun hljóma í öllu falli vel.

Þinn vinur, alltaf
hr. Veit-ekkert-um-gíraffa



4. júlí.1975

Elsku vinur.

Mikið var ég glöð að heyra frá þér. Ég hélt að eitthvað hefði kannski komið fyrir. Ég var farin að hafa áhyggjur af því að uglan mín hefði lent í einhverjum hremmingum eða að þú hefðir gefist upp á mér eða að eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir þig og fjölskylduna þína. Maður heyrir svo slæmar sögur úr galdramannasamfélaginu þessa dagana. Fólk að hverfa og fleira ógeðfellt.

En ég er þér afar þakklát fyrir að hafa hugsað vel um Artemis mína. (Uglan mín heitir það. Mér fannst það viðeigandi þar sem Artemis var veiðigyðjan og hún er svo dugleg að veiða mýs um nætur). Fyndið að uglurnar okkar skulu báðar bera nöfn úr grískri goðafræði. Til að svara spurningunni þinni… já, þær hafa að öllum líkindum hist í Hogwarts. Í öllu falli hefur Artemis eytt þar hverjum vetri síðan ég var á fyrsta ári.
Vá, ótrúlegt að það skuli vera líklegt að við þekkjumst. Í öllu falli höfum við einhverntíman hist. Við erum í sama skóla og á sama ári.
Ég er komin með hnút í magan en ég vil samt ekki að þú vitir hver ég er. Ég vil ekki að þessir hlutir sem við höfum verið að ræða um fréttist í Hogwarts. Ég vil ekki að fólk viti að ég sé svo veikgeðja og einmanna að ég þurfi að senda bréf út í loftið sem svo fyrir dásamlega tilviljun endaði hjá þér.
Núna ennþá frekar en áður vil ég fá að halda í nafnleysið.

Mikið ert þú og foreldrar þínir góðir við vin þinn. Hann er heppinn að eiga þig að. Ef ég þyrfti að fara að heiman væri enginn staður sem ég gæti farið á. Ég á engann að. -úff þarna fer ég í svartsýnina aftur. Ég get hins vegar ekki yfirgefið pabba. Ég er skíthrædd um hvað verður um hann þegar ég fer aftur í Hogwarts í haust.

Ég trúi því varla að þú vitir ekkert um gíraffa. Þeir eru æði. Þeir eru eins og ofvaxnar kýr með gríðarlega langan háls. Gulir og brúnir á litin. Þú ættir að gera þér ferð í mugga-dýragarðinn í London og kíkja á þá. Þeir eru æðislegir.

Ég vona að nýji bróðir þinn hann Voffi, aðlagist fljótt heimilinu þínu og upplifi gott fjölskyldulíf með ykkur. Hryllilegt að heyra um foreldra hans. Að einhver geti afneitað barninu sínu það get ég ekki skilið. Ég hef alltaf haft gaman af börnum og ef ég ætti barn þá myndi ég frekar deyja en að láta eitthvað slæmt koma fyrir það. Ég hélt að allir foreldrar hugsuðu þannig. Ég held að foreldrar mínir hafi gert það og mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að vinur þinn skuli aldrei hafa upplifað slíka foreldraást. Ég finn afskaplega mikið til með honum en um leið öfunda ég hann dálítið af því að eiga eins góðan vin og þig.

Kveðja
Fröken Veikgeðja.

p.s. Ekki tala svona illa um Slytherin, það eru ekki allir þaðan svo slæmir. Þeir hafa sína kosti og sína galla, rétt eins og allir aðrir.



6. júlí 1975

Elsku Fröken Hógvær (ég kem aldrei til með að kalla þig veikgeðja)

Ég vissi að uglurnar okkar hefðu hist! Artemis er fallegt nafn en ég veit ekkert um gríska goðafræði. Vinur minn sem er alger bókaormur var nýbúinn að segja mér frá geymferðum mugganna þegar ég fékk ugluna mína og ég mér fannst það ferlega svalt að muggar skuli geta farið til tunglsins svo ég nefndi ugluna mína eftir geymfarinu sem fór þangað. Það hét Apollo.
Magnað til þess að hugsa að kannski höfum við hist á hverjum degi í sex ár.
Segðu ekki að þú sért veikgeðja. Það er ekkert sem þú hefur sagt mér í þessum bréfaskriftum okkar sem þú ættir að skammast þín fyrir. Fyrir utan það að ég myndi alltaf skammast mín fyrir að tala vel um Slytherin. Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér kosti þeirra. Ég held bara að þú sért of góð manneskja til að þola að talað sé illa um einn eða neinn. (Þú ert ekki í Slytherin er það nokkuð? Ef þú ert þar þá er það í fyrsta sinn sem ég sé eitthvað gott koma þaðan.) En ef þú vilt ekki að ég tali illa um fólk skal ég ekki gera það.
En í alvöru talað. Þú hefur ekkert gert eða sagt sem þú ættir að skammast þín fyrir. Þú ert dásamleg stelpa og vittu það að ég gefst aldrei upp á þér. Hafi ég einu sinni ákveðið að einhver sé vinur minn þá stend ég við það. Þú átt mig að alltaf!

