Þessi trúargrein á að binda enda á allar tilvonandi trúargreinar. Markmið mitt er að gera grein sem sýnir hlutlægt sjónarmið um hvernig æskilegast sé að fara að þegar um er að ræða skoðanir annarra. Ég hef séð margar greinar inná Huga sem tengjast hvort að það sé rökréttara að trúa eða trúa ekki á guð. Sumir halda því fram að vegna þess að það eru engin vísindaleg rök á bakvið trúarbrögð, þá þyrfti maður að vera vitleysingur til þess að trúa á æðri mátt eða eitthvað álíka. Aðrir benda á að trúmál og vísindi haldist ekki hönd í hönd og þess vegna geti maður ekki greint trú; sumir þeirra sem trúa á guð halda því einnig fram að af því að þeir finni guð og ‚viti‘ með vissu að hann sé til, þá þurfi menn að vera vitleysingar til þess að trúa ekki á guð.

Hvort sem að þú tilheyrir fyrri eða seinni flokknum eða kannski bara engum flokki, þá skiptir það litlu máli. Við sem mannverur erum skelfilega fáfróðar um heiminn í kringum okkur og allt sem er fyrir utan hann. Hvernig getum við talið okkur vita hvernig alheimurinn og allt í honum varð til? Við getum beitt ýmsum misgáfuðum rökum og komið með nálgun á það hvernig allt varð til í stærra samhengi. Hinsvegar, þrátt fyrir vísindalegar og rökfræðilegar skýringar sem virðist fullnægja þorsta margra, þá er allt fyrir Miklahvell mjög óljóst. Við getum aðeins reynt að skjóta í myrkrið.

Jafnvel þótt að allar vísindalegar skýringar bendi til þess að það sé ekki til guð, vegna allra þeirra lögmála sem eru til staðar, þá er fortíðin og upphafið enn óljóst. Vegna þessarar óvissu ættum við ekki að útiloka þá útskýringu að það gæti, hugsanlega, verið til eitthvað afl sem má tengja við guð sem skapaði allt saman, þó svo að þetta afl þurfi ekki endilega að hafa einhverskonar mannleg blæbrigði eins og þekkist í flestum trúarbrögðum. En á sama tíma getum við ekki verið viss um hvort að það séu til yfirnáttúruleg öfl yfir höfuð.

Af hverju er þá verið að gera lítið úr skoðum annarra? Hversvegna eru svo margir að halda því fram að við búum yfir einhverri þekkingu sem er ekki mögulega hægt að búa yfir (eins og staðan er í dag). Trúarbrögð eru til staðar og það eru til öfgamenn sem fylgja vissum trúarflokkum, jafnvel öfgatrúleysingar, það er óumflýjanlegt; en þrátt fyrir gríðarlegan meirihluta af fáfróðu fólki þá er það fáfræði í sjálfu sér að neita einhverju bara vegna magn vitleysinga í tilheyrandi flokki; eða svo held ég.

Í hnotskurn: við erum alltof fáfróð til þess að geta talið okkur trú um það hvort að það sé til æðra afl eður ei og ættum, þess vegna, að sleppa að gera leiðinda grein um af hverju við höfum rétt fyrir okkur og/eða aðrir rangt fyrir sér (er ég kannski ekki að fylgja mína eigin reglu?).

Ég vona að skilaboðin hafa verið skýr og ég hvet notendur á Huga til þess að skapa góða umræðu án þess að vera með óþarfa leiðindi. Ég skora á ykkur að koma með uppbyggjandi gagnrýni og spyrja spurningar ef að eitthvað sem ég sagði hefur verið óljóst.

Betra að spyrja heimskulega spurningu heldur en að vera heimskur og vita ekki svarið.

-Rosalegt