Nú er kominn kubbur, sem mikil þörf var fyrir að mínu mati, þar stendur:

„Hvað er heimspeki?

Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar. Þeir sem fást við heimspeki reyna m.a. að skýra inntak og tengsl hugtaka á borð við sannleik, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun á einhverri skoðun, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna.

Við þetta má bæta að heimspeki er ekki bara samansafn spurninga sem raunvísindin eiga eftir að svara, því oft veltur túlkun á niðurstöðum vísindanna beinlínis á heimspekilegri afstöðu sem liggur tilraunum og túlkun þeirra til grundvallar. Þess vegna geta vísindin einfaldlega ekki svarað öllum spurningum heimspekinnar án þess að gefa sér svörin. Á hinn bóginn mætti segja að heimspekin sé sjálf ákveðin grein eða ákveðinn þáttur vísindanna; hún hefur sjálf eitthvað fram að færa til heildarmyndar okkar af sjálfum okkur og heiminum, lífinu og tilverunni.

Eitt sinn var barn beðið að skýra það út hvað heimspeki væri. Barnið komst að því að heimspeki væri “rannsókn á möguleikum”. Erfitt er að orða það betur hvað heimspekin er."

Núna gæti verið að fólk hætti að spyrja jafnoft að þessu á áhugamálinu, sem er alveg ágætt - eða hvað? Jú, mér finnst nú komið nóg.

En auðvitað verðum við að taka þessa skilgreiningu til umræðu, annars væri lítið varið í þetta áhugamál, það myndi ekki standa undir nafni. Ég ætla því að ríða á vaðið og gagnrýna ýmislegt í skilgreiningunni.

Í fyrsta lagi, þá set ég lítið spurningarmerki við þessa málsgrein: „En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum”

Þarf ekki að skilgreina einurð og heilindi allítarlega áður en þessu er haldið fram? Má ekki ætla það að „hvaða glíma sem er við þessar spurningar” sé í raun heimspekileg glíma? Ef við glímum á annað borð við spurningar sem þessar, erum við þá ekki að stunda heimspeki? Eða verður það fyrst heimspeki þegar við gerum það af einurð og heilindum? Hér finnst mér skilgreinandinn sníða heimspekinn kannski helzt til þröngan stakk. Að mínu viti hafa margir stundað heimspeki án einurðar og heilinda, hvað svo sem það þýðir reyndar. Vendipunkturinn finnst mér vera sá að það er hægt að rökræð, heimspekilega, um ágæti heilinda og einurðar – og því sé líklegt að þetta tvennt er ekki nauðsynlegt heimspekinni.

Ég er samt, ef að líkum lætur, að tuða um smáatriði. Geir á líkast til við að heimspeki nútímans sé metnaðarfull og að hún sé mjög sjálfhverf, þ.e. gagnrýnin á sjálfa sig. En auðvitað skrifar hann bara að heimspekin sé „fyrst og fremst” að reyna að gera hlutina með einurð og heilindum. Svo það gæti verið að hann sé ekki að útiloka alla aðra glímu við spurningarnar – þó mig gruni það lítillega.

Þar næst kemur hann að einu mikilvægasta einkenni heimspekinnar, hún er rökstudd. Þessu er ég sammála, ef það er ekki rökstutt, þá er það í bezta falli „léleg heimspeki” en annars bara alls ekki heimspeki. En þó er að sjálfsögðu hægt að færa rök fyrir öllu, bara misgóð, - þarna er smá vandamál. Vitaskuld er það varla heimspeki ef færð eru fáránlega léleg og illa hugsuð rök fyrir því, svo það nægir tæplega að styðja hlutina með „bara einhverjum” rökum; svo úr verði heimspeki.

Má vera að hér þurfi einurðin og heildindin að koma aftur til sögunnar, mér finnast þau alla vega betur hæfa hér. Ég ætla ekki að halda því fram að rökin verði að vera góð, það er örðugt, en frekar segi ég að rökin verði að vera „hrekjanleg”; vegna þess að það er almennt einkenni á hinum lélegustu rökum mannsins að þau eru óhrekjanleg. Þetta er kannski misvísandi. Ég er nefnilega að tala um rök sem eiga sér litla sem enga stoð í raunveruleikanum, þau eru bara hrekjanleg með öðrum enn heimskulegri rökum. Það verður að vera hægt að „rökræða” af skynsemi um „rökin” annars eru þau ekki réttnefnd rök, og styðja því varla nokkuð sem kalla má heimspeki.

Ef engir tveir menn sem tala sama tungumál, og hafa nægan fræðilegan orðaforða til að fjalla um viðfangsefnið, geta rökrætt um vandamálið. Þá er það ekki heimspeki, heldur bara einhver boðskapur eða staðreyndir eða fullyrðingar. Reyndar er það ekki staðfesting á því að eitthvað sé heimspeki að tveir menn geti rökrætt um það, en það er alla vega nauðsynlegt að mínu mati. Heimspekin er öðrum þræði samræða, og að því leytinu eru hún afskaplega sagnfræðileg. Að öðru leyti er hún t.a.m. sjálfstæð og skapandi, frumleg og beitt hugsun (en þessi hugsun er ekki nauðsynleg fyrir heimspeki, þó hún skipti miklu máli). Ég tel að heimspekin sé að vissu leyti samspil þessara tveggja þátta. En jæja, ég hef leiðzt út af brautinni, hættur að gagnrýna – byrjarður að predika!

Svo er þetta sem barnið sagði mjög áhugavert „rannsókn á möguleikum”, ég get ekki verið annað en sammála því. Og í raun er ég alveg sammála þessari skilgreiningu Geirs, þrátt fyrir þessa örfáu annmarka sem ég hnaut um. Það hlýtur einhver að geta gert betur og gagnrýnt skilgreininguna frekar! Annars læt ég þetta gott heita.