Voffi minn, eins og þú kallar hann, er að aðlagast því að vera hér hjá mér ágætlega. Við ákváðum að skemmta okkur svolítið í gær og fórum til London að skoða Mugga-dýragarðinn. Þú hefðir átt að sjá á honum svipinn þegar ég sagði honum hvert við ætluðum. Hann hélt að ég væri orðinn geðveikur. Þegar við komum að inngangnum í dýragarðinn var trúður þar fyrir utan að selja blöðrur og allt fullt af litlum krökkum. Voffi leit á mig og var alveg viss um að ég myndi hætta við því augljóslega var þetta aðallega fyrir börn. Ég minnti hann þá bara á það hversu fúl mamma hans myndi verða ef hún frétti af honum í Mugga-dýragarði með fullt af Mugga-börnum. Þá var hann meira en til í að fara inn. (Ég man ekki hvort ég sagði þér það eða ekki en foreldrar hans eru bæði úr Slytherin og öll fjölskyldan er gegnum sýrð af þessari “Hreint-blóð-skiptir-öllu” kjaftæðis hugmynd. Það er einna helsta ástæðan fyrir ósætti þeirra. - en nóg um það í bili.)
Við borguðum okkur inn (meira vesenið með þessa mugga-peninga. Mamma kenndi mér á þetta einhverntíman en ég get ekki lært þetta. Það endaði með að ég lét hrúgu af peningum á borðið hjá afgreiðslustúlkunni og bað hana að taka út eins mikið og þyrfti. Ég ætla rétt að vona að hún hafi verið heiðarleg.)
Við fórum svo inn í garðinn. Þegar við vorum að labba um garðinn sáum við fullt af flottum dýrum. Tígrisdýr, flamingóar (ég vissi ekki að það væru til svona rosalega bleikir fuglar í heiminum. Ég vona að Dumbledore detti ekki í hug að fylla stóra salinn af svoleiðis á Valentínusardaginn) mörgæsir, strútar, randahestar (man ekki hvað þeir hétu en þeir voru mjög röndóttir með funky hár). En við sáum líka svolítið annað. Eina fólkið í dýragarðinum voru börn (með mömmum og pöbbum eða ömmum og öfum eða kennurum) og svo ástfangin pör. Á öllum bekkjum var fólk að kyssast og vera rómó. Við vorum í drullugóðu skapi og allt í einu stökk Voffi upp á bekk og játaði mér ást sína svo að allir í dýragarðinum heyrðu í honum. Ég átti svo bágt með að rifna ekki úr hlátri. Hann var alveg fáránlega leikrænn í tilburðum. Ég gerði mitt besta til að þykjast roðna og vera rosalega upp með mér. Svo þegar hann kom niður af bekknum lækkaði hann róminn og sagði að honum hefði fundist hann þurfa að gera eitthvað svona til að finnast hann betur passa inn í hópinn. Svo tók hann utan um mig og við gengum um eins og ástfangið par út um allan dýragarðinn.
Loksins fundum við gíraffana. Við byrjðum nefninlega á að fara í vitlausa átt og vorum því búnir að skoða meirihluta garðsins áður en við fundum þá.
Það er rétt hjá þér. Gíraffar eru ferlega fyndnir. Einn þeirra kom frekar nálægt okkur úti og annar var inni í húsinu og við máttum fara þangað inn og skoða hann. Rosalega eru þeir með falleg og kvenleg augu. Ég gæti horft í svona augu alla daga án þess að verða leiður á því (og ég er ekki þessi rómantíska, horfa-í-augun týpa. Kannski hef ég bara ekki fundið nógu áhugaverð augu ennþá… ekki sem vilja horfa mig til baka allavegana).
Ég skil að þú skulir dást að þessum dýrum. Þeir eru komnir mjög ofarlega á listann hjá mér núna. En hjörturinn er ennþá efstur. Ég er mjög ánægður með að þú skulir kalla hann fallegan og tignarlegan ^^,
En eftir að við skoðuðum gíraffana vorum við að ganga um dýragarðinn með sitthvorn ísinn og héldumst í hendur og vorum að leika par. Smakkandi á ísnum hjá hvor öðrum og þess háttar. Þá kom öryggisvörður og sagði að foreldrar og kennarar í garðinum hefðu verið að kvarta yfir ósiðsamlegri hegðun af okkar hálfu og henti okkur út. Ég spurði hann afhverju við værum ósiðsamlegri en parið sem sat á bekknum rétt hjá okkur og var að maka saman fæðuopum. Hann sagði að það væri vegna þess að við værum kynvillingar. Ég sagði honum að hann væri bara fordómafullur rugludallur og hann mætti sko vita að ég myndi ekki versla við þessa stofunun framar. Svo gengum við út ferlega móðgaðir og Voffi æpti eitthvað “make love not war”.
Þetta var geðveikt fyndið.
Þegar við vorum búnir að hlægja nóg fórum við í Mugga-bíó og sáum mynd sem heitir Monty Python and the Holy Grail. Það var stórskrítin mynd. Maður gat ekki annað en hlegið að henni en ég vissi ekkert hvað fólkið var að spá. Ég var alveg ringlaður.

