Á ráðstefnunni Hrossarækt 2010 í gær voru þau bú sem tilnefnd voru til ræktunarverðlaunanna í ár heiðruð og ræktunarmenn ársins útnefndir. Titilinn í ár hlutu þau Bergur Jónsson og Olil Amble í Syðri-Gegnishólum en þau hafa ræktað hross þaðan og áður frá bæði Ketilsstöðum og Selfossi.
Árangur þeirra í ár var frábær og kom fram í máli Guðlaugs Antonssonar hrossaræktarráðunuts BÍ að valið á búinu í ár hefði verið einfalt, svo miklir hefðu yfirburðir þeirra Bergs og Olil verið. Hann sagði einnig að til að ná góðum árangri þyrfti ekki aðeins útsjónarsemi og heppni, heldur líka mikinn dugnað og þar stæðu þessir hrossaræktendur framar mörgum öðrum. Frá Bergi og Olil voru sýnd 19 hross, meðaleinkunn sýndra hrossa er 8,08 og meðalaldurinn er býsna lágur eða aðeins 5,2 ár, ekkert hross eldra en 7 vetra.

Félag hrossabænda og Hestafréttir óska þeim Bergi og Olil innilega til hamingju með frábæran árangur og titilinn Ræktunarmenn ársins 2010.

http://hestafrettir.is/Frettir/9493/
mbk. Böðvar Guðmundsson