Umhirða lampamagnara... Jæja, aldrei þessu vant er þessi grein ekki um hvernig maður á að
smíða eitt eða neitt heldur um umhirðu lampamagnara sem hjálpar
mikið til að tryggja langlífi og áreiðanleika… Það er kannski
best fyrir mig að taka það fram strax að þessi grein (einsog allar
sem ég hef skrifað og hugsanlega allar sem ég mun skrifa) miðast
við gítarleikara (þó bassaleikarar gætu náttúrlega hugsanlega
hagnast eitthvað á aflestrinum :) …

<b>1.</b>
Gott er að hafa í huga að gæta sérstaklega vel að lampamögnurum
þegar verið er að flytja þá. Meðan transistormagnarar þola vel að
vera hent til og frá, þá gera lampamagnarar það ekki! Þegar verið
er að flytja lampamagnara (þó það sé stutt) í bílum er gott að
passa vel upp á að magnarinn sé ekki að færast mikið til og frá í
bílnum þegar verið er að beygja eða fara yfir hraðahindranir. Hægt
er auðvitað líka að redda sér flight case-i (flugkistu) fyrir
magnarann (sjá nánar í enda greinar, tengla og fleira). Einnig er
hægt að hafa gamalt teppi til að vefja utan um magnarann, allir
geta reddað sér svoleiðis einhvern veginn og það er töluvert
ódýrara en að splæsa í flugkistu.

<b>2.</b>
Passa ber að loftræsting til magnarans sé í góðu lagi!
Lampamagnarar verða mjög heitir í notkun og því þarf að passa að
loftræstingunni sé ekki ábótavant. Þetta þýðir í rauninni bara að
passa upp á að setja magnarann ekki upp við vegg þar sem bakhliðin
á honum lokast og ekkert loft kemst að lömpunum. Sumir gítar-
leikarar ganga jafnvel það langt að kæla magnarann sinn með
viftu(m) en ég er ekki einn af þeim og tel að það sé eiginlega
bara óþarfi :)

<b>3.</b>
Skiptingar á lömpum eiga helst að vera með eðlilegu millibili.
Eðlilegt millibil er þó auðvitað mjög mismunandi og hefur mikið
með notkun magnarans að gera. Sumir segja að það eiga að skipta
á hálfs til eins árs fresti miðað við að magnarinn sé notaður allt
að einu sinni í viku á giggum og á æfingum þess á milli (á háu
volume-i). Ég veit reyndar um tilvik þar sem ekki hefur verið
skipt um lampa í allt að 4 ár (jafnvel meira) og allt í lagi með
magnarann, þó ég mæli auðvitað ekki með að skipta svo sjaldan.
Það er svona yfirleitt góð hugmynd að halda sig við sömu lampatýpu
og fylgdi með magnaranum, eða allavega vera ekki að fara útí
tilraunastarfssemi nema vita hvað maður er að gera, eða í samráði
við starfsmenn þeirrar hljóðfærabúðar sem hafa umboð fyrir
magnarann.

<b>4.</b>
Passa skal að einhver hátalari sé alltaf tengdur við magnarann!!!
Lampamagnarar þurfa að vera tengdir við hátalara því annars er
hætta á að magnarinn sprengi spennubreyti (transformer) sem getur
kostað mann mikla peninga þar sem skipta þarf þá um transformer.
Margir sem hafa lent í því að kveikja á magnaranum sínum með engan
hátalara tengdan og hafa sprengt transformer og þurft að skipta
hafa sagt að magnarinn hljómi ekki jafn skemmtilega…

<b>5.</b>
Ekki tengja magnarann við hátalara af röngu viðnámi (mælt í ohm).
Hægt er að sjá aftan á mögnurum og hátölurum hversu mörg ohm hvort
um sig er. Ef pælingin er að tengja magnara við hátalara af rangri
ohmatölu, þá er önnur leiðin réttari en hin, þ.e. hátalarinn skal
þá vera með hærra viðnám (til dæmis 8 ohma magnari en 16 ohma há-
talari). Sé hátalarinn 8 ohm á magnarinn auðvitað að vera 8 ohm
fyrir bestu mögulegu útkomu. Ef hátalarinn er 8 ohm og honum er
stungið í samband við 4 ohma magnara, þá tapar maður um það bil
helmingi kraftsins sem magnarinn gefur venjulega, án þess þó að
skemma neitt. Ef hinsvegar 16 ohma magnari er keyrður með 8 ohma
hátölurum er voðinn vís, því þá reynir magnarinn að framleiða
tvöfalt meiri kraft og endar hann á því að sprengja spennubreyti
(transformer) og leiðir það til þess að það þarf að skipta um og
hætta á sándbreytingu í magnaranum…

<b>6.</b>
Góð regla er að nota alltaf “Standby”-rofann á magnaranum, bæði
þegar verið er að kveikja á honum og slökkva á honum. Standby-
rofinn leyfir magnaranum að hita lampana og gefur lömpunum
tækifæri á að komast í jafnvægi áður en þeir fá á sig háa spennu
(einsog þegar kveikt er á “On”-takkanum). Ef þessi regla er höfð
í hávegum og reynt að leyfa magnaranum að hita sig upp og kæla sig
niður í um það bil 30 til 60 sekúndur þegar verið er að kveikja og
slökkva á magnaranum þá munu lamparnir endast mun lengur. (Það
hlaut líka að vera einhver ástæða fyrir þessum standby-takka :)

Þá er þessu lokið að sinni…

Þetta eru mjög einfaldar aðferðir til að lengja líftíma bæði
lampanna og magnarans sjálfs og hvet ég alla til að reyna sem mest
að fara eftir þessum hollráðum.

kveðja,
immerser.