Muscle Memory Ég ætla mér að tala aðeins um þetta svokallaða Muscle Memory eða Vöðvaminni eins og það myndi líklegast kallast á íslensku. Þið hafið kannski ekki heyrt um þetta, kannski hafiði heyrt um þetta, en ég skal fræða ykkur aðeins um málið.

Vandamálið
Hefur þú lent í vandræðum sem skýra sér þannig að þegar þú byrjar að spila hraðar þá herpistu upp í vöðvum í líkamanum? Svosem í höndum, öxlum, baki eða einhverju öðru, og getur því ekki spilað á þessum hraða lengi. Ef þetta kemur fyrir þig þá ertu að gera eitthvað vitlaust. Þetta er eitthvað sem þú hefur vanið þig á að gera, þannig að nú ætla ég að hjálpa þér að fá góða hugmynd um hvernig á að venja sig af þessu.

Orsökin
Margir lenda í þessum vanda og þetta getur lýst sér þannig að þú herpist upp í einhverjum vöðva í líkamanum. Þetta getur verið allt frá að herpast í höndum, öxlum og annað í að herpast í fótum, tám, rassi eða bara hvað sem er! Þetta er eitthvað sem þú hefur vanið þig á að gera þegar þú spilar. Og þótt þú haldir kannski að þetta eigi ekki að skipta miklu máli þá hefurðu rangt fyrir þér.

Þið hafið alveg örugglega séð hvernig margir sem spila á eitthvað hljóðfæri virðast geta spilað ótrúlega vel og virðast vera svakaleg afslappaðir í höndum, öxlum, fótum og öðru og láta eitthvað erfitt virðast vera auðvelt. Á meðan þú hefur þá án efa séð suma sem spila eins og þeir séu að rembast við að halda hraðanum eða annað og líta því illa út og eins og þeir höndli þetta ekki alveg. Maður mætti spurja sig afhverju þetta sé svona, ástæðan er einfaldlega sú að þeir fyrrnefndu hafa vanið sig af því að herpa saman óþarfa vöðva og nota aðeins þá vöðva sem þarf til að spila. En hinir síðarnefndu hafa ekki lært að útiloka þetta og eru því stífari.

Sumir geta kannski haldið að þetta sé í lagi að stífna svona upp, að þetta sé bara spurning um að æfa sig og styrkja sig þannig að seinna verði þetta auðveldara. Þetta er bara vitleysa og ég vill að allir taki eftir því! Þetta er bara einfaldlega ónauðsynlegt og óþægilegt. Auk þess er þetta bara vitlaus tækni og vitlaus tækni getur skaðað þig, án gríns.

Afhverju skiptir þetta máli?
Þeir sem hafa vanið sig á að nota óþarfa vöðva í spilun eru einfaldlega að brenna upp dýrmætri orku og verða því fljótt uppgefnir. Auk þess sem að þetta gerir þér erfiðara fyrir að spila og virkar sem hömlun sem leyfir þér ekki að fara nema svo og svo langt. En ef þú venur þig af þessu þá áttu án efa eftir að sjá miklar breytingar í spilamennsku þinni. Þú verður liðugri, fljótari, með meira úthald, lærir að spara orkuna og það verður auðveldara ef eitthvað er að spila.

Hvað áttu við með “Muscle Memory”?
Jú, það sem ég á við er það að hvern einasti vöðvaþráður í líkama þínum hefur “minni”. Ég er ekki að grínast hérna. Vöðvarnir í líkamanum (ósjálfrátt) taka eftir öllum hreyfingum sem þú gerir og læra þau. Þannig að næst þegar þú átt að gera eitthvað aftur þá muna vöðvarnir hvaða hreyfingu þú notaðir seinast og það hjálpar til.

Tökum dæmi.

Þið hafið öll séð þegar smiðir eru að negla nagla með hamri þá taka þeir oft svona “æfingar högg” áður en þeir lemja á naglann, smiðurinn fer með hamarinn alveg að naglanum og svo frá og aftur að o.s.fv. Ástæðan fyrir þessu er að vöðvarnir eru að leggja á minnið hvaða leið er best að fara til að hitta á naglann, og svo þegar smiðurinn slær í raun og veru á naglann, þá hittir hann.


