Týndi hlekkurinn, fyrsta geislaplata Forgotten Lores, er að lokum skriðinn í verslanir. Þrátt fyrir nafngiftina er frumburður sveitarinnar langt því frá vanþróaður gripur. Fagmennskan og gæðin eru samstíga þessa lögum hlöðnu, tæplega 70 mínótna plötu á enda.

Pródúseringin:
DJ Intro er í megin hlutverki hvað varðar tón- og taktsmíði á plötunni, á heiðurinn af 13 af 18 lögum. DiddiFel sér svo um rest fyrir utan stutt innskot B-Ruff með ör-lagið “B-Ruff Shit”.
Hann skankar þó víða á plötunni ásamt Intro.
Nú, Intro er afar fær, hvort sem er við SL-ana eða smíðandi tært einfalt Hip Hop. Nánast öll lögin eru með því besta sem ég hef heyrt hér á Fróni. Þau eru misgóð en ekkert er óvandað eða leiðinlegt. Það sem ég myndi kannski helst setja út á hjá honum að laglínurnar eru sumar hálf karakterlausar og stundum jaðrar við ofur-einföldun: fallegt sampl, bassalína og trommur og svo er lítið unnið með tónlistina. Skankið er svo níðþröngt og svalt en lítið um tilraunamennsku. Þetta er eitthvað sem ég myndi vilja kalla DJ-Premier einkenni. Alls ekki slæmt, en þá þarf að hafa sterka laglínu.
DiddiFel á svo eins og áður segir 4 lög á plötunni, er góður en nokkuð mistækur. Lögin hans eru kaótískari, klipptari og hraðari en hjá Intro. Honum tekst vel til að búa til svala tónlist, sérstaklega í “Rökræðum” einu flottasta lagi plötunnar, en misstígur sig í of mikilli dramatík og þunglyndi í “Sannleikanum endursögðum” og “Vetrarríkinu”. Intró dettur að vísu líka nokkrum sinnum inn í þessa fiðlugeðveiki.
Að vandlegri hlustun lokinni verð ég að segja plötuna ívið myrkari en ég bjóst við, minna um grúv og svalheit en ég hefði vonað, sem eru pínkulítil vonbrigði. En engu að síður er platan óumdeilanlega hlaðin hnausþykkum og akfeitum töktum.

Textagerð og Rapp:
Rapparar FL eru ClassBje, DiddiFel og Byrkir. Um er að ræða nokkuð “artí” texta, en oftast tilgerðarlaua, með miklum meiningum og pælingum í bland við afslappað og listilega vel skrifað efni um sígild málefni eins og textagerð, mic-hvötina og ástina á Hip Hopi. Allt er það svo kryddað með ögn af ómissandi Beef, and-popp, typpastærðar-metingi (sem má samt aldrei verða aðalmálið).
Þeir félagar eru vinstri sinnaðir friðarsinnar með sterka réttlætiskennd eins og listamönnum sæmir en hafa oftast skopskyn fyrir því og fara aldrei út í barnalegar öfgar. Þeir gera sér einnig grein fyrir því að það tjóir ekki að ergja sig á hugarfari þeirra sem eru á öndverðum meiði, eins og þeir benda á í “Rökræðum”. Þeir mæla bæði gegn stríðum og stjórnsýslu úti í heimi sem og lífgæðakapphlaupi og peningadýrkun hér heima. Stundum fer þó dramað og ópin á óréttlætið aðeins yfir um. Pínkulítið pínlegt þegar saman fer vælandi rappari og fyrrnefnd fiðlugeðveiki.
Textasmíðin er hér um bil óaðfinnanleg, ekkert um málfarshnökra eða óeðlilegar beygingar, íslenskan hvorki uppskrúfuð né einföld og rímorð eru aldrei notuð í samhengisleysi. Orðaforðinn er viðamikill, orðaleikir og myndlíkingar flottar og vald þeirra á málinu gott. Það gerir það að verkum að enskuslettur eru fullkomlega afsakanlegar og brjóta ekki upp textann; maður þarf að kunna reglurnar til að mega brjóta þær.
Byrkir, ClassBje og Diddi skila sínu allir álíka vel að þessu leyti.
Flæði og flutningur er það sem greinir FL frá flestum öðrum sveitum hérlendis að mínu mati. Einkennandi FL flæðið rennur eins og vetni í vökvaformi og færir drengina höfði og herðum hærra samkeppninni. Textarnir eru flóknir í samsetningu, rím leynist víða og allir geta þeir haldið skýrmælgi á 200+ orðum á mínútu. Þeir falla þó einstaka sinnum í þá gryfju sem margir hérlendir rapparar eru fastir í, að hafa línurnar of langar sem gerir rappið drullugt og óþjált jafnvel þó allt rími og sé í takt.
Ég vil sérstaklega minnast á ótrúlega frammistöðu ClassBje á plötunni sem flæðir áreynslulausar en lækur, orðin rúlla eins og bremsulaus bíll í brekku út úr honum.