Þegar við komum svo heim vorum við orðnir svo þreyttir að við fórum beint að sofa.
Þessvegna skrifa ég þér ekki fyrr en í dag.

Þinn vinur
hr. Gíraffagrani



7. júlí 1975

Elsku Gíraffagrani (snilldarnafn)

Rosalega var gaman að heyra um daginn ykkar í dýragarðinum. Ég get rétt ímyndað mér ykkur í dýragarðinum að tjá hvor öðrum ást ykkar. Þið eruð ótrúlegir. Ég skellihló að frásögninni þinni. Gott að heyra að þú ert nú fróðari og þekkir gíraffa. Hestarnir með “funky hárið” eru Sebrahestar. Þeir eru frekar flottir.

Ég er ekki í Slytherin, ég trúi því bara staðfastlega að það leynist gott í öllum. Þakka þér fyrir að bjóðast til að hætta að tala illa um fólk fyrir mig. Ég held að heimurinn væri mikið betri ef fólk talaði ekki svona illa hvert um annað. Það er svo margt gott sem hverfur á bak við slæmt umtal. Bæði í fólkinu sem verið er að tala um (þá er eins og það slæma sem er sagt sé mikilvægara en nokkuð annað sem viðkemur þessum einstakling) en líka hjá þeim eru að tala illa um aðra. Þegar þeir tala illa um aðra sýna þeir svo oft fram á það hversu mikla grimmd þeir eiga sjálfir og hvað þeim er mikilvægast. Sá sem talar illa um aðra gerir það að verkum að erfitt er að sjá góðu kostina hans því allir eru uppteknir af því að heyra hversu margt andstyggilegt hann getur sagt.

Takk fyrir að tala svona fallega til mín. Takk fyrir að vera til fyrir mig. Ég fæ fiðring í magan þegar ég hugsa til þín og ég bíð alla daga eftir bréfum frá þér. Bréfin þín eru orðin að hápunkti tilveru minnar þessa daga.

Hvað áttu við með að þú hafir í öllu falli ekki fundið augu sem vilja horfa í þín til baka?

Kveðja
Fröken Fiðringur

p.s. Apollo var í grísku goðafræðinni líka, hann var guð tónlistar, spádóma og lækninga. En geimferðirnar voru líka svalar ég verð alveg að vera sammála þér í því.



11. júlí. 1975

Kæra Fröken Fiðringur (hljómar vel)

Fyrirgefðu hvað leið langur tími síðan þú sendir síðasta bréfið þitt. Vinur okkar Voffa var að ganga í gegn um erfiða tíma núna í vikunni og við fórum í heimsókn til hans og vorum hjá honum á meðan erfiðar umbreytingar gengu yfir. Við erum komnir heim núna, dauðþreyttir en glaðir. Það var gott að sjá hann. Honum líður mikið betur núna og er orðinn hann sjálfur á ný. Ég vona að nærvera okkar Voffa hafi hjálpað honum eitthvað. Hann á oft svo erfitt en við gerum okkar besta til að vera honum innan handar ef hann þarfnast okkar.

Ég skil hvað þú átt við með að slæmt umtal sé aldrei gott. Ég hef samt aldrei hugsað út í þetta svona, en þetta er rétt hjá þér. Ég skal lofa þér því elsku vina að ég skal gera mitt besta til að hætta að tala illa um fólk. Meira að segja Slytherin-aulana…. úps…frá og með núna.
Ég skil hvað þú átt við með að bréfin séu hápunktur tilverunnar þinnar. Ég er ekkert leiður og hef ekki mörg vandamál að glíma við en ég bíð spenntur á hverjum degi og vonast eftir að fá bréf frá þér. Það er ekki laust við smá fiðring hérna megin líka. Ég held að ég myndi gera nánast hvað sem er fyrir þig núorðið bara ef þú bæðir mig um það. Þú ert orðin mikilvægur partur af lífi mínu. Hvað sem ég er að gera þá er alltaf fyrsta hugsunin mín að nú hafi ég eitthvað að skrifa þér. Þetta er skrýtið. Í upphafi vorum við að þessu fyrir þig til að þér liði betur því að þú varst svo einmanna en núna gæti ég ekki hætt að skrifa þér. Það er orðið eins mikilvægt fyrir mig að fá bréf frá þér eins og að tala við Voffa eða hina vinina mína. Jafnvel mikilvægara (ekki segja Voffa það samt, hann er þessi afbrýðissama týpa og heldur því fram að ég sé að skrifa ástarbréf. Hann er búinn að spyrja og spyrja um hver það er sem ég sé að skrifast á við og trúir því ekki þegar ég segi honum að ég viti það ekki. Vertu róleg. Ég hef ekki sagt honum eitt eða neitt sem þú hefur sagt mér nema bara það eitt að ég sé að skrifast á við stelpu úr Hogwarts. Hann er að drepast úr forvitni og ég verð að viðurkenna að það er dálítið fyndið að fygljast með honum reyna að veiða það uppúr mér hver þú ert. Sérstaklega þegar ég veit það ekki sjálfur og er þess vegna ekkert hræddur um að hann komist að einhverju.
Það er í raun ótrúlegt að þú skulir vera mér svona mikilvæg án þess að ég viti hver þú ert.

