Flestir trommuleikarar eiga sínar uppáhalds sneriltrommu eða trommur. Það getur verið mjög mismunandi hvað hverjum finnst vera góð eða slæm sneriltromma. Persónulegur smekkur er allsráðandi og engin algild regla er til um hvað er góð tromma og hvað er slæm tromma. Sitt sýnist hverjum.

En það eru nokkur atriði sem hafa mikil áhrif á hvernig trommur hljóma og í þessari grein ætla ég að stikla á þeim meginatriðum sem hafa hvað mest áhrif á sneriltrommuhljóm. Grein þessi skiptist í eftirfarandi kafla:

1. Efniviður trommunnar

2. Húðir

3. Gjarðir

4. Brúnir (bearing edge)

5. Gormasæti (snare beds)

6. Stillingar




1. Efniviður trommunnar


Algengustu efniviðir sem notaðir eru í sneriltrommur er viður og málmar af ýmsum gerðum.

Viðartrommur:

Viðartrommur eru algengastar úr svokölluðum “plywood” eða krossvið þar sem nokkur eða í sumum tilfallum mörg lög af við eru límd saman. Svo eru svokallaðar “single ply” trommur, þar sem einn planki er beygður til að mynda trommuna. “Stave construction” trommur eru búnar til úr viðarbútum sem yfirleitt er raðað saman lóðrétt til að mynda hring. Einnig eru til “solid shell” sneril trommur sem eru hoggnar út úr heilum trjábút og hafa þar af leiðandi engin samskeyti. Þær eru þó sjaldgæfar og eru yfirleitt afar dýrar. Einnig eru framleiddar trommur úr carbon fiber og fiberglass (trefjaplast) og mér er kunnugt um eitt fyrirtæki ( Orlich drums) sem framleiðir trommur úr gleri.

“Plywood” trommur hafa yfirleitt hlýjan og lifandi tón sem getur verið afar mismunandi eftir hvaða viður er notaður og hvaða framleiðandi á í hlut. Algengustu viðartegundir eru t.d. Hlynur (maple), Birki (Birch) og Mahony.

“Single ply” trommur hafa yfirleitt harðari, bjartari og meira lifandi hljóm en “plywood” trommur. Mörg fyrirtæki hafa sérhæft sig í þessari gerð sneriltromma og þykja þær oft á tíðum betri kostur fyrir atvinnumenn en “plywood” trommur þó það sé alls ekki algilt. Þær mynda oft á tíðum meiri hljóm þar sem afar lítið lím kemur við sögu við gerð þeirra og þar af leiðandi er meiri tónleiðni í viðnum. Þekktar eftirsóttar “single ply” trommur eru t.d. Slingerland Radio King, Noble & Cooley Classic SS, Craviotto, Antonio, Dunnett mono-ply ásamt fleirum.

“Stave” trommur hafa styttri tón en “ply” eða “single ply” trommur vegna þess að tónleiðnin er enn minni en í “ply” trommum sökum bygginarmáta trommunnar. Fyrirtæki eins og t.d. Brady Drum Company eru frægir fyrir sínar “stave” trommur og eru þær mjög mikið notaðar við hljóðversupptökur af atvinnumönnum.

“Solid shell” trommur eru fágætar og hefur undirritaður aldrei leikið á slíka trommu en orðrómurinn er að þær geti verið mjög mismunandi að hljómgæðum. Þær eru viðkvæmar og hættir við að springa við miklar hita og rakabreytingar. Ein frægasta gerð þessara tromma er Canopus Zelkova tromman, en ýmsir trommuleikarar hafa mikið dálæti á henni.

Málmtrommur:

Algengustu málmar í sneriltrommusmíði eru látún (brass), stál, brons og ál. Einnig er notað títaníum, kopar, járn og fleir málmar. Mismunandi er hvort trommurnar eru steyptar (cast) eða snúnar og síðan soðnar saman (rolled). Sumar snúnar sneriltrommur eru einnig spunnar (spun) á miklum hraða og eru því kallaðar saumlausar (seamless) þó að þær séu reyndar með saum en hann er varla sýnilegur berum augum.