Lög:

…upphaf: Fallegt, angurvært og órappað intró frá Intro, sveimandi hljómar sem filterast inn og út, djúpur bassi og þéttar, klipptar trommur.

Hráefni: Fyrsta lag disksins virðist samið seinast því það fjallar um gerð plötunnar, hljómsveitina, hvað þeir standa fyrir og fæðingu hljóðtilraunastofunnar Týnda Hlekksins. Djasslegt
píanó sampl fer vel við öran takt í nokkuð hægu tempói.
Fjarlægir strengir skapa svo einskonar stórborgar fíling. Gott
lag.

Þú nærð mér: Chillað lag um hvernig þeir eyða frítíma sínum og hvernig hip hop kemur inn á öll svið lífs þeirra. Auk þess minnast þeir hér fyrst á skoðanir sínar á ástandinu í miðausturlöndum. Uppistaða tónlistarinnar er látlaus gítar með ægifögru rhodes/rafmagnspíanó spili. Sérlega svalt break slær svo taktinn. Langur og vel heppnaður skank kafli er svo í lok lagsins. Mjög gott lag.

B-Ruff Shit: 50 sekúndur af villtum trommum, sampli úr þúsund og einni nótt og hreint ágætu skanki.

Gleymdist að klóna mig: Þetta er ágætt lag sem hefði þó getað orðið betra. Enn og aftur er Intro með píanó og strengi (auk rafrænna hljóða og óms af sítar), og er það nokkuð flott.
Stóri galli lagsins eru trommurnar. Þær eru ofhlaðnar “reverbi”
og fyrir vikið hljómar lagið óþægilega “stórt” og á skjön við
rappið. Umfjöllunarefni er svo ekki sérlega frumlegt þó textinn
sé góður: FL synda á móti straumnum og verða trúir hip hop
gyðjunni til dauðadags.

Náttúra: Mjög flott, en stutt lag. Tónlistin er samsett úr ýmsum
umhverfishljóðum ásamt einfaldri bassalínu. Rappið, sem er óður til náttúrunnar og innblástursins sem hún veitir, er svo mjög afslappað og flott hvernig það fellur við bassann.

Loftbylgjur: Hér fá FL Skytturnar í heimsókn og er lagið gott, en
kannski full einfalt. Djass slagverk og kontrabassi kraumar undir linnulausu rappi þar sem hvert snilldarversið tekur við af öðru, en rappararnir eru í algjöru aðalhlutverki hér. Málið er að umræðuefnið, sem er einfaldlega “það að rappa”, er teygt svolítið.

Gefðu Skít: Þetta er fyrsta lagið þar sem DiddiFel er við takkana og munurinn er auðheyranlegur því lagið hefst á einhverju sem hljómar eins og hljóðgervill, slíkt virðist Intro ekki nota. Þetta er hart og dimmt lag og töff hjá Didda. Textinne er háð og ádeila á það sjónarmið að hip hop sé einungis stuð tónlist og eina markmiðið með því sé að græða peninga. Auk þess sem FL benda á óumdeilanlega hæfileika sína. Fíflið í lokin er sérlega skemmtilegt.

Gúdd rapp: Töff chill lag með örlítið “Goofy” hljóðum en umfjöllunarefnið er áframhald á laginu á undan; eigin hæfileikar. Þeir benda þó minna á hvað aðrir séu slakir núna heldur telja bara eigin kosti. Internetrapparar fá þó á baukinn.

Lag eftir dag: Og chillið heldur áfram og það í besta lagi disksins að mínu mati. Gítargrunnur og sykursætir hljómar eru drifnir áfram af látlausum takti með örlitlu bongoi.
Rappararnir þusa svo listilega um daglegt líf, tilgang(sleysi) vinnu og náms og hvernig glittir alltaf í von að kvöldi hvers dags í formi tónlistar. Obboðslega fallegt.