Þetta með augun var bara smá vísun í gamalt skot. Ég hef síðustu þrjú árin verið skotinn í stelpu í Hogwarts sem vill ekkert með mig hafa. Hún er fallegasta stúlka sem ég hef á ævi minni hitt en það nær víst ekkert lengra. Hún hefur aldrei viljað neitt með mig hafa.

Kveðja
sá sem aldrei segir slæmt orð um neinn héðan af.



12. júlí 1975

Elsku vinur

Hvernig getur nokkur hafnað þér? Þú sem ert svo dásamlega yndislegur. Hugulsamur, fyndinn, skemmtilegur, vingjarnlegur, nærgætinn og meiriháttar. Þessi stelpa er greinilega ekki nógu góð fyrir þig. Ef hún getur ekki séð hvað þú ert meiriháttar þá á hún þig ekki skilið. Hvað er eiginlega að henni? Heldur hún að hún geti gert betur en þig?
Hún hlýtur að vera meiriháttar vitlaus og asnaleg.

Gott að heyra að vini þínum líður betur. Hvernig umbreytingar var hann að ganga í gegn um? Eitthvað í fjölskyldunni hans? Það er meðal annars þetta sem er svo frábært við þig. Að þú takir þig bara upp og farir til að aðstoða vin sem á erfitt.

Þessi stelpa er brjálæðislega heimsk að láta þig sleppa.

Ég er rosalega glöð að ég sé orðin þér jafn mikilvæg og þú ert mér. Ég veit ekki hvað ég gerði án þín.

Þín
Fröken Fiðringur



13. júlí 1975

Góðan daginn Fröken Fiðringur

Hvað varð um að vilja ekki tala illa um fólk? Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þú værir afbrýðissöm. (eða veit ég kannski ekki betur?)
Það er samt ekkert að sakast við hana. Hún þekkir mig ekki eins og þú þekkir mig. Hún þekkir bara fíflaganginn í mér og þá hlið sem ég sýni af mér í skólanum. Það þekkja mig ekki margir eins og þú þekkir mig núorðið. Ég sagði henni heldur aldrei hvað mér fannst um hana. Ég þorði það ekki. Ég fíflaðist bara meira í kring um hana en aðrar stelpur og reyndi svo nokkrum sinnum að bjóða henni út. Aldrei í einrúmi samt, alltaf fyrir framan hóp af fólki. Ég held að það hafi farið meira í taugarnar á henni heldur en að heilla hana.

Vinur minn er alveg hress og kátur núna (eða eins kátur og hann verður, hann er rólegi gaurinn í vinahópnum, þessi sem situr venjulega úti í horni með bók þú skilur). Ég get því miður ekkert sagt þér um umbreytingarnar sem hann gekk í gegn um því það er ekki mitt leyndarmál til að segja frá. Þú mátt gjarnan heyra öll mín leyndarmál en ég get ekki sagt þér leyndarmál vina minna því þau eru ekki mín til að gefa.

En ég skal gefa þér eitt af mínum:
Ég held að ég sé að verða ástfanginn af þér. Ég hugsa um þig daga og nætur og ég er að verða vitlaus á að vita ekki hver þú ert. Það er langt síðan ég fór að verða hrifinn af þér. Nánast við fyrsta bréfið þitt en eftir því sem líður á verð ég hrifnari og hrifnari af þér og núna held ég að ég sé að verða ástfanginn. Þetta hefði ég aldrei þorað að segja áður. Mér líður bara eins og ég geti sagt þér hvað sem er. Mig langar að vernda þig fyrir öllu því slæma í lífinu þínu og umvefja þig með ást, vináttu og gleði. Mig langar að koma til þín og taka þig í fangið og aldrei sleppa þér.

Gerðu það, segðu mér hver þú ert.

Þinn að eilífu.



21. júlí 1975

Elsku vina.