Hljómeiginleikar málma er afar mismunandi. Látún hefur t.d. hlýjan og fremur dökkan hljóm og er sennilega vinsælasti málmur sem notaður er í sneriltrommur. Hinar goðsagnakenndu Ludwig Black Beauty eru úr látúni og voru þær fyrst framleiddar af Ludwig bræðrum rétt fyrir 1920. Síðan þá hafa flest fyrirtæki komið með sínar eigin útfærslur af þessari trommu. Þær upprunalegu (frá ca. 1920) eru mikið notaðar enn þann dag í dag og ganga kaupum og sölum t.d. á ebay fyrir háar fjárhæðir. Það sem einkennir þessar gömlu Ludwig black beauty sneriltrommur er afar mikill, hlýr tónn sem minnir frekar á viðartrommu en málmtrommu. Aðrar þekktar látúnstrommur eru t.d. Tama Bell Brass sem eru steyptar (cast) í móti og hafa þykka (3 mm) skel og Pearl Sensitone Brass trommurnar sem eru í raun framleiddar með Ludwig Black Beauty sem fyrirmynd. Þess ber að geta að tvö fyrirtæki, Joyful Noise og AK drums framleiða látúnstrommur sem svipar ótrúlega mikið til hinna gömlu Ludwig tromma.

Brons hefur svipaða eiginleika og látún en hefur þó aðeins dekkri tón. Stál hefur bjartan, hreinan og lifandi tón en ál hefur bjartan og stuttan tón. Hinar frægu Ludwig Supraphonic voru flestar framleiddar úr áli (og eru enn framleiddar) en einnig voru til eintök úr látúni þó þau séu mun sjaldgæfari. Trommuleikarinn Steve Gadd hefur notað mestan sinn feril Ludwig Supraphonic (látúns útgáfuna) sneriltrommu.

Kopar hefur enn dekkri tón en brons og afar stuttann tón sökum þess hve mjúkur málmur kopar er. Títaníum hefur allt aðra eiginleika en aðrir málmar sökum þess hve léttur hann er og myndi ég lýsa eiginleikum þess sem millistigs milli viðar og látúns; hlýr, fremur stuttur tónn sem gefur afar feitan hljóm. Þó svo ég lýsi þessum helstu eiginleikum ýmissa málmtegunda er það mismunandi milli framleiðenda hvernig trommurnar hljóma þó svo að þær séu í grunninn framleiddar á svipaðan hátt. Og svo eru eyru okkar mismunandi og sitt sýnist hverjum.

2. Húðir

Helstu framleiðendur húða á markaðnum í dag eru Aquarian, Evans og Remo. Fyrstu plasthúðirnar komu á markað upp úr 1950 og leistu af hólmi kálfskinnin er höfðu verið notuð fram að því. Evans fyrirtækið var fyrst til að þróa þau þó svo að almannarómur segi það vera Remo. Ótal mismunandi gerðir eru til á markaðnum, mismunandi þykktir, einfaldar, tveggja laga með olíu á milli eða án, með dempunarhringjum, götum o.sv.framvegis. Kálfskinn eru enn fáanleg í dag en eru vandfundin, dýr og henta ekki í t.d. rokk og popp tónlist.

Það er mjög persónubundið hvað húðir menn nota, möguleikarnir eru margir.

Algengar sneriltrommuhúðir á slaghlið:

Remo Ambassador, CS, Emperor, Emperor X, Powerstroke 3
Evans G1, G2, Genera, ST, ST dry

Algengar sneriltrommuhúðir neðaná:

Remo Ambasador snare side, Diplomat snare side
Evans Hazy 300, Hazy 200

(ATH:Remo Diplomat og Evans Hazy 200 gefa næmari gormahljóm)



3. Gjarðir

Algengustu gjarðirnar sem notaðar eru í dag eru þríbeygðar (triple flange), steyptar (die-cast) og trégjarðir. Einnig eru til gamaldags einbeygðar (single flange), tvíbeygðar (double-flange) og S-gjarðir (S-Hoops). Gjarðir hafa afgerandi áhrif á hvernig trommur hljóma og er hægt að breyta hljóm sneriltromma töluvert, einungis með því að skipta um efri gjörð eða báðar.

Þríbeygðar (triple flange) gjarðir gefa trommunni breytt tónsvið og opinn, lifandi tón.

Steyptar (die-cast) gjarðir drepa í flestum tilfellum niður mestu yfirtónana og gefa trommunni beinni og fókuseraðri tón. Rimshot verða öflugri og cross-stick hljómur er skýr og tær. Tónsvið minnkar töluvert, sérstaklega á dýpri sviðum en tromman öðlast beittari kraftmeiri hljóm.