Allur tími í heiminum: Hægir strengir hefja tregarappið þar sem hátíðleikinn verður eilítið þrúgandi, þá sérstaklega þegar þeir byrja að góla í viðlaginu. Mér hefur aldrei líkað við svona
drama. Lífsbaráttan, mistökin sem allir þurfa að gera og að læra að sætta sig við lífið þrátt fyrir óréttlæti, sorg og sút eru umfjöllunarefnin og textin framan af mjög fínn. Offbeat úr skyttunum er fenginn að láni í lokin, en stendur sig satt best
að segja ekkert voðalega vel.

Sannleikurinn endursagður: Annað lag DiddaFel á plötunni, og verr tekst til en áður. Óþæginlega kaótískt og strengirnir verða fljótt þreyttir. Umfjöllunarefnið er að taka ber afstöðu og gera sér grein fyrir því að 2 hliðar séu á hverjum skildingi, hér í sambandi við við stríðið í Írak og hið feikilega áróðursbákn
bandaríkjanna. Flutningurinn er því miður aftur full ákafur, en
það er nú bara mitt álit. Bobbi vandræðagemsi ljær drengjunum hjálp í rappinu og tekst vel til.

Kapital & Hefnd: Hér fara þeir mun smekklegar að alvarlegu umfjöllunarefni. Intro snýr aftur með dimmt, einmanna stórborgar fílið. Djass píanó, trompet og gítarskrölt með þéttum trommum. Rímurnar fjalla aftur um miðausturlönd, en í þetta skipti Ísrael/palestínu stormviðrið. Auk þess er 11. september og ósmekkleg úrvinnsla Bandaríkjastjórnar á atburðinum tekin fyrir.

Rökræður: DiddiFel snýr aftur að takkaborðinu og brillerar hreint út sagt. Grúví og fallega skipt milli karaktera í tónlistinni. Rökræðurnar eru milli tveggja íslenskra andstæðra steríótýpna og textin er stórgóður og skemmtilegur.
Skemmtilegt að sjá þeir taka ekki afgerandi afstöðu með “sinni” týpu heldur viðurkenna svona rifrildi sé þrátafl og sannleikurinn afstæður.

Veröld: Ekkert sérlega spennandi lag, þar sem nokkur orð frá Bubba Morthens eru fengin að láni. Þunglyndislegt sampl og órætt tal um að skapa nýja veröld með tónlistinni. Fínt lag, en grípur mig ekki.

Heimsins virði: Vonleysið virðist vera hellast yfir sveitina því lengra sem líður á plötuna. Tónlistin er svöl, lágstemmdur gítar og bergmálandi symbalar. En rappið virðist ekki eiga fullkomna samleið með henni. Stríð er megin þemað og vantrú á pólitíkusa og getu einstaklinga til að breyta einu né neinu. Þó ítreka þeir að það eigi alltaf að reyna, baráttan heldur áfram. Flæðið og vandaðar myndlíkingar bæta miklu við, en gesta rapparinn aess fer einum of geist, og ræður ekki vel við það.

Vetrarríkið: Hátindur dramatískra ópa á erfiðleikana og vonleysi. Ekki skemmtilegt hljóð í þessu, tilviljanakend gítar lúppa og óþæginlega trommur sem flökta geðklofið milli tvöfalds og einsfalds tempós. Ástleysinu er líkt við nístandi kulda og snjókommu sem hylur mann. Allt of mikill sjálfsmorðsbragur fyrir lífsglaðann gutta eins og mig.
Slakasta lag plötunar.

Endir…: Lof sé Intro! kemur með hljýjuna aftur eftir kaldan
endasprett. umlykjandi og þétta ambíent með einföldu slagverki. Gullfallegur söngurinn færir svo þessa fljótandi tilfinningu á hærra plan. Sérlega góður endir á mjög góðri plötu.

Úrskurður:
Ég er nokkuð ósáttur við nokkur lög á seinni hluta skífunar, svo ég komi því neikvæða frá, en ég held þau gætu batnað við aukna hlustun. Ekki það þau séu léleg núna, langt því frá. Það sem er mjög gott er svo gott í alla staði; hér fer saman textagerð, tónsmíði og skank af hæsta gæðaflokki. Eins og segir í “Gúdd rapp”: “success is near…”