HVernig tengjum við þetta við hljóðfærið?
Margir lenda í því að spila eitthvað og drífa sig bara í það og spila það kannski hraðar en þeir ráða í raun við. Og lenda þá í nokkrum svona “úps” atvikum þar sem litlar villur koma til hér og þar. Málið er að þegar þú æfir þig svoleiðis þá ertu í raun ekki að æfa rétt. Ef þú ert að æfa einhverja ákveðna runu af nótum og spilar hana 10 sinnum með því að drífa þig og lendir í “úps” atvikum þá ertu í raun að spila 10 mismunandi útgáfur af þessari runur. Það sem er einkennilegt við vöðvana er að þeir greina ekki rétt frá röngu, þú veist vissulega að þú spilaðir þetta vitlaust en vöðvarnir vita það ekki, þeir treysta á þig að spila það rétt svo að þeir geti lært það rétt. Þannig að ef þú lærir 10 mismunandi útgáfur af sömu nótnarununni þá eru vöðvarnir með tíu mismunandi leiðir til að spila hana. Svo þegar þú átt að spila þetta í lagi eða hvaðeina þá skíturðu upp á bak afþví að vöðvarnir vita ekki hvaða leið þeir eiga að fara.

Það eru nefnilega of margir sem drífa sig í hlutina og vilja verða betri og drífa sig þessvegna alltaf. Málið er að ef þú ferð þannig að þá áttu eftir að skemma meira en þú græðir og þú lærir ekki að vera betri, þú verður bara betri í að vera lélegur!

Hvernig vinnur maður í því að laga þetta?
Það eru margar leiðir til að laga þetta en ég skal koma með aðalmálið.

Það sem lykilatriðið er hér er að hafa athygli á því sem þú ert að gera. Horfðu á puttana þína/fæturnar/hendurnar og sjáðu hvað þú ert að gera, reyndu að sjá hvað það er sem þú ert að gera vitlaust. Þú getur líka prufað að spila eins hratt og þú getur og sjáðu hvar þú byrjar að herpast saman þegar þú spilar á þeim hraða. Þá veistu í hvaða líkamshluta þú þarft að venja þig af að spenna.

Í fyrsta, öðru og þriðja lagi, eins og ég sagði áðan, þarftu að hafa athygli með því sem þú gerir. Þá veistu að hverju þú þarft að vinna.

*** Því næst skaltu standa upp, sitja eða hvernig sem þú vilt hafa það (og núna tala ég aðallega til gítarleikara/bassaleikara þar sem ég er gítarleikari og veit betur um hvernig á að gera þetta á gítar, þó svo að þið hin getið notað þetta á ykkar hljóðfæri einnig) og þú mjög, mjög, MJÖG hægt færirðu hendurnar í rétta stöðu. Ekki koma við strengina strax! Látiði hendurnar bara bíða fyrir ofan, takið eftir því hvort eitthvað gerist í líkamanum. MJÖG hæglega ferðu svo að láta fingurna síga niður á strengina og hefur athyglina með því hvort eitthvað gerist í líkamanum, hvort einhverjir vöðvar herpist saman sem eiga ekki að herpast saman og lagar það. Þú heldur áfram og leggur fingurinn á hálsinn, ávallt að fylgjast með því hvort eitthvað gerist, og byrjar svo að pikka nótuna mjög hægt. Haltu þessu áfram og auktu hraðann aðeins, en hafðu ALLTAF í huga að fylgjast með því hvort eitthvað sé að gerast í líkamanum.

Þetta er aðal trickið, þú gerir þetta ótrúlega hægt og byrjar að venja þig af því að nota þessa vöðva sem eru einskis nýttir í spilamennskuna. Gerðu þetta þangað til að þér líður betur með að spila og ferð að geta spilað hraðar án þess að herpast upp eins og áður.



Þegar ég prufaði þetta fyrst þá fann ég muninn strax eftir að ég gerði þetta og mér fannst mun auðveldara að spila. Allt sem ég spilaði leit út fyrir að vera auðveldara en það var vegna þess að ég var afslappaðri. Auk þess gerði þetta mér kleyft að spila hraðar en ég hafði áður spilað. Þannig að ég verð að segja að þetta sé nauðsynlegt fyrir hvaða hljóðfæraleikara sem er að gera.

Mér er skítsama þótt þú segir eitthvað “Ég spila ekki svona sóló og eitthvað rugl…” og eitthvað þannig, ALLIR ættu að gera þetta. Þetta er ekki bara fyrir sóló hljóðfæraleikara eða þá sem vilja geta spilað bæði hægt og hratt og með öryggi. Þótt þú sitjir bara heima og spilir einhver vinnukonu grip þá getur þetta hjálpað.

Takk fyrir mig

Kveðja,
Hlynur Stef
…djók