Trégjarðir gefa opin tón líkt og þríbeygðar gjarðir en um leið hlýrri og léttari. Cross-stick hljómur er skýr og hlýr. Eini gallinn við trégjarðir er að þær henta ekki þunghentum trommurum þar sem þær endast ekki lengi miðað við málmgjarðir.

Einbeygðar (single flange) gjarðir með krækjum eru gamaldags gjarðir líkt og voru á sneriltrommum frá 1920 - 30. Þær gefa tón sem er nokkurskonar millistig á milli þríbeygðra og steyptra. Brúnirnar á þeim eru mjög hvassar og kjuðar étast hratt upp af leikin eru rimshot. Tvíbeygðar (double flange) gjarðir gefa áþekkan tón og einbeygðar.

S-Gjarðir (S-Hoops) eru framleiddar af S-Hoops fyrirtækinu. Þær eru skemmtilegur millivegur milli steyptra og þríbeygðra gjarða. Í stað þess að efsti hluti gjarðarinnar beygist útávið eins og á þríbeygðum gjörðum þá beygist hann innávið, í átt að miðju trommunnar. Það skapar afskapleg þægilegan flöt til að spila rimshot á, ver brúnir trommunnar og ef maður vill nota dempunarhring þá halda þær honum kyrrum. Cross-stick hljómur er mjög skýr, hlýr og tær.

Það er mjög gaman að prufa sig áfram með mismunandi gjarðir á einu og sömu trommuna. Þá gerir maður sér grein fyrir hversu mikill munur er á hljóm trommunnar með mismunandi gjörðum. T.d. getur tromma sem hljómar alls ekki vel með steyptum gjörðum breyst í afar fallega hljómandi grip með þríbeygðum gjörðum, eða öfugt. Svo er stórmerkilegt hvað sumar sneriltrommur geta hljómað vel í upptökum en hljóma kannski ekki vel þegar hlustað er á hana með berum eyrum. Ekki er alltaf allt sem sýnist (eða heyrist?)

4. Brúnir (Bearing edges)

Brúnir trommunnar sem húðin situr á geta verið með mismunandi móti. Algengast er að brúnir séu með 45 gráðu skurð inn og útávið en það getur verið breytilegt eftir framleiðendum. T.d hefur Gretsch fyrirtækið alltaf haldið sig við 30 gráðu skurð innávið og er það hluti af hinum þekkta Gretsch hljóm. Hinar margfrægu Slingerland Radio King trommur eru með mjúkan rúnaðann skurð inn og útávið.

Mjög mikilvægt er að brúnirnar skaddist ekki. Trommur með illa farnar brúnir, t.d. hoggnar og marðar, eru yfirleitt ekki vel hljómandi þar sem skemmdirnar hindra að húðin geti titrað eðlilega og þar af leiðandi að tónn myndist.

Gott er að vaxbera brúnirnar öðru hverju til að húðirnar fljóti og setjist betur. Það er hreinlega hægt að nota kertavax með því að nudda varlega kertisbút með brúninni eða t.d. Karnubavax.

5. Gormasæti (snare beds) og gormar

Gormasæti eru staðsett á neðri brún seriltrommunnar og mynda aflíðandi flága á skelinni sjálfri við enda gormanna sitt hvoru megin. Auðveldast er að sjá gormasætin ef gormar, neðri húð og gjörð eru tekin af og tromman lögð á sléttan flöt. Ef ljósi er beint inn í trommuna sjást gormasætin mjög vel. Gormasætin þjóna þeim tilgangi að snertiflötur gormanna við neðri húð verði meiri og myndi góðann “gormahljóm”. Tromma án gormasæta hljómar aldrei vel; mikið gormaskrölt heyrist sem ómögulegt er að hemja. Gormasæti eru mismunandi víð og djúp eftir framleiðendum. Það er gott að hafa í huga að ef nota á mjög víða gorma, t.d. 42 þráða gorma þá þurfa gormasætin að vera víð svo tromman geti hljómað vel með breiðum gormum.

Á síðust árum hefur úrval gorma aukist til muna. Puresound, Dynamix, Canopus, Sonor, Pearl og fleiri fyrirtæki hafa framleitt margar mismunandi gerðir sem gefa mismunandi blæbrigði. Mikilvægt er að gormar séu beinir, að það sé engin sveigja á þeim þegar þeir eru komnir á. Beinir gormar hljóma einfaldlega mun betur.


