Violent Femmes, Country Death Song.

Ég sit og hlusta á þetta skelfilega þunglynda lag um mann sem fleygir sinni eigin dóttir í djúpann brunn. Eftir gjörninginn hefur vesalings maðurinn áhyggjur af því að fara til helvítis.

Eftir að hafa hlustað á þetta lagi í nokkrar mínútur þá tek ég eftir litlum svörtum flekk á vísifingri vinstri handar. AHAAA… alveg rétt. 7mm löng jarnflís á bólakafi í fingrinum. Eða er þetta járnflís? (memo : fara til læknis og láta fjarlægja flísina við tækifæri).

Allt í einu læddist að mér ljótur grunur. Ég hef nú nýlega séð Hollywood mynd þar sem geimverur koma fyrir litlu senditæki í mannveru sem þeir ætla að gera tilraunir á. Er ég á valdi geimvera!!! Er svarti flekkurinn senditæki?

Hvernig hef ég hugmynd um það? Stjórnast allar mínar gjörðir frá stóru geimskipi sem felur sig bakvið mánann? Lét maðurinn í laginu stjórnast af svipuðum geimverum þegar hann ýtti á eftir stelpunni niður í dýpið?

“I started making plans to kill my own kind”

Mjög sennilega ekki…. en áfram með pælinguna.

Hef ég einhverjar stjórnir á því sem mig langar að gera? Er ég að skrifa þetta bréf hérna núna því bíllinn minn var dreginn í burtu af plani THÍ í nóvember? Hversu mikla stjórn höfum við á gjörðum okkar? (fiðrildi í asíu, stormur í S-ameríku)

“It was at that time I swear I lost my mind”

Miðað við þetta sem ég var að segja þá er frjáls vilji bara hugtak. Við getum haft smá áhrif á okkar líf en öll meiriháttar atvik stjórnast af óendanlega flóknum orsök/afleiðing kerfum. Flækjurnar eru svo gríðarlega, svakalega, ofboðslega miklar að engin leið er að spá fyrir um nema hina allra stærstu og augljósustu þætti.

En hvernig getum við vitað að við stjórnum okkur ekki? Ég gerði smá tilraun. Ég ýtti á Ctrl/a (selegt all) og hélt svo vísifingri hægri handar rétt yfir Delete hnappnum á lyklaborðinu. þannig beið ég í sirka 1 mínútu og athugaði hvort ég mundi eyða öllum textanum.

“nothing for a man to do but to sit around and think”

Jæja… eins og þið sjáið þá ýtti ég ekki á Delete takkann. En afhverju? Var búið að ákveða að ég ætti að skrifa þennan texta eða ákvað ég á meðan ég hélt puttanum yfir takkanum að þessum texta væri þess virði að bjarga. (bjarga undan hverju?)

Það koma nokkrir hlutir til greina.

a) þetta var allt ákveðið og ég hef hvorki stjórn á örlögum mínum né þessarar greinar.

b) Þetta var ekki ákveðið og ég hef fulla stjórn á bæði mínum örlögum og þessarar greinar.

c) Geimverurnar skárust í leikinn og stöðvuðu mig í að gera eithvað heimskulegt.

d) Samspil tveggja eða allra þessara þátta.

e) Enginn af þessum möguleikum. (ekki einusinni þessi)

“I'm going out to the barn to hang myself in shame.”

Hver veit nema að á hverri mínútu eru hundruðir einstaklinga eins og ég að gera svipaðar tilraunir en allar fara þær á þann veg að textanum er eytt. Slapp ég (textinn) í gegn fyrir kæruleysi geimveranna. Mjög sennilega ekki.

Núna á nákvæmlega þessum augnablikum læðist að mér skrítin tilfinning. Tilfinning sem ég fékk oft þegar ég gékk í róligheitum í gegnum kartöflugarða á leið í skóla. Aldurinn er sirka 10-12 ára og mér fanst ég vera einn í heiminum. Hvar voru allir??? Enginn bíll á ferli, engin manneskja engin flugvél. Er ég einn? Er ég og þú hugarburður? Afhverju hugsa ég svona? (afhverju hugsa ég?)

“close your eyes dear and count to seven”

Óendanleiki. Meðan ég skrifa þessa annars algjörlega tilgangslausu grein þá liðu 30 mínútur af óendanleika alheimsins. Sem afturámóti veltir upp þeirri hugsun í heila mínum að ef til er óendanleiki, getur þá tími verið til? Og er tími nokkuð annað en hreyfing í rúmi? (formúla fyrir tíma m/m^3)???

Þessar hugsanir mínar rétt klóra í gler hart yfirborð pælinga um sjálfstæðann vilja. Og einnig er hún heiðarleg tilraun að minni hálfu að koma mér dýpra ofaní heimspekilegar pælingar. Raungreinahugsanir mínar á síðasta misseri tekur allt of mikið pláss í mínum annars litla spendýraheila.

“People say I'm crazy, for doing what I'm doing.” (John Lennon)

Kveðja Gabbler, spendýr.


ps. Hafið engar áhyggjur af geðheilsu minni. Ég er bara dauðþreyttur og á að vera löngu farinn að sofa. Svo hefur þetta lag skrítin áhrif á mig.

ps2. Textinn inn á milli er tekinn úr laginu “Country Death Song”. Og vatnsglasið er í boði Very Much.
“Það sem aldrei hefur gerst getur alltaf gerst aftur”