Það er liðin meira en vika síðan ég heyrði frá þér síðast.
Gekk ég of langt?
Ertu reið við mig?
Kom eitthvað fyrir þig?
Gerðu það svaraðu mér. Þú þarft ekki að segja mér hver þú ert. Gleymdu því sem ég sagði í síðasta bréfi ef það særði þig eða ef þér fannst það óþæginlegt. Ég vil frekar eiga samband við þig svona eins og við höfum gert heldur en að vera alveg án þín. Helst af öllu vil ég hitta þig og vera með þér í raun og veru en ég tek fegins hendi við öllu sem þú ert reiðubúinn að gefa mér.

Fyrirgefðu mér ef ég gekk of langt.
Ég gleymi stundum að hugsa áður en ég framkvæmi. Ég meinti allt sem ég sagði en ég áttaði mig ekki á því að það væri kannski full snemmt fyrir þig. Ég ætlaði ekki að hræða þig og ég lofa að ég skal aldrei minnast á svona hluti aftur ef þér finnst það óþæginlegt.

Ég vona bara að Apollo finni þig.

Þinn vinur.



23. júlí. 1975

Elsku vinur.

Apollo fann mig eins og þú sérð. Já það er greinilegt að hann og Artemis eru eitthvað skotin í hvort öðru…. líkt og eigendur þeirra.

Ég er ekki reið og þú gekkst ekkert of langt þó að þetta sé að gerast svolítið hraðar en ég hafði átt von á..
Ég þurfti bara dálítinn tíma til að melta síðasta bréfið þitt.

Það var rétt hjá þér, ég var afbrýðissöm út í þessa stelpu. Ég á engan rétt á því að vera það og það sem ég sagði um hana var með öllu rangt og engin afsökun fyrir því.
Fyrirgefðu mér.

Ég met það mikils að þú skulir vernda leyndarmál vina þinna. Ég ætlaði ekki að biðja þig um að svíkja vin þinn. Ég ber mikla virðingu fyrir þér og finnst þú ákaflega heiðvirður að halda þau leyndarmál sem þér er treyst fyrir.

Ég er ekki enn tilbúin í að gefa þér nafnið mitt en ég skal segja þér meira frá sjálfri mér. Kannski ef við þekkjumst meira í skólanum en við höldum þá uppgötvar þú hver ég er en kannski ekki.

Ég er umsjónarmaður.
Ég hef yndi af því að læra, er róleg úti í horni með bókina mína eins og þú lýstir vini þínum. Ég læt í mér heyra ef mér finnst þurfa á að halda. Ég get engan veginn staðið hjá og horft á þegar einhver er beittur ranglæti. Ég er mjög góð í töfradrykkjum og Vörnum gegn myrku öflunum. Mér finnst leiðinlegt í sögu (hverjum finnst það svo sem ekki. Binns kennir líka bara um leiðinlega hluti, skil ekki afhverju hann kennir okkur aldrei um Grindelwald eða eitthvað meira krassandi en Risa stríðin og Svartálfabyltingar).
Ég á mjög auðvelt með að láta mér þykja vænt um fólk en einhvern veginn á fólk erfitt með að sjá það. Fólk heldur oft að ég sé stýf og þver og vilji fylgja öllum reglum út í ystu æsar en það er ekki alveg þannig. Mér finnst gott að hafa reglur og sem umsjónarmaður vil ég að þeim sé fylgt en reglur eru ekki heilagar og stundum þarf að brjóta þær en það er betra að gera það varlega.
Ég hef gaman af því að fíflast og skemmta mér en ég geri það allt of sjaldan síðan ég kom til Hogwarts. Ég gerði það oft með vinkonum mínum úr gamla mugga-skólanum mínum en ég geri það einhvern veginn aldrei með stelpunum í Hogwarts. Þær virðast ekki halda að ég sé týpan í það og ég á erfitt með að breyta skoðun þeirra. Ég er komin með ákveðna ímynd á mig þar og á erfitt með að losa mig við hana.
Ég er með græn augu.

Þín Græneygð.



24. júlí 1975

Þú ert dásamleg. Mikið var ég glaður að heyra frá þér og að Apollo skyldi hafa fundið þig.
Ég er sannfærðari en nokkru sinni fyrr að þú ert fullkomin fyrir mig og ég er fullkominn fyrir þig. Ég er ekki þessi rólega týpa sem situr út í horni með bókina sína. En ég væri til í að sitja úti í horni og horfa á þig með þína bók. Ég læri þegar ég þarf á því að halda og ég fæ góðar einkunnir í nánast öllum fögum (ekki sögu, sammála þér með hana). Ég er á þeirri skoðun að reglur séu til að brjóta þær og ég myndi gjarnan vilja hjálpa þér við að losa þig við þessa ímynd þína. Ef við værum saman væri hver dagur okkar fullur af gleði. Við myndum eiga rólegar stundir saman þar sem þú getur lesið og lært eins og þú vilt og ég fæ að horfa á þig. Virða þig fyrir mér og stara í grænu augun þín. Svo myndum við eiga spennandi ævintýr og skemmtilegar stundir við að brjóta nokkrar skólareglur. Ég er strax með nokkrar í huga. Ég myndi vilja sýna þér Hogwartskastala eins og þú hefur aldrei kynnst honum áður.
Ég stend með réttlæti gegn ranglæti og hika ekki við að láta í mér heyra ef einhver er ekki að fá réttláta meðferð… nema ef sá hinn sami er frá Slytherin en ég er búin að lofa að breyta því svo ég verð víst að hemja mig með það héðan af.
Allt annað veistu um mig nú þegar held ég…. nema nafn og útlit.
Ég er með brún augu.