6. Stillingar

Það er mikilvægt að eyða tíma í að “kynnast” hljóðfærinu sínu og þeim möguleikum sem það hefur uppá að bjóða.

Þegar nýjar húðir eru settar á trommur er mikilvægt að þær setjist vel strax í byrjun, það getur skipt sköpum í að ná góðum hljóm. Það er gert með því að leggja húðina á trommuna og snúa henni eins og einn hring á trommunni. Þrýstið húðinni rólega niður með báðum höndum með því að þrýsta yst á brúnir húðarinnar með hendurnar á móti hvor annarri. Setjið gjörðina á, passið að hún sitji rétt á og þrýstið henni vel niður með báðum höndum. Setjið síðan stilliskrúfurnar í og herðið þær með fingrunum þar til þær stoppa. EKKI herða strax með stillilykli. Ef einhverjar skrúfur eru stífar er gott að smyrja þær með koppafeiti eða sílíkon úða. Ekki er gott að nota WD-40 þar sem það gufar fljótt upp og laðar að sér óhreinindi. Best er að hafa tvo stillilykla við hendina og herða 2 skrúfur samtímis, gegnt hvor annarri, 2 snúninga í einu. Þegar hringnum er lokið endurtakið þá leikinn koll af kolli. Strekkið á húðinni töluvert uppfyrir þá stillingu sem þið óskið til að húðin nái fullri strekkingu áður en hún er stillt endanlega. Betra er að stilla niður á réttan tón frekar en upp í hann. Oft heyrist brak og brestir þegar strekkt er vel á nýrri húð og það er eðlilegt. Hljóðið kemur frá límrestum sem brotna frá brún húðarinnar. Hafið engar áhyggjur þó það bresti mikið, það gerist bara í byrjun.

Þegar neðri húð er sett á þá endurtakið sama leikinn og hér að ofan nema gerið það varlegar þar sem sneriltrommu undirskinn eru næfurþunn og þola minna álag en efri skinn. Ef gormarnir suða mikið þegar leikið er á tom tom trommurnar er ágætt að slaka stilliskrúfunum fjórum er umlykja gormasætin, þ.e.: skrúfurnar sitt hvoru megin við gormana á báðum endum. Ef það virkar ekki þá er einnig hægt að prófa að strekkja þær meira. Yfirleitt virkar samt betur að slaka þeim. Ef það virkar ekki þá er gott að athuga tom tom stillingar. Þá eru yfirtónar í þeim sem setja af stað gormasuðið. Stundum nægir að herða eða slaka einni tom tom stilliskrúfu til að losna við gormasuð.

Að lokum:

• Allar trommur hafa þolmörk. Ef húðir eru of strekktar þá kafnar hljómurinn.

• Sama gildir um gorma; of strekktir gormar hljóma kannski vel þegar maður situr við settið að spila fyrir sjálfan sig. En fram í sal, jafnvel í gegnum hljóðkerfi geta of strekktir gormar valdið því að sneriltromma hljómar kæfð og lítil. Gormasuð tilheyrir trommusettshljómnum og heyrist ekki þegar hljómsveitin er komin af stað og jafnvel bætir heildarhljóminn, gerir hann meira lifandi.

• Ef slegið er of fast á trommur getur hljómur þeirra kafnað. Oftast hljóma þær stærri og meiri ef ekki er slegið af of miklu afli.

• Eyðið tíma í að stilla og kynnast trommunni. Hvernig hljómar hún slök? Hvernig hljómar hún vel strekkt? Hvar hljómar hún best? Er betra að hafa undirskinnið mjög strekkt eða kannski minna? Prófið ykkur áfram. Mér finnst eitt, kannski finnst þér eitthvað allt annað.

• Einkenni góðrar sneriltrommu er að ef slegið er ákveðið, nákvæmlega í miðju hennar þá á hún að hljóma ákveðin, feit og hlý.

• Ef mikið er spilað þarf að skipta reglulega um húðir. Ekki gleyma undirskinninu, það þarf líka að skipta um það.

• Það er ekki algild regla að dýrar trommur hljómi endilega vel. Ein af bestu sneriltrommum sem ég hef leikið á var hræódýr.

• Sneriltrommur með þunnar skeljar mynda meiri tón. Trommur með þykkar skeljar mynda minni tón en meiri hávaða.

• Ef þú ferð vel með hljóðfærið, þá fer hljóðfærið vel með þig




Halldór Lárusson - des 2008
www.trommari.is