Ég veit ekki til þess að til sé ein einhlít skilgreining á glæp. Það má þó setja fram ákveðna forsendur fyrir því afhverju tiltekin hegðun flokkast undir glæp eða ekki.

Ég held að ein af grundvallar forsendum þess að eitthvað teljist til glæps er að einhverjir séu fórnarlömb hegðunarinnar. Ef það er ekkert fórnarlamb þá er engin glæpur. Vandin hér er að ýmislegt sem telst vera glæpsamleg hegðun, virðist fremur vera sett í forvarnarskyni en að til sé eiginlegt fórnarlamb. Dæmi um þetta getur verið áfallalaus ölvunarakstur. Aki einhver drukkinn og veldur engum skaða, þá er ekkert fórnarlamb. Er þetta því glæpur? Hvert er fórnarlamb slysalauss ölvunaraksturs? Hvað er verið að kæra fyrir?

Glæpurinn við ölvunarakstur, virðist því felast í stóraukinni áhættuhegðun. Áhættan virðist felast í því að stórauka líkurnar á því að einhver verði fórnarlamb hegðunarinnar. Því meiri ölvun undir stýri, því meiri líkur á því að til verði fórnarlamb ökuferðarinnar.

Ég er ekki frá því að þetta samband standist. Það eru nærri því 100% líkur að akstur endi með áfalli sé ölvun ökunmannsins kominn upp að vissu marki í umferðinni.

Nú veit ég í sjálfu sér ekki hvort þessir “glæpir án fórnarlambs” standist út frá reglunni að engin er sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. En við getum líka sagt að samfélagið hafi rétt til að verja sig og sína með fyrirhyggju, enda er sýnt með fullgildum rökum að fyrirhyggjan borgar sig og kemur í veg fyrir að til verði fórnarlömb þessarar áhættuhegðunar.

Ef við göngum nú að því vísu að allir glæpir fela í sér fórnarlömb. Í sumum tilvikum virðist ekki augljóst hver er fórnarlamb hvers. Dæmi um slíkt getur verið vændi. Oft er það augljóst að vændiskonan eða vændismaðurinn eru augljós fórnarlömb. Þau eru seld mansali gegn vilja sínum. Spurning er hvort það eigi alltaf við. Er sá/sú sem á líkaman sem vændið er selt á, ávalt í sporum fórnarlambs? Hvað með þau sem selja kynlífsaðgang að líkama sínum af fúsum og frjálsum viljum, eru þau líka fórnarlömb og fórnarlömb hverra þá?

Þau sem eru þvinguð til að selja kynlífsaðgang að líkama sínum eru augljóslega fórnarlömb. Vandin er með hina sem gera það af fúsum og frjálsum vilja og á eigin vegum. Það er augljóst að þau geta ekki fallið undir sama flokk og hinir. Þau virðast hins vegar vera fórnarlömb eftirspurnarmarkaðs, markaðs þar sem fólk gengur kaupum og sölum.

M.