Mig langar að þú svarir einni spurningu fyrir mig áður en lengra er haldið.
Viltu mig?
Ég veit að þú ert feimin að ræða þetta en þú minntist á að eigendur Artemisar og Apollos væru líka skotin í hvort öðru. Svo ég held í vonina.
Þú þarft ekki að skrifa langt svar.
Skrifaðu bara Já eða Nei.
Viltu mig?

Þinn að eilífu.



1. ágúst 1975

Já.



1. ágúst. 1975

Ég er svo hamingjusamur. Ég er að springa. Ég hef aldrei á æfinni verið jafn glaður!!!
Þú hefur gert mig að hamingjusamasta manni veraldar.
Ég gat ekki beðið til morguns. Ég er búinn að vera að fara á taugum að bíða eftir svarinu þínu. Voffi er að verða vitlaus á mér og finnst ég hundleiðinlegur (sem er einkennilegt þar sem hann er hundurinn). Ég veit að Apollo er ekki glaður við mig að senda sig út að kvöldi sama dag og hann var að koma heim en ég gat ekki beðið. Ég varð að senda þér bréf núna.
Þú ert dásamleg og þú ert mín.

En ég hef eitt leyndarmál sem ég þarf að segja þér í viðbót:
Ég er búin að átta mig á því hver þú ert Lily Evans.

Lily, elskan mín. Ég þori ekki að segja þér hver ég er í bréfi. Í vor þegar sumarfríið hófst var ég viss um að þú hataðir mig. Ég vissi að þú þekktir mig ekki mjög vel en ég vissi að þér var ekki vel við mig og ég skil það vel því ég sýndi þér ekki mínar bestu hliðar og ég veit núna að ég gerði margt sem angar þig. Ég vil fá að hitta þig og sýna þér hver ég er. Ég held að þú trúir mér ekki ef ég skrifa þér það.

Má ég koma heim til þín 3. ágúst?

Ég elska þig Lily Evans!
Dásamlegt að geta skrifað þetta og sent það til þín.

Þinn að eilífu.



2. ágúst 1975

Ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég roðna upp fyrir hársrætur og það eru svo mörg fiðrildi í maganum á mér að ég get varla skrifað. Hver hefði trúað því að þetta sumar myndi fara svona? Hver hefði trúað því að þegar ég var á botni svartnættisins birtist mér engill sem elskar mig og vill eiga mig. Vernda mig og halda utan um mig. Ó, hvað ég þrái að finna þig halda utan um mig.

Ég get ekki beðið eftir morgundeginum að vita hver þú ert. Hvað áttu við með að ég myndi ekki trúa því? Þekkjumst við vel? Á hvaða heimavist ert þú? Afhverju hélst þú að ég hataði þig?
Ég hugsa og hugsa og ég átta mig ekki á neinu.
Ég get ekki fundið neitt út úr því sem þú hefur sagt mér um þig sem bendir á einhvern sérstakann.
Hvernig komstu að því hver ég er?

Þú mátt koma heim til mín á morgun. Ég verð heima allan daginn.
Veistu hvar ég bý?

Þetta er agalegt. Kærastinn minn er að koma til mín og ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir eða hvernig hann lítur út. Hmm… kærastinn minn. Ég á kærasta!
Ég get ekki beðið eftir að sjá þig.
Ég er bæði spennt og skelfingu lostinn.
Ég veit ekki hvað ég á að halda.

Þín
Lily

p.s. Það er gott að geta skrifað nafnið sitt undir. Það er viss léttir sem fylgir því. Því núna veit ég að þú veist allt um mig og vilt mig samt.



James gekk hægum en ákveðnum skrefum inn götuna þar sem hann vissi að ástin hans beið. Hann hikaði augnarblik við garðhliðið. Hvað ef hún vildi hann ekki. Hún hafði aldrei viljað tala við hann í skólanum nema til að skamma hann og öskra á hann fyrir að hrekkja Snivellus. Hún hafði aldrei litið til hans öðru vísi en með vandlætingarsvip. Hann hafði verið skotin í henni frá því að hann sá hana fyrst en hún hafði aldrei viljað hann. Núna þegar hann hafði fengið tækifæri til að kynnast henni, fengið að sjá undir hart og kalt yfirborðið var hann yfir sig ástfanginn af henni. Hún var fullkomin. Hún var allt of góð fyrir hann. Það gæti ekki verið að hún vildi hann.
Hann stakk höndinni í vasann og dró upp bréfabunkann frá henni. Hann hafði ákveðið að taka sönnunargögnin með ef hún skyldi ekki trúa því að það væri hann. Hann leit á efsta bréfið og sá að þar stóð með fínlegri skrift Lilyar Evans:

Hvernig getur nokkur hafnað þér? Þú sem ert svo dásamlega yndislegur. Hugulsamur, fyndinn, skemmtilegur, vingjarnlegur, nærgætinn og meiriháttar. Þessi stelpa er greinilega ekki nógu góð fyrir þig.

'Heh.. hún er allt of góð fyrir mig. Þú ættir bara að vita,' hugsaði hann með sér.
James Potter var yfirleitt sjálfstraustið uppmálað en í dag var hann verulega óöruggur. Hann mundi að Lily hafði oft hneykslast á því að hann ýfði upp hárið svo að hann reyndi eftir fremsta megni að slétta úr óstýrlátum lubbanum. Hann stakk bréfunum aftur í vasann og hélt fastar um blómvöndin sem hann hafði meðferðis handa henni. Þetta var lítill fallegur rauður rósavöndur með einni bleikri og hvítri lilju í miðjunni.
Hann dró djúpt að sér andann.
“Vertu ekki svona mikill auli James,” sagði hann upphátt við sjálfan sig. “Þetta verður annaðhvort versta stund lífs þíns eða sú besta. Ég verð bara að vona það besta.”
Hann kerrti hnakkann og gekk ákveðnum skrefum upp að dyrunum og hringdi bjöllunni.
Hann heyrði mikinn skarkala að innan eins og eitthvað hefði dottið í gólfið og brotnað.
“Rassgat” heyrði hann fallega rödd Lilyar að innan.
Hann gat ekki varist hlátri og honum létti örlítið þegar hann áttaði sig á að hún var eflaust jafn kvíðin og hann.
Hann sá útlínur hennar í gegn um hleðsluglerið í útidyrunum og sá rauðan blæinn í kring um höfuð hennar. Hjarta hans tók kipp og hann var hræddur um að hann gæti ekkert sagt.
Hún virtist vera að laga á sér hárið og svo stóð hún grafkyrr fyrir innan í nokkrar sekúndur áður en hún opnaði dyrnar.
Þegar hún birtist í dyragættinni stóð James Potter stýfur fyrir utan með blómvöndinn sinn og brosti til hennar vandræðalegur á svip.
Augu hennar stækkuðu af undrun.. Hann reyndi að lesa í svip hennar í fyrstu virtist hún bara hissa, svo virtist hún verða tortryggin undir það síðasta virtist hún ekki viss hvort hún ætti að skella hurðinni á hann eða stökkva upp um hálsinn á honum. Hún virtist ekki vita hvort hún ætti að öskra eða hlæja.
“Það ert þú,” stundi hún loksins upp og fallegu grænu augun hennar flóðu í tárum.
Brosið var löngu horfið af andliti James. Hann fann sáran verk í hjartanu og reyndi allt hvað hann gat að láta hana ekki sjá hve sár hann var yfir þessum viðbrögðum.
“Mér datt það í hug að þú myndir skipta um skoðun þegar þú vissir hver ég var.” Röddin hans var þvinguð af sársauka. Hann þrýsti blómunum í fang hennar og sneri sér við og lagði af stað í átt að götunni á ný.
“James, nei, bíddu,” hrópaði Lily á eftir honum.
Hann hikaði og leit við óöruggur um hvað hún ætlaði sér. Lily var komin út í garðinn á eftir honum.
“Ég meinti það ekki þannig,” sagði hún og þurrkaði augun í gríð og erg. “Þetta eru ekki sorgartár, þetta eru gleðitár. Ekki fara. Ekki fara loksins þegar ég er búin að fá þig til mín. Ég vonaði hálft í hvoru að það værir þú en ég þorði ekki að trúa að það gæti verið satt.” Hún var komin alveg upp að honum og lagði aðra höndina á öxl hans.
Heitur straumur fór um hann og hann var ekki alveg viss hvort hafði meiri áhrif á hann, orðin hennar eða snertingin. Gat það verið að hún vildi hann þrátt fyrir allt? Hafði hún vonað að það væri hann? Gat það verið satt? Hann horfði í grænu fallegu augun hennar sem enn flóðu í tárum og horfðu örvæntingarfull á hann. Hann þoldi ekki að sjá hana svona. Hann vildi ekki sjá hana þjást.
Hann greip utan um hana og faðmaði hana að sér. Hún greip andann á lofti og stífnaði upp í fyrstu en lét svo undan og hallaði sér þétt að honum og vafði yndislegum höndunum utan um hann til baka. Hann grúfði höfuð sitt í rauðu fallegu hárinu og naut þess að anda að sér dásamlegum ilminum af henni. Þetta var sama góða lyktin og hann hafði fundið af bréfunum frá henni. Hann gat ekki áttað sig á hvernig lykt þetta var en hann vissi í hjarta sínu að þetta var besti ilmur sem hann hafði á æfi sinni fundið. Þetta var ilmurinn af Lily.
