Hestabrautin við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Þetta er af vef skólans, svona almennt um brautina

,,Í allmörg ár hefur verið unnið að því að koma á námi í hestamennsku við skólann enda er Suðurland í vaxandi mæli miðstöð þessarar atvinnugreinar á Íslandi. Á vorönn 2001 og 2002 voru kenndir valáfangar í reiðhöllinni á Ingólfshvoli í Ölfusi og í ágúst 2006 hófst aftur kennsla á þessu sviði, nú í reiðhöllinni í Votmúla. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum skólans, menntamálaráðuneytisins og Landssambands hestamannafélaga tók til starfa haustið 2004 og í skólasamningi FSu og menntamálaráðuneytisins fyrir 2006-2008 sem undirritaður var 9. febrúar 2006 var skólanum gefin heimild til að starfrækja og þróa almenna námsbraut á þessu sviði í ljósi atvinnuhátta á skólasvæðinu. Gerð hafa verið drög að tveimur tveggja ára almennum námsbrautum sem miða að því að undirbúa nemendur annars vegar fyrir störf á hestaleigum og í hestaferðum, og hins vegar sem aðstoðarmenn við tamningar. Einnig er gert ráð fyrir að um valáfanga sé að ræða, og e.t.v. sérstaka 24 eininga hestaíþróttabraut. Í öllum tilvikum er byggt á svokölluðu knapamerkjakerfi og að umrætt nám sé góður undirbúningur fyrir frekara nám í hestamennsku, t.d. á Hólum.

Skólinn leggur til kennsluhesta og reiðtygi en nemendur viðeigandi fatnað. Verkleg kennsla fer fram í Votmúla. Kennarar á hestabraut eru Magnús Lárusson, Hugrún Jóhannsdóttir, Freyja Hilmarsdóttir og Sigurður Torfi Sigurðsson. “


Svo langaði mig nú að segja frá minni reynslu. Ég byrjaði í áföngunum HEM 103 og REM 103 sem eru hesta – og reiðmennskuáfangar. Bóklega kennslan fer fram í skólanum og Magnús Lárusson sér aðallega um hana, svo kemur Sigurður Torfi stundum og kennir okkur um járningar, hófa, hófumhirðu og þess háttar og þá eru tímarnir stundum í Votmúla. En í Votmúla hjá Freyju Hilmarsdóttur eru einmitt verklegu tímarnir kenndir, Hugrún Jóhanssdóttir í Austurkoti hefur aðallega verið að sjá um þá svo og Freyja Hilmars.

Þetta er ofboðslega skemmtilegt og maður lærir alveg rosalega mikið. Þarna er alls kyns fólk sem stundar hestamennsku, allt frá krökkum eins og mér sem hafa verið í þessu alla tíð og þarna er strákur sem ákvað að byrja í hestamennsku í haust bara þegar hann eignaðist hest.

Í bóklegu tímunum erum við að læra um allt sem tengist hestum almennt, umhirða, gantegundir, geðslag og skap, við lærum að skoða hlutina frá sjónarhorni hestsins, sem mér finnst alveg nauðsynlegt og sá að ég hafði ekki gert nógu mikið, sennilega því að það er jú pabbi minn sem ól mig upp í hesthúsinu. Við lærum um líkama hests og byggingu hans og þannig má lengi telja og það er örugglega margt sem ég er að gleyma.

Í verklegu tímunum lærum við að ríða hestun, jú svo einfalt er það. En samt ekki. Tökum sem dæmi mig, ég hef verið að ríða út í afar mörg ár, ég t.d datt fyrst af baki þegar ég var 6 ára. Ég hef aldrei kynnst svona reiðmennsku, þetta er allt nýtt fyrir mér enda er þetta nýtt í hestaheiminum á Íslandi og þau í Fsu fyrst til að fara að kenna þetta, Hugrún sagði að það væru örugglega alveg 2-3 ár þangað til þessi kennsla yrði viðurkennd í reiðskólum og af hestaheiminum almennt. Ég ætla ekki að fara dúpt í það hvað er nákvæmlega kennt þarna inní skemmunni en það beinist mikið að því að það er ekkert streð við hestinn, mjúkt taumsamband og hraða- og gangtegundastjórnun með fótum og ásetu, kem örugglega með grein um það síðar því það er alveg efni í aðra grein skal ég segja ykkur.

Hestarnir þarna eru ekki einhverjar dæmigerðar reiðskólabykkjur skal ég segja ykkur, þetta er hópur af afar mismunandi hestum, örum, rólegum, ösnum og gæðingum, eitthvað fyrir alla. Þeir knapar sem eru lengra komnir geta fengið erfiðari hest en þeir sem eru ekki eins vanir, svo eftir áramót má koma með sinn eigin hest til að vera með í tímum.

Ég mæli með þessu fyrir alla sem eru í hestamennsku, sérstaklega nú þar sem verið er að kenna þessar nýju aðferðir. Það eru nemendagarðar á Selfossi og það eru ótejandi brautir til að velja úr til að taka með hestamennskunni. Og það er svo gaman að kynnast öðrum sem eru þarna til að læra það sama og maður sjálfur, til að verða betri í reiðmennsku.
Með kveðju frá hestafríkinni…