Hann losaði um faðmlagið og leit niður á fallegt andlit hennar. Hann renndi fingrunum laust yfir vanga hennar og varir og horfði djúpt í dásamleg græn augun. Hann hallaði sér nær og kyssti hana. Hún tók á móti vörum hans og innan skamms léku tungur þeirra hvor við aðra.
Hann sleit kossinum eftir nokkra stund og hvíldi enni sitt við hennar.
“Ertu viss um að þú viljir mig? Ertu viss um að þú hafir vonað að það væri ég?” tortryggnin í rödd hans fór ekki fram hjá henni.
Hún leit brosandi upp til hans og hamingjan skein úr augum hennar.
“Já,” svaraði hún. “Ég er handviss.”
“En afhverju vonaðir þú það? Þér hefur alltaf verið illa við mig,” sagði hann undrandi án allra ásakanna.
“Nei, James,” svaraði hún lágt og grúfði sig skömmustuleg á svip ofan í bringu hans. “Ég var alltaf skotin í þér en ég var of hörð við þig því að mér fannst þú betri en svo að níðast á minni máttar og sóa hæfileikum þínum í rugl þegar þú gætir verið að gera svo margt betra.”
Hann starði ringlaður niður á rauðan kollinn.
“Það var ekki rétt af mér að vera svona hörð við þig enda hafði ég engan rétt á því að vera að skamma þig eitt eða neitt. Ég vildi bara betri hluti fyrir þig,” hélt hún áfram.
“Varstu skotin í mér?” spurði hann aftur hissa.
“Já, síðan ég sá þig fyrst,” svarði hún. Það litla sem sást af andliti hennar var orðið eldrautt.
“Þegar við vorum yngri þá varstu ekki alveg svona kærulaus og þá sá maður þig mikið oftar vera að hjálpa öðrum, brosa til að uppörva þá sem í kring um þig voru, læra og vera yndislegur. Síðustu árin, eftir að þú uppgötvaðir hvað þú ert fallegur þá hefur maður ekki orðið mjög var við það. Þá hefurðu bara verið að eltast við stelpur og monta þig af quidditch og úfna hárinu þínu og töffarastælum.” Hún leit upp. “Þú hefur falið svo vel góðu hliðarnar þínar. Ég var farin að halda að þú hefðir alveg týnt þeim. Alveg þar til ég fór að fá bréfin þín. Þessi James sem hefur verið að skrifa mér í sumar er allt annar strákur en James Potter 6. árs nemi í Gryffndor síðstliðin vetur var. Allavega fyrir þeim sem ekki stóðu alveg við hlið hans. Ég býst við að Sirius, Remus og Peter hafi fengið að sjá þessar góðu hliðar þínar. Allavegana hefur þú verið dásamlegur við þá í sumar. Ég býst við að þeir séu vinirnir í bréfunum?”
James kinnkaði kolli.
“Sirius er voffi, ekki satt?” spurði hún og brosti kímin
“Já” hló James.
“Ég vissi það! Oh, hvað ég vildi að ég hefði séð ykkur tvo í dýragarðinum,” sagði hún og hló.
James hló og faðmaði hana að sér á nýjan leik.
“Ég hjálpa alveg ennþá öðrum,” sagði hann ólundarlega.
“Já, ég hef tekið eftir því,” svaraði hún og brosti til hans. “En ég tók ekki mikið eftir því í skólanum síðasta vetur. Ég tók meira eftir því hvað þú varst orðinn kaldhæðinn og harður við fólk sem gerði villur, eins og t.d. Peter.”
James roðnaði.
“Það er bara í gríni. Peter veit það alveg,” sagði hann í afsökunartón.
“Veit hann það?” spurði Lily. “Ertu alveg viss? Jafnvel þó að hann viti það þá finnst honum það örugglega erfitt. Það er ekkert gaman að fá svona kaldhæðni á sig endalaust.”
“Hmm..” umlaði James. “Er ekki kominn tími til að hætta að skamma mig núna?” spurði hann.
Lily leit á hann, sposk á svip.
“Og hvernig ætlar þú að fá mig til að hætta því?” spurði hún og glotti.
James hallaði sér nær henni og kyssti hana blítt á munnin. Hún svaraði í sömu mynnt. Hann kyssti hana af meiri ákafa og renndi höndum sínum upp bak hennar og flækti fingur sína í rauðu, mjúku hárinu.
“Ókei, þetta var góð leið,” stundi Lily þegar þau slitu kossinum. “Við ættum kannski halda áfram að ræða þetta inni,” bætti hún við um leið og hún blikkaði hann og dró hann með sér í átt